Það er einfalt að rumska ekki þegar “NFL leikstjórnandi er mikilvægasta staða allra íþrótta” lestin brunar framhjá. Þeir eru ríkir og frægir. Þeir eru andlit NFL liða og sérfræðingar keppast um við að safna tölfræði til að leikgreina þeirra frammistöður.
Þú finnur varla íþrótt sem stólar jafnmikið á öfluga liðsheild og bandarískur fótbolti. Það er oft talað um að þetta sé hin sanna liðsíþrótt. Í fyrra spiluðu 70 leikmenn eitt snapp eða meira fyrir Arizona Cardinals. Það er gríðarleg einföldun að upphefja eina stöðu yfir allar hina og útnefna hana mikilvægastu stöðuna í íþróttinni, hvað þá allra íþrótta.
Embed from Getty ImagesNFL lið er eins og mannslíkami. Ef að leikstjórnandi er heilinn, þá er sóknarlínan hjartað. Útherjarnir eru æðakerfið og hlaupararnir lífshvötin. Vörnin er skinnið og ónæmiskerfið og sérliðin gegna hlutverki fráveitunnar. Þjálfarateymið er síðan auðvitað andadrátturinn.
Hætti hjartað að slá, þá flyst ekkert blóð um æðakerfið, lífshvötin lognar út af og heilinn slekkur á sér. Góð sóknarlína heldur lífi í sóknarkerfum. Gríðarlegur munur er á frammistöðu leikstjórnanda í hreinum vasa vs. undir pressu.
Hvort er betra að vera með góðan leikstjórnanda á bak við lélega sóknarlínu eða lélegan leikstjórnanda á bakvið góða sóknarlínu?
Embed from Getty ImagesGóð sóknarlína getur gefið lélegum leikstjórnanda auka sekúndu í að taka ákvörðun í kastkerfum. Góð sóknarlína getur gefið útherjum meiri tíma til að vinna sitt einvígi. Góð sóknarlína getur skapað góðar hlaupabrautir fyrir hlauparana.
Léleg sóknarlína setur leikstjórnandann sinn oftar undir pressu og undir pressu lækkar sendingaheppnun. Léleg sóknarlína setur leikstjórnandann sinn í meiðslahættu þegar árásateymi andstæðingsins nær til hans. Léleg sóknarlína nær ekki að skapa styrkar hlaupabrautir.
(Það virðist samt vera eins og Russell Wilson sé eini leikstjórnandinn sem er undanskilinn. Hann er frábær undir pressu og hefur aldrei fengið að njóta fríðinda öflugrar sóknarlínu.)
Þetta snýst allt um samspil hundrað þátta. Vissulega er leikstjórnandinn gífurlega mikilvægur liði sínu en það er ekki lengur hægt að vanrækja sóknarlínumenn. Þetta eru vanmetnustu leikmenn deildarinnar en sinna jafnframt lífsnauðsynlegu starfi innan hennar.
Embed from Getty ImagesÞað kemur ekki á óvart að fjögur skilvirkustu sóknarliðin í fyrra (BAL, DAL, KC, NO) samkvæmt Football Outsiders DVOA státuðu öll af virkilega góðum sóknarlínum. Sóknarlína Kansas City skoraði þó ekki hátt í hlaupablokkeringum, sem skrifast að einhverju leyti á gæði hlauparanna, en voru fjórða besta sendingavörslu teymið. New Orleans og Dallas voru með bestu sóknarlínurnar í fyrra en bæði lið hafa notað þrjá 1. umferðar valrétti síðan 2010 til að velja sóknarlínumenn.
Það er einmitt það sem við ætlum að skoða. Hvaða lið hafa sett mest púður í að velja sóknarlínumenn í umferðum 1-3 síðan 2010? Hvaða lið hafa verið árangursríkust?
Mesta púðrið
Lið | Samtals | 1st | 2nd | 3rd |
---|---|---|---|---|
Miami | 10 | 4 | 2 | 4 |
Detroit | 8 | 4 | 0 | 4 |
Indianapolis | 8 | 3 | 3 | 2 |
Seattle | 8 | 3 | 2 | 3 |
Denver | 8 | 1 | 4 | 3 |
Las Vegas | 8 | 1 | 2 | 5 |
Liðin hér að ofan hafa notað flesta gæðavalrétti (1-3 umferð) í sóknarlínuna sína á seinustu 11 árum. Sóknarlína Miami hefur verið undir meðallagi síðan 2011 og var til að mynda næst-lélegasta teymið í fyrra. Tveir af tíu leikmönnum þeirra hafa verið valdir í Pro-Bowl leikinn en hvorugur þeirra er enn hjá félaginu. Mike Pouncey fór til Los Angeles Chargers árið 2018 og Laremy Tunsil var skipt til Houston Texans fyrir ári síðan. Höfrungarnir verða ekki sakaðir um að hafa ekki verið að reyna að lappa upp á línuna sína en það þarf auðvitað margt að ganga upp til að leikmaður standi undir væntingum. Hvort að þjálfarateymi, yfirstjórn, njósnarar eða óheppni hafi ráðið því að lína Miami er eins og hún er veit maður ekki.
Sóknarlína Detroit Lions hefur sömuleiðis ekki verið yfir meðallagi í langan tíma. Árið 2013 var sóknarlína þeirra seinast yfir meðallagi en þeir hafa aðeins þykkari árgang góðra sóknarlínumanna en Miami. Frank Ragnow, Riley Reiff, Larry Warford, Graham Glasgow og Taylor Decker eru hluti af árgangi Lions seinstu 11 ár en allir hafa verið byrjunarliðsmenn síðan þeir voru valdir.
Embed from Getty ImagesIndianapolis Colts hafa verið duglegir við að velja sóknarlínumenn með gæðavalréttum undanfarin ár og það hefur skilað sér en þeir áttu topp 10 sóknarlínu í fyrra. Quenton Nelson, Braden Smith og Ryan Kelly voru allir valdir á tímabilinu 2016-2018 og eru allir hluti af byrjunarliðinu. Anthony Castonzo, vinstri tæklarinn, var valinn í fyrstu umferð árið 2011.
Það virðist þó sem að það hafi verið of seint í rassinn gripið hjá yfirstjórn félagsins, því Andrew Luck, fyrrum leikstjórnandi Colts, lagði skóna á hilluna fyrir ári síðan, 29. ára gamall. Luck hafði glímt við mörg erfið meiðsli á sínum ferli en yfirstjórn Colts sat undir gríðarlega mikilli gagnrýni vegna vanrækslu sóknarlínunnar sem kom niður á líkama Luck.
Minnsta púðrið
Hinu megin á vagninum sitja sex lið sem öll hafa aðeins notað fjóra gæðavalrétti í sóknarlínumenn frá 2010.
Lið | Samtals | 1st | 2nd | 3rd |
---|---|---|---|---|
Carolina | 4 | 0 | 3 | 1 |
NY Jets | 4 | 1 | 1 | 2 |
Tampa Bay | 4 | 1 | 2 | 1 |
Arizona | 4 | 2 | 0 | 2 |
Green Bay | 4 | 2 | 2 | 0 |
Philadelphia | 4 | 3 | 0 | 1 |
Auðvitað er ekki hægt að krefjast þess að lið sem státa af góðri sóknarlínu þurfi að nota gæðavalrétti í sóknarlínuna en það kom á óvart að Carolina Panthers notuðu ekki einn 1. umferðar valrétt í sóknarlínuna sem var ábyrg fyrir að halda Cam Newton uppréttum frá 2011. Buffalo Bills var hitt liðið sem ekki hefur notað 1. umferðar valrétt í sóknarlínuna síðan 2010 en 10 lið hafa notað einn slíkan í línuna.
Það sem er ekki tekið með í reikninginn hérna er að það eru aðrar leiðir til að fjárfesta í sóknarlínunni. Frjálsi leikmannamarkaðurinn er kjörinn staður til að styrkja línuna, en vandamálið er að góðir sóknarlínumenn fá yfirleitt aldrei að upplifa markaðinn. Annar vinkill á þetta er að margir góðir sóknarlínumenn eru valdir seinna í nýliðavalinu eða jafnvel hunsaðir og plokkaðir upp eftir valið.
Árangursríkustu liðin
Dallas Cowboys er það lið sem hefur verið árangursríkast allra við að styrkja sóknarlínuna sína í gegnum nýliðavalið seinustu 11 ár. Árin 2011, 2013 og 2014 notuðu þeir fyrstu valréttina sína í sóknarlínumenn og höfðu uppúr krafsinu Tyron Smith (OT), Travis Frederick (C) og Zack Martin (G). Arðsemi þessara fjárfestinga hefur verið mögnuð en á milli þeirra eru sjö All Pro heiðrar, átján Pro-Bowl leikir og 321 leikir í byrjunarliði.
Ekkert lið kemst með tærnar þar sem Dallas hefur hælana en Indianapolis Colts hafa þó staðið sig vel eins og kom fram fyrr í greininni. Einnig má nefna New Orleans Saints í þessari umræðu en báðir tæklararnir þeirra komu með gæðavalréttum á þessu tímabili, þeir Terron Armstead og Ryan Ramzcyk, sem eru meðal bestu tæklarapara deildarinnar. Þeir völdu Erik McCoy (2. umferð) í fyrra og stóð hann sig vonum framar í senternum. Félagið valdi síðan Cesar Ruiz í fyrstu umferð í ár en þeir virðast afar skuldbundnir sóknarlínunni sinni.