Í þessum pistli ætlum við að skoða tölfræði yfir RPO kerfi (Run-Pass Option), Play Action kerfi og skrambl. Ég ætla að útskýra hvað þessi hugtök þýða, hver tilgangur þeirra er og hvaða lið notuðu þau mest og best.
Skramblið
Það er kannski best að byrja á því að taka fram að skramblið er ekki kerfi. Ekkert lið leggur upp með að skrambla. Skramblið er afleiðing. Orsök skrambls er pressa: pressa varnarmanna á leikstjórnandann og góð sendingadekkning varnar. Það er alltaf bara tímaspursmál hvenær NFL pressa nær til leikstjórnandans. Hlutverk sóknarlínu er að tefja í sendingakerfum. Þegar sendingakerfi bregst þurfa margir leikstjórnendur að taka sackið eða kasta útaf vegna þess að þeir eiga ekki möguleika gegn árásargjörnum skrímslum varnarlínunnar. Aðrir, Russell Wilson, Lamar Jackson og Deshaun Watson sem dæmi, geta leikið á árásarmennina, hlaupið sig fría og keypt tíma fyrir útherjana til að opna sig.
Það er ekki þar með sagt að lið æfi ekki skramblið því óreiðan getur verið jákvæð fyrir sóknarlið en Lamar Jackson skramblaði 40 sinnum í vetur og sótti 11.1 jarda að meðaltali í þau skipti. Tom Brady sótti reyndar líka 11 jarda að meðaltali en skramblaði þó aðeins þrisvar sinnum.
LIÐ | SKRM | YDS/SKR | SACKS |
---|---|---|---|
Jaguars | 51 | 6.9 | 42 |
Texans | 49 | 7.1 | 49 |
Seahawks | 45 | 7.4 | 48 |
Bills | 43 | 7.3 | 40 |
Ravens | 40 | 11.1 | 28 |
Dolphins | 40 | 7.4 | 58 |
Taflan að ofan sýnir þau sex lið sem skrömbluðu oftast í vetur, hve marga jarda að meðaltali skramblið skilaði og hversu oft leikstjórnandi var tæklaður fyrir aftan átakalínuna. Í tilfelli Deshaun Watson, eins góður og hann er á flótta, þá virðist hann of oft telja sig geta flúið pressuna en þar af leiðandi hangir hann á boltanum þar til hann er tæklaður og liðið hans tapar jördum. Tom Brady er einstaklega laginn við að skynja pressu og losa sig við boltann áður en árásin nær til hans en þetta er hluti af hæfileikabölvun Watson og vonandi finnur hann milliveginn í þessu.
RPO
Run-Pass Option er sóknarkerfi þar sem leikstjórnandi þarf að lesa ákveðinn varnarmann og taka ákvörðun í framhaldinu um hvort hann vilji rétta hlaupara boltann, senda boltann eða hlaupa sjálfur. Sóknarlínan er að blokka fyrir hlaup svo leikstjórnandi þarf að ákveða sig fljótt því hann getur ekki sent boltann ef sóknarlínan er komin meira en einn jard áfram án þess að fá á sig víti. Þess vegna flæðir sóknarlínan yfirleitt til hægri eða vinstri (en ekki áfram) til að gefa leikstjórnanda örlítið meiri tíma.
Vegna þess hve stuttur tími er til framkvæmdar á þessu kerfi eru styttri hlaupaleiðir notaðar eða einfaldar bubble screen útfærslur. Útherjar þurfa að vera tilbúnir í allt. Þeir hlaupa sínar leiðir eins og í sendingakerfi en þurfa að vera tilbúnir að blokka fyrir hlaupið fái þeir ekki sendingu.
Vinsældir RPO-kerfa hafa verið að færast í aukana síðustu ár en hér er yfirlit yfir þau lið sem notuðu RPO-kerfi hlutfallslega mest árið 2017.
Í töflunni hér að neðan sjáum við síðan þau fimm lið sem keyrðu flestu RPO-kerfin í vetur, hve mörgum jördum þau skiluðu, hve oft þau hlupu og hve oft þau köstuðu.
LIÐ | xRPO | YDS | xRUN | xPASS |
---|---|---|---|---|
Ravens | 271 | 1733 | 186 | 85 |
Cardinals | 185 | 1140 | 113 | 72 |
Texans | 143 | 899 | 75 | 68 |
Eagles | 139 | 706 | 70 | 69 |
Browns | 123 | 809 | 65 | 58 |
Til samanburðar við tvítið hér að ofan þá tók ég saman sambærilega tölfræði fyrir 2019 tímabilið:
Play Action
Play action kerfi eru sendingakerfi sem reyna að dulbúast sem hlaupakerfi. Markmiðið er að frysta vörnina í stundarkorn eða láta hana skuldbinda sig í hlaupavörn og senda síðan boltann í opin svæði. Því byggist velgengni liða í play action kerfum á því að láta hlaupakerfi og play action kerfi líta alveg eins út. Einnig hjálpar heilmikið að hlaupaleikurinn sé sterkur fyrir svo vörnin bíti frekar á agnið.
Sóknarlínan stekkur oft fram um einn jarda og lætur líta út fyrir að þeir séu að fara að blokka fyrir hlaupið en fara síðan í sendingavörslu. Útherjar hlaupa sínar leiðir og leikstjórnandi þykist rétta hlauparanum boltann en lítur síðan upp á völlinn og býr sig undir sendingu.
Í vetur leiddi sókn Sean McVay NFL deildina í play action kerfum með 195 sendingar en Rams voru alls ekki beittasta play action sóknin með 8.0 jarda per kerfi.
LIÐ | PAction | YDS |
---|---|---|
Rams | 195 | 1564 |
Ravens | 169 | 934 |
Eagles | 164 | 1075 |
Chiefs | 152 | 1251 |
Cardinals | 141 | 966 |
Arizona Cardinals og Baltimore Ravens eru bæði inni á topp 5 þegar kemur að fjölda RPO og play action kerfa. Miðað við þessar tölur keyra Ravens RPO eða play action kerfi í 42.4% tilfella en Cardinals 34.3%.
Tími til að kasta og mikilvægi sóknarlínunnar
Áður en lengra er haldið er ekki vitlaust að staldra aðeins við og hamra á mikilvægi sóknarlínunnar. Sóknarlínan er hálf baráttan. Góð sóknarlína eflir allt sóknarbatteríið. Ef sóknarlínan getur gefið leikstjórnanda sínum nægan tíma í vasanum hefur hann meiri tíma til að fylgjast með djúpum hlaupaleiðum sem eykur um leið líkur á árangri þeirra. Þumalputtareglan er líka sú að leikstjórnendur eru betri pressulausir en undir pressu. Góð sóknarlína nær einnig að skapa rifur í varnarlínunni sem hlauparar nýta sér og eru þar af leiðandi rosalega stór þáttur af árangursríkri sókn. Allt þetta fyrir nánast ekkert kredit.
Next Gen Stats halda utan um tímann sem leikstjórnendur höfðu til að kasta í vetur en niðurstöðum sem þessum þarf að taka með ákveðinni hugsun. Ekki allar sóknir eru skapaðar eins en Sean Payton, þjálfari New Orleans Saints, vill koma boltanum fljótt úr höndunum á Drew Brees og hefur sniðið hlaupaleiðir og sóknarlínu verklag eftir því. Með því að keyra svona sendingasókn lækka líkurnar á því að leikstjórnandi þinn tapi jördum vegna sacks og sóknarlínan þín púlar minna.
Michael Thomas, útherji Saints, meðaltalaði 11.2 jarda per grip í vetur en hann hleypur nánast einungis grunnar hlaupaleiðir og er snillingur í að opna sig á skömmum tíma svo Brees geti losað sig við boltann. Þar af leiðandi skoraði Drew Brees næstlægst í ‘Time to throw’ tölfræði Next Gen Stats eða 2.57 sekúndur.
NAFN | TTT | SCKD |
---|---|---|
Kirk Cousins | 3.01 | 36 |
Jacoby Brissett | 2.93 | 27 |
Sam Darnold | 2.92 | 33 |
Lamar Jackson | 2.92 | 27 |
Ryan Tannehill | 2.9 | 36 |
Aaron Rodgers | 2.88 | 41 |
Dak Prescott | 2.88 | 23 |
Ég bætti við fjölda sacks sem þessir leikstjórnendur tóku á tímabilinu en þarna sjáum við nokkuð vel hversu öflugar sóknarlínur Colts, Ravens og Cowboys eiga.
Ég vona að ég hafi náð að útskýra þessi hugtök og varpa ljósi á hvernig þau virka en ef þú dugaðir alla leiðina hingað án þess að missa athyglina, þá þakka ég þér fyrir lesturinn og vona að þú hafi notið góðs af.
Tölfræði um RPO, play action og skramblið er fengið af Pro Football Reference.