Hvern dreymir ekki um töff gælunafn? Það er ákveðinn sjarmi sem fylgir flottu viðurnefni sem passar fullkomlega og unnið hefur verið fyrir. Á hinn bóginn eru glötuð gælunöfn aldrei eftirsótt. Ég veit ekki hvort Norm “Bag of Bones” Grekin eða Calvin “Pocket Rocket” Murphy hafi átt hugmyndina að sínu gælunafni en eftirsóknarverð eru þau ekki.
Fyrir neðan eru 15 bestu gælunöfn deildarinnar sem ég hef raðað upp eftir mínum eigin smekk en margar virkilega góðar gælur komust ekki á blað.
Það er alltaf einhver saga á bakvið gælunöfn og ætla ég að láta þessar sögur fylgja með.
15 svölustu gælunöfn NBA sögunnar
Það er hægt að tína til fullt af svölum gælunöfnum úr sögu NBA. Þau sem að skara fram úr eru þau sem byggð eru á alvöru ferlum og minnistæðum frammistöðum. Danny Granger og “Batman” gælunafnið hans er ekki að fara að komast inná svona lista. Ekkert á móti Granger, en gælunafnið vegur margfalt þyngra en ferill og frammistaða Granger á vellinum.
15. “Iso Joe” / Joe Johnson

Joe Johnson er einn af 46 leikmönnum sögunnar til að rjúfa 20,000 stiga múrinn. Johnson var frábær sóknarmaður sem gat allt. Gælunafnið fæðist þegar Joe spilaði fyrir Atlanta Hawks. Iso er stytting á isolation en hann fékk iðulega það hlutverk að spila 1-á-1 undir lok leikja þegar allt var undir. Hann var ískaldur og komst nánast alltaf þangað sem hann vildi með góðum takti og öruggu knattraki. Hans uppáhaldsstaður var í kringum vítalínuna en hann hefur skorað ótal körfur yfir útréttar hendur á því svæði.
14. “Skywalker” / David Thompson

Það er oft talað um að David Thompson sé hinn upprunalegi háloftafugl. Þetta var leikmaður sem Michael Jordan leit upp til en þjóðsagan um Thompson var á þann veg að hann gæti skipt smámynt uppi á körfuboltaspjaldi. Svo öflugur átti stökkkraftur hans að vera.
Thompson spilaði fyrir NC State háskólann og síðar sjö tímabil fyrir Denver Nuggets og tvö fyrir Seattle SuperSonics. Hann var mikill stigaskorari en yfir atvinnumannaferilinn skoraði hann 22.7 stig að meðaltali í leik.
13. “Mr. Big Shot” / Chauncey Billups

Chauncey Billups vann sér inn þetta nafn tímabilið 02/03 sem var hans fyrsta með Detroit Pistons. Rick Carlisle, þjálfari liðsins, hafði verið að spila Chucky Atkins í fjórða leikhluta, fram yfir Billups. Chauncey talaði við Rick og sagði honum að hann væri eini byrjunarliðs leikstjórnandinn í deildinni sem spilaði ekki í lok leikja. Hann sagði Carlisle að það væri engin leið að vita hvort hann væri “clutch” leikmaður ef hann fengi ekki tækifæri.
Billups fékk síðan tækifæri og þá var ekki aftur snúið. Hann setti bjölluþrist fyrir sigri gegn Golden State Warriors og sjö leikjum seinna tryggði hann Pistons framlengingu gegn Atlanta Hawks með tveimur vítaskotum. Hann setti síðan sigurþrist í lok framlengingar og skildi 0,2 sekúndur eftir á klukkunni.
Mr. Big Shot var mættur.
12. “Agent Zero” / Gilbert Arenas

Gilbert Arenas var uppá sitt besta frá 2002-2008 en gælunafnið tengist númerinu á treyjunni hans og þeirri staðreynd að hann var banvænn sóknarmaður sem ótrúlega gaman var að fylgjast með.
Það hallaði síðar undan fæti hjá honum og ferillinn og lífið virtist fara hreinlega í hundana eftir að hann mætti með fjórar byssur í búningsklefann eftir rifrildi við Javaris Crittenton, liðsfélaga sinn. Þeir fóru báðir í bann út tímabilið og Wizards skiptu Agent Zero burt frá sér tímabilið eftir.
11. “The Glove” / Gary Payton

Sagan um gælunafnið The Glove er sprottin útfrá varnarhæfileikum Payton en árið 1993 mættu Seattle SuperSonics Phoenix Suns í úrslitum Vesturdeildarinnar. Þar dekkaði hann Kevin Johnson sem hafði verið á eldi í seríunni gegn San Antonio Spurs þar sem hann skoraði 20,8 stig í leik með 53,2% skotnýtingu. Payton hélt Johnson í 15,9 stigum og 46,6% skotnýtingu í seríunni en frændi Payton á víst að hafa sagt að Payton héldi á Johnson eins og hafnabolta í hanska. Þaðan kom nafnið The Glove.
Gary Payton var 9x valinn í varnarlið NBA deildarinnar og situr í fjórða sæti yfir flesta stolna bolta í NBA sögunni með 2445 stykki.
10. “Crash” / Gerald Wallace

Gerald Wallace vann sér inn gælunafnið Crash hjá Charlotte Bobcats eftir netkosningar liðsfélaga hans. Ástæðan var einföld. Wallace var gríðarlegur íþróttamaður sem lagði sig allan fram, bæði í vörn og sókn. Hann barðist um fráköst, henti sér á eftir lausum boltum og spilaði fasta vörn. Hann hefur margsinnis brotlent illa sem er fylgifiskur leikstílsins.
Besta tímabilið hans var líklega 05/06 þar sem hann skoraði 15,2 stig, tók 7,5 fráköst, stal 2,5 boltum og varði 2,1 skot að meðaltali í leik.
9. “The Mailman” / Karl Malone

Gælunafnið Póstmaðurinn á rætur sínar að rekja til háskóladaga Karl Malone. Hann spilaði fyrir Louisiana Tech háskólann og ástæðan fyrir nafninu var: “he always delivered in the post”. Þetta þarf ekki að vera flókið!
Malone hélt áfram að koma póstsendingum til skila í körfur mótherja í NBA deildinni en hann spilaði 1476 NBA leiki af 1526 leikjum. Það þýðir að pósturinn var borinn út í 19 ár en Malone missti aðeins úr 50 leiki á ferlinum. Karl Malone er næst stigahæsti leikmaður allra tíma en þar spilar inn í að enginn tekið jafnmörg eða hitt úr jafnmörgum vítaskotum og hann.
8. “The Admiral” / David Robinson

David Robinson fékk sitt gælunafn eftir að hafa útskrifast frá U.S. Naval Academy og gengt sjóhersskyldu í tvö ár. Aðmíráll er hæsta staða sjóhersflota en Robinson gengdi þeirri stöðu þó aldrei. Hann varði tíma sínum sem byggingaverkfræðingur og mætti í deildina árið 1989.
David Robinson er einn besti senter sögunnar en hann spilaði allan sinn feril hjá San Antonio Spurs og vann með þeim tvo NBA titla og var 8x valinn í varnarlið ársins. Hann situr í sjötta sæti yfir flest varin skot á ferlinum með 2954 og 40. sæti yfir flest stig með 20,790.
Spaða ás.
7. “The Matrix” / Shawn Marion

Kenny Smith var að lýsa leik Phoenix Suns á undirbúningstímabili. Árið var 1999. Nokkrum mánuðum áður hafði komið út nýstárlegur heilabrjótur í kvikmyndahúsin vestanhafs. Shawn Marion var nýliði og hafði stolið bolta, blokkað eða troðið þegar Smith kallaði hann The Matrix. Það festist.
Shawn Marion var hrikalega kvikur með mikinn sprengikraft og hentaði fullkomlega í sókn Mike D’Antoni með Steve Nash í bílstjórasætinu. Marion sveif yfir völlinn, fram og til baka, upp og niður. Hann gerði allt inná vellinum. Hann bjó yfir ótrúlegu úthaldi og gekk í öll verk. Það var kannski ágætt að Kenny Smith hafi fundið á hann gælunafn áður en hann sá hann taka stökkskot.
6. “The Dream” / Hakeem Olajuwon

Sögur segja að háskólaþjálfari Olajuwon hafi einhverntíman sagt það væri draumi líkast hversu áreynslulaust það var fyrir Hakeem að troða. Draumurinn bjó nefninlega yfir einstakri náð á körfuboltavellinum og bar sig með slíkum þokka að það var engu líkara en hann svifi. Fótaburðurinn var óaðfinnanlegur og var undirstaða “Dream Shake” hreyfingarinnar sem hann gerði fræga.
Draumurinn hefur varið flest skot í sögu NBA deildarinnar með 3,830 en Dikembe Mutombo, sem situr í öðru sæti, hefði þurft að verja 541 skot til viðbótar til að jafna Olajuwon. Strákurinn gat frákastað og skorað að vild en hann er 11. stigahæsti í sögunni og 13. frákastahæsti.
Endakall.
5. “Magic” / Earvin Johnson

Earvin Johnson fékk gælunafnið “Magic” 15 ára gamall eftir að hafa flengt öflugasta skólann í deildinni og leitt lið sitt til 8-0 byrjunar á tímabilinu. Þeim var spáð slæmu gengi, svo þetta kom öllum á óvart. Earvin skoraði 38 stig, tók 19 fráköst og sendi 18 stoðsendingar í þessum afdrifaríka leik en íþróttablaðamaður labbaði til hans eftir leik og sagðist ætla að kalla hann “Magic”.
Þetta reyndist vera nafn með rentu en Johnson var galdramaður á vellinum. Boltinn virtist sem límdur við fingurgóma hans en hann leiddi “Showtime” Lakers liðið af mikilli snilld. Hann gerði hluti sem aðra dreymdi um að þora eða geta.
4. “Dr. J” / Julius Erving

Julius Erving sagði í viðtali við CBS This Morning árið 2013 að vinur hans úr skóla (high school) hafi gefið honum gælunafnið og þegar menn reyndu að klína á hann öðrum nöfnum eftir að hann varð atvinnumaður, bað hann þá vinsamlegast að kalla sig bara “The Doctor”.
Erving er oft talinn vera fyrsti sendiherra NBA deildarinnar og þrátt fyrir að vera ekki með læknisgráðu gat hann læknað óstjórnlegar langanir áhorfenda í körfuboltasnilld. Julius var ofursvalur spilari sem rokkaði stutt afró og var fyrstur til að troða frá vítalínunni í troðslukeppni. Einn sá allra, allra besti.
3. “The Answer” / Allen Iverson

Þegar Allen Iverson var valinn af Philadelphia 76ers árið 1996 var hann með eitt húðflúr. “The Answer” tattúverað fyrir ofan bolabít. Nafnið fékk hann frá Jamil Blackmon, fjölskylduvini. Þetta átti víst að hafa gerst eftir að Michael Jordan hætti 1993 en Allen átti að vera svarið sem NBA var að leita af.
Iverson var allavega svarið sem 76ers þurftu en félagið hafði ekki séð yfir 50% sigurhlutfall síðan tímabilið 90/91 en á þriðja ári hans í deildinni tókst það, þó það hafi verið stutt vegna verkfalls leikmanna.
Pund fyrir pund er Allen Iverson líklega besti skorari sögunnar en það má segja að hann hafi átt þátt í að breyta ímynd NBA þegar hann mætti á völlinn með stæla, helflúraður og með fastar fléttur. Það var töggur í stráksa og vel að gælunafninu kominn.
2. “Vinsanity” / Vince Carter

Vince Carter. Lifandi goðsögn. Carter, ásamt Kobe Bryant, var í raun aðalatriðið í næstu bylgju af NBA megastjörnum á eftir Michael Jordan. Maðurinn spilaði 24 tímabil í deildinni og er þriðji leikjahæsti leikmaður sögunnar með 1,541 spilaða leiki á ferlinum.
Sprengikraftur og ótrúlegir troðsluhæfileikar hans voru stoðir sértrúarhóps sem skapaðist í kringum leikmanninn. Það sem sprengdi vinsældaskalann? Troðslukeppnin árið 2000. Að flestra mati trónir sú troðslukeppni á toppnum yfir bestu keppnir sögunnar.
360 gráðu vindmylla. Tveggja skrefa 180 gráðu vindmylla frá endalínu. Alley-oop á milli lappanna með höfuð í hringhæð. Tveggja fóta olnbogatroðsla. Tveggja handa rétt innan við vítalínu. Þessi troðslukeppni sparkræsti ódauðlegu gælunafni.
Vinsanity.
1. “The Black Mamba” / Kobe Bryant

Kobe Bryant talaði nafnið “The Black Mamba” og tilkomu þess í heimildamynd sinni “Muse”. Kobe sagði að hann hafi gefið sér nafnið til að skapa annað sjálf (e. alter ego) sem átti að aðskilja einkalíf sitt frá atvinnulífinu. Þetta gerði hann þegar hann átti hvað erfiðast utan vallar (2003 og 2004) en sköpunina taldi hann hafi hjálpað sér að finna jafnvægið.
Eiturslangan svarta mamban finnst sunnan af Sahara eyðimörkinni í Afríku og er næst stærsta eitraða slöngutegundin á eftir konungskóbrunni. Kobe Bryant var baneitraður sóknarmaður og einn besti skorari NBA sögunnar. Hann er fjórði stigahæsti leikmaður hennar en meiri keppnismann er nánast ómögulegt að finna.
Bryant hafði gríðarleg áhrif á NBA söguna, samherja sína, mótherja og aðdáendur. Það er í raun ekki hægt að koma því nægilega vel frá sér hversu ótrúlegur maðurinn var.
Það er þess vegna sem gælunafnið “The Black Mamba” er það svalasta í NBA sögunni.