Nú fer að nálgast sá tími að lið fara að ráða inn þjálfara og framkvæmdastjóra fyrir næsta kafla. Breyttir tímar, breyttar áherslur og nýtt upphaf.
Detroit Lions, Atlanta Falcons og Houston Texans eru öll með lausar aðalþjálfara- og framkvæmdastjórastöður eftir uppsagnir vetrarins. Það þykir næsta víst að aðalþjálfarastaða New York Jets verði laus til umsóknar eftir tímabilið og ýmis önnur lið eru grunuð um breytingavilja, þar á meðal Los Angeles Chargers, Chicago Bears, Jacksonville Jaguars og Philadelphia Eagles.
Hvernig sem það fer er ljóst að allskonar hreyfingar verða á þjálfaramálum deildarinnar á næstu vikum. Iðulega sjáum við lið semja við nýja þjálfara snemma í janúar mánuði enda er í mörg horn að líta þegar kemur að leikmannamálum og nýliðavalinu og því má engan tíma missa.
Hér fyrir neðan eru sérvalin nöfn sem eru fljótandi um á umræðuvettvöngum víðsvegar um heim.
Eric Bieniemy
Embed from Getty ImagesEric Bieniemy er núverandi sóknarþjálfari Kansas City Chiefs undir Andy Reid og hefur gegnt starfinu síðan árið 2018. Þá fékk hann stöðuhækkun eftir 5 ár sem hlauparaþjálfari liðsins. Þó Andy Reid fái mestu þakkirnar fyrir sóknarleik Chiefs er Bieniemy stór partur af dæminu og vinnur til að mynda gríðarlega gott starf með Patrick Mahomes.
Bieniemy er fyrrum NFL hlaupari og á 9 ár að baki í deildinni en hann var aldrei neitt meira en varamaður sem skilaði pöntum og spörkum endrum og eins. Snemma á þessari öld vann hann fyrir Colorado University og komst nokkrum sinnum í kast við lögin. Honum er borin sök að hafa lamið bílastæðaþjón og var í kjölfarið settur í eins árs bann frá svæði Colorado háskólans. Það hafa margir kallað eftir því seinustu misseri að Bieniemy fái stóra sénsinn en það eru ýmis ljót mál á skránni hans sem hafa vafalaust haft áhrif á vinnuframa hans hingað til.
Robert Saleh
Embed from Getty ImagesRobert Saleh er núverandi varnarþjálfari San Francisco 49ers en þeirri stöðu hefur hann gegnt síðan 2017 og fengið mikið lof fyrir. Saleh er aðeins 41 árs gamall og var áður línuvarðaþjálfari Jacksonville Jaguars frá 2014-16.
Robert Saleh er fyrrum innherji hjá Northern Michigan University og sneri sér beint að þjálfun eftir útskrift. Hann þvældist um sem varnaraðstoð háskólaliða frá 2002-2005. Þá fær hann stöðu varnarlærlings hjá Houston Texans þar sem Vic Fangio var varnarþjálfari – þó aðeins fyrsta ár Saleh hjá liðinu. Robert vann sig upp hjá félaginu og var orðinn aðstoðar línuvarðaþjálfari liðsins 2009 og 2010.
Áður en hann fékk fyrsta alvöru starfið hjá Jaguars tók hann þrjú ár hjá Seahawks undir Steve Carroll og Gus Bradley (og Dan Quinn, seinasta árið). Þar starfaði hann við leikja undirbúning varnarinnar sem fólst í að leikgreina sóknir andstæðinganna og taka saman viðeigandi tölfræði. Kaninn kallar þetta defensive quality control coach en Leikdagur kallar þetta leikja undirbúningsþjálfari varnar.
Brian Daboll
Embed from Getty ImagesBrian Daboll er núverandi sóknarþjálfari Buffalo Bills og hefur fengið mikið lof vegna framfara Josh Allen. Daboll tók við stöðu sóknarþjálfara Bills árið 2018, sama ár og Josh Allen kom inn í deildina.
Daboll hefur þvælst um víðan völl á sínum 20 ára þjálfunarferli. Lengst hefur hann starfað fyrir New England Patriots en þar hefur hann gegnt ýmsum störfum, meðal ananrs sem útherja og innherja þjálfari. Brian hefur verið sóknarþjálfari hjá Cleveland Browns, Kansas City Chiefs og Miami Dolphins en hefur ekki haft árangur sem erfiði.
Bills giggið byrjaði heldur ekki frábærlega. Josh Allen kom inní deildina með djúpa verkfæratösku og stórkostlega líkamlega burði en eina verkfærið í töskunni hans var sleggjuhamar. Þar af leiðandi var sóknarleikur Buffalo ekki upp á marga fiska árið 2018 en batnaði þó talsvert í fyrra. Í ár mætti Josh Allen hinsvegar drekkhlaðinn verkfærum og hefur sendingaleikur Daboll blómstrað í kjölfarið en Bills eru ein besta kastsókn deildarinnar.
Ryan Day
Embed from Getty ImagesRyan Day er fyrrum háskólaleikmaður og spilaði leikstjórnanda og varnarbakkara fyrir New Hampshire Wildcats. Chip Kelly var sóknarþjálfari liðsins á þeim tíma en leiðir þeirra áttu eftir að liggja saman seinna meir. Eftir að háskólaferlinum lauk fór Day beint í þjálfun og fékk sitt fyrsta sóknarþjálfaragigg eftir 10 ára flakk á milli háskólaliða þar sem hann gegndi ýmsum stöðum.
Árið 2015 var hann ráðinn leikstjórnendaþjálfari Philadelphia Eagles sem voru undir stjórn Chip Kelly sem var á sínu þriðja ári með liðið. Kelly var hinsvegar rekinn eftir 15 leiki með úrslitaskrána 6-9. Kelly var ráðinn sem aðalþjálfari San Francisco 49ers tímabili seinna og tók sinn mann, Ryan Day, með sér til Kalíforníu þar sem Day fékk annan séns sem leikstjórnendaþjálfari.
Day og Kelly entust aðeins eitt tímabil hjá 49ers en þá lá leið Ryan Day til Ohio State háskólans þar sem hann fékk starf sem sóknarþjálfari undir stjórn Urban Meyer. Þeirri stöðu gegndi hann tímabilin 2017 og 2018 þangað til Meyer þurfti að taka sér hlé vegna skandals og varð Day þá gerður að aðalþjálfara liðsins á meðan. Það fór svo að Urban Meyer hætti fótboltaþjálfun alfarið eftir bannið vegna heilsu sinnar. Ryan Day hefur því verið aðalþjálfari Ohio State háskólans frá 2018-2020 þar sem hann hefur unnið 21 leik og tapað einum.
Matt Eberflus
Embed from Getty ImagesMatt Eberflus er núverandi varnarþjálfari Indianapolis Colts og hefur gegnt því starfi frá 2018. Eberflus fékk fyrsta stóra starfið árið 2001 þegar hann tók við varnarþjálfun Missouri Tigers háskólans. Þeirri stöðu gegndi hann til ársins 2008 þegar hann fékk NFL sénsinn sinn.
Hann var ráðinn sem línuvarðaþjálfari Cleveland Browns árið 2009 og starfaði þar í tvö tímabil. Því næst lá leiðin til Dallas Cowboys þar sem hann þjálfaði línuverði í átta ár ásamt því að vera umsjónarmaður kastleik Cowboys síðustu tvö árin sín þar (2016 og 2017).
Frank Reich réð Eberflus síðan til Colts árið 2018 eftir að hafa verið ráðinn aðalþjálfari liðsins. Indianapolis Colts hafa verið í topp 10 seinustu þrjú tímabil í stolnum boltum, hvort sem það eru stolnar sendingar eða endurheimt fömbl. Eftir að liðið fékk DeForest Buckner hefur vörnin tekið stórt skref fram á við og hefur verið ein besta vörn deildarinnar í vetur.
Byron Leftwich
Embed from Getty ImagesByron Leftwich er núverandi sóknarþjálfari undir Bruce Arians hjá Tampa Bay Buccaneers. Leftwich er fertugur og er fyrrum NFL leikstjórnandi. Hann er fyrrum 1. umferðar valréttur frá 2003 þegar Jacksonville Jaguars völdu leikmanninn númer sjö. Leftwich spilaði fjögur tímabil fyrir Jaguars sem byrjunarliðsmaður en eftir það flakkaði hann á milli liða sem varamaður. Hann lagði að lokum skóna á hilluna árið 2013 eftir tvö ár með Pittsburgh Steelers þar sem Bruce Arians var sóknarþjálfari.
Byron var ráðinn til Arizona Cardinals árið 2017 sem leikstjórnendaþjálfari en þá var Bruce Arians á sínu seinasta tímabili með liðið. Því starfi gegndi hann út 2018 tímabilið, alveg þangað til Arians fékk hann til liðs við sig á nýjan leik í Tampa Bay árið 2019 sem sóknarþjálfara. Þeirra leiðir því legið ítrekað saman en Leftwich hefur verið nefndur af og til seinustu misseri sem mögulegur aðalþjálfara kandídat.
Don Martindale
Embed from Getty ImagesDon “Wink” Martindale er núverandi varnarþjálfari Baltimore Ravens og hefur gegnt þeirri stöðu síðan 2018. Hann hefur starfað fyrir félagið síðan 2012 en lengst af var hann línuvarðaþjálfari liðsins.
Martindale spilaði línuvörð í high school en háskólaferill hans er óljós þar sem hann stundaði nám við Defiance háskólann í Ohio sem er flokkaður sem D3 íþróttaskóli. Eftir útskrift vann hann í fjölskyldu fyrirtækinu við vörubílaakstur þar sem hann ferjaði bílaparta á milli Dayton, Ohio og Detroit, Michigan. Eftir ár sem vörubílastjóri hætti hann og elti drauminn: þjálfun.
Frá 1986-2004 starfaði hann í háskólasenunni sem varnar- og línuvarðaþjálfari. Árið 2005 fékk hann starf hjá Oakland Raiders sem línuvarðaþjálfari en þeirri stöðu gegndi hann til ársins 2008. Tímabilið eftir gegndi hann sömu stöðu hjá Denver Broncos en árið 2010 fékk hann tækifæri sem varnarþjálfari liðsins undir stjórn Josh McDaniels. Gamanið varði þó stutt og hann var atvinnulaus árið 2011.
Baltimore Ravens réðu Martindale svo árið 2012 en fyrstu fjögur árin var hann innri línuvarðaþjálfari liðsins. Nú er svo komið fyrir Don Martindale að nafn hans er farið af stað í umræðunni um næstu aðalþjálfararáðningar NFL deildarinnar en miðað við þróunina í geiranum verður að teljast ólíklegt að hann fái sénsinn fyrr en vörnin hans verður áberandi góð í langan tíma, líkt og hjá Vic Fangio.
Lincoln Riley
Embed from Getty ImagesHáskólaferill hans var ekki merkilegur en hann æfði með Texas Tech háskólanum án skólastyrks og var þriðji leikstjórnandinn í röðinni en efstur á blaði var núverandi þjálfari Arizona Cardinals, Kliff Kingsbury. Hann fór því fljótt þjálfaraleiðina og varð aðstoðarmaður Mike Leach, þjálfara liðsins til að byrja með og vann sig upp í útherjaþjálfun. Mike Leach var látinn taka pokann sinn árið 2009 og fylgdi Riley honum út um dyrnar og lenti hjá East Carolina sem leikstjórnenda- og sóknarþjálfari til ársins 2014 en ári seinna varð hann sóknarþjálfari Oklahoma Sooners.
Undir stjórn Lincoln Riley er Oklahoma prógrammið 44-8 en hann hefur þjálfað Baker Mayfield, Kyler Murray og nú síðast Jalen Hurts. Riley er sóknarheili sem mörg NFL lið virðast hafa áhuga á en Riley skrifaði nýverið undir tveggja ára framlengingu sem bindur hann við Sooners til ársins 2025. Það er því fátt sem bendir til þess að Riley sé opinn fyrir því að taka skrefið upp í NFL deildina en þrátt fyrir það munum við koma til með sjá og heyra allskonar vangaveltur varðandi þjálfarann á komandi mánuðum.
Joe Brady
Embed from Getty ImagesJoe Brady varð yngsti sóknarþjálfari í NFL deildinni þegar Matt Rhule réð strákinn til starfa um miðjan janúar síðastliðinn. Brady kom sér í umræðuna eftir frábæran árangur hjá LSU Tigers á síðsta háskólatímabili. Brady var útherjaþjálfari og umsjónarmaður sendingaleiksins undir Ed Orgeron hjá Louisiana State háskólanum en skemmst er frá því að segja að sendingaleikur liðsins setti ný viðmið. Joe Burrow var, eftirminnilega, leikstjórnandi liðsins og kastaði 60 snertimarkssendingar í banvænni sókn LSU sem engin vörn átti svör við.
Þrátt fyrir ungan aldur og litla NFL reynslu (hann var sóknaraðstoðarmaður hjá Saints 17-18) mun Brady vera í umræðunni um aðalþjálfarastarf á næstu árum, þrátt fyrir að það sé erfitt að ímynda sér að hann fái stóra sénsinn svo fljótt. Líklega verður hann sóknarþjálfari Panthers næstu 2-3 árin og fær sinn séns gangi sóknarleikur liðsins vel þangað til.
Arthur Smith
Embed from Getty ImagesArthur Smith er heimamaður sem hefur nánast farið út fyrir fylkislínur Memphis. Hann er á sínu öðru ári sem sóknarþjálfari Tennessee Titans en hann hefur unnið fyrir félagið síðan 2011.
Hægt og rólega hefur hann unnið sig upp frá lægstu stöðu NFL þjálfarabransans og er nú í umræðunni um mögulegan séns á NFL aðalþjálfarastarfi. Mike Vrabel er öruggur í starfi og því gæti Smith þurft að leita á önnur mið til að stíga stóra skrefið. Hann verður þó líklega áfram sóknarþjálfari Titans, í eitt ár í það minnsta.
Hann var sóknarvörður í háskóla hjá North Carolina þar sem hann spilaði lítið sem ekkert. Eftir útskrift varð hann aðstoðarmaður hjá liðinu árið 2006 og fékk eftir það tveggja ára starfsreynslu hjá Washington Redskins sem aðstoðarmaður leikja undirbúngsþjálfara.
Tennessee Titans sóknin hefur verið ein af betri sóknum deildarinnar síðan Ryan Tannehill tók við stýrinu af Marcus Mariota eftir leikviku sex á síðasta tímabili og hefur Arthur Smith fengið sinn skammt af þökkum fyrir það. Smith er nafn til að fylgjast með á næstu vikum en líklega fær hann þónokkur viðtöl, í það minnsta.