Liðsmerki íþróttafélaga er gríðarlega mikilvæg hönnun sem gegnir lykilhlutverki í ímynd og ásýnd félaganna. Litapallettan skiptir hér að sömuleiðis miklu máli því líklega endurspeglast hún í aðallitum búninganna. Gott liðsmerki undirstrikar gerð félagsins og þá þætti umhverfis sem stofnendur/eigendur vilja láta kenna sig við.
Það gefur að skilja að liðsmerki breytast í tímanna tönn, ekki síst vegna samfélagslegra breytinga og áherslna heldur einnig vegna þróunar íþróttarinnar. Nýr eigandi vill mögulega setja sinn stimpil á liðið og fara í algera ásýndar yfirhalningu eða þá að samfélagslegur þrýstingur, líkt og við sáum seinasta sumar hjá Washington Redskins, krefjist breytinga. Sama hverjar ástæðurnar eru, þá er gaman að skoða þróunarsögu liðsmerkja en í þessum pistli skoðum við vesturriðil Ameríkudeildar með þróunargleraugunum.
Houston Texans (2002-2021)

Árið 1997 missti Houston borgin NFL liðið sitt þegar eigandi Houston Oilers ákvað að flytja liðið til Nashville, Tennessee sem varð að Tennessee Titans tveimur tímabilum seinna (Tennessee Oilers fyrstu tvö árin). Bob McNair, fyrrum eigandi Texans, lagði allt í sölurnar til að endurheimta NFL fótbolta í borgina sína og nokkrum mánuðum fyrir aldamótin staðfesti NFL deildin að Houston fengi nýtt lið. Félagið hefur frá fyrstu tíð notast við sama liðsmerkið sem varð fljótlega til eftir að Texans nafnið hafði sigur úr býtum gegn nöfnunum Apollos og Stallions.
Indianapolis Colts (1952-2021)

Liðið er upprunalega frá Dallas og þaðan kemur skeifu-innblásturinn en í Dallas er rótgróin hestaræktunarmenning. Félagið var fljótt flutt til Baltimore og tók þá upp gælunafnið Colts. Árið 1984 fluttist liðið til Indianapolis og hélt eftirnafninu og liðsmerkinu óbreyttu. Skeifan dekktist þónokkuð árið 2002 um sama leyti og Tony Dungy tók við liðinu.
Jacksonville Jaguars (1993-2021)

Fyrsta liðsmerkið var ónotað sökum þess að The Ford Motor Company sakaði liðið (sem var enn ekki orðið hluti af NFL deildinni) um höfundarréttarbrot því liðsmerkið svipaði of mikið til bílamerkis Jaguar. Því fóru hönnuðirnir aftur að teikniborðinu og ákváðu því að notast einungis við höfuð dýrsins. Þegar Jacksonville Jaguars hófu leik í NFL árið 1995 skörtuðu þeir því nýju liðsmerki sem lifði til ársins 2012. Nútímalegri hönnun tók við en litirnir breyttust eilítið, sér í lagi gyllti (gulbrúni) liturinn.
Tennessee Titans (1960-2021)

Fyrstu liðsmerki liðsins segja sögu Houston Oilers félagsins sem kom inní deildina árið 1960 við NFL/AFL samrunann. Kúrekahattur karaktersins á fyrstu liðsmerkjum félagsins breyttist fljótlega í vinnuhjálm og undir lok 7. áratugar síðustu aldar fengum við hjálm með olíuborpalli. Síðar losaði liðið sig við höfuðið og hjálminn og beindu athyglinni að borpallinum. Sú hönnun lifði þar til félagið sagði skilið við Oilers nafnið og tók upp Titans. Nýjasta liðsmerki félagsins minnir óneitanlega á Miami Heat og Phoenix Suns liðsmerkin frá þessum tíma.