Líkt og seinustu tvö ár er nokkuð augljóst hvaða leikmaður verður tekinn með fyrsta valrétti komandi nýliðavals. Árið 2019 tóku Arizona Cardinals leikstjórnandann Kyler Murray frá Oklahoma, þrátt fyrir að hafa eytt púðri í að færa sig ofar í röðina árinu áður til að velja leikstjórnandann Josh Rosen frá UCLA. Í fyrra var það opið leyndarmál að Cincinnati Bengals tækju leikstjórnanda LSU, Joe Burrow, með fyrsta valrétti nýliðavalsins.
Á seinasta ári fór það ekki á milli mála hvaða leikmaður færi rakleiðis á eftir Joe Burrow, en það var auðvitað skyndiliðinn Chase Young frá Ohio State Buckeyes. Þess vegna var yfirleitt talað um að nýliðavalið myndi byrja með Detroit Lions valréttinum númer 3. Árinu áður voru tveir leikmenn sem komu til greina númer tvö fyrir San Francisco 49ers: Nick Bosa og Quinnen Williams.
Í ár þykir langflestum líklegast að leikstjórnandi Brigham Young Cougars, Zach Wilson, verði tekinn númer tvö af New York Jets en Jets tóku Sam Darnold númer 3 árið 2018 og virðast reiðubúnir (líkt og Cardinals) til að láta vaða aftur. Darnold þótti einn besti leikstjórnandi árgangsins en hefur lítið sýnt á þeim þremur árum sem hann er með undir beltinu. Darnold spilaði undir álögum Adam Gase og gæti því sprungið út á sínum næsta áfangastað, líkt og Ryan Tannehill gerði hjá Tennessee Titans.
Niners hleypa nýju lífi í umræðuna
26. mars, stuttu eftir 17, fengum við fregnir af því að John Lynch og Chris Grier hafi náð samkomulagi um valréttaskipti. Fréttirnar hristu vel upp í draftheiminum sem var orðinn skrjáfaþurr og loftlaus en það var eins og einhver hafi opnað gluggann í dimmu og loftlausu herbergi.
Lýðurinn var varla búinn að tyggja og kyngja fyrri bombunni þegar sú seinni lenti og kveikti bál undir allri senunni sem kepptist við að kreista fram greiningar og getgátur – skiljanlega. Því það fyrsta sem þú gerir þegar einhver opnar gluggann inní loftlausu rými er að draga andann.
Sögur herma að Philadelphia hafi haft áhuga á að færa sig upp í þristinn frá Miami til að tryggja sér Zach Wilson. Hinsvegar gekk það ekki upp en líklega var það vegna þess að Eagles höfðu veður af því að ekkert annað en Wilson kæmi til greina með valrétti númer 2.
Eagles skiptin gefa okkur vísbendingu um að hvorki Lance, Fields né Jones séu nægilega góðir í þeirra augum og að Jalen Hurts verði aðalleikstjórnandi liðsins í vetur. Enn getur margt gerst og ekki er loku fyrir það skotið að Sam Darnold endi í Philadelphia.
Dolphins halda áfram að spila valréttalottóið
Fyrir lætin áttu Miami Dolphins valrétt 3, sem fékkst frá Houston Texans í Laremy Tunsil skiptunum 2019, og valrétt 18 í fyrstu umferð nýliðavalsins. Mikið hefur verið rætt um framtíð Tua Tagovailoa en sú umræða hefur verið ofin efasemdum um ágæti leikmannsins en aðgerðir Chris Grier, framkvæmdastjóra liðsins, benda til þess að félagið beri fullt traust til leikstjórnandans og eitthvað allt annað en leikstjórnandi sé í sigtinu með fyrri 1. umferðar valréttinum.
Embed from Getty ImagesGrípararnir Kyle Pitts, Ja’Marr Chase, Jaylen Waddle og DeVonta Smith ásamt tæklaranum Penei Sewell hafa verið sterklega orðaðir við Dolphins en Waddle og Smith eru fyrrum liðsfélagar Tagovailoa hjá Alabama háskólanum. Eftir að Miami færðu sig frá þristnum niður í tólfuna, komu þeir sér rakleiðis aftur í tæri við ofangreinda leikmenn og stóðu uppi með einn auka 1. umferðar valrétt (frá 49ers, 2023) en trúlega enn með sömu valþrána.
Jones, Lance eða Fields?
Almennt séð hefur Justin Fields, leikstjórnandi Ohio State, verið talinn bestur af hópnum og lengi vel var hann talinn sá næstbesti á eftir Trevor Lawrence.
*Zach Wilson has entered the chat*
Síðan þá hefur Wilson gerheillað NFL heiminn og hrifsað annað sætið af Fields sem hefur misst lappirnar í umræðunni undanfarið. Á seinustu misserum hefur fylgi Trey Lance vaxið gríðarlega og virðast menn reiðubúnir til að taka sénsinn á honum líkt og Buffalo Bills gerðu með Josh Allen árið 2018. Lance hefur þó aðeins spilað eitt heilt keppnistímabil með NDSU sem spilar í Missoury Valley Conference sem er almennt talin frekar veik háskóladeild. Hann virðist vera fullkomið val fyrir lið sem er reiðubúið að leyfa stráknum að sitja á hliðarlínunni í ár eða tvö, líkt og Green Bay Packers eru að gera með Jordan Love.
Embed from Getty ImagesEf eitthvað er að marka tíst frá Adam Schefter, þá gæti það farið svo að San Francisco kjósi að halda Jimmy Garoppolo sem aðalleikstjórnanda sínum en við erum á þeim tímapunkti í nýliðavalsveröldinni að best er að trúa sem minnstu af því sem kastað er út í kosmósinn.
En er æskilegt að eyða öllu þessu púðri til að koma sér upp í þriðja valréttinn ef þú ætlar síðan ekki að spila leikmanninum frá fyrsta degi? Er ekki aðal aðdráttarafl leikstjórnanda á nýliðasamningi það, að einfalt og þægilegt er að byggja upp lið í kringum hann? Og hvers vegna myndiru þá eyða einu árinu í ekki neitt? Gæti verið að 49ers séu hræddir við Justin Fields vegna þess hve einföld sóknin er hjá Ohio State og hve illa Washington voru blekktir af fyrrum Ohio State leikstjórnandanum Dwayne Haskins? Hver veit.
Embed from Getty ImagesÞað er hinsvegar afar áhugavert að sjá fréttaflutning þess efnis að John Lynch og Kyle Shanahan ætla að velja að mæta á Pro Day Alabama í stað Ohio State. Þar sleppa þeir tækifærinu á að fylgjast með Justin Fields og kjósa heldur að skoða Mac Jones nánar.
Það sem Trey Lance og Justin Fields hafa umfram Mac Jones, er hæfileikinn til að sækja jarda með löppunum og vinna fyrir utan strúktúr. Mac Jones átti stórkostlegt ár með Alabama þar sem hann kastaði á 77.4% sendingaheppnun, 4500 jarda og átti 41 snertimarkssendingu. Jones, líkt og Tagovailoa á undan honum, naut góðs af afbragðs sóknarlínu, bestu þjálfun í landinu og öflugasta vopnabúri allra liða (J. Waddle, D. Smith & J. Metchie). Liðið hans tapaði ekki leik á tímabilinu og vann Ohio State með 28 stigum í úrslitaleik háskólaboltans. Hann þrífst vel í hreinum vasa með opna útherja til allra átta. Draumastaða ekki satt?
Helstu spurningamerkin við Mac Jones snúa að hreyfanleika leikmannsins, hæfileikanum til að halda sókn lifandi og skapa umfram hönnunar og hæfni hans til að takast á við mótlæti inná vellinum.
Embed from Getty ImagesDagarnir fram að nýliðavalinu gætu gefið okkur vísbendingar um í hvaða átt Lynch og Shanahan fara þegar að stóru stundinni kemur, en þangað til getum við ekkert gert nema beðið og talið niður dagana.