Liðsmerki íþróttafélaga er gríðarlega mikilvæg hönnun sem gegnir lykilhlutverki í ímynd og ásýnd félaganna. Litapallettan skiptir hér að sömuleiðis miklu máli því líklega endurspeglast hún í aðallitum búninganna. Gott liðsmerki undirstrikar gerð félagsins og þá þætti umhverfis sem stofnendur/eigendur vilja láta kenna sig við.
Það gefur að skilja að liðsmerki breytast í tímanna tönn, ekki síst vegna samfélagslegra breytinga og áherslna heldur einnig vegna þróunar íþróttarinnar. Nýr eigandi vill mögulega setja sinn stimpil á liðið og fara í algera ásýndar yfirhalningu eða þá að samfélagslegur þrýstingur, líkt og við sáum seinasta sumar hjá Washington Redskins, krefjist breytinga. Sama hverjar ástæðurnar eru, þá er gaman að skoða þróunarsögu liðsmerkja en í þessum pistli skoðum við vesturriðil Ameríkudeildar með þróunargleraugunum.
Buffalo Bills (1960-2021)

Liðsmerkja saga Buffalo Bills samanstendur af keimlíkum tvennum. Félagið skartaði fótboltalaga liðsmerkjum frá stofnun og þar til AFL deildin sameinaðist NFL deildinni. Þar skapaðist góður tímapunktur til að breyta ásýnd liðsins og rauði buffalóinn á hjálmi leikmannsins í öðru liðsmerkinu fór í forgrunn en gegndi hlutverki liðsmerkisins í aðeins fjögur tímabil. Merkið lagði hinsvegar grunn að næsta merki liðsins sem hefur staðið í lappirnar allar götur síðar, sem verður að teljast gott frá sjónarhorni hönnuðarins. Merkið sem við þekkjum í dag er öllu dínamískara en forveri sinn og inniheldur alla liðsliti félagsins.
Miami Dolphins (1966-2021)

Liðsmerkjaþróun Miami Dolphins er áhugaverð. Litir félagsins hafa nokkurnveginn haldið sér þó litirnir hafi dekkst og lýst á víxl. Höfrungurinn og sólin hafa haldist frá 1966 en hjálmurinn og M-ið hurfu árið 2013. Smávægileg breyting átti sér stað árið 2018 þegar félagið ákvað að dekkja litina á ný.
New England Patriots (1960-2021)

Fyrst um sinn gegndi Pat Patriot hlutverkið liðsmerki félagsins ásamt því að vera lukkutröll liðsins. Þar sjáum við föðurlandssinnann gera sig reiðubúinn að snappa boltanum, þá væntanlega í hlutverki senters. Árið 1993 varð til merkið sem gengur undir viðurnefninu Flying Elvis en andlitið minnir óneitanlega á konung rokk og rólsins, Elvis Presley. Patriots hafa haldið sig við sama litaskema en bættu við fána elementi og hvítri stjörnu á nýju útgáfur liðsmerkisins.
New York Jets (1960-2021)

Upprunalega hét félagið The Titans of New York en sá veruleiki lifði ekki lengi. Á fjórða tímabili sínu var nafninu breytt í New York Jets og liðsmerkið var græn flugvél með hvítum stöfum. Það litaskema lifir enn góðu lífi en þriðja útfærsla liðsmerkisins stóð í tæp 60 ár. Nýverið var NY fjarlægt úr bakgrunni merkisins sem verður að teljast góð ákvörðun þar sem stafirnir í merkinu voru helst til ólæsilegir.