Þá fara línur að skýrast fyrir tímabilið og win totals frá Vegas eru farnar að hrannast upp með meiri nákvæmni. Enn getur margt breyst sem setur hluti úr skorðum fyrir lið en við göngum útfrá þessum tölum (13. ág) frá FanDuel og spyrjum síðan að leikslokum.
Arizona Cardinals: 7
Ég tek yfir hérna hjá Arizona. Þeir eru með sex mjög vinnanlega leiki í kortunum gegn WAS, DET, NYJ, MIA, CAR og NYG. Þeir hljóta síðan að taka allavega tvo af hinum tíu sem eru reyndar gegn nokkuð góðum liðum. Kyler Murray var frábær í fyrra á sínu fyrsta NFL tímabili og á bara eftir að verða betri. Arizona bættu síðan við sig DeAndre Hopkins og völdu Isaiah Simmons í nýliðavalinu svo Cardinals eru til alls líklegir.
Atlanta Falcons: 7,5
Hér tek ég undir. Leikjaplanið er ekkert grín hjá Atlanta mönnum. Hlaupaleikurinn þarf að stíga upp ætli Falcons sér einhverjar gloríur í vetur. 14 af 16 mótherjum Atlanta í vetur eru yfir meðallagi góð gegn sendingunni og sóknarleikur Atlanta lifir á sendingunni. Todd Gurley og gigtarveikt hné hans þurfa kraftaverk en 7 af 16 mótherjum þeirra í vetur voru undir meðallagi góð gegn hlaupinu í fyrra – sem gefur þó von.
Baltimore Ravens: 11,5
Ég fer yfir á Baltimore hérna. Þetta er lið sem vann 14 leiki í fyrra og ég trúi ekki að þeir fari niður fyrir 12 sigra í vetur. Vörnin verður sterk en það verður þó eftirtektarvert að sjá hversu mikið Patrick Queen og Malik Harrison verða notaðir á öðru leveli varnarinnar. Síðan er erfitt að sjá lið hægja á Lamar Jackson sem verður áreiðanlega orðinn betri í að kasta þegar lið ætla að fara að setja 9 menn í boxið til að stöðva hlaupið. Marquise Brown ætti að springa almennilega út í vetur en sóknin verður flugbeitt.
Buffalo Bills: 8,5
Ég ætla undir hérna hjá Buffalo. Liðið klóraði sig áfram í 10 sigra í fyrra en það var í fyrsta skiptið síðan 1999 að Bills lið nái tveggja stafa tölu í sigra dálkinum. Vörnin er gríðarlega sterk og skóp marga sigrana í fyrra ásamt stuttjarda hlaupum hjá leikstjórnandanum Josh Allen sem skoraði 9 hlaupa snertimörk. Stefon Diggs er stærsta viðbótin við Bills liðið sem styrkir sóknina en ég er þó ansi ragur við að treysta á að Josh Allen sé nægilega góður til að stýra liðinu í annað 10 sigra tímabil.
Carolina Panthers: 5,5
Hér tek ég undir. Það er nánast allt nýtt í Carolina. Aðalþjálfari, varnar- og sóknarþjálfarar, leikstjórnandi og varnarstíll. Allt tekur sinn tíma og óráðlegt er að búast við einhverri flugeldasýningu á næstunni. Liðið er þó spennandi og gæti átt flottar rispur eða leiki.
Chicago Bears: 8
Hér langar mig að segja að Chicago vinni átta leiki eins og í fyrra, en tek þó undir frekar en yfir. Ég er bara alls ekki viss um að Nick Foles sé neitt annað en góðhjarta maður sem átti eitt geggjað tímabil (2013) og eina góða úrslitakeppni (2017). Auðvitað fékk hann ekki nægan tíma hjá Jacksonville (fyrir utan meiðslin) en ég held hann sé í grunninn ekkert annað en einhver sem þú vilt að búi í næsta húsi við þig – frábær nágranni. Mitchell Trubisky þyrfti að eiga vel smurt undirbúningstímabil og stórkostlegt tímabil til að afmá harðnaða skoðun fólks á honum. Vörnin hjá Bears virkar sterk að venju en lið fara ekki langt án þess að eiga alvöru ás í hendi.
Cincinnati Bengals: 5,5
Ég ætla að þrykkja í undir á Cincinnati og þetta win total. Joe Burrow mun reyna að rífa félagið upp á rassgatinu en ég er bara ekki hrifinn af restinni af liðinu. A.J. Green er algjört spurningarmerki fyrir mér en Tyler Boyd sprakk út í fyrra og Auden Tate átti flotta spretti. Sóknarlínan eflist með tilkomu Jonah Williams en hún verður líklega sú versta í deildinni í vetur. Ég hugsa þó að þeir toppi tveggja sigra tímabilið frá því í fyrra.
Cleveland Browns: 8,5
Yfir. Baker Mayfield þarf að stíga upp og reyna að halda ró sinni í vasanum en hann var fældur alltof oft úr vasanum þegar hann skynjaði pressu. Hann var glataður að kasta úr skramblinu en Browns hafa reynt að styrkja sóknarlínuna mikið í sumar. Jack Conklin og Jedrick Wills ættu að þétta línuna en nýr þjálfari liðsins Kevin Stefanski mun líklega koma til með að nota 12 personnel meira í vetur sem skýrir afhverju liðið sótti innherjann Austin Hooper á opnum markaði. Ég er skíthræddur við þetta lið og langaði mest að segja undir en leyfi Baker að njóta vafans.
Dallas Cowboys: 9,5
Ég tek yfir á Dallas hérna. Sóknin þeirra var frábær í fyrra en nú hafa þeir bætt við útherjanum CeeDee Lamb frá Oklahoma. Vörnin er þétt en mun sakna Byron Jones. Leikjaplanið er í meðallagi erfitt/létt og Dak Prescott mun vilja sýna öllum heiminum að hann sé peninganna virði. Hann mun spila á franchise tagginu í vetur.
Denver Broncos: 7,5
Ég ætla yfir á Denver. Naumlega. Tímabilið mun allt velta á Drew Lock en John Elway hefur gert allt í sumar til að gefa Lock sem mestan séns á að standa sig. Útherjaherbergið er orðið spennandi, sóknarlínan styrkt, vörnin gæti hrokkið í gagn á sínu öðru ári undir Vic Fangio. Pat Shurmur kallar sóknina í ár og kemur nýr inn í starfið með nýtt playbook. Liðið á séns að vinna 10 leiki EF Drew Lock er maðurinn. Annars verður þetta 6 sigra lið.
Detroit Lions: 6,5
Undir. Ekki vegna Matt Stafford, sem er spaða ás. Ég hef enga trú á Matt Patricia og tel það hafa verið mistök að reka hann ekki í lok tímabils í fyrra. Sóknin á virkilega góðan séns á að vera góð en varnarlega hef ég áhyggjur af Lions. Okudah kemur ferskur inn en að öðru leyti lítur þriðja level varnarinnar nokkuð illa út. Haldist Stafford og gríparar hans heilir á sóknin séns á að draga vagninn fyrir þetta lið.
Green Bay Packers: 9
Hér set ég á yfir. Green Bay lönduðu 13 sigrum í fyrra en þeir voru alls ekki sannfærandi á köflum. LaFleur virðist ætla að hlaupa boltanum meira, í takt við Baltimore og San Francisco en Gutekunst valdi hlauparann A.J. Dillon í annarri umferð nýliðavalsins í ár. Helmingur leikja Packers í vetur eru risaleikir þar sem sigurinn getur dottið hvoru megin sem er. Spurningamerki liðsins eru innherja- og línuvarða staðan og útherja dýptin. Aaron Rodgers á, að ég trúi, helling inni og er hans tími er langt frá því að vera kominn.
Houston Texans: 7,5
Hér verð ég að setja á undir. Deshaun Watson er eitt besta sjónvarpsefnið sem NFL deildin er að bjóða upp á. Auka sögupersónurnar í þessu Houston leikriti eru hinsvegar þunnar og illa skrifaðar. Á blaði lítur útherja hópur Texans nokkuð vel út. En flestir þeirra eiga sinn djöful að draga og erfitt verður fyrir Watson að stóla á að fá nægan stuðning, viku eftir viku. Vörnin var bragðlaus og stirð í fyrra undir Romeo Crennel en hann hefur verið færður til í starfi og mun Anthony Weaver vera varnarþjálfari liðsins. Vonandi er kryddskúffan hans sverari en hjá forvera hans.
Indianapolis Colts: 9
Hér ætla ég undir. Ég tæki yfir á Colts ef línan þeirra væri 8,5. Mér finnst 9 sigrar virka mjög trúanlegt en ég sé ekki Philip Rivers gera einhvern svaklega gæfumun. Á seinustu 10 árum hjá Los Angeles Chargers hefur Rivers einu sinni unnið fleiri en 9 leiki á tímabili. Ég efast um að hann nái því á 39. aldursári. Colts eru vissulega stabílt og gott félag með frábæra sóknarlínu en ég veit ekki hvort það dugi til. Það verður þó unaður að fylgjast með Jonathan Taylor!
Jacksonville Jaguars: 5
Undir, takk. Jacksonville eru ekki reiðubúnir að keppast um neitt nema valrétti í fyrstu umferð. Það nær því miður bara ekki lengra. Gardner Minshew var skemmtileg sýning í fyrra en við sjáum til hversu lengi hann nær að halda sér á floti í Jacksonville. Ngakoue er svo gott sem mættur upp á flugvöll með pakkaðar töskur, Calais Campbell á séns á titli í Baltimore, Jalen Ramsey sleikir Kalí sólina og A.J. Bouye er sömuleiðis á öðrum stað. Nærri öll vörn Jaguars frá 2018 er annarsstaðar og klúbburinn virðist í lausu lofti.
Kansas City Chiefs: 11,5
Yfir. Aldrei í hættu. Málið leyst.
Las Vegas Raiders: 7,5
Hér tek ég undir. AFC West, að Chiefs undanskildum, er gríðarlega flókið stærðfræðidæmi í mínum huga. Broncos, Raiders og Chargers eru öll að bæta sig og gætu öll gert tilkall til 2. sæti riðilsins. Eins gætu þau öll drullað uppá bak og endað fyrir neðan 50% sigurhlutfall. Mögulega enda liðin þrjú öll með sama sigurhlutfallið, það kæmi í raun ekkert á óvart.
Los Angeles Chargers: 7,5
Set líka á undir hérna. Sama og ég skrifaði um Las Vegas. Hef enga tröllatrú á Tyrod Taylor og held að Justin Herbert þurfi tvö ár í hið minnsta til að koma sér á NFL víddina.
Los Angeles Rams: 8,5
Hér þrykki ég á yfir takkann og tek annan skammt af ofskynjunarlyfjunum. Eftir að hafa spilað í Ofurskálarleiknum á þarsíðasta tímabili, lentu Rams skelliflatir í fyrra. Það gekk voðalega lítið varnarlega og sóknarlega virtust þeir stirðir. Higbee og Kupp munu koma til með að taka ennfrekar skref fram á við og Jared Goff bætir leik sinn. Leikjaplanið er þó alls ekkert grín en fyrir utan að spila 2x við 49ers og Seahawks, þá mæta Rams Dallas, Philadelphia, Buffalo, New England og Tampa Bay. Þetta lítur hreint út sagt ekkert frábærlega fyrir hrútana en ég spái þeim allavega 9 sigrum.
Miami Dolphins: 6
Hér fer ég á undir vagninn. Miami eru ekki að fara að vinna sjö leiki í vetur en eiga fjóra mjög vinnanlega leiki á leikjaplaninu sínu. Þetta gæti breyst ef Tua fær að spila og ber liðið á herðum sér en spurningin er hvort byrðin sé ekki of þung fyrir mjaðmirnar í stráknum. Það er allavega eitt ár í að Miami fara að keppa um eitthvað annað en tvö síðustu sætin í AFC East.
Minnesota Vikings: 8,5
Yfir á 8,5 hjá Minnesota. Mike Zimmer er kominn á nýjan samning og Gary Kubiak mun sjá um sóknarleikinn eftir að Kevin Stefanski fluttist yfir til Cleveland. Liðið missti Stefon Diggs en valdi Justin Jefferson frá LSU í nýliðavalinu sem gæti orðið sterkur leikmaður í framtíðinni. Irv Smith tekur líklega skref fram á við á næsta tímabili og ætti að bola Kyle Rudolph út úr byrjunarliðinu. Vörnin er vígaleg á að líta.
New England Patriots: 9,5
Það er loks komið að því að setja undir á New England. Það er bara aldrei að fara að gerast að Patriots vinni 10 leiki árið 2020. Þeir eiga átta vinnanlega leiki gegn MIA (2x), LVR, DEN, NYJ (2x), HOU og ARI. Ég býst samt ekki við að þeir vinni alla þessa átta leiki. Þeir taka 4-5 af þessum leikjum og ná í mesta lagi í 7 sigra í ár.
New Orleans Saints: 10,5
Það er nokkuð léttur yfir á þessa línu. Saints eru með besta liðið á pappír með stabíla stjórn á bakvið sig. Sean Payton siglir þessu í 11+ sigra. Létt.
New York Giants: 6
Undir allan daginn. New York Giants eiga næst erfiðustu byrjunina á tímabilinu eins og kom fram á síðunni fyrir stuttu. Glænýtt þjálfarateymi og virkilega ógnvekjandi leikjaplan er uppskrift að erfiðleikum.
New York Jets: 6,5
Ég ætla að fá mér bita af undir hérna. Þetta verður enn einn harðindaveturinn í Neeeew Yooork (malbiks frumskógur þaðan sem draumarnir fæðast). Ég hef voðalega litla trú á Adam Gase og hans vinnu í fótbolta geiranum. Sam Darnold þarf að sanna sig í vetur en sóknarlínan og útherjahópurinn er kannski ekki í fremstu röð en reynt hefur verið að styrkja þessi tvö svæði í sumar. Jamal Adams er farinn eins langt í burtu og hægt er frá Gase en slæmt mojo mun umlykja liðið á meðan Gase er þjálfari.
Philadelphia Eagles: 9,5
Ég set á yfir hérna. Philadelphia er virkilega sterkt lið með góða og stabíla stjórn á bakvið sig. Carson Wentz var stórkostlegur á seinni hluta tímabils í fyrra og bar þá inn í úrslitakeppnina. Þar rotaði Jadeveon Clowney hann, en það hefur verið hans Akkelesar hæll – að haldast heill í úrslitakeppninni. Javon Hargrave, Darius Slay og Nickell Robey-Coleman munu koma til með að styrkja vörnina sem missti Malcolm Jenkins í sumar en það er nóg í þetta Eagles lið spunnið til að sækja 10+ sigra.
Pittsburgh Steelers: 9
Hérna fer ég yfir. Leikjaprógram Pittsburgh er frekar lint og er fullt af tækifærum. Þeir unnu 9 leiki árið 2018 með Big Ben og 8 leiki í fyrra án hans. Roethlisberger þarf að vera heill til að Steelers haldi sér yfir 50% sigurhlutfalli í vetur en vörnin getur ekki dregið þá áfram eins ótrúlega og hún gerði í fyrra. Ég veðja á að Ben verði þokkalegur og að Steelers fari í 10 sigurleiki.
San Francisco 49ers: 10,5
Hér set ég á yfir. Fólk má hata Jimmy Garoppolo eins og því lystir. Fólk má benda á fáar sendingar hans í úrslitakeppninni í fyrra og frammistöðuna í 4. leikhluta Ofurskálarinnar. Á góðri ensku kallast það að tína kirsuber. Garoppolo er góður leikstjórnandi sem Bill Belichick vildi ekki missa, en Robert Kraft, eigandi Patriots, hafði lokaorðið. Vörnin hjá 49ers lítur skrambi vel út enginn mun hafa áhyggjur af sókninni.
Seattle Seahawks: 9,5
Hér verð ég að setja á yfir. Seattle hafa ekki skilað inn sigurhlutfalli undir 56,25% síðan Russell Wilson kom inn í deildina. Það verður engin breyting á í ár en samstarf Wilson og D.K. Metcalf mun halda áfram að blómstra og koma Jamal Adams mun hafa sín áhrif á vörnina, þrátt fyrir mótbárur Gregg Williams, fyrrum varnarþjálfara Adams hjá Jets.
Tampa Bay Buccaneers: 9,5
Erfitt en ég held ég taki undir. Tampa Bay unnu sjö leiki í fyrra og ég reikna með að framför sé í kortunum með tilkomu Tom Brady og Rob Gronkowski. Vörnin er hrikalega spennandi en varnarlínan er sérstakur styrkur hennar. Brady þarf að koma inn í spánnýtt umhverfi og læra nýjar brellur og siði, það gæti kostað 1-2 sigra en ég hugsa að þeir endi með 9 kvikindi þegar uppi er staðið.
Tennessee Titans: 8,5
Ég ætla yfir á Tennessee í ár. Titans hafa unnið níu leiki á seinustu fjórum tímabilum. Talandi um stöðugleika. Þeir eru búnir að semja við Ryan Tannehill og Derrick Henry, A.J. Brown er orðinn reynslunni ríkari og ætti bara að eflast. Sama gildir um Jonnu Smith sem átti flott tímabil í fyrra. Vörnin er nautsterk undir handleiðslu Mike Vrabel og liðið er þokkalega vel balanserað.
Washington Football Team: 5
Hér ætla ég undir. Nýjustu fréttir herma að Ron Rivera hafi greinst með krabbamein en ætli samt sem áður að þjálfa liðið sitt í vetur. Þetta eru hræðilegar fréttir og vonum við það besta fyrir kappann og klúbbinn hans. Fótboltaliðið er illa hannað og ekki í stakk búið að innleiða sigurmenningu. Varnarlínan er hrútflott og gæti verið sú besta í deildinni. Fótboltaliðið á þó fimm mjög vinnanlega leiki á dagskránni í vetur en hver veit nema greining Rivera blási eld í æðar leikmanna.