NFL stofan er útskýringasería í boði Leikdags þar sem hugtök innan NFL deildarinnar eru krufin og matreidd fyrir þig, lesandann. Með þessari seríu er vonin að veita þæginlega og einfalda leið fyrir nýja (og gamla!) áhugamenn NFL deildarinnar til að efla þekkingu sína á amerískum fóbolta.
Í hverri útsendingu dynja á áhorfendur hundruðir NFL hugtaka sem lýsendur eiga bágt með að skýra frá og greina almennilega sökum hraða leiksins. Það er gengið út frá því að áhorfandinn búi yfir almennri þekkingu á leiknum og því er skiljanlegt að nýjum áhorfendum líði eins og þeir séu að reyna að læra nýtt tungumál.
NFL stofan leitast því eftir að efla þekkingu NFL áhugamanna á Íslandi með von um að samfélagið stækki og vitneskja aukist.
Aðrir NFL stofu póstar:
Sóknarhópar
Varnarhópar
Uppstillingar leikstjórnenda
Hlaupaleiða tréð
Uppstillingar varnarlínumanna
Cover 0
Cover 1
MIKE, SAM & WILL línuverðir
Frá upphafi amerísks fótbolta og stofnsetningu atvinnumannadeildanna, AFL og NFL, hefur hlaupaleikurinn ráðið ríkjum. Snemma á níunda áratug síðustu aldar fór hinsvegar að bera til tíðinda – það var kominn nýr konunugur.
Síðan 1982 hefur sendingin tekið völdin sem vinsælasta verkfærið í verkfæratösku NFL sóknarþjálfara og með þessari þróun hefur gildi grípara vaxið umfram gildi hlaupara. Það hefur leitt til þess að fleiri útherjar stilla sér upp fyrir snapp en áður þekktist. Mest hefur þessi breyting bitnað á hinum grjótharða fullback, sem varla þekkist í nútíma NFL landslagi.
Ásamt þessum breytingum hafa varnarþjálfarar þurft að finna leiðir til að verjast sendingaglaðari og útherjaþyngri sóknum. Ekki dugar lengur að stilla upp fjórum varnarlínumönnum, þremur línuvörðum, tveimur bakvörðum og tveimur miðvörðum.
Það gefur augaleið að sterkir en svifaseinir hlaupastoppandi línuverðir eiga ekki roð í sendingadekkun svo þeir hafa hríðfallið úr tísku í takt við þróun sendingaleiksins.
Nickelback er ekki bara hljómsveit heldur einnig nafn yfir fimmta varnarbakkarann (e. defensive back) í varnaruppstillingu. Nickel varnarmaðurinn er annaðhvort bak- eða miðvörður sem skipt er inná á kostnað línuvarðar. Hans hlutverk er að dekka grípara andstæðingsins. Þessi uppstilling er orðin venjan hjá liðum þar sem 11 personnel sóknarhópurinn (þrír útherjar) er orðin vinsælasti sóknarpakkinn í deildinni.

Á myndinni að ofan sjáum við nickel pakka Atlanta Falcons. Kendall Sheffield, A.J. Terrell og Isaiah Oliver eru bakverðir (3) og Keanu Neal og Damontae Kazee eru miðverðir (2). Samtals eru þetta fimm varnarbakkarar. Reyndar hafa Isaiah Oliver og Darqueze Dennard verið að spila mest í slottinu, en ekki Sheffield sem ég setti þarna inn fyrir tímabilið.
Dimeback er þá sjötti varnarbakkarinn á vellinum. Þetta sjáum við minna en þessi pakki er oft sendur inná völlinn þegar sóknin stillir upp fjórum útherjum/grípurum. Þá bætist í raun bara við annar mið- eða bakvörður sem fer í sendingadekkun. Misjafnt er hvort varnarlínumaður eða línuvörður er tekinn útaf vellinum fyrir dimebackinn.
