Þá er leikvika 16 gengin í garð, ekkert lið situr hjá í þessari umferð og dreifast leikirnir á nokkra daga. Þetta er næst síðasta leikvika deildarinnar fyrir úrslitakeppni og þess vegna mikið í húfi fyrir mörg lið. Hér að neðan kemur létt upphitun fyrir hvern leik fyrir sig ásamt því að ég spái fyrir um sigurvegara í hverjum leik fyrir sig.
Jóladagur
Minnesota Vikings (6-8) vs. New Orleans Saints (10-4)
Þessi lið hafa orðið eins konar erkióvinir á síðustu árum, aðallega vegna umdeildrar dómgæslu en þessi leikur ætti að vera frekar þægilegur fyrir Saints. Drew Brees mun spila sinn annan leik eftir að koma til baka eftir meiðsli og eru Saints aðeins einum leik á eftir Packers í kapphlaupinu um efsta sætið í NFC og hjásetu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á meðan Vikings eiga nær engan möguleika á að komast inn í úrslitakeppnina.
Laugardagur
Tampa Bay Buccaneers (9-5) vs. Detroit Lions (5-9)
Tom Brady og félagar hanns í Buccaneers eiga næstum fast sæti í úrslitakeppni eftir endurkomu gegn Atlanta Falcons um síðustu helgi, á meðan þjálfaralausir Lions eru einungis að spila uppá hvaða valrétt þeir fá í næsta nýliðavali. Vörnin hjá Lions hefur ekki verið uppá marga fiska og sérstaklega ekki varnarbakverðirnir og ég tel að Tom Brady muni nýta sér það til fulls.
San Francisco 49ers (5-9) vs. Arizona Cardinals (8-6)
Þetta hefur verið algjört martraðartímabil fyrir 49ers. Líklega eitt meiddasta lið sögunnar og síðan til að bæta gráu ofan á svart þá eiga þeir ekki heimavöll eins og staðan er núna vegna heimsfaraldursins. Það er ekki sömu sögu að segja af Cardinals, vegna þess að eins og staðan er núna halda þeir síðasta lausa sætinu í úrslitakeppninni. Þetta er mikilvægur leikur fyrir Cardinals uppá að halda sínu sæti þannig að þeir mæta klárir og vinna.
Miami Dolphins (9-5) vs. Las Vegas Raiders (7-7)
Þetta tímabil hefur verið framar björtustu vonum hjá stuðningsmönnum Dolphins. Þeir þurfa nauðsynlega á sigri að halda í þessum leik ef þeir ætla ekki að missa Ravens upp fyrir sig. Raiders hafa verið í vandræðum upp á síðkastið og eiga þar af leiðandi nánast enga möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Þessi leikur gæti orðið frekar jafn en Dolphins eru að spila fyrir sínu sæti í úrslitakeppninni og þess vegna tel ég þá líklegri til sigurs.
Sunnudagur
Carolina Panthers (4-10) vs. Washington Football Team (6-8)
Ron Rivera mætir sínu fyrrum liði í fyrsta skipti síðan hann tók við Washington. Þeir sitja núna efstir í sínum riðli og það hefur verið gaman að fylgjast með þeim snúa tímabilinu sínu við eftir erfiða byrjun. Panthers hafa hins vegar farið öfuga leið. Þeir byrjuðu 3-2 en síðan þá hefur allt hrunið og líta ekki vel út eins og er – Washington vinna þenna leik.
Indianapolis Colts (10-4) vs. Pittsburgh Steelers (11-3)
Það má færa rök fyrir því að Philip Rivers og hans menn í Colts séu á eldi eins og staðan er núna. Þeir hafa unnið þrjá í röð og vörnin spilar sífellt betur, en á sama tíma hafa Steelers tapað þremur í röð og hlaupaleikurinn hjá þeim nánast horfið. Þeirra versta tap var klárlega á móti Bengals sem fyrir leikinn höfðu aðeins unnið tvo leiki á tímabilinu. Colts eru heitir og þess vegna fara þeir með sigur af hólmi.
Atlanta Falcons (4-10) vs Kansas City Chiefs (13-1)
Chiefs hafa einungis tapað einum leik á þessu tímabili en hafa þó ekki verið að rústa liðum eins og gert er ráð fyrir. Síðustu þrjá leiki hafa þeir einungis unnið með sex stigum eða minna. En Falcons töpuðu niður enn einni forystunni í síðustu umferð og er þeirra tímabil löngu búið. Chiefs taka þennan en fyrir þá sem hafa gaman af fjárhættuspilum myndi ég setja á plúsinn hjá Falcons.
Chicago Bears (7-7) vs Jacksonville Jaguars (1-13)
Tímabilið hjá Bears hefur verið mikið jójó en þeir berjast ennþá fyrir sæti í úrslitakeppni. Sóknarleikurinn hefur gjörbreyst til hins betra eftir að Mitch Trubisky tók aftur við sem leikstjórnandi liðsins og hafa þeir líka verið að hlaupa betur í síðustu leikjum. Jaguars eru búnir að tapa 13 leikjum í röð eftir að þeir unnu þann fyrsta. Eins og er halda þeir fyrsta valrétt í næsta nýliðavali eftir að Jets unnu í síðustu viku og ætla þeir sér líklega að halda honum. Bears eru að berjast fyrir sæti í úrslitakeppni á meðan Jaguars vilja líklegast tapa. Bears vinna.
Cincinnati Bengals (3-10-1) vs Houston Texans (4-10)
Bengals unnu óvæntan sigur á Steelers í síðustu viku en það var þeirra fyrsti sigur eftir að leikstjórnandinn þeirra, Joe Burrow, meiddist út tímabilið. Ekki er mikið að frétta hjá Texans en þeir hafa alls ekki verið að spila vel hingað til. Þeir halda samt áfram að láta Deshaun Watson spila og þess vegna vinna þeir Bengals.
New York Giants (5-9) vs. Baltimore Ravens (9-5)
Giants skoruðu aðeins 6 stig í sínum síðasta leik og verður það að teljast mjög slæmur árangur. Þrátt fyrir það eiga þeir ennþá möguleika á að vinna sinn riðil. Ravens aftur á móti skoruðu 40 stig í sínum síðasta leik. Ravens þurfa að vinna restina af sínum leikjum til þess að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppni og finnst mér líklegt að það takist.
Cleveland Browns (10-4) vs. New York Jets (1-13)
Jets tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að sækja sinn fyrsta sigur í síðustu viku sem leiðir líklega til þess að þeir fá ekki fyrsta valrétt í næsta nýliðavali heldur annan. Browns hafa átt gott tímabil og eru á leiðinni í úrslitakeppni eins og staðan er núna. Browns vinna frekar auðveldlega.
Denver Broncos (5-9) vs. Los Angeles Chargers (5-9)
Chargers unnu skemmtilegan sigur á Raiders í síðustu umferð og eru aðdáendur Chargers orðnir fastir á því að Justin Herbert sé framtíð liðsins. Sömu sögu er ekki að segja af Broncos en þeir kolféllu fyrir Bills og eru stuðningsmenn ekki vissir hvort Drew Lock sé kominn til að vera. Að þessu sögðu finnst mér Chargers líklegri til sigurs en það kæmi mér samt ekki mikið á óvart ef Lock verður í stuði og Broncos sækja sigur.
Philadelphia Eagles (4-9-1) vs. Dallas Cowboys (5-9)
Eagles liðið hefur sýnt góða kafla eftir að liðið gerði leikstjórnandaskipti og setti nýliðann Jalen Hurts inn í stað Carson Wents og útlit er fyrir að Eagles væru í skárri stöðu ef þetta hefði verið gert fyrr. Cowboys halda áfram kapphlaupinu um NFC East titilinn og eru þeir einum leik fyrir aftan Washington. Hurts hefur verið að spila vel og Cowboys hafa ekki verið að gera gott mót varnarlega og þess vegna vinna Eagles.
Los Angeles Rams (9-5) vs. Seattle Seahawks (10-4)
Þessi leikur ræður ýmsu um gang mála í NFC West. Rams töpuðu fyrir Jets í síðustu umferð sem voru 0-13 fyrir leikinn en á meðan unnu Seahawks ágætis sigur á Washington. Bæði lið eru ólm í sigur og verður þetta líklega jafn leikur. Seahawks náðu að halda línu- og miðvörðum Washington í skefjum og ef þeir gera það núna gegn Rams þá vinna þeir. Mín spá er naumur sigur Seahawks.
Aðfaranótt mánudags
Tennessee Titans (9-4) vs Greenbay Packers (11-3)
Þetta er risa leikur. Bæði lið hafa verið mjög góð það sem af er tímabils og er óhætt að búast við skemmtilegum leik. Hvorugt lið hefur staðið sig ýkja vel varnarlega en sóknirnar eru frábærar. Þetta er fullkomin leikur til að hafa í Sunday Night Football þar sem að nóg af stigum verða skoruð. Þetta ræðst á því hvort liðið verst betur og ég held að Packers muni gera það.
Aðfaranótt þriðjudags
Buffalo Bills (11-3) vs New England Patriots (6-8)
Bills-lestin syngur nú og trallar eftir að þeirra lið er búið að vinna sinn riðil í fyrsta skipti í 25 ár og þar að leiðandi vinna sér inn sæti í úrslitakeppninni. Patriots eru ekki að ríða feitum hesti en leikstjórnandi þeirra Cam Newton hefur átt erfitt uppdráttar uppá síðkastið. Mér finnst ekki líklegt að þessi leikur verði jafn þar sem að Patriots eru nú þegar úr leik og Josh Allen hefur verið frábær.