Í ljósi þess að það eru rétt rúmir 157 dagar þangað til að nýliðaval NFL deildarinnar árið 2021 fer fram og aðeins örfáir dagar þar til önnur útgáfa platvals Leikdags lítur dagsins ljós er ekki vitlaust að skoða betur nýjasta árgang verðandi NFL leikmanna.
Það er óþarfi að orðlengja áhrif heimsfaraldursins á NFL og háskólatímabilið en fjölmargir íþróttanemendur hafa kosið að sitja hjá og margir þeirra farið rakleiðis í nýliðavalsundirbúning. Jordan Reid hjá TDN sér nýjasta árganginn svona:
Fyrir neðan er listi af leikmönnum, flokkuðum eftir leikstöðu, sem sérfræðingar vestanhafs hafa rætt mikið um að eigi möguleika á að vera valdir í fyrstu umferð valsins. Stjarna fyrir aftan nafnið merkir að leikmaðurinn hafi ákveðið að sitja hjá, annað hvort í upphafi tímabils eða á miðju tímabili. Einnig er vert að taka fram að fjölmargar deildir innan D1 landslagsins kusu að hefja ekki keppni í ár sökum covid. Þeir leikmenn sem spila innan þessara deilda eru ekki sérstaklega merktir. Trey Lance, leikstjórnandi North Dakota State University er einn þessara leikmanna.
Leikstjórnendur
Embed from Getty ImagesTrevor Lawrence – Clemson
Justin Fields – Ohio State
Zach Wilson – BYU
Trey Lance – NDSU
Kyle Trask – Florida
Mac Jones – Alabama
Leikstjórnenda árgangurinn í ár er virkilega spikaður að ofanverðu en Trevor Lawrence og Justin Fields eru gjörsamlega frábærir. Zach Wilson hefur verið Joe Burrow ársins í ár því með magnaðri frammistöðu hefur hann skotist upp styrkleikalistana. Trey Lance skapaði sér nafn á síðasta tímabili en á aðeins 16 leiki að baki í háskóla og mun því viðstöðulaust vera borinn saman við Dwayne Haskins, Mitch Trubisky eða Cam Newton, sem spiluðu allir aðeins eitt tímabil sem byrjunarliðsmenn á sínum tíma. Fastlega er reiknað með því að þessir fjórir fari í fyrstu umferð.
Kyle Trask fékk sinn séns í fyrra þegar Feleipe Franks var borinn meiddur af velli. Síðan þá hefur hann verið sjóðheitur í bílstjórasæti University of Florida en í þeim 18 leikjum sem hann hefur byrjað hefur hann sent 53 snertimarkssendingar, 68% sendingaheppnun og aðeins sent 10 tapaðar sendingar. Mac Jones tók við Alabama stýrinu eftir að Tua Tagovailoa var valinn í síðasta nýliðavali og hefur opnað augu margar. Í þeim sex leikjum sem Alabama hafa spilað í ár hefur Jones boðið uppá 78,5% sendingaheppnun, 16 snerimarkssendingar og aðeins tvær tapaðar. Hann á þó ábyggilega minnstar líkur á að vera tekinn í fyrstu umferð af fyrrnefndum leikmönnum.
Hlauparar
Embed from Getty ImagesTravis Etienne – Clemson
Najee Harris – Alabama
Það virðist vera heldur fámennur hópur hlaupara sem nýliðavalssérfræðingar telja að verði teknir í 1. umferð. Hvort það sé í takt við rísandi skoðun margra um verðgildi hlaupara svo snemma í valinu eða hvort það sé í raun endurspeglun gæðanna er erfitt að segja. Líklega er það blanda af báðu.
Travis Etienne bakkaði út úr síðasta nýliðavali og ákvað að taka annað ár í háskóla en það er nánast einróma álit spekúlanta að hann sé besti hlaupari árgangsins. Etienne býr yfir gífurlegum sprengikrafti og hröðun og hefur hlaupið yfir 1600 jarda seinustu tvö tímabil. Najee Harris hætti sömuleiðis við að gefa kost á sér í fyrra og snéri aftur til Nick Saban og Alabama. Harris er stærri, þyngri og sterkari leikmaður sem svipar vissulega til Derrick Henry að burðum þó Henry sé örlítið stærri og þyngri.
Útherjar
Embed from Getty ImagesJa’Marr Chase* – LSU
Jaylen Waddle – Alabama
DeVonta Smith – Alabama
Rashod Bateman – Minnesota
Terrace Marshall Jr. – LSU
Rondale Moore – Purdue
Í fyrra voru sex útherjar teknir í 1. umferð en margir töluðu um að 2020 árgangurinn væri mögulega sá spikaðasti í langan, langan tíma. Það væsir ekki um stuðningsmenn leikstöðunnar í ár en Ja’Marr Chase og Jaylen Waddle gefa Henry Ruggs, Jerry Jeudy og CeeDee Lamb ekkert eftir. Báðir geta þvingað varnir til að fókusa á sig sem opnar í kjölfarið fyrir aðra samherja. DeVonta Smith, samherji Waddle (sem ökklabrotnaði fyrir stuttu), bætti snertimarksgripamet SEC deildarinnar þegar hann greip sitt 32 snertimark á háskólaferlinum. Þar með komst hann upp fyrir Amari Cooper sem greip 31 snertimark á sínum Alabama ferli. Smith er einnig frábær útherji sem hefur verið ákaflega áreiðanlegur en mætti alveg við því að kjöta sig svolítið upp fyrir komandi átök í NFL deildinni.
Restin af útherjunum sjáum við svo líklega fara í seinni helmingi 1. umferðarinnar eða í byrjun 2. umferðar. Auðvitað getur margt breyst í millitíðinni en þetta er svona þessir helstu útherjar sem njósnarar eru hrifnir af.
Innherjar
Embed from Getty ImagesKyle Pitts – Florida
Pat Freiermuth – Penn State
Undanfarin 16 ár höfum við séð 15 innherja tekna í 1. umferð nýliðavalsins. Í fyrra var enginn slíkur valinn en árið á undan sáum við Iowa liðsfélagana T.J. Hockenson og Noah Fant tekna í 1. umferð. Í ár er pottþétt að við sjáum allavega einn innherja valinn. Kyle Pitts, leikmaður Florida Gators, er yfirleitt talinn topp 10 leikmaður í þessu nýliðavali. Hann er frábær íþróttamaður og stórkostlegur í hlutverki grípara. Menn hafa verið að ræða það hvort lið hreinlega líti á hann sem útherja.
Pat Freiermuth mun líklega daðra við 1. umferðina en hann er ekki eins mikil ófreskja og Pitts en það mætti segja að hann væri heildrænni leikmaður. Freiermuth á snertimarkamet innherja hjá Penn State en hann er í raun góður á öllum sviðum.
Tæklarar
Embed from Getty ImagesPenei Sewell* – Oregon
Christian Darrisaw – Virginia Tech
Rashawn Slater* – Northwestern
Alex Leatherwood – Alabama
Samuel Cosmi – Texas
Jalen Mayfield – Michigan
Liam Eichenberg – Notre Dame
Dillon Radunz – NDSU
Sóknartæklarar eru gríðarlega mikilvægir og framboð góðra tæklara annar ekki eftirspurn NFL liða. Seinustu tvö ár höfum við séð 10 tæklara tekna í 1. umferð en engin önnur leikstaða hefur verið valin jafnoft í dýrmætustu umferðinni. Penei Sewell er langsverasti bitinn á markaðinum en hann situr hjá þetta háskólatímabilið. Sewell hefur alla burði til að verða besti tæklari deildarinnar frá fyrsta degi en svo vel tala spekingar um piltinn. Restin af leikmönnunum hér að ofan raðast fyrir aftan Sewell en misjafnt er hvar sérfræðingar sjá þessa leikmenn. Rashawn Slater hefur einnig kosið að bíða af sér tímabilið en nokkrir fræðingar sjá hann frekar fyrir sér sem vörð í NFL deildinni.
Innri sóknarlína
Embed from Getty ImagesWyatt Davis – Ohio State
Alijah Vera-Tucker – USC
Creed Humphrey – Oklahoma
Josh Myers – Ohio State
Trey Smith – Tennessee
Í samhengi síðustu sextán ára hafa 1,87 innri sóknarlínumenn verið valdir í 1. umferð að meðaltali. Í seinasta nýliðavali sáum við New Orleans Saints nota sinn fyrsta valrétt (nr. 24) í senterinn Cesar Ruiz frá Michigan. Creed Humphrey og Josh Myers spila senter af leikmönnunum hér að ofan á meðan restin spilar vörð. Wyatt Davis er nánast alltaf talinn besti leikmaðurinn úr hópnum og Alijah Vera-Tucker er líklega fjölhæfasti leikmaðurinn en hann hefur verið að spila vinstri sóknartæklara fyrir USC undanfarið vegna meiðsla. Trey Smith fékk blóðtappa í lungu í febrúar 2018 sem lætu aftur á sér kræla í október sama ár. Hann spilaði vel í fyrra en hefur ekki náð sömu hæðum í ár. Líklega verða NFL forráðamenn nógu hræddir við sjúkrasögu Smith til að hann falli úr 1. umferðar umræðunni.
Innri varnarlína
Embed from Getty ImagesMarvin Wilson – Florida State
Christian Barmore – Alabama
Jay Tufele* – USC
Samkvæmt Jordan Reid og tístinu hans hér efst á síðunni, þá er þessi árgangur innri varnarlínumanna veikur. Aðrir nýliðavalssérfræðingar virðast sammælast þeirri athugasemd. Þessir þrír leikmenn birtast yfirleitt í einhversskonar mynstri á draft töflum spekinga en þó yfirleitt á 25-50 svæðinu. Undanfarin ár höfum við séð jarðýtur á borð við Jeffrey Simmons, Quinnen Williams og Derrick Brown í 1. umferð en það virðist ekki vera nein hætta á slíkum gæðum í næsta vali.
Skyndiliðar
Embed from Getty ImagesGregory Rousseau* – Miami
Kwity Paye – Michigan
Joseph Ossai – Texas
Azeez Ojulari – Georgia
Jayson Oweh – Penn State
Aidan Hutchinson – Michigan
Carlos Basham Jr. – Wake Forest
Hamilcar Rashed Jr. – Oregon State
Það er hérna sem maður verður pínu spenntur. Fyrir nokkrum mánuðum var í raun bara einn skyndiliði sem sérfræðingar virtust vera nógu hrifnir af til að vera valinn í 1. umferð, Gregory Rousseau. Eftir að háskólatímabilið fór af stað hafa fjölmargir skyndiliðar tekið við sér og skilað inn frábærum frammistöðum. Kwity Paye, Joseph Ossai og Azeez Ojulari hafa þvingað sér í umræðuna undanfarið með spilamennsku sinni en þar sem leikstaðan er ein eftirsóttasta leikstaða amerísks fótbolta gætum við séð Oweh, Hutchinson, Basham Jr og Rashed Jr blanda sér í umræðuna í seinni helming 1.umferðar.
Línuverðir
Embed from Getty ImagesMicah Parsons* – Penn State
Jeremiah Owusu-Koramoah – Notre Dame
Dylan Moses – Alabama
Nick Bolton – Missouri
Zaven Collins – Tulsa
Það er nokkuð ljóst að margt hefur breyst með línuvarða árganginn frá því í sumar. Reyndar trónir Micah Parsons enn á toppinum en það gæti verið besti línuvörður nýliðavalsins síðan 2012 þegar Luke Keuchly, Bobby Wagner og Lavonte David voru valdir. Hinsvegar erum við að sjá upprisu félaganna Jeremiah Owusu-Koramoah og Zaven Collins, sem hafa með frammistöðu sinni komið sér í 1. umferðar umræðuna á meðan Dylan Moses hefur ekki náð að fylgja eftir sterku 2019 tímabili sínu fyrir Alabama.
Línuvarða árgangurinn í ár er nokkuð öflugur þegar tekið er mið af fyrstu 2-3 umferðunum en líklegt þykir þó að við sjáum í mesta lagi fjóra línuverði tekna með fyrstu 32 valréttunum. Á síðustu 16 árum hafa mest verið valdir 5 línuverðir í fyrstu umferð nýliðavalsins en það var árið 2006. Þegar talað er um línuverði þá er ekki verið að tala um Khalil Mack, Von Miller og aðra þeim líka, sem vissulega eru flokkaðir sem ytri línuverðir heldur off-ball línuverði (línuverðir sem spila ekki á varnarlínu).
Bakverðir
Embed from Getty ImagesPatrick Surtain II – Alabama
Caleb Farley* – Virginia Tech
Jaycee Horn* – South Carolina
Derion Kendrick – Clemson
Eric Stokes – Georgia
Shaun Wade – Ohio State
Tyson Campbell – Georgia
Asante Samuel Jr. – Florida State
Í þessum myndarlega hópi bakvarða eru tveir sem eru nýjir stöðunni. Caleb Farley spilaði sem leikstjórnandi í high school. Derion Kendrick er fyrrum útherji og leikstjórnandi sem var fenginn til Clemson til að spila útherja. Það gerði hann fyrsta árið sitt en nauðsyn gerði það að verkum að Kendrick leysti af sem bakvörður á öðru ári sínu og þar við sat. Hann er afskaplega hrár sem bakvörður eins og gefur að skilja en hann hefur vakið athygli njósnara með leik sínum í vörninni.
Patrick Surtain II og Jaycee Horn eiga báðir feður sem spiluðu í NFL deildinni og eiga því ekki langt að sækja hæfileikana og bera líklega með sér allskonar vitneskju sem aðrir bakverðir gera ekki. Shaun Wade bakkaði út úr seinasta nýliðavali til að taka annað tímabil með Ohio State og efla hlutabréf sín. Hann spilaði einvörðungu úr slottinu hjá Buckeyes í fyrra en hefur nú fengið að spreyta sig úti á kanti með misjöfnum árangri.
Miðverðir
Embed from Getty ImagesTrevon Moehrig – TCU
Jevon Holland* – Oregon
Miðað við umræðuna um komandi miðvarða árganginn er ólíklegt að við sjáum miðvörð valinn í 1. umferðinni. Sérfræðingar telja árganginn nokkuð sterkan þó það vanti spaða ása í hann. Óljóst er hverjir muni enda á toppi draft tafla þegar dagurinn stóri rennur upp en Trevon Moehrig og Jevon Holland eru nöfn sem sjást iðulega í þeirri umræðu. Einnig er vert að nefna Paris Ford hjá Pittsburgh og Ar’Darius Washington sem spilar fyrir TCU, líkt og Moehrig.
Samantekt á leikstöðu valréttum 1. umferðar síðustu 16 ár

Á myndinni hér að ofan sjáum við hvernig NFL liðin 32 hafa notað valrétti sína, eftir leikstöðum, í 1. umferð seinustu 16 nýliðavala. Skyndiliðar (77) eru langeftirsóttasta leikstaðan en á eftir henni koma sóknartæklarar (62) og bakverðir (62). Litirnir fyrir aftan tákna styrkleika (grænt), veikleika (rautt) og toppþyngd (gult) að mati Jordan Reid hjá The Draft Network.