Við á Leikdegi heillumst, eins og mörg ykkar þarna úti, af þeim sem þurfa að leggja enn meira á sig til að vinna sér inn virðingu. Þetta er fólkið sem gefst ekki upp þó á móti blási og hefur tröllatrú á sjálfum sér.
Fyrsta viðfangsefni Smásjárinnar er Phillip Lindsay, hlaupari hjá Denver Broncos.
Lindsay er fæddur og uppalinn í Denver, Colorado. Hann sló met föður síns yfir hlaupayarda í high school áður en hann sleit fremri krossbönd á hné. Fáir háskólar voru á eftir honum en University of Colorado Boulder, sem höfðu fyrr gefið honum námsstyrksloforð, stóðu við sín orð og Lindsay spilaði með þeim 4 tímabil (eftir að hafa setið af sér (e. redshirt) fyrsta árið sitt).
Lindsay endurgalt traustið og endaði Colorado háskólaferilinn annar í hlaupayördum en efstur í heildar yördum (e. all-purpose yards), en þá er verið að tala um hlaupna yarda og gripna. Mike MacIntyre, þjálfarinn hans hjá Colorado University kallaði hann Tasmaníudjöfulinn en þeir sem þekkja til teiknimyndaþáttanna sjá tenginguna líklega þegar Lindsay hleypur – sá er hraðinn á honum.
Phillip Lindsay fékk ekki þá athygli sem hlauparar stærri skólanna fengu en endaði lokaárið sitt á að hlaupa 1475 yarda (12. sæti á landsvísu) með 14 snertimörk. Saquon Barkley, sem var tekinn númer 2 í nýliðavalinu 2018 hljóp til að mynda 1271 yarda og gerði 18 snertimörk.
Þrátt fyrir að hafa leitt Colorado Buffaloes í hlaupayördum á hverju ári frá 2015 dugði það ekki til því Lindsay var ekki boðið að spreyta sig í NFL Scouting Combine-inu. Fyrir vongóða fótboltamenn er það ákveðinn draumur að fá boð um að koma til Indianapolis ásamt þeim allra bestu, hitta framkvæmdastjóra og þjálfara, fara í viðtöl, mælingar og fleira en ekkert boðskort barst Lindsay.
En eins og ég sagði áður, þá er alltaf ákveðinn sjarmi yfir því fólki sem þarf að berjast fyrir hverjum munnbita og púla meira en sá næsti til að fá tækifærið sem það telur sig eiga skilið. Lindsay hélt nafni sínu í nýliðavalinu þrátt fyrir þessi vonbrigði.
NFL draftið fór fram 26.-28. apríl 2018 í Arlington, Texas. Uppáhaldsliðið hans Denver Broncos áttu 10 valrétti og tóku pass rusherinn Bradley Chubb númer 5 í fyrstu umferð. Í 2. umferð völdu þeir kantgríparann/útherjann (e. wide receiver) Courtland Sutton frá Saint Mary’s. Ég get vel trúað því að hjarta okkar manns hafi brostið þegar Broncos völdu hlauparann Royce Freeman í þriðju umferð. Úff.
Umferðirnar kláruðust hver á fætur annarri en aldrei fékk Lindsay að heyra nafn sitt kallað. Enginn vildi hann. Til að bæta gráu ofan á svart notuðu Broncos síðasta pikkið sitt á hlauparann David Williams.
Næstu daga eftir draftið fékk hann þónokkrar hringingar frá hinum ýmsu klúbbum sem vildi semja við hann og fá hann til liðs við sig fyrir undirbúningstímabilið. Eitt af þeim liðum var Denver Broncos. Phillip Lindsay valdi Denver. Hann átti flott undirbúningstímabil með Broncos og var útnefndur þriðji hlaupari Denver-manna á eftir Royce Freeman og Devontae Booker.
Þarna var tækifærið komið og ekki var litið til baka. Þegar uppi var staðið og leikvikurnar 16 búnar hafði Lindsay tryggt sér sæti sem byrjunarliðsmaður. Ekki nóg með það, Lindsay varð fyrsti óvaldi (e. undrafted) sóknar-nýliðinn til að vera valinn í Pro-Bowl leikinn.
Lindsay hljóp 1037 yarda á sínu fyrsta tímabili í NFL sem var 9. besti árangurinn á meðal hlaupara. Hann hljóp þessa 1037 yarda á aðeins 192 tilraunum sem þýðir að hann komst 5,4 yarda í hverri hlaupatilraun að meðaltali – þriðji besti árangurinn í deildinni og sá besti yfir þá leikmenn sem hljópu yfir 1000 yarda!
Eftir að tímabilinu lauk var hann spurður út í það að hafa ekki verið boðið í Combine-ið – hann taldi réttast að hann héldi sitt eigið combine fyrir fólkið sem sendir út boðskortin:
“I’m going to get them some cute little shorts, some weights, hopefully they get in shape. I’m going to give them a couple months and then send invites out.”
Phillip Lindsay
Og til að ljúka þessari Smásjá fylgir highlights myndband Phillip Lindsay fyrir tímabilið 2018 með Denver Broncos.