Deildarkeppnin 2019
Sigurhlutföll riðilsins á seinasta tímabili voru nákvæmlega eins og árið 2018. Uppröðun liðanna hélst nánast óbreytt en Tampa Bay og Carolina víxluðu sætum milli ára. Sjóræningjarnir eru nú með byr í seglum á meðan pardusdýrin sprengdu upp liðið sitt svo nú eru væntingar um árangur í Flórída á meðan Matt Rhule fær sinn tíma til að byggja liðið upp eftir sínu höfði.
New Orleans unnu riðilinn þriðja árið í röð á meðan Atlanta hefur skilað inn sigurhlutfalli undir 50% seinustu tvö tímabil. Fálkarnir eru að súpa seiðið af raunveruleikanum gráa en það verður fróðlegt að sjá hversu mikið er eftir á Ryan-Jones tanknum.


Aðalþjálfari: Sean Payton
Varnarþjálfari: Dennis Allen
Sóknarþjálfari: Pete Carmichael
Heimavöllur: Mercedes-Benz Superdome
Seinasta tímabil
New Orleans voru hreint út sagt frábærir í deildarkeppninni í fyrra og tóku efsta sætið í riðlinum með sannfærandi hætti. Þeir töpuðu aðeins þremur leikjum en þeir komu gegn Rams, Falcons og 49ers. Leikurinn gegn San Francisco var stórkostleg skemmtun og hlýtur að teljast besti leikur deildarkeppninnar 2019.
Saints fóru mest á sex leikja sigurgöngu en þrír sóknarleikmenn liðsins fengu yfir 90 í PFF einkunn – Ryan Ramczyk, Drew Brees og Michael Thomas. Athyglisvert var að sjá nýliðann Erik McCoy hrifsa byrjunarliðssæti og spila langt umfram væntingar. En hann var, ásamt Ramczyk, hluti af bestu sóknarlínu NFL sem gaf aðeins upp 22 sacks. Sá árangur var sá besti í NFL en meðaltal leyfðra sacks í deildinni í fyrra voru 40 stykki.
Sóknarlega voru New Orleans á eldi og enduðu með fjórða besta sókn deildarinnar samkvæmt DVOA skalanum frá Football Outsiders. Michael Thomas setti met yfir fjölda gripinna sendinga á tímabili en hann greip 149 bolta sem skiluðu liðinu 1725 jarda.
Drew Brees meiddist á kasthendi í öðrum leik tímabilsins þegar Aaron Donald sótti að honum en hann missti af fimm leikjum liðsins vegna þess. Teddy Bridgewater kom inn fyrir hann og vann alla fimm leikina sem hann byrjaði. Þar sannaðist enn og aftur mikilvægi þess að eiga til almennilegan vara leikstjórnanda en Bridgewater skilaði 9 snertimarkssendingum og 69.2% sendinga prósentu með tveimur töpuðum boltum.
Varnarlega voru Saints sterkir með 11. besta DVOA skorið. Línuvörðurinn Demario Davis og miðvörðurinn Marcus Williams áttu stórgott tímabil en Davis leiddi sína menn í tæklingum með 111, þar af 11 TFL, 12 sendingar varist og 4 sacks. Davis var valinn í fyrsta skiptið á ferlinum í All-Pro lið AP en hann er þrítugur og virðist vera að toppa á seinni hluta ferilsins.
Saints sigldu inn í úrslitakeppnina þar sem þeir mættu Minnesota Vikings í wild card umferðinni. Leikurinn fór í framlengingu en Vikings menn áttu lokaorðið og fóru áfram í næstu umferð með 26-20 sigri á heimavelli Saints manna. Sóknarlína Saints hélt ekki vatni í leiknum en Brees var sakkaður 3 sinnum og fumblaði boltann í eitt skiptið. Taysom Hill hélt New Orleans inn í leiknum þegar hann greip snertimarkssendingu frá Brees en hann átti líka tvö virkilega skemmtilegar hlaupatilraunir seinna í fjórða leikhluta. Kyle Rudolph batt síðan enda á tímabilið hjá Saints þegar hann greip snertimarkssendingu frá Cousins í framlengingunni.
Viðskiptaglugginn
Helsta fréttaumræðan varðandi New Orleans snérist um Drew Brees en hann kláraði sitt seinasta ár á samningi eftir seinasta tímabil. Hann tók sér tíma til að ákveða framtíð sína en skrifaði svo að lokum undir tveggja ára framlengingu, Saints aðdáendum til mikils léttis.
Skömmu áður en Brees skrifaði undir settu Saints 1. umferðar tender á Taysom Hill sem var einnig samningslaus. Hann fékk í kjölfarið framlengingu á tender árið ($4.8M) sem hljóðaði upp á $16.3M fyrir 2021. Það er ljóst að Sean Payton og co elska manninn og reikna má með því að sjá hann mikið meira notaðan í vetur.
Aðrar stórar viðbætur voru Emmanuel Sanders frá 49ers og Malcolm Jenkins frá Eagles. Jameis Winston tók á sig eins árs samning og mun verma tréverkið í vetur. Teddy Bridgewater rann út á samning og samdi við Panthers en New Orleans eru komnir með gríðarlega öflugt lið beggja megin boltans.
Komnir/Framlengdir
Leikmaður | Staða | Frá | Tegund |
---|---|---|---|
Drew Brees | QB | Framlenging | |
Taysom Hill | QB | Framlenging | |
Jameis Winston | QB | TB | Laus samningur |
David Onyemata | DT | Framlenging | |
Malcolm Jenkins | FS | PHI | Laus samningur |
Emmanuel Sanders | WR | SF | Laus samningur |
Andrus Peat | LG | Framlenging | |
P.J. Williams | CB | Framlenging |
Farnir
Leikmaður | Staða | Til | Tegund |
---|---|---|---|
Larry Warford | RG | Samningi rift | |
Teddy Bridgewater | QB | CAR | Laus samningur |
Vonn Bell | SS | CIN | Laus samningur |
A.J. Klein | LB | BUF | Laus samningur |
Eli Apple | CB | CAR | Laus samningur |
Nýliðavalið
New Orleans voru með svo sterkt lið á pappírum fyrir nýliðvalið að það var ekki nauðsynlegt að velja hina eða þessa stöðuna. Margir töldu líklegt að leikmenn á borð við Patrick Queen og Kenneth Murray yrðu fyrir valinu eða jafnvel útherji en sú varð ekki raunin.
Saints tóku sóknarlínumaninn Cesar Ruiz frá Michigan í fyrstu umferð. Ruiz spilaði senter fyrir Michigan en Saints völdu Erik McCoy í fyrra en hann átti glæsilegt tímabil í senternum hjá New Orleans á seinasta tímabili. Líklega mun Ruiz þá fylla í skarð Larry Warford í hægri verðinum en Saints riftu samningi við Warford fyrir stuttu.
Mickey Loomis stóð í ströngu yfir nýliðvalsdagana en Saints áttu ekki 2. umferðar valrétt í ár vegna skipta við Miami í fyrra. Loomis færði sig hærra upp í þriðju umferð til að velja Zack Baun og notaði í það valrétt sem hann fékk í viðskiptum við Cleveland. Loomis skipti síðan burtu öllum 3. dags valréttum sínum til að komast upp í restina á þriðju umferð þar sem hann valdi innherjann Adam Trautman.
Undir blálokin valdi hann leikstjórnandann Tommy Stevens eftir viðskipti við Houston þar sem Saints fengu 7. umferðar valréttinn sem var notaður í Stevens fyrir 6. umferðar valrétt á næsta ári.
Umferð | Leikmaður | Staða |
---|---|---|
1. umferð | Cesar Ruiz | Senter |
3. umferð | Zack Baun | Línuvörður |
3. umferð | Adam Trautman | Innherji |
7. umferð | Tommy Stevens | Leikstjórnandi |
Það er erfitt að ofpeppast yfir þessum árgangi Saints manna en maður þarf að berjast við að sofna ekki þegar litið er yfir þessi nöfn. New Orleans verða þó ekki sakaðir um að vanrækja sóknarlínuna sína seinustu ár og það er alltaf góðs viti. Líklega mun Zack Baun fá slatta af allskonar snöppum í vetur en hann er langt frá því að vera kynæsandi valréttur. Trautman sjáum við líklegast ekki mikið á vellinum fyrr en eftir 1-2 ár í fyrsta lagi.
Næsta tímabil
Allt annað en úrslitaleikur NFC verða vonbrigði fyrir New Orleans. Varnarlega eru Saints með þriðja besta árásateymið í NFL deildinni að mati PFF en Cam Jordan og Marcus Davenport manna það teymi. Reikna má með Gardner-Johnson í stærra hlutverki sem nickelback en hann spilaði 290 snöpp í slottinu í fyrra. Vonn Bell er farinn en Malcolm Jenkins mættur á nýjan leik til New Orleans og ætti að efla miðvarðarparið ásamt Marcus Williams sem er einn efnilegasti miðvörður deildarinnar.

Sóknarlega er erfitt að finna veikan punkt en hópurinn er virkilega vel mannaður og sóknin er eins og vel smurð díselvél. Þetta verður líklega síðasta tímabil Drew Brees sem virðist vera kominn með annan fótinn inn í frægðahöllina en það er erfitt að sjá hann ekki ennfrekar tryggja stöðu sína á toppi sendingajarda fjallsins.


Aðalþjálfari: Dan Quinn
Varnarþjálfari: Raheem Morris
Sóknarþjálfari: Dirk Koetter
Heimavöllur: Mercedes-Benz Stadium
Seinasta tímabil
Fyrir tímabilið var Dirk Koetter ráðinn sem sóknarþjálfari eftir að Steve Sarkisian var látinn taka pokann sinn eftir 2018 tímabilið. Einnig var varnarþjálfari liðsins Marquand Manuel látinn fara en Dan Quinn sá um stýra vörn liðsins framan af.
Tímabil Atlanta samanstóð af herfilegri byrjun en eftir fyrstu átta leikina höfðu þeir náð að skrapa saman í einn sigur og voru í frjálsu falli, virtist vera. Í leikviku níu áttu Falcons bye viku en það var einmitt þá sem Dan Quinn fól varnarstýringu liðsins í hendur Raheem Morris. Það virtist eitthvað smella saman við þá ákvörðun en liðið vann 6 af 8 síðustu leikjum tímabilsins. 7-9 sigurhlutfall staðreynd.
Sigurinn á New Orleans Saints, eftir bye vikuna, setti háu ljósin í gang og leikur liðsins snarbættist. Liðið endaði í öðru sæti riðilsins sem er í raun ótrúlegt miðað við holuna sem þeir voru búnir að grafa sér.
Hlaupaleikur liðsins var langt frá því að vera jákvæður en Devonta Freeman spólaði sig áfram 656 jarda á tímabilinu. Sökin fellur þó hinsvegar ekki alfarið á Freeman en sóknarlína Falcons manna var ekki upp á marga fiska en samkvæmt Football Outsiders endaði hún sem 24. besta línan í deildinni. Sagan er þó ekki öll sögð með þessum hætti en Falcons sendu boltann í 65,3% tilfella, mest allra liða, sem gefur hlaupaleiknum færri tækifæri til að sækja jarda. Þetta ákvarðast þó líklega af því að liðið hefur einn besta útherja sögunnar á samningi í bland við að vera með lélega sóknarlínu og bitlausa hlaupara.
Julio Jones var langbesti leikmaður Falcons á tímabilinu en útherjinn skilaði 1394 gripjördum og 6 snertimörkum á sínu níunda ári með félaginu. Matt Ryan stóð fyrir sínu sem og Jake Matthew og Calvin Ridley sem jafnaði grip og bætti jarda frá nýliðaári sínu, í þremur færri leikjum.
Eins og áður kom fram snarlagaðist varnarleikur liðsins eftir að Raheem Morris byrjaði að stjórna vörn liðsins en samkvæmt vigtuðum varnar DVOA upplýsingum Football Outsiders (weighted defense), þar sem fyrri helmingur tímabilsins vegur minna en seinni helmingurinn, voru Atlanta með 15. skilvirkustu vörnina í deildinni. Grady Jerrett var afburðagóður og stóð uppúr annars frekar bragðlausri vörn.
Viðskiptaglugginn
Atlanta Falcons endurnýjuðu ekki samninga við leikmenn sem hafa verið að spila stórar rullar fyrir klúbbinn síðustu 2-3 ár og þar fyrir utan riftu þeir samningi hlauparans Devonta Freeman sem hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann skrifaði undir $40M samning árið 2017. Austin Hooper, Vic Beasley, Desmond Trufant og De’Vondre Campbell voru á meðal þeirra leikmann sem yfirgáfu liðið en það virðist vera ákveðin tiltekt í gangi í Atlanta borg.
Thomas Dimitroff sótti sér síðan innherjann Hayden Hurst í skiptum við Baltimore Ravens en hann gæti reynst lúmsk viðbót. Hurst gæti átt mikið inni og sérstaklega í sendingaglöðum sóknarleik Matt Ryan og Falcons. Ravens hlupu boltanum liða mest í fyrra og svo fékk Mark Andrews langflest innherja target í sendingaleiknum. Hurst til Falcons gæti því komið á óvart, þó skiptin kveiki ekki nein innri ástarbál – allavega strax.
Fyrrum Rams leikmennirnir Dante Fowler og Todd Gurley skrifuðu undir hjá Falcons en það virðist sem deildin sé ekki tilbúin að afskrifa Gurley strax, þrátt fyrir óteljandi rauð flögg varðandi heilsu leikmannsins sem nær aftur til háskólaferils hans.
Komnir/Framlengdir
Leikmaður | Staða | Frá | Tegund |
---|---|---|---|
Hayden Hurst | TE | BAL | Skipti |
Dante Fowler Jr. | DE | LAR | Laus samningur |
Tyeler Davison | DT | Framlenging | |
Todd Gurley | RB | LAR | Laus samningur |
Allen Bailey | DE | Framlenging | |
Laquon Treadwell | WR | MIN | Laus samningur |
Farnir
Leikmaður | Staða | Til | Tegund |
---|---|---|---|
Devonta Freeman | RB | Samningi rift | |
Austin Hooper | TE | CLE | Laus samningur |
Desmond Trufant | CB | DET | Laus samningur |
Wes Schweitzer | G | WAS | Laus samningur |
Vic Beasley | DE | TEN | Laus samningur |
De’Vondre Campbell | LB | ARI | Laus samningur |
Adrian Clayborn | DE | CLE | Laus samningur |
Ty Sombrailo | T | TEN | Laus samningur |
Nýliðavalið
Falcons styrktu vörnina með fyrstu tveimur valréttunum sínum í nýliðavalinu 2020 þegar þeir völdu A.J. Terrell og Marlon Davidson. Terrell er bakvörður frá Clemson sem átti gott tímabil með tígrisdýrunum. Falcons menn endurnýjuðu ekki samning Desmond Trufant og kemur A.J. Terrell því líklega til með að spila slatta af snöppum í stða hans.
Marlon Davidson er stór og kraftmikill varnarlínumaður frá Auburn og fyrrum liðsfélagi Derrick Brown sem Carolina Panthers tóku með sjöunda pikki fyrstu umferðar.
Dimitroff heldur áfram að reyna að styrkja sóknarlínuna sína en hann valdi senterinn Matt Hennessy í þriðju umferð. Í fyrra valdi hann bæði vörðinn Chris Lindstrom og tæklarann Kaleb McGary í fyrstu umferð og því er ekki hægt að saka hann um að vanrækja þetta gríðarlega mikilvæga teymi.
Umferð | Leikmaður | Staða |
---|---|---|
1. umferð | A.J. Terrell | Bakvörður |
2. umferð | Marlon Davidson | Varnarendi |
3. umferð | Matt Hennessy | Senter |
4. umferð | Mykal Walker | Línuvörður |
4. umferð | Jaylinn Hawkins | Miðvörður |
7. umferð | Sterling Hofrichter | Pönter |
Fyrstu þrír valréttirnir eiga allir flottan möguleika á að spila góðan skerf af snöppum á komandi tímabili. Matt Hennessy gæti verið færður út í vörðinn þar sem Alex Mack mannar senterinn þetta tímabilið. Hann er þó á síðasta ári á samningi sínum og það virðist sem svo að Dimitroff hafi valið arftaka hans, ekki nema hann hugsi Hennessy sem vinstri vörð til framtíðar.
Næsta tímabil
Ég hef sterkan grun um að Atlanta Falcons muni eiga stöðugara tímabil í ár eftir kaflaskipt 2019 mót. Sóknin er sterk og þarf vörni að stíga upp í vetur ætli liðið sér einhverjar gloríur eftir að deildarkeppnin klárast.

Vörnin er algjörlega happa glappa. Grady Jarrett var stórkostlegur í fyrra en þeir þurfa annað svipað ár frá honum í ár. Bakverðirnir verða að öllum líkindum gríðarlega ungir og óreyndir, sem er ekki frábært þegar þú þarft að spila tvo leiki gegn Michael Thomas, Emmanuel Sanders, Mike Evans, Chris Godwin og D.J. Moore.
Tampa Bay eru búnir að styrkja sig allnokkuð svo baráttan um annað sætið í riðlinum gæti orðið epísk. Gurley þarf að haldast heill, Hurst þarf að sýna Matt Ryan að hann er traustsins verðugur og Keanu Neal þarf að haldast heill til að sýna Tom Brady og sjóræningjunum harða keppni um annað sæti riðilsins.


Aðalþjálfari: Bruce Arians
Varnarþjálfari: Todd Bowles
Sóknarþjálfari: Byron Leftwich
Heimavöllur: Raymond James Stadium
Seinasta tímabil
Tímabilið í fyrra var á margan hátt virkilega jákvætt fyrir félagið og stuðningsmenn þess. Bruce Arians kom inn með Todd Bowles og Byron Leftwich sem virkaði eins og innspýting fyrir klúbbinn. Jameis Winston var sendingaleiðtogi deildarinnar með 5,109 jarda sem var jafnframt áttundi besti árangur sögunnar. Mike Evans og Chris Godwin áttu báðir glæsileg ár, sérstakleg Godwin sem steig upp og sýndi og sannaði að héðan af þarf að taka hann alvarlega.
Einnig skoraði Bucs sóknin flest stig á einu tímabili í sögu félagasins. Í fyrsta skiptið var það leikmaður liðsins sem endaði sem sack kóngur deildarinnar en Shaq Barrett nældi sér í 19.5 sacks og bætti um leið sack met liðsins sem Warren Sapp átti.
Varnarlega voru þeir þó mögulega meira spennandi. Þeir voru besta lið deildarinnar gegn hlaupinu með Vita Vea og Ndamukong Suh fremsta í flokki. Lavonte David tók Devin White undir sinn verndarvæng og mega stuðningsmenn liðsins vera peppaðir fyrir næsta tímabili þeirra saman í línuverðinum. Á aftasta leveli varnarinnar voru þeir hinsvegar gríðarlega ungir óreyndir. Þrátt fyrir það stóð vörnin sig gífurlega vel og leiddu deildina í vörðum sendingum með 96 stykki. Þar spilaði inn í hin gríðarlega pressa sem árasateymi liðsins setti á leikstjórnendur andstæðinganna en þeir enduðu í fjórða sæti þar með 175 pressur.
Liðið var þó ekki nógu gott til að gera tilkall til úrslitakeppninnar þrátt fyrir fjögurra leikja sigurhrinu undir lok leiktíðar sem setti ýmsar vonir í gang.
Viðskiptaglugginn
Þetta var tröllvaxinn gluggi fyrir sjóræningjana en þeir lönduðu New England Patriots stjörnunum Tom Brady og Rob Gronkowski. Sú veiði hefur algjörlega kollverpt öllum væntingum stuðningsmanna liðsins og blásið nýjum byr í bæði segl.
Jason Licht notaði franchise-taggið á skyndiliðann frábæra, Shaq Barrett, en hann mun spila á tagginu í vetur þar sem samningar náðust ekki í tæka tíð fyrir skilafrest. Licht samdi einnig við Pierre-Paul til tveggja ára svo Buccaneers halda sínu árasateymi óbreyttu en varnarlína liðsins var eins sú besta í fyrra.
Liðið missti nokkra leikmenn en munu í raun ekki koma til með að sakna neins þeirra. Jameis Winston var leyft að ganga frá borði laus allra mála en hann skrifaði undir eins árs samning við New Orleans Saints og verður því nýr vara leikstjórnandi liðsins.
Komnir/Framlengdir
Leikmaður | Staða | Frá | Tegund |
---|---|---|---|
Tom Brady | QB | NE | Laus samningur |
Ndamukong Suh | DT | Framlenging | |
Jason Pierre-Paul | DE | Framlenging | |
Shaquil Barrett | OLB | Franchise tag | |
Rob Gronkowski | TE | NE | Skipti |
Farnir
Leikmaður | Staða | Til | Tegund |
---|---|---|---|
Jameis Winston | QB | NO | Laus samningur |
Carl Nassib | DE | LVR | Laus samningur |
Beau Allen | DT | NE | Laus samningur |
Demar Dotson | RT | DEN | Laus samningur |
Brashaud Perriman | WR | NYJ | Laus samningur |
Peyton Barber | RB | WAS | Laus samningur |
Nýliðvalið
Tampa fóru inn í nýliðavalið með stórt gat hægra megin á sóknarlínunni sinni. Demar Dotson sagði skilið við klúbbinn eftir 10 ára samstarf en hann hefur verið aðal hægri tæklari liðsins síðan 2012. Með fyrsta valrétti sínum völdu Buccaneers Iowa tæklarann Tristan Wirfs sem vakti athygli almennings fyrir nýliðavalið með frammistöðu sinni á NFL Scouting Combine.
Þeir héldu áfram að styrkja þriðja level varnarinnar í gegnum nýliðavalið þegar þeir völdu Antoine Winfield, miðvörð frá Minnesota. Faðir hans spilaði sem bakvörður í deildinni um árabil. Í þriðju umferð völdu þeir síðan hlauparann Ke’Shawn Vaughn frá Vanderbilt en hann kemur til með að keppast við Ronald Jones um byrjunarliðssæti á tímabilinu.
Umferð | Leikmaður | Staða |
---|---|---|
1. umferð | Tristan Wirfs | Sóknartæklari |
2. umferð | Antoine Winfield Jr. | Miðvörður |
3. umferð | Ke’Shawn Vaughn | Hlaupari |
5. umferð | Tyler Johnson | Útherji |
6. umferð | Khalil Davis | Varnartæklari |
7. umferð | Chappelle Russell | Línuvörður |
7. umferð | Raymond Calais | Hlaupari |
Ég er afskaplega skotinn í þessum árgangi Buccaneers en Winfield, Wirfs og Tyler Johnson voru allir ofarlega á óskalista mínum fyrir nýliðvalið. Það verður gaman að sjá hvaða tækifæri Tyler Johnson fær í sókn Bruce Arians en hann átti stórkostlegan feril hjá Minnesota. Hann er nokkuð stór en býr ekki yfir svakalegri sprengju og menn sjá hann fyrir sér sem stóran slot gríparar í NFL.
Næsta tímabil
Vörnin er orðin gríðarlega spennandi en ég held að það sé sóknin sem þurfi að halda í við vörnina í ár. Ég vona innilega að við fáum að sjá sprækt og eldfimt lið Tampa Bay í vetur, það myndi gera allri deildinni gott.

Á blaði lítur sóknarlið Tampa mjög vel út. Brady ætti að vera uppfærsla á Winston, Gronk er verðandi frægðahallarmeðlimur, línan er þétt og útherjahópurinn sterkur. En stóra spurningin er: Getur Tom Brady eitthvað?
Tom Brady átti ómerkilegt tímabil í fyrra og einhverntíman kemur að því að þetta verður vandræðalegt hjá honum. Það seinasta sem hann gerði á Patriots ferli sínum var að kasta frá sér boltanum í úrslitakeppninni sem tryggði Titans sigur. Robert Gronkowski hefur ekki spilað fótbolta í rúmt ár og á við þekkt bakmeiðsli að stríða.

Þetta skítlúkkar allavega á blaði.
Over/under línan frá Oddsshark er 9.5 fyrir Tampa og ég held ég taki undir. 9-7 er eitthvað sem ég gæti séð gerast en Tom Brady er í fyrsta skipti á ferlinum að koma inn í algjörlega nýtt umhverfi og þarf að læra fullt af nýjum hugmyndum, hugtökum og pælingum.

Framkvæmdastjóri: Marty Hurney
Aðalþjálfari: Matt Rhule
Varnarþjálfari: Phil Snow
Sóknarþjálfari: Joe Brady
Heimavöllur: Bank of America Stadium
Seinasta tímabil
Menn voru vongóðir um að eiga séns á úrslitakeppninni fyrir seinasta tímabil. Cam Newton virtist loks vera orðinn heill og með nokkuð heilbrigt sóknarteymi í kringum sig: McCaffrey, Moore, Samuel og Olsen. Varnarlega bættu þeir við sig Brian Burns og Gerald McCoy en Luke Kuechly var auðvitað á sínum stað á öðru leveli varnarinnar.
Eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins var ljóst að Cam Newton var alls ekki heill en liðið hafði tapað fyrir Rams og Buccaneers. Rivera setti Newton á bekkinn og inn kom Kyle Allen. Með Allen í ásnum unnu Panthers næstu fjóra leiki og alls fimm af fyrstu sex leikjunum sínum með Allen við stýrið. Allt í einu voru þeir komnir með 5-3 sigurhlutfall eftir viku 9 og allt virtist opið.
Panthers gjörsamlega molnuðu niður og töpuðu restinni af leikjunum sínu og enduðu tíambilið 5-11. Varnir andstæðinganna voru komin með nægilega mikið magn af leikefni til að átta sig algjörlega á Kyle Allen en aðal málið var þó að reyna að hægja á McCaffrey og fá Allen til að kasta meira.
Ron Rivera var rekinn en nýr eigandi félagsins, David Tepper, vildi hefja endurbyggingu á rekstri félagsins og fylgdu því aðstoðarmenn Rivera honum út um dyrnar.
Christian McCaffrey var langbesti leikmaður liðsins (19 snertimörk) en hann skilaði 1387 hlaupajördum ásamt 1005 gripjördum og varð um leið þriðji hlauparinn til að ná a.m.k 1000 grip- og hlaupajördum. Útherjinn D.J. Moore átti einnig glæsilegt tímabil en hann skilaði 1175 gripjördum og 4 snertimörkum.
Viðskiptaglugginn
Marty Hurney réð háskólaþjálfarann Matt Rhule sem aðalþjálfara liðsins en hans orðspor snýr að því að vera laginn að snúa prógrömmum við og byggja sterka klúbba frá grunni. Rhule fékk sjö-ára samning frá Panthers og ljóst er að Tepper og Hurney átta sig á því að góðir viðsnúningar taka tíma.
Stærstu aðgerðirnar í leikmannamálum voru að semja við hjarta liðsins, Christian McCaffrey, en margir klóruðu sér í hausnum yfir þeirri ákvörðun. Ekki vegna þess að CMC er ekki vel að samningnum kominn heldur vegna þess að í svona endurbyggingarferli er óskrifuð regla að þú byrjir ekki á því að gera risasamning við hlaupara. Oft eru þeir hreinlega leystir undan samningi séu einhverja upphæðir í spilinu.
Cam Newton var leystur undan samningi eftir tíu ára dvöl hjá félaginu. Dontari Poe og Gerald McCoy sömdu við Dallas, Greg Olsen fór til Seattle og James Bradberry til New York.
Hurney samdi við leikstjórnandann Teddy Bridgewater og útherjann Robby Anderson en sóknin er farin að líta nokkuð æsandi út. Joe Brady, fyrrum sendingaþjálfari LSU Tigers var ráðinn inn sem sóknarþjálfari liðsins en hann sló rækilega í gegn á seinasta tímabili þegar hann fékk mikið lof fyrir að smíða kastleik sem smellpassaði Joe Burrow.
Komnir/Framlengdir
Leikmaður | Staða | Frá | Tegund |
---|---|---|---|
Christian McCaffrey | RB | Framlenging | |
Robby Anderson | WR | NYJ | Laus samningur |
Teddy Bridgewater | QB | NO | Laus samningur |
Russell Okung | LT | LAC | Skipti |
Juston Burris | S | CLE | Laus samningur |
Tre Boston | S | Framlenging | |
Stephen Weatherly | DE | MIN | Laus samningur |
John Miller | G | CIN | Laus samningur |
Seth Roberts | WR | BAL | Laus samningur |
Eli Apple | CB | NO | Laus samningur |
Farnir
Leikmaður | Staða | Til | Tegund |
---|---|---|---|
Dontari Poe | DT | DAL | Laus samningur |
Eric Reid | S | Samningi rift | |
Kyle Allen | QB | WAS | Skipti |
Trai Turner | G | LAC | Skipti |
Cam Newton | QB | Samningi rift | |
James Bradberry | CB | NYG | Laus samningur |
Mario Addison | DE | BUF | Laus samningur |
Gerald McCoy | DT | DAL | Laus samningur |
Vernon Butler | DT | BUF | Laus samningur |
Greg Van Roten | G | NYJ | Laus samningur |
Greg Olsen | TE | SEA | Laus samningur |
Nýliðavalið
Fyrir nýliðavalið virtust holurnar í liði Panthers vera varnarmegin, leikstjórnandi og sóknarlína. Hurney og félagar skoðuðu lausa varnarmenn og ákváðu að velja þá alla. Þeir tóku aðeins varnarmenn í nýliðvalinu en það kom mörgum virkilega mikið á óvart þar sem þeir skiptu burt frá sér sóknarverðinum Trai Turner sem var einn þeirra besti leikmaður á línunni í fyrra.
Skrímslið Derrick Brown völdu þeir í fyrstu umferð en hann á séns á því að vera heljarinnar hausverkur í framtíðinni. Skyndiliðinn frá Penn State, Yetur Gross-Matos, var tekinn í næstu umferð sem og miðvörðurinn spennandi Jeremy Chinn.
Umferð | Leikmaður | Staða |
---|---|---|
1. umferð | Derrick Brown | Varnartæklari |
2. umferð | Yetur Gross-Matos | Skyndiliði |
2. umferð | Jeremy Chinn | Miðvörður |
4. umferð | Troy Pride | Bakvörður |
5. umferð | Kenny Robinson | Miðvörður |
6. umferð | Bravvion Roy | Varnartæklari |
7. umferð | Stantley Thomas-Oliver | Bakvörður |
Þetta verður að teljast virkilega sérstakt en þó áhugaverður árgangur. Margir flottir varnarmenn en spurningarmerkið er sett við þá ákvörðun að sleppa því að efla sóknarlínuna. Hún virkar nokkuð mjúk á mig eins og staðan er núna en Matt Paradis og Taylor Moton eru einu alvöru bellirnir í veggnum.
Næsta tímabil
Það er erfitt að vera bjartsýnn á komandi tímabil Panthers liðisins, jafnvel þótt að skemmtilegir og spennandi hlutir séu í pípunum. Matt Rhule og Joe Brady samstarfið verður áhugavert að fylgja eftir en Carolina gæti verið að rækta hrikalega sterkt varnarlið með Brian Burns og Derrick Brown fremsta í flokki. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Rhule notar Burns sem er léttur og lipur ytri línuvörður sem passar fullkomlega í hlutverk skyndiliða í 3-4 vörn. Rhule er að fara að keyra 4-3 vörn þar sem árásateymið af endunum er yfirleitt þyngra og sterkara en gerist í 3-4 vörn.

Ef allt kemur heim og saman á tímabilinu gætu Panthers þó strítt flestum liðum í deildinni. Þeir eru með lúmskan hóp en það þarf margt að ganga upp svo þeir verði í einhverri alvöru baráttu í vetur. Líklega yrði það fyrir bestu að fá háan valrétt í næsta nýliðavali og styrkja hópinn ennfrekar þannig.

Ég sé þá ekki koma sér af botni riðilsins en riðillinn hefur styrkst þó nokkuð frá því í fyrra. Mér fyndist þeir nokkuð góðir að ná sama sigurhlutfalli og í fyrra.