Liðsmerki íþróttafélaga er gríðarlega mikilvæg hönnun sem gegnir lykilhlutverki í ímynd og ásýnd félaganna. Litapallettan skiptir hér að sömuleiðis miklu máli því líklega endurspeglast hún í aðallitum búninganna. Gott liðsmerki undirstrikar gerð félagsins og þá þætti umhverfis sem stofnendur/eigendur vilja láta kenna sig við.
Það gefur að skilja að liðsmerki breytast í tímanna tönn, ekki síst vegna samfélagslegra breytinga og áherslna heldur einnig vegna þróunar íþróttarinnar. Nýr eigandi vill mögulega setja sinn stimpil á liðið og fara í algera ásýndar yfirhalningu eða þá að samfélagslegur þrýstingur, líkt og við sáum seinasta sumar hjá Washington Redskins, krefjist breytinga. Sama hverjar ástæðurnar eru, þá er gaman að skoða þróunarsögu liðsmerkja en í þessum pistli skoðum við vesturriðil Ameríkudeildar með þróunargleraugunum.
Denver Broncos (1960-2021)

Liðsmerki Denver Broncos hefur breyst gríðarlega mikið frá sultuslökum knapa á trítilóðri ótemju í gulum og brúnum lit yfir í nútímalegri stíl þar sem hesturinn fær alla athyglina og litaskemað uppfærist. Nýjasta merkið á nú aðeins tvö ár eftir til að jafna líftíma D-merkisins sem er fyrir löngu orðið goðsagnakennt á meðal stuðningsmanna liðsins.
Kansas City Chiefs (1960-2021)

Kansas City Chiefs eiga eitt elsta óbreytta merki AFC deildarinnar en ekki svo mikið sem smávægileg litabreyting hefur orðið á rauða litnum í liðsmerkinu. Fyrstu þrjú tímabil tilvistar félagsins hét það Dallas Texans en flutti fljótlega í von um betri markað. Merkið breyttist ekki mikið en kúrekinn varð að indíánahöfðingja og útlínur Texas fylkis urðu að útlínu Missouri fylkis.
Las Vegas Raiders

Raiders, ásamt Cowboys, eiga elstu óbreyttu liðsmerki deildarinnar. Vissulega hefur Raiders félagið fært sig til og frá Los Angeles en hefur getað haldið nákvæmlega sama merki sökum fjarveru staðsetningar liðsins í liðsmerkinu. Raiders fjarlægðu “The Oakland” úr merkinu árið 1964 sem hentaði vel þegar liðið fluttist til Los Angeles árið 1982 og þurfti því ekki að endurhanna merkið.
Los Angeles Chargers (1960-2021)

Chargers félagið státar af heilum haug af liðsmerkja tilraunum. Fyrsta árið í sögu félagsins hafði það höfuðstöðvar í Los Angeles en tíminn þar var stuttur. Ári seinna var félagið flust til San Diego og nýtt liðsmerki tók við. Frá 1974 til 2001 réði hjálmamerkið lögum og lofum en árið 2002 kom fram á sjónarsviðið lögunin á merkinu sem við þekkjum í dag. Litaskemað hefur breyst síðan en árið 2017 var gerð tilraun til að hanna nýtt merki en almenningur brást illa við og því var í raun bara notast við þrumuna með örlitlum breytingum á litunum.