Nú þarf að klóra sér hressilega næstu 10 dagana til að seðja NFL kláðann en 28. febrúar hefst NFL Combine vikan þar sem 324 vongóðum háskólaleikmönnum hefur verið boðið að mæta til Indianapolis og spreyta sig á allskonar æfingum og mælingum. Hugmyndin um að endurvelja 1. umferð 2019 nýliðavalsins er tilraun til að slá á kláðann sem endalok NFL tímbilsins færa hverjum og einum áhugamanni – hvort sem honum líkar betur eða verr.
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan í apríl 2019 og þessi árgangur hefur nú spilað þrjú heil tímabil í deildinni. Eins og alltaf, þá fengum við að sjá nokkra sjokkerandi valrétti (Clelin Ferrell, Daniel Jones & L.J. Collier) og að sjálfsögðu leyndust nokkrir gullmolar í umferðum 2 og 3 sem fá hér uppreist æru og verða valdir í 1. umferð þessa afturvals.
Það fór fram fjöldinn allur af valréttaviðskiptum í 1. umferð en í þessari tilraun verða þau ekki dregin til baka og því verður valröðin nákvæmlega sú sama og raun bar vitni.
1. Arizona Cardinals – Kyler Murray, QB
Ekkert sem kemur á óvart hér, þetta var rétta pikkið á sínum tíma hjá Steve Keim og Cardinals.
2. San Francisco 49ers – Nick Bosa, EDGE
Annað rothögg af valrétti. Fullt hús stiga til John Lynch og 49ers.
3. New York Jets – Jeffery Simmons, DT
Fyrsta breytingin á sér stað hér en það er svosem ekki mikið hægt að setja út á Quinnen Williams sem tekinn var með þessum valrétti. Virkilega gott pikk en Simmons er að mínu mati aðeins betri leikmaður.
4. Oakland Raiders – Maxx Crosby, EDGE
Það er fyndið frá því að segja en Crosby var 4. umferðar valréttur liðsins árið 2019 og hefur aldeilis stimplað sig inn sem einn besti varnarendi deildarinnar. Hann var algjörlega óþreytandi af brúninni í vetur þó fellufjöldinn hafi ekki endilega dottið með honum. Clelin Ferrell var raunverulegt val Raiders hérna.
5. Tampa Bay Buccaneers – Deebo Samuel, WR/RB
Þetta er mögulega fullhátt að margra mati fyrir útherja en Samuel er bara svo fjári öflugur og fjölhæfur spilari að notkun valréttsins réttlætist fullkomlega. Hvernig ætlaru á annað borð að stöðva Mike Evans, Chris Godwin og Deebo Samuel?
Devin White var raunverulegt val Bucs hérna og hefur gert gríðarlega vel – ekki mikið útá þá ákvörðun að setja.
6. New York Giants – Quinnen Williams, DT
Hér með leiðréttist mistök Dave Gettleman sem tók stjórnandann Daniel Jones á þessum stað fyrir þremur árum, öllum til mikillar furðu. Quinnen Williams verður án efa einn af bestu varnartæklurum deildarinnar um ókomin ár með Jeffery Simmons. Hér endar hann hjá nágrönnunum.
7. Jacksonville Jaguars – A. J. Brown, WR
Annar útherji fer hér í topp 10 og réttilega. Brown er stórkostlegur útherji sem hefði með réttu átt að fara mikið ofar en í valrétti 51. Raunverulegt val Jaguars var skyndiliðinn Josh Allen.
8. Detroit Lions – D. K. Metcalf, WR
Lions tóku hér T. J. Hockenson, innherja frá Iowa, sem hefur svosem gert ágætis hluti en hefur þó alls ekki náð að réttlæta topp 10 sæti sitt í árganginum. Metcalf, eins og Brown, var tekinn í 2. umferð en þó með síðasta valréttinum (64) og fer hér á þeim stað sem allir héldu að hann myndi gera á sínum tíma – í topp 10.
9. Buffalo Bills – Devin White, LB
Það eru ekki margar línuverðir sem geta réttlætt stað sinn á topp 10 í nýliðavali deildarinnar en Devin White er svo sannarlega á góðri leið með að gera það. Í raunveruleikanum tækju Bills aldrei annan línuvörð í 1. umferð en árið 2018 tóku þeir Tremaine Edmunds nr. 16 svo þessi valréttur er afar hæpinn. Markmiðið er samt sem áður að undirstrika gæði White og leyfa ímyndunaraflinu að leika við sig en Edmunds & White á öðru leveli varnarinnar væri rosaleg pörun!
10. Pittsburgh Steelers – Brian Burns, EDGE
Steelers færðu sig upp valröðina, frá valrétti 20, til að sækja línuvörðinn Devin Bush en sú ákvörðun lítur ekkert sérstaklega vel út í dag. Hér taka þeir í staðinn skyndiliðann Brian Burns sem er orðinn mjög fær kastpressari í deildinni og hefði myndað hrikalega ógnvænlegt dúó með T. J. Watt.
11. Cincinnati Bengals – Josh Allen, EDGE
Raunverulegt val Bengals liðsins var tæklarinn Jonah Williams en sá hefur verið mikið meiddur og missti til að mynda af öllu nýliðaárinu sínu ásamt því að missa af 6 leikjum árið 2020. Ég gef þeim hér Josh Allen í staðinn sem hefur sjálfur glímt við meiðsli en er kominn með 20,5 fellur og 48 QB hits á þremur árum.
12. Green Bay Packers – Terry McLaurin, WR
Packers tóku varnarendann Rashan Gary þrátt fyrir að vera með Preston og Za’Darius Smith á risasamningum. Gary hefur vissulega stigið hressilega upp í ár en fyrstu tvö tímabilin fékk hann fáa sénsa. Í staðinn ætla ég að bjóða þeim upp á McLaurin til að taka pressuna af Davante Adams og gefa Aaron Rodgers fleiri vopn til að vinna með. Getiði ímyndað ykkur Packers sóknina með Rodgeres, Jones, Adams og McLaurin?
13. Miami Dolphins – Rashan Gary, EDGE
Dolphins fá hér Gary sem var gríðarlega góður valréttur í mínum huga hjá Packers en til að krydda aðeins uppí þessari æfingu ákvað ég að reyna að gefa liðunum ekki of oft þann leikmann sem þau tóku raunverulega. Dolphins eru að öllum líkindum mjög sáttir með Christian Wilkins valið sitt frá 2019 en fá hér framtíðar kastpressara sem virðist vera á góðri leið að vera að fara að taka yfir NFC deildina.
14. Atlanta Falcons – Christian Wilkins, DT
Wilkins er búinn að sanna sig sem frábær varnartæklari sem getur hvorutveggja stoppað hlaupið og sett pressu á stjórnendur upp miðjuna. Raunverulegt val Falcons var Chris Lindstrom.
15. Washington Redskins – Elgton Jenkins, OL
Hérna tóku áðurnefndir Redskins stjórnandann Dwayne Haskins sem nú er QB3 hjá Steelers. Jenkins hefur verið frábær á línunni hjá Packers og þurfti að leysa af í vinstri tæklaranum í fjarrveru David Bakhtiari og leysti hann það af stakri snilld. Senter að upplagi sem getur í raun spilað hvaða stöðu sem er á línunni.
16. Carolina Panthers – Montez Sweat, EDGE
Raunverulegt pikk Panthers liðsins var Brian Burns, sem ég sendi til Pittsburgh með valrétti 10. Í staðinn fá þér annan varnarenda, Montez Sweat, sem hefur gert góða hluti á varnarlínu Commanders undanfarin þrjú ár og myndar eina mest spennandi tvennu deildarinnar ásamt Chase Young.
17. New York Giants – T. J. Hockenson, TE
Þrátt fyrir að hafa kannski ekki staðið þráðbeinn undir væntingum Lions manna, að þá hefur Hockenson margt til brunns að bera. Hann var tekinn númer 8 í nýliðavalinu 2019 og fellur því um nokkra rassa í þessu afturvali. Upprunalegt val Giants með þessum valrétti var Dexter Lawrence.
18. Minnesota Vikings – Erik McCoy, OC
Vikings nýttu þennan valrétt í senterinn Garrett Bradbury en hefðu betur átt að taka McCoy sem fór til Saints í 2. umferð. McCoy er búinn að vera einn af 10 bestu senterum deildarinnar síðan hann mætti á svæðið.
19. Tennessee Titans – Dexter Lawrence, DT
Titans fá hér tappa í miðja vörn sína með tilkomu Dexter Lawrence. Jeffery Simmons var raunverulegt val Titans manna hérna en hann hríðféll eftir að hafa slitið krossbönd í hné fyrir nýliðavalið ásamt nokkrum rauðum flöggum utan vallar.
20. Denver Broncos – Jonah Williams, OT
Hægri tæklarastaða Broncos liðsins hefur ekki verið almennilega mönnuð í mörg ár og hefði tilkoma Williams líklega bundið enda á þá sögulínu. Williams var raunverulega tekinn nr. 11 til Cincinnati og Noah Fant var raunverulegt val Broncos liðsins hérna.
21. Green Bay Packers – Jamel Dean, CB
Dean var tekinn í 3. umferð nýliðavalsins af Buccaneers en hefur fljótt orðið byrjunarliðsmaður liðsins og sannað sig á stærsta sviðinu trekk í trekk. Dean og Alexander hefðu svo sannarlega myndað myndarlega tvennu á kantinum í Green Bay. Raunverulegt val Packers var Darnell Savage Jr.
22. Philadelphia Eagles – Diontae Johnson, WR
Eagles tóku hér tæklarann Andre Dillard sem hefur aldrei fundið sig í deildinni. Hér fá þeir einn af fjölmörgu góðu útherjum árgansins, Diontae Johnson, raunverulegan útherja Steelers manna sem völdu hann í upphaf 3. umferðar.
23. Houston Texans – Chris Lindstrom, OG
Tytus Howard valið kom mörgum á óvart á sínum tíma og hefur hann gert lítið til að réttlæta ákvörðun Texans manna. Hér fá þeir besta vörð árgangsins, Chris Lindstrom, sem tekinn var nr. 14 í nýliðavalinu og hefur staðið vaktina með prýði í Atlanta.
24. Oakland Raiders – Marquise Brown, WR
Raunverulegt val Raiders var hlauparinn Josh Jacobs sem hefur verið mjög góður. Í andi tilraunarinnar skulum við þó gefa þeim eitthvað annað. Marquise Brown var valinn var Ravens í pikkinu fyrir neðan og fær hér nýtt heimili með skemmtilegri kastleik.
25. Baltimore Ravens – Josh Jacobs, RB
Ég svissa á pikkum Raiders og Ravens en Jacobs myndi heldur betur passa vel við hlaupastíl Ravens og hefur sannað sig sem góður seinbúinn 1. umferðar valréttur í þessum árgangi.
26. Washington Redskins – Ed Oliver, DT
Redskins skiptu sér upp í enda 1. umferðinnar til að sækja Montez Sweat en hér er Sweat löngu farinn og í staðinn fá Washington menn varnartæklarann Ed Oliver sem upprunalega var valinn til Buffalo í valrétti 9.
27. Oakland Raiders – Noah Fant, TE
Noah Fant var valinn til Denver Broncos nr. 20 árið 2019 og var annar tveggja innherja sem valdir voru í 1. umferðinni. Fant hefur gefið Hockenson lítið eftir og ef eitthvað er þá hefur hann verið tilkomumeiri leikmaðurinn. Hér fá Raiders öflugan innherja sem hefði myndað asnalega hættulegt dúó með Darren Waller.
28. Los Angeles Chargers – Sean Murphy-Bunting, CB
Murphy-Bunting hefur verið í byrjunarliði Buccaneers síðan hann var tekinn í 2. umferð nýliðavalsins 2019. Hér fær hann smá bömp og kemur inn fyrir raunverulegan valrétt Chargers manna – Jerry Tillery.
29. Seattle Seahawks – Hunter Renfrow, WR
Seahawks eyddu þessum valrétti í varnarendann L. J. Collier sem hefur engan heillað á þessum þremur árum. Hér fá þeir slot-vélina sjálfa frá Clemson, Hunter Renfrow, sem er einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar í dag.
30. New York Giants – Gardner Minshew, QB
DeAndre Baker varð hér fyrir valinu árið 2019 og er ekki lengur í hóp liðsins. Hér gef ég G-Mönnunum kónginn sjálfan, Gardner Minshew, sem hefði með réttu átt að vera tekinn í blálok 1. umferðarinnar, sér í lagi miðað við styrkleika stjórnenda árgangins þetta árið.
31. Atlanta Falcons – Amani Hooker, FS
Hooker er einn af þremur valréttum Tennessee Titans liðsins sem tekinn er í 1. umferð þessa afturvals en það er óhætt að segja að þessi árgangur Titans liðsins hafi verið frábær. Raunverulegt pikk Falcons manna var hægri tæklarinn Kaleb McGary en hér fá þeir silkimjúkan en taktfastan miðvörð sem var frábær í liði Titans í vetur.
32. New England Patriots – Daniel Jones, QB
Patriots brutu regluna sína og tóku útherja með þessum valrétti 2019. N’Keal Harry hefur ekkert sýnt síðan þá en ég hugsa að Daniel Jones myndi henta Patriots liðinu betur en Giants. Jones hefði fengið skýrar reglur og takmörk undir Belichick og McDaniels og ég hef fulla trú á að hann hefði spjarað sig vel í New England.