Matt Nagy, þjálfari Chicago Bears, virðist hafa misst alla þolinmæði í garð leikstjórnandans Mitchell Trubisky í leik gegn Atlanta Falcons seinasta sunnudag. Chicago Bears voru 16 stigum undir í þriðja leikhluta og aðeins búnir að skora 10 stig þegar Nagy kippti Trubisky útaf vellinum og sendi varaleikstjórnandann sinn, Nick Foles, inná.
Trubisky hafði brennt af níu sendingatilraunum og þar af hent einum bolta í hendur Falcons varnarinnar þegar hann var bekkjaður. Matt Nagy hefur oft talað um fótavinnu Trubisky sem þátt leiksins sem hann þarf að vinna í sem og að halda stillingu í vasanum og yfirgefa hann ekki nema til að forðast yfirvofandi pressu.

Við sjáum á spjaldinu fyrir ofan að Trubisky átti aðeins tvær heppnaðar sendingar sem ferðuðust 10+ jarda en þær tilraunir lengra niður völlinn sem hann átti, gengu ekki. Í stöðunni 10-23 komst Blidi Wreh-Wilson inn í sendingu Trubisky sem var ætluð Jimmy Graham en það vissi hver sála að Trubisky væri að fara að kasta á Graham, slík var staran. Útfrá þessum stolna bolta skoruðu Falcons vallarmark og komust 16 stigum yfir. Þarna missti Nagy þolinmæðina og setti Nick Foles undir stýrið.

Nick Foles fékk að kasta boltanum villt og galið enda liðið 16 stigum undir á þessum tímapunkti. En það fylgdi Foles ákveðin ró í vasanum þó hann væri ekki að kveikja í heiminum með frammistöðu sinni. Foles átti sjálfur eina tapaða sendingu sem upphaflega var dæmd sem snertimarkssending á Allen Robinson. Eftir myndbandsendurskoðun var þeim dóm snúið við og Darqueze Dennard fékk skráðan á sig stolinn bolta.
Foles fékk síðan aðra snertimarkssendingu dæmda af sér þegar hann fann Anthony Miller í endasvæði Falcons með rúmar 10 mínútur á klukkunni í fjórða leikhluta. Miller náði þó ekki almennilegu valdi á knettinum að mati dómara leiksins.
Fyrsta gilda snertimarkssendingin var síðan gripin af Jimmy Graham þegar 6:20 voru eftir af leiknum, sú önnur gripin af Allen Robinson þegar 4:22 voru eftir á klukkunni og sú þriðja gripin af Anthony Miller með 1:54 eftir af leiknum sem kom Bears yfir í fyrsta skiptið.
Bears sigur.
Matt Nagy er búinn að gefa það út að Nick Foles muni byrja leikinn gegn Indianapolis Colts en spurningin er hvort þetta séu endalokin hjá Mitch Trubisky og Chicago Bears. Gæti hann fengið séns annarsstaðar sem byrjunarliðsmaður? Mögulega.
Nick Foles náði ekki að halda sínu sæti í Jacksonville liðinu í fyrra svo við gætum alveg eins séð Matt Nagy gefa Trubisky enn einn sénsinn.
Það besta sem Chicago Bears gætu gert er að viðurkenna mistök sín, losa sig við Trubisky og halda áfram á nýrri braut.