Fyrsta útgáfa kraftröðunar Leikdags kom út stuttu eftir Ofurskálina og nú er kominn tími til að uppfæra listann útfrá leikmannahópum liðanna eftir helstu viðskipti viðskiptagluggans.
1. Kansas City Chiefs (-)
Ríkjandi Ofurskálarmeistararnir frá Missouri eru búnir að hafa hægt um sig í viðskiptaglugganum en þó gengið frá, a.m.k. tímabundið, þeirra helstu verkefnum. Höfðingjarnir franchise tögguðu varnarlínutröllið Chris Jones sem gefur þeim svigrúm til þess að bjóða honum framlengingu eða jafnvel skipta honum burt. Liðið hefur hvorki styrkst né veikst og heldur velli í annarri útgáfu kraftröðunar Leikdags.
2. San Francisco 49ers (-)
San Francisco sitja nokkuð stabílir í öðru sæti listans en fréttir úr herbúðum Baltimore varðandi Michael Brockers gerðu það að verkum að Hrafnarnir hýfa sig ekki upp um eitt sæti í þessari útgáfu. 49ers skiptu burt stjörnunni DeForest Buckner eftir að þeir framlengdu við Arik Armstead og Jimmie Ward. Emmanuel Sanders kvaddi Kaliforníu eftir hálft tímabil í San Fran en annars er hópur 49ers óbreyttur.
3. Baltimore Ravens (-)
Baltimore verma þriðja sæti útgáfunnar en þeir snarhættu við að semja við Michael Brockers eftir að hlutlaus læknisskoðun varpaði ljósi á vandamál í ökkla varnarlínumannsins. Baltimore missti á dögunum Michael Pierce og Patrick Onwuasor en gerðu glæsileg skipti þegar þeir fengu Calais Campbell frá Jacksonville fyrir 5. umferðar valrétt. Sókanrvörðurinn Marshal Yanda ákvað að hann væri búinn að spila sitt síðasta tímabil í NFL deildinni en það er nokkuð stór missir. Hrafnarnir franchise tögguðu Matt Judon og koma því til með að njóta starfskrafta hans í allavega tímabil í viðbót.
4. New Orleans Saints (+3)
Það kom að því að New Orleans næði að stoppa lekann úr WR2 stöðunni sinni en liðið náði samkomulagi við útherjann Emmanuel Sanders til tveggja ára. Andrus Peat framlengdi og bakvörðurinn Malcolm Jenkins snýr á heimaslóðir eftir sex ár í Philadelphia. Hinsvegar misstu þeir Vonn Bell, A.J. Klein og Eli Apple en stærstu fréttirnar frá Lousiana voru að Drew Brees skrifaði undir tveggja ára framlengingu en hann hafði íhugað vandlega hvort tími hans væri kominn til að leggja skóna á hilluna.
5. Seattle Seahawks (-1)
Seattle fer inn í næsta tímabil með þrjá úr sóknarlínu sinni í öðrum liðum. Það er hinsvegar ekki hægt að ruglast á góðum leikmönnum og Ifedi, Iupati og Fant. Sjóhaukarnir bættu tveimur sóknarlínumönnum við hópinn sinn (Finney og Shell) ásamt því að semja við Greg Olsen frá Panthers. Helsta spurningamerkið er þó Jadeveon Clowney sem er enn á lausu en Seattle gæti færst neðar á listann yfirgefi Clowney þá endanlega. Þeir hafa þegar misst Quinton Jefferson og Azekiel Ansah er með lausan samning. Seattle tryggði sér hinsvegar krafta útvarðarins Quinton Dunbar sem kom frá Washington í skiptum.
6. Green Bay Packers (-1)
Green Bay stendur í dyragættinni og horfir inn á topp 5 bestu lið NFL deildarinnar að mati Leikdags. Packers misstu hægri tæklarann Bryan Bulaga til Chargers eftir 9 ára feril í Green Bay. Línuvörðurinn Blake Martinez og Jimmy Graham fundu sér einnig ný heimili en Packers sömdu við Ricky Wagner, Christian Kirksey og Devin Funchess. Þessar breytinar eru nokkuð kraftlitlar og ekkert víst hvort liðið hafi veikst að einhverju ráði. Líklega mun innherjinn Jace Sternberger fá meiri séns í sókn Packers en hann kom lítið við sögu í vetur sökum meiðsla. Ritstjórn var bálskotinn í honum fyrir seinasta nýliðaval og verður spennandi að sjá hvort Aaron Rodgers treysti á strákinn í ár.
7. Buffalo Bills (+3)
Brandon Beane hefur ekki setið á þumli sínum í mars en hann hefur verið frábær á leikmannamarkaðinum og tryggt sér starfskrafta Stefon Diggs, Mario Addison, Vernon Butler, A.J. Klein og Quinton Jefferson. Ógnarsterk vörn Buffalo er því að fara styrkjast þrátt fyrir að hafa misst Shaq Lawson til Miami og Jordan Phillips til Arizona. Hægri sóknartæklari Carolina, Daryl Williams, gekk síðan á dögunum til liðs við Bills. Upp um þrjú sæti milli úgáfa.
8. Tennessee Titans (+3)
Helstu ákvarðanirnar sem forsvarsmenn Tennessee þurftu að taka snérust í kringum leikstjórnandann Ryan Tannehill og hlauparann Derrick Henry. Báðir leikmenn munu spila áfram í herbúðum Titans eftir að Tannehill fékk stóra framlengingu og Henry fékk franchise taggið. Vic Beasley bættist við varnarliðið og Ty Sombrailo við sóknarlínuna. Jack Conklin og Marcus Mariota fundu ný heimili annars staðar en allt í allt hefur ekki mikið breyst í herbúðum Titans. Mjög jákvætt að halda Tannehill og Henry áfram.
9. Philadelphia Eagles (+4)
Philadelphia hafa verið iðnir við kolann í viðskiptaglugganum og færa sig hér ofar í töfluna frá síðustu útgáfu. Stærstu viðskiptin var samningur Javon Hargrave sem kemur frá Pittsburgh og mun manna miðja varnarlínuna ásamt Fletcher Cox. Eagles létu tvo valrétti fyrir útvörðinn Darius Slay og sömdu einnig við Nickell Robey-Coleman sem hefur verið gríðarlega góður í hólfinu hjá Rams. Philadelphia missa sóknarlínumanninn Halipoulivaati Vaitai, Malcolm Jenkins, hlauparann Jordan Howard og útherjann slaka Nelson Agholor. Eagles hafa því þéttað varnarlínuna sína mikið og stykt útvarðarsveit sína en það var þeirra helsti veikleiki í vetur ásamt útherjadeildinni en líklega munu þeir nýta nýliðavalið í að styrkja það herbergi.
10. Tampa Bay Buccaneers (+10)
Stærstu viðskipti gluggans í ár eru án efa samningur Tom Brady við Sjóræningjana frá Flórída. Brady fær fulltryggðan tveggja ára samning hjá Tampa Bay en koma Brady mun að öllum líkindum hafa mikil áhrif á liðsandann og frammistöðu leikmanna. Brady fær að kasta á besta útherjapar deildarinnar og koma hans skýtur Tampa upp um 10 sæti milli lista. Ndamukong Suh skrifaði undir árs framlengingu en Carl Nassib, Breshad Perriman, Beau Allen og Payton Barber hverfa allir á braut. Nú þurfa Bruce Arians og félagar að finna sér alvöru hlaupara og vinstri sóknartæklara og þá þarf restin af deildinni að taka mark á þessu sögulega slaka klúbb.
11. Pittsburgh Steelers (-3)
Iðnaðarmennirnir frá Pittsburgh renna niður nokkra rassa í þessari útgáfu en þeir missa einn sinn besta varnarmann, Javon Hargrave, en fundu leið til þess að franchise tagga skyndiliðannn Bud Dupree sem átti loksins alvöru tímabil fyrir Steelers. Eric Ebron var fenginn á tveggja ára samningi og bróðir T.J. Watt, Derek Watt, skrifaði undir þriggja ára samkomulag. Pittsburgh þarf að fá Big Ben heilan heilsu inn í næsta tímabil en þeir breyttu haug af launum hans í undirskriftarbónus til að búa til rými undir launaþakinu en franchise tagg Bud Dupree telur $15.8M í ár.
12. Indianapolis Colts (+7)
Tvö risa viðskipti þrýsta Indianapolis upp um sjö sæti en liðið samdi við Philip Rivers til eins árs og skipti frá sér fyrstu umferðar valrétti fyrir varnarstjörnuna DeForest Buckner. Einnig sömdu þeir við Xavier Rhodes en þeir höfðu áður rift samningi Pierre Desir og misst Eric Ebron til Pittsburgh. Mikill gróði í þessum glugga fyrir Chris Ballard og Frank Reich sem virðast ekki geta misstigið sig undanfarið. Mikil tilhlökkun ríkir fyrir tímabili Colts og liðið í bullandi séns að vinna AFC South eftir brotthvarf DeAndre Hopkins úr riðlinum.
13. Denver Broncos (+1)
John Elway er búinn að vera virkur í mars mánuði en A.J. Bouye og Jurrell Casey bættust við leikmannahóp Broncos eftir skipti við Titans og Jaguars. Báðir koma til með að vera byrjunarliðsmenn í vörn Broncos sem stóð sig liða best í red-zone vörn í vetur. Einnig samdi liðið við sóknarvörðinn Graham Glasow og hlauparann Melvin Gordon. Einn besti hólf útvörður seinasta áratugar, Chris Harris Jr., samdi við Chargers og senterinn Connor McGovern flutti sig til New York. Joe Flacco var sparkað og Drew Lock fékk lyklana að sókninni og liðið taggaði Justin Simmons og framlengdi við Shelby Harris.
14. Minnesota Vikings (-5)
Minnesota voru með bakið upp við vegginn áður en leikmannaglugginn opnaðist en staðan var ekki góð undir launaþakinu. Þeir riftu því samningum við lykilleikmenn á borð við Linval Joseph og Xavier Rhodes. Þeir neituðu framhaldsmöguleika í samningi Everson Griffen sem gerði hann samningslausan. Stefon Diggs var sendur á brott fyrir aragrúa valrétta og framlengdu þeir við leikstjórnanda sinn, Kirk Cousins. Útverðirnir Trae Waynes og Mackensie Alexander hurfu á brott og er því útvarðaherbergi Vikings manna bitlaust og mikil þörf á liðsauka. Michael Pierce er eina almennilegi leikmaðurinn sem flutti til en ekki frá Minnesota. Örin bendir niðrá við en það jákvæða í þessu öllu saman er að þeir eiga tvo 1.umferðar valrétti í ár.
15. Arizona Cardinals (+2)
Cardinals klifra upp um tvö sæti í nýjustu útgáfunni en það er alfarið DeAndre Hopkins að þakka. Arizona stal einum besta útherja deildarinnar af Houston Texans og náðu um leið að losa fjandsamlegan samning hlauparans David Johnson. Þar fyrir utan hefur Steve Keim staðið sig mjög vel og samið við Jordan Phillips, Devon Kennard, De’Vondre Campbell og framlengt við sóknartæklarann Marcus Gilbert sem missti af öllu síðasta tímabili vegna hnémeiðsla. Senterinn A.Q. Shipley kemur ólíklega til baka nema á afslætti og varnarlínumaðurinn Rodney Gunter flytur til Jacksonville í von um minni tekjuskatt. Góður gluggi og virkilega spennandi tímar framundan í eyðimörkinni.
16. New England Patriots (-10)
Úff. Brotthvarf Tom Brady hristir og skekur hornsteina stórveldisins. Ekki lyktar það betur þegar Jamie Collins, Kyle Van Noy og Danny Shelton yfirgefa Boston líka en Belichick var aldrei að fara að borga þessum leikmönnum þann pening sem þeir fengu á opnum markaði. Í staðinn sækir Bill sér bakvörðinn og special teamerinn Adrian Phillips og hlaupastopparann Beau Allen sem hlýtur að vera mest óspennandi viðskipti gluggans. Nú er stóra spurningin hver ætlar að taka það á sig að raðklessa rútunni eftir að Brady yfirgaf vagninn. Jarrett Stidham er að fara inn í sitt annað ár í deildinni og Brian Hoyer gekkst nýverið aftur til liðs við Patriots. Þangað til valið stendur á milli þessara tveggja þá er erfitt að sjá Patriots ofar en þetta og sumir myndu jafnvel segja að þetta sé fullhátt!
17. Cleveland Browns (+6)
Cleveland missa línuvörðinn Joe Schobert til Jacksonville en bæta við sig tæklaranum Jack Conklin, innherjranum Austin Hooper og nokkrum minniháttar spámönnum. Nálin hreyfist því jákvætt og stökkva þeir upp um allnokkur sæti í þessari útgáfu. Kevin Stefanski er nýr þjálfari liðsins en hann gengdi áður stöðu sóknarstjóra Minnesota Vikings. Þar notaði hann mikið af tveggja innherja settum og er Austin Hooper viðbótin því nokkuð veigamikil. Einnig var mikilvægt að efla sóknarlínu liðsins en Jack Conklin var einn af betri hægri sóknartæklurunum á markaðinum. Næsta mál á dagskrá hlýtur að vera að velja vinstri sóknartæklara í fyrstu umferð nýliðvalsins í apríl næstkomandi.
18. Atlanta Falcons (-2)
Það hefur kvarnast svolítið úr liði Atlanta á seinustu vikum en Austin Hooper, Desmond Trufant, Devonta Freeman, Wes Schweitzer, De’Vondre Campbell og Vic Beasley hafa allir yfirgefið herbúðir liðsins. Á móti sömdu þeir við skyndiliðann Dante Fowler Jr. en hann skrifaði undir $45M samning sem er til þriggja ára. Þar næst lokuðu þeir augum og héldu fyrir eyrun þegar hlauparinn gigtveiki Todd Gurley skrifaði undir árs samning án þess að fara í læknisskoðun. Úff. Innherjinn Hayden Hurst var síðan fenginn í skiptum en hann fær líklega stærra hlutverk í Atlanta heldur en hann hafði í Baltimore.
19. Dallas Cowboys (-1)
Jerry Jones framlengdi samningum hjá Amari Coooper, Blake Jarwin, Sean Lee og Anthony Brown en hann notaði franchise taggið á leikstjórnandann Dak Prescott. Við því mátti búast en Dallas hefði alls ekki átt fyrir því að missa Prescott eða Cooper í glugganum. Sjörnuleikmennirnir Byron Jones og Robert Quinn fundu sér ný lið og risastóra samninga og Jeff Heath og Randall Cobb kvöddu Texas fylki í kjölfarið. Varnartröllin Dontari Poe og Gerald McCoy bætast við vörn Dallas sem og bakvörðurinn fyndni, HaHa Clinton-Dix, og sparkarinn Greg Zuerlein.
20. Los Angeles Rams (-5)
Rams er eitt af liðunum sem eiga í vandræðum með að taka góðar ákvarðanir. Staðan undir launaþakinu þeirra var eitt stórt sirkusatriði. Hendur þeirra voru því bundnar að mestu leyti í leikmannaglugganum og horfðu þeir á eftir lykilleikmönnum hverfa á brott. Dante Fowler, Cory Littleton og Nickell Robey-Coleman fundu sér ný lið, Eric Weddle hætti og Michael Brockers var nálægt því að semja við Baltimore, sem á síðustu stundu drógu inn veiðarfærin og hörfuðu. Samningi Todd Gurley var rift en Rams framlengdu við Andrew Whitworth og Michael Brockers. Leonard Floyd kom frá Chicago og varnartröllið A’Shawn Robinson kom frá Detroit. Rams þurfa að framlengja við Jalen Ramsey sem þeir sendu tvö 1.umferðar valrétti fyrir svo þeir velja ekki í fyrstu umferð nýliðavals yrr en árið 2022.
21. Chicago Bears (-)
Chicago skáru á snærið hjá Prince Amukamara , Leonard Floyd og Taylor Gabriel til að skapa rými undir launaþakinu og nýttu hluta plássins til að framlengja til þriggja ára við línuvörðinn Danny Trevathan. Stærsta viðbót Bears manna var fimm ára samningur Robert Quinn sem hljóðar upp á $70M en þeir sóttu sér einnig Nick Foles í skiptum og eru nú komnir með alvöru samkeppni um leikstjórnanda stöðuna. Nick Kwiatkoski leitaði á önnur mið og innherjinn útrunni Jimmy Graham skrifaði undir tveggja ára $16M samning sem enginn botnar í. Bears virðast hafa komið nokkuð vel frá viðskiptaglugganum.
22. Los Angeles Chargers (+5)
Það má kannski virðast ógerlegt en LA Chargers finna sjálfa sig í tuttugasta sæti úgáfunnar. Eftir 16 tímabil með Chargers færir Philip Rivers sig um set en hann samdi til eins árs við Indianapolis Colts. Þrátt fyrir að missa sinn mikilvægasta leikmann er ritstjórnin vongóð á gengi liðsins. Framlengt var við hlauparann Austin Ekeler, Russell Okung var skipt burtu fyrir sóknarvörðinn Trai Turner og franchise taggið notað á innherjann Hunter Henry. Bryan Bulaga, Chris Harris Jr. og Linval Joseph voru síðan dregnir í land en það eru allt öflugir og reyndir leikmenn. Spurningin er hvort Cam Newton sé á leið til Hollywood eða jafnvel annar nýliðanna: Justin Herbert eða Tua Tagovailoa.
23. Houston Texans (-12)
Houston Texans hafa verið nokkuð rólegir á leikmannamarkaðinum fyrir utan stærstu fréttirnar hingað til – DeAndre Hopkins skipt burt fyrir David Johnson og klink. Þjálfarinn, framkvæmdastjórinn og draugurinn Bill O’Brien tók tilfinninga ákvörðun og hreinlega gaf Kliff Kingsbury einn besta útherja deildarinnar. Fyrir utan það fór D.J. Reader til Bengals og Randall Cobb og Eric Murray skrifuðu undir hjá Houston. O’Brien framlengdi Bradley Roby, Darren Fells og Ka’imi Fairbairn en búist er við að hlaupararnir Carlos Hyde og Lamar Miller finni sér ný heimili á næstu vikum. Stóra spurningin er hversu mikil áhrif þetta sjálfsmark O’Brien hefur á móralinn innan félagsins en eigandi Texans hlýtur að vakna út dáinu og sparka O’Brien áður en hann kæfir liðsandann algerlega.
24. Miami Dolphins (-3)
Dolphins höfðu úr miklu fjármagni að moða þegar félagsskiptaglugginn opnaði fyrr í mánuðinum en þeir sátu ekki auðum höndum heldur létu þær standa fram úr ermum og sömdu mjög fljótlega við Shaq Lawson, Ereck Flowers, Byron Jones, Kyle Van Noy og Jordan Howard. Þeirra helsta skotmark var sóknarvörðurinn Joe Thuney hjá Patriots en Belichick franchise taggaði Thuney en þá snéru Dolphins menn sér bara að lestarslysinu Ereck Flowers og gáfu honum allt sem hann bað um. Flowers átti reyndar ekki alslæmt ár með Redskins en þeir færðu hann úr tæklaranum yfir í vörðinn en þar er yfirleitt léttara að fela lélega leikmenn. Dolphins misstu ekki mikið af leikmönnum enda voru fáir á skrá hjá þeim eftir að þeir seldu bæinn á seinasta tímabili til að sanka að sér valréttum. Spennandi tímar framundan í Miami sem eiga þrjá valrétti í fyrstu umferð í ár.
25. Las Vegas Raiders (+2)
Mike Mayock samdi við tvo feitustu línuvarða bitunum í ár en Littleton og Kwiatkoski spila í Las Vegas í ár. Endurvinnsluverkefnið Marcus Mariota mun mjög blíðlega reyna að taka yfir starf hins vinalega Derek Carr en ekki er víst hve lengi Carr á eftir undir merkjum Raiders. Las Vegas hafa ekki misst neina sem tekur að minnast á en þeir eru búnir að vera mjög virkir í glugganum og eru komnir með glænýjan hóp og eiga tvo valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins í ár. Upp um tvo rassa á listanum.
26. Cincinnati Bengals (+5)
Bengals hafa verið virkari á markaðinum í ár en þeir eru vanalega og franchise tögguðu stjörnu útherjann A.J. Green svo Joe Burrow (sem mun verða valinn númer 1 í nýliðvalinu) hafi einhvern til að kasta á í vetur. Einnig styrktu þeir hlægilega vörn sína með D.J. Reader, Vonn Bell, Trae Waynes og Mackensie Alexander. Varnarlínan þeirra verður ógnvænlega með Reader, Atkins og Dunlap. Innherjinn Tyler Eifert, Andrew Billings, Cordy Glenn og John Miller eru allir á förum frá félaginu en hve mikill missir það verður kemur í ljós fljótlega.
27. New York Giants (-2)
Ég er alls ekki hrifinn af stefnu Giants en þeir notuðu franchise taggið á Leonard Williams sem þeir fengu í skiptum frá Jets á seinasta tímabili. Williams hefur ekkert sýnt inná fótboltavellinum og verðskuldar ekki nýjan og stóran samning en Dave Gettleman ætlar að þrjóskast aðeins meira og vonandi nær hann bara að skipta honum burt fyrir eitthvað klink. Gettleman borgaði síðan Blake Martinez og James Bradberry báðum $10M árlega en þar eru kettir í sekkjum og hlakka ég til að sjá þá ristaða reglulega í dekkningu. Þeir missa líklega Markus Golden, þeirra besta leikmann varnarmegin en hann hefur ekki enn fundið sér heimili í glugganum.
28. Washington Redskins (-5)
Hér er nákvæmlega ekkert að frétta. Þeir fengu Kendall Fuller á fjögurra ára $40M samning en það var svona helsta viðbótin þeirra fyrir utan minni spámenn. Ereck Flowers fékk reiðufé frá Miami og mannar hann því ekki lengur vinstri sóknarvörðinn fyrir Washington. Hægri sóknarvörðurinn Brandon Scherff var franchise taggaður og virkjað var framhaldsákvæði í samningi Adrian Peterson sem tekur eitt ár í viðbót í höfuðborginni. Helsta spurningarmerkið er sóknartæklarinn Trent Williams sem virðist ekki tilbúinn að grafa öxina og vill burt. Redskins verða lélegir í ár og ættu að eiga séns á að hreppa fyrstu verðlaunin í nýliðavalinu á næsta ári, leikstjórnandann Trevor Lawrence. Orðið á götunni segir að Haskins sé ekki framtíðin því hann eigi mjög erfitt með að læra sóknina – sjáum hvað gerist. Ég ætla allavega ekki að kaupa hlutabréf í Redskins á næstunni.
29. Carolina Panthers (-4)
Mikil hreingerning hefur átt sér stað hjá Panthers en Cam Newton var leystur undan samningi, Kyle Allen skipt til Washington og aragrúi leikmanna samningslausir. Matt Rhule fær nýjan leikstjórnanda í Teddy Bridgewater og missir um leið af dauðafæri að drulla upp á bak í ár og sækja Trevor Lawrence með fyrsta valrétti að ári. Útherjinn Robby Anderson samþykkti tveggja ára $20M samning en útherja herbergi Panthers fer að verða vígalegt – D.J. Moore, Robby Anderson og Curtis Samuel. Framtíð Carolina er svona eins og malarvegur sem endar eftir eitt ár í fyrsta lagi en þá tekur malbikið við (vonandi).
30. New York Jets (-1)
Jets uppfæra senterinn sinn með tilkomu Connor McGovern en spurning er hversu mikil uppfærsla George Fant verður í sóknartæklaranum en einnig sömdu þeir við vörðinn Greg Van Roten. Helsta verkefni Jets er að verja leikstjórnandann Sam Darnold og telst því líklegt að þeir bæti við sig öðrum sóknartæklara í nýliðavalinu. Annars yfirgaf Robby Anderson félagið og Kelvin Beachum er samningslaus. Breshad Perriman og Patrick Onwuasor bættust við leikmannahópinn svo Jets hafa staðið sig þokkalega í glugganum. En Adam Gase er enn þjálfari liðisins og þá engin ástæða til að gleðjast yfir möguleikum liðsins.
31. Detroit Lions
Ímynd Matt Patricia hefur líklega aldrei verið verri en nokkrir fyrrum leikmenn hans hjá Detroit hafa tjáð sig opinberlega um þjálfarann og farið ófögrum orðum um hann. Hann slapp með skrekkinn eftir seinasta tímabil en margir héldu að hans tími í Detroit væri runninn sitt skeið. Lions misstu nokkra byrjunarliðsmenn í glugganum en Graham Glasgow, Ricky Wagner, Devon Kennard og A’Shawn Robinson fengu samninga annars staðar. Patriots leikmennirnir Jamie Collins og Danny Shelton sömdu við Lions en það virðist vera að Patricia haldi að hann geti endurskapað menningu New England í Detroit með því að lokka fyrrum leikmenn Belichick til sín. Halipoulivaati Vaitai og Desmond Trufant eru á meðal þeirra leikmanna sem ætlað er að fylla þau skörð sem hoggin voru í byrjunarliðin í Detroit. Útvörðurinn Darius Slay var skipt burt til Philadelphia fyrir nokkra valrétti en velgengni ljónanna veltur alfarið á Matthew Stafford og bakinu hans á næsta keppnistímabili.
32. Jacksonville Jaguars (-3)
Nú þegar Tom Coughlin er ekki lengur varaforseti fótbolta aðgerða liðsins og brunaútsalan afstaðin er aðeins eitt verk eftir í enduruppbyggingu Jacksonville – að reka Doug Marrone. Liðið losaði sig við Marcell Dareus og Jake Ryan áður en það skipti burt A.J. Bouye, Calais Campbell og Nick Foles. Jaguars voru í launaþaks klemmu og þurftu því að taka erfiðar ákvarðanir. Yannick Ngakoue var franchise taggaður en hann hefur gefið það út að hann vilji ekki spila fyrir Jaguars lengur. Joe Schobert, Tyler Eifert og Rodney Gunter virðast hinsvegar ekki hafa mikið á móti því að spila fyrir Jacksonville og skrifuðu þeir allir undir samninga við félagið. David Caldwell, framkvæmdastjóri liðsins, á þó tvo fyrstu umferðar valrétti næstu tvö árin þökk sé Jalen Ramsey skiptunum. Liðið er enn í flórnum þar til þeir kaupa sér skóflur en það verður þó gaman að fylgjast með Gardner Minshew á næsta tímabili.