Nú þegar búið er að renna í gegnum nokkur af svölustu gælunöfnum NBA sögunnar er upplagt að skoða annan flokk gælunafna. Til er aragrúi af fyndnum, sniðugum og stundum smá svölum nöfnum sem hreinlega verður að taka saman og birta sem lista. Fyrir neðan eru 15 slík gælunöfn með stuttum útskýringum.
15. “Boom Dizzle” / Baron Davis

Það var svosem ekki úr miklu að moða varðandi tilurð gælunafnsins “Boom Dizzle” en það þarf líklega engan efnafræðing til að átta sig á samsetningunni. Davis kom inn í deildina árið 1999 en Snoop Dogg hafði þá gefið út Doggystyle og Tha Doggfather nokkrum árum áður. Snoop er auðvitað ábyrgur fyrir vinsældum á izzle æðinu en Baron Davis er fæddur í Los Angeles, Kaliforníu og hefur vafalítið orðið fyrir áhrifum vesturstrandar rappsins.
14. “Buffet of Goodness” / Channing Frye

Frye fékk sitt gælunafn vegna hversu grannur hann var á sínum yngri árum en það skipti ekki máli hversu mikið hann borðaði, maturinn hvarf bara og Frye þyngdist ekki. Pabbi hans tók því á það ráð að láta hann borða á “all you can eat buffets” í von um að Channing litli færi að þyngjast.
13. “The Owl without a Vowel” / Bill Mlkvy

Bill Mlkvy spilaði aðeins eitt tímabil í NBA en átti farsælan háskólaferil með Temple. Til að mynda skoraði hann 54 stig í röð fyrir Temple sem er enn met í dag. Gælunafnið kemur til vegna þess að hann spilaði fyrir Temple Owls og að enga sérhljóða er að finna í eftirnafni hans.
12. “Clark Kent” / Kurt Rambis

Dökkhærði rulluspilarinn með gleraugun sem spilaði með Hollywood liðinu Lakers? Auðvitað voru aðdáendur, lýsendur og fréttamenn fljótir að tengja saman Kurt Rambis og söguhetjuna Clark Kent. Rambis var í raun þjóðhetja en hægt var að kaupa eftirlíkingu af gleraugunum hans í minjagripabúð í The Forum.
11. “Candy Man” / Lamar Odom

Fjörkálfurinn og sprelligosinn Lamar Odom fékk sitt gælunafn einmitt vegna persónuleika sín og ást hans á nammi. Sögurnar segja að hann hafi alltaf borðað nammi í morgunmat á leikdegi og að hann þyrfti úrvals sælgætis í hótelherberginu sínu til að gæða sér á þegar hann vaknaði á næturnar.
10. “Durantula” / Kevin Durant

Verst að KD þolir þetta nafn ekki en það gerir það enn skemmtilegra. Durantula passar fullkomlega á hann þar sem hann er með granna og langa útlimi og er eitraður sóknarleikmaður.
Mark Durante, fyrrum trommari Public Enemy, kærði KD árið 2012 yfir nafinu sem hann var búinn að skrá sem vörumerki og er varið höfundarrétti. Nike notaði nafnið í skóherferð sinni en málið var leyst utan réttarsals.
9. “Frodo” / Luke Ridnour

Þarfnast engra útskýringa.
8. “Groundhog Day” / Tim Duncan

Charles Barkley á heiður af þessu gælunafni en Tim Duncan var einstaklega stabíll og samkvæmur sjálfum sér. Hann átti frábært nýliðaár og náði að endurtaka snilldina næstu 18 árin, allt með San Antonio Spurs og Gregg Popovich.
“The Groundhog Day” er kvikmynd með Bill Murray þar sem hann upplifir alltaf sama daginn aftur og aftur. Það var eitthvað sem mótherjar Duncan tengdu ábyggilega mjög vel við: Duncan að skóla menn hægri vinstri, að eilífu. Einkar vel til fundið hjá Barkley.
7. “Big Honey” / Nikola Jokic

Æðislegt nafn sem lýsir Nikola mjög vel. Jokic er silkimjúkur spilari sem er fastur í öðrum gír en flæði Jokic speglar flæði hunangs fullkomlega. Reyndar er Nikola ekki hrifinn af nafninu en hann lét þá skoðun sína í ljós á NBA TNT.
6. “Threezus” / Kyle Korver

Kyle Korver er sem stendur í fjórða sæti yfir flesta þrista á ferlinum (2,450) og í 10. sæti yfir bestu þriggja stig nýtingu (42,8%). Ástæðan fyrir nafninu er auðvitað staðreyndin að hann er ein skytta NBA sögunnar.
5. “White Chocolate” / Jason Williams

Jason Williams sagði Kevin Garnett í Area 21 að meðlimur almannatengsla (e. public relations) hafi komið með hugmyndina að nafninu og eftir það festist það við hann. Williams var einn mest spennandi leikmaður deildarinnar um skeið og var þekktur fyrir djarfan og hugmyndaríkan leikstíl sinn.
4. “Grocery List” / O.J. Mayo

Þetta nafn er bara hreinræktuð snilld. Ef þetta er að flækjast fyrir einhverjum þá er nafnið hans eins og innkaupalisti.
- Appelsínusafi
- Majónes
3. “Born Ready” / Lance Stephenson

Frami Lance Stephenson byrjaði þegar hann var 12 ára gamall að spila pikkup bolta með fullorðnum í Brooklyn, New York. Hann var gríðarlega bráðþroska og átti svakalegan feril hjá Lincoln High School þar sem lið hans vann fjóra borgartitla í röð. Hann er stigahæsti leikmaður high school sögunnar í New York fylki en gælunafnið spratt útfrá þessu.
2. “Vanilla Gorilla” / Joel Przybilla

Eitt skemmtilegasta gælunafn NBA sögunnar hlýtur að vera Vanilla Gorilla. Þriggja orða rím ef við tökum Przybilla með í jöfnuna og útkoman er glæsileg. Joel Przybilla er hvítur, hann er risastór og á það til að slá frá sér.
1. “White Mamba” / Brian Scalabrine

Brian Scalabrine mun líklega lifa að eilífu. Allavega mun minning hans gera það. Hann er mögulega frægasti aukaleikari NBA sögunar. Scalabrine leit aldrei út fyrir að vera NBA leikmaður en hann var alla tíð sjálfsöruggur og með virkilega gott körfubolta IQ. Uppáhald allra aðdáenda hvar sem hann steig niður fæti, Brian Scalabrine fann upp á gælunafninu sjálfur eftir að hafa séð Kobe Bryant/The Black Mamba auglýsingu. Hann bað Stacey King, lýsanda Chicago Bulls á þeim tíma, um að kalla sig þetta í útsendingu og viku seinna og þá var ekki aftur snúið.