Þá snýst fókusinn á skyndiliðana en ég er búinn að vera í leikfimi með þessa íslenskun í alla dag. Ameríska orðið er edge rusher sem er í raun samheiti yfir þá varnarenda og ytri línuverði sem gegna þeirri helstu ábyrgð að reyna að taka hausinn af leikstjórnandanum eins hratt og örugglega og hægt er.
Hver er besti brúnaæðari, endaþjótari eða kantherji deildarinnar? Þetta eru allt orð sem stöldruðu stutt við á þýðingastofunni í dag. Ef þið eruð með tillögur, ekki hika við að skilja eftir athugasemd á facebook eða twitter – ég hef gaman að heyra ykkar álit.
Skyndiliði er í raun bara samsetning á orðunum “skyndilegur” og “málaliði”, en starfslýsing þeirra krefst þess af þeim að þeir séu fljótir að komast að leikstjórnandanum og þar eru þeir vinsamlegast beðnir um að skella skrokkum í móður jörð, ekki ólíkt málaliðum.
Vindum okkur í tölfræðilegan samanburð:
- SNAPS: Fjöldi snappa á tímabilinu
- TKL: Fjöldi tæklinga
- MTKL: Fjöldi misheppnaðra tæklinga
- SACKS: Fjöldi sacks
- TFL: Fjöldi tæklinga fyrir aftan átakalínu
- QBH: Fjöldi skipta sem leikmaður fellir leikstjórnanda án boltans (QB Hits)
- HRRY: Leikstjórnendapressur (QB hurries)
- FF: Þvinguð boltatöp
- FR: Endurheimt boltatöp
Nýliðar
NAFN | SNAPS | TKL | MTKL | SACK | TFL | QBH | HRRY | FF | FR |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Nick Bosa | 777 | 47 | 3 | 9.0 | 16 | 25 | 24 | 1 | 2 |
Clelin Ferrell | 648 | 38 | 5 | 4.5 | 8 | 8 | 8 | 0 | 1 |
Josh Allen | 643 | 44 | 3 | 10.5 | 11 | 23 | 14 | 2 | 0 |
Brian Burns | 478 | 25 | 3 | 7.5 | 5 | 16 | 8 | 1 | 1 |
Montez Sweat | 724 | 50 | 1 | 7 | 8 | 13 | 14 | 2 | 0 |
Oshane Ximines | 503 | 25 | 0 | 4.5 | 5 | 9 | 2 | 0 | 0 |
Maxx Crosby | 750 | 47 | 11 | 10 | 16 | 14 | 16 | 4 | 0 |
Nick Bosa var besti skyndiliðinn á síðastliðnum vetri. Það er engin spurning. Josh Allen var öflugur en fyrir mitt leyti, þá held ég að Maxx Crosby hafi verið næstbesti nýji skyndiliðinn í deildinni. Gaurinn var draftaður í fjórðu umferð nýliðavalsins frá Eastern Michigan háskólanum, er næpuhvítur og með tvö X í nafninu sínu. Clelin Ferrell sem kom frá risaprógramminu Clemson og var tekinn númer fjögur í fyrstu umferðinni af sama liði (Raiders) átti bara nákvæmlega eins tímabil og allir voru að ímynda sér fyrir draftið. Menn sáu reyndar fyrir að hann yrði valinn einhverntíman eftir 20. pikkið í fyrstu umferð.
Oshane Ximines átti lúmskt gott tímabil fyrir New York Giants og Redskins skyndiliðinn Montez Sweat, sem sóttur var af Washington í lok fyrstu umferðar í valréttaskiptum, átti mjög solid tímabil.
Reyndir
NAFN | SNAPS | TKL | MTKL | SACK | TFL | QBH | HRRY | FF | FR |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Von Miller | 837 | 46 | 2 | 8.0 | 10 | 20 | 18 | 0 | 0 |
Danielle Hunter | 882 | 70 | 2 | 14.5 | 15 | 22 | 17 | 3 | 1 |
Khalil Mack | 925 | 47 | 6 | 8.5 | 8 | 14 | 30 | 5 | 1 |
Chandler Jones | 1069 | 53 | 5 | 19.0 | 11 | 26 | 15 | 8 | 3 |
Shaquil Barrett | 889 | 58 | 6 | 19.5 | 19 | 37 | 14 | 6 | 0 |
T.J. Watt | 935 | 55 | 8 | 14.5 | 14 | 36 | 23 | 8 | 4 |
Mér fannst Chandler Jones, T.J. Watt og Shaq Barrett allir eiga skilið heiðurinn Varnarmaður Ársins en þetta eru bara líffræðilega klikkaðar tölur sem þeir settu upp í vetur. Jones og Watt voru hvor um sig með 8 þvinguð boltatöp en það er gulls í gildi í NFL deildinni.
Shaq Barrett átti stórkostlegt tímabil eftir að hafa yfirgefið Broncos í mars og skrifað undir eins-árs samning hjá Tampa til að sýna sig og sanna í lykilhlutverki. Hann hefur sannarlega unnið sér inn fyrir risasamning en hann leiddi deildina með 19.5 sacks.