Nú þegar það eru rétt innan við tvær vikur í fyrsta leik NFL tímabilsins, er vel við hæfi að birta riðlaspár Leikdags. Tímabilið byrjar 10. september með fyrsta fimmtudagsfótboltanum en þar mætast Ofurskálarmeistararnir frá Kansas City og Houston Texans.
Fyrir okkur á klakanum þýðir það 00:20 eftir miðnætti á splunkunýjum föstudegi.
Sjá AFC riðlaspá Leikdags!
NFC-megin verða krýndir tveir nýjir meistarar en Minnesota Vikings og Dallas Cowboys hafa sigur úr býtum í sínum riðlum, þrátt fyrir hetjulega samkeppni Green Bay Packers og Philadelphia Eagles.
Detroit Lions bæta sig töluvert með heilbrigðan Matt Stafford og hraustan T.J. Hockenson á meðan Chicago Bears sökkva hægt og rólega með Nick Foles og Mitch Trubisky við stýrið.
Samkeppnin eykst í vestrinu en lítið mun skilja á milli liðanna þar með framförum Kyler Murray á öðru ári og komu DeAndre Hopkins. Carolina Panthers og Washington Football Team gera tilkall til fyrsta valréttar í næsta nýliðavali.
