NFL stofan er útskýringasería í boði Leikdags þar sem hugtök innan NFL deildarinnar eru krufin og matreidd fyrir þig, lesandann. Með þessari seríu er vonin að veita þæginlega og einfalda leið fyrir nýja (og gamla!) áhugamenn NFL deildarinnar til að efla þekkingu sína á amerískum fóbolta.
Í hverri útsendingu dynja á áhorfendur hundruðir NFL hugtaka sem lýsendur eiga bágt með að skýra frá og greina almennilega sökum hraða leiksins. Það er gengið út frá því að áhorfandinn búi yfir almennri þekkingu á leiknum og því er skiljanlegt að nýjum áhorfendum líði eins og þeir séu að reyna að læra nýtt tungumál.
NFL stofan leitast því eftir að efla þekkingu NFL áhugamanna á Íslandi með von um að samfélagið stækki og vitneskja aukist.
Aðrir NFL stofu póstar:
Sóknarhópar
Varnarhópar
Uppstillingar leikstjórnenda
Hlaupaleiða tréð
Cover 0
Cover 1
Ef þú hefur verið að fylgjast meira með NFL en að skoða einungis samantektir úr leikjum daginn eftir, þá ættu hugtökin 0-technique, 1-technique og 3-technique, svo dæmi séu tekin, að hringja einhverjum bjöllum.
Hugtökin lýsa uppstillingu varnarlínuleikmanna áður en boltanum er snappað. Varnarlínuleikmenn stilla sér ekki bara upp hvar sem er heldur þurfa varnarþjálfarar að passa upp á að öll bil á milli sóknarlínuleikmanna séu dekkuð. Bilin eru hlaupaleiðir fyrir hlauparana og sóknarlínan reynir að halda þeim opnum í hlaupakerfum.
5-tech lýsir því nákvæmlega hvar varnarlínumaðurinn er staðsettur og hvaða bili eða skarði hann er ábyrgur fyrir.

0-tech leikmaður er einnig kallaður nose tackle. Hann stillir sér upp beint yfir senterinn og er ábyrgur fyrir báðum A-bilunum en það er mikilvægt að hann sé stór, sterkur og þungur leikmaður sem þarf að teppa alla umferð um miðjuna. D.J. Reader hjá Bengals og Javon Hargrave hjá Eagles eru dæmi um leikmenn sem hafa verið að spila 0-tech en þyngsti böllurinn á ballinu var Vince Wilfork í hjarta Patriots varnarinnar frá 2004-2014.
Leikmenn spila þó ekki einungis eina stöðu á varnarlínunni heldur eru menn mis fjölhæfir en sumir eru notaðir á nánast öllum vígstöðum. Skyldur, ábyrgð og tækni breytist frá einni stöðu til annarrar.
Fyrir neðan sjáum við hvernig Denver Broncos stilltu upp gegn Houston Texans sem voru á 2nd og 5 í 11 personnel.

Tvö bil eru óvarin. B bilið á milli hægri varðar og hægri tæklara og A bilið á milli senters og vinstri varðar. Línuverðirnir A.J. Johnson og Todd Davis þurfa að átta sig á því sem fyrst hvort Watson ætli að keyra hlaupa- eða kastkerfi. Þeir eru ábyrgir fyrir eftirstandandi bilum skyldu Houston hlaupa boltanum.
Texans enduðu á að hlaupa boltanum í gegnum áðurnefnt A bil en voru stöðvaðir 1 jarda frá endurnýjun af Will Parks (úr mynd) í nickelback stöðunni.
Aaron Donald er dæmi um leikmann sem krefst svo mikillar athygli sóknarlínunnar að oft þurfa lið að senda þrjá blokkara á hann bara til að halda honum í skefjum. Yfirleitt er Donald tvídekkaður en í þau fáu skipti sem hann er skilinn eftir í 1-á-1 stöðu er sóknarkerfi andstæðings annaðhvort hlaupakerfi eða virkilega snögg sending. Þú tekur ekki sénsinn á löngu sendingakerfi með aðeins einn leikmann ábyrgan fyrir Donald.