Þá er komið að seinustu kraftröðun Leikdags fyrir mót. Það eru rúmir fjórir sólarhringar í leik Kansas City Chiefs og Houston Texans sem fer fram á Arrowhead vellinum í Kansas City. Seinasti leikur þessa liða var í úrslitakeppninni í byrjun árs en þeirri flugeldasýningu verður seint hægt að gleyma.
Talsverð breyting er á milli seinustu útgáfu og þessarar útgáfu en við sjáum meðal annars Dallas og Detroit klifra töfluna mest en Buffalo fellur liða mest. Uppröðun liðanna hér helst nokkurnvegin í hendur við deildaspár AFC og NFC sem birtar voru á dögunum.
1. Baltimore Ravens (+1)
Baltimore Ravens fara inn í tímabilið sem sterkasta liðið þrátt fyrir að rifta samningi Earl Thomas á dögunum. Það er nánast enginn munur á Baltimore og Kansas City en vörn Ravens brýtur jafnteflið.
2. Kansas City Chiefs (-1)
Patrick Mahomes er besti leikstjórnandi deildarinnar en það nægir því miður ekki í þessari uppröðun. Chiefs hafa framlengt samningum sinna helstu manna en þeir gengu nýverið frá framlengingum við Andy Reid og Brett Veach, framkvæmdastjóra félagsins. Slæmar fréttir fyrir restina af vesturriðli AFC.
3. New Orleans Saints (+1)
New Orleans taka þriðja sæti styrkleikalistans af San Francisco sem verða mögulega án Deebo Samuel og Brandon Aiyuk í byrjun tímabils. Það nægir til að lyfta Saints liðinu uppí þriðja sætið, svo lítið skilur á milli liðanna.
4. San Francisco 49ers (-1)
Meiðslin elta 49ers á röndum en Dre Greenlaw er ekki að æfa vegna heilahristings og fyrrnefndir Samuel og Aiyuk eru tæpir fyrir fyrsta leik. Kyle Shanahan hefur sýnt fram á að hann getur haldið skipinu á floti þótt lykilleikmenn spili ekki vegna meiðsla og nú reynir á sóknina að klúðra ekki leikjum í upphafi tímabils.
5. Dallas Cowboys (+12)
Hástökkvarar útgáfunnar eru Dak Prescott og félagar í Dallas Cowboys. Fyrir það fyrsta voru þeir heldur lágt á seinasta lista en þeir eru klárlega með mannskapinn til að koma sér í úrslitakeppnina í ár. Með nýjum þjálfara gæti komið innspýting í leik liðsins en sóknarlega voru þeir eitt besta liðið í fyrra.
6. Seattle Seahawks (-1)
Þrátt fyrir að vera langt frá því að vera með besta liðið sitja Seahawks í sjötta sæti listans. Russell Wilson er svo ótrúlega góður að gæði leikmannana í kringum hann skiptir ekki höfuðmáli. Seattle eru þó í góðum málum með útherja en Tyler Lockett og D.K. Metcalf ættu að eiga risa ár saman.
7. Green Bay Packers (-)
Liðið stendur í stað en spurningin er hvort þeir nái að fylgja eftir 13-3 tímabilinu í fyrra. Valréttir nýliðavalsins virðast ekki hafa verið valdir með þetta tímabil í huga svo óljóst er hvort liðið hafi náð að styrkja sig í sumar. Allen Lazard og Marque Valdes-Scantling þurfa að taka næsta skref fyrir Packers.
8. Tampa Bay Buccaneers (-)
Tampa Bay standa í stað en erfitt er að staðsetja þá þangað til þeir spila leik. Koma Brady og Gronk er nóg til að byrjunarstaða þeirra er innan topp tíu. Þeir sömdu nýverið við Leonard Fournette sem er uppfærsla í hlaupastöðuna og sóknin er farin að virka nokkuð sannfærandi á blaði.
9. Philadelphia Eagles (+6)
Carson Wentz steig heldur betur upp seinni hluta tímabils í fyrra en liðið var jafnframt skilvirkasti klúbburinn á þriðju tilraun og stutt. Nú þarf Wentz bara að vera heill alla deildarkeppnina, sigla þeim inn í úrslitakeppnina og haldast heill þar. Liðið verður án Brandon Brooks og Andre Dillard en sóknarlínan er ein aðalástæða þess að liðið er samkeppnishæft ár eftir ár.
10. Minnesota Vikings (+3)
Þrátt fyrir að hafa misst Stefon Diggs sitja Vikings í 10. sæti listans með plús þrjá í sviga. Kevin Stefanski, sóknarþjálfari liðsins er horfinn á braut (Cleveland) en Gary Kubiak fyllir í skarð hans. Justin Jefferson mun koma hressilega á óvart á sínu fyrsta tímabili og svo virðist Irv Smith vera tilbúinn í stærra hlutverk í sendingaleiknum. Minnesota sömdu nýlega við skyndiliðann Yannick Ngakoue svo árásateymið þeirra er farið að líta vel út.
11. Pittsburgh Steelers (-)
Steelers sitja hér fyrir utan topp 10 og horfa inn. Komi Big Ben heill heilsu inn í tímabilið eru góðar líkur að þeir endi inná topp 10 en það eru ekki margir veikir blettir á þessu liði. James Conner þarf að stíga upp og vinna sér inn fyrir næsta samningi í deildinni en sóknin sem heild má ekki láta vörnina bera sig á bakin allt tímabilið, aftur.
12. Indianapolis Colts (-2)
Það verður áhugavert að sjá Philip Rivers á bakvið almennilega sóknarlínu. Það stendur honum nánast allt til boða til að eiga sitt besta tímabil í þónokkurn tíma hvað varðar tapaða bolta (e. interceptions) og fellur (e. sacks). Hér er þó enginn Keenan Allen en T.Y. Hilton er sama skotmarka vélmennið og Jack Doyle nýtist einnig vel í sendingaleiknum. Örin bendir upp á stefnubraut liðsins.
13. Tennessee Titans (-4)
Það kom að því að eitthvað lið samdi við Jadeveon Clowney en Tennessee gerði eins árs samning við leikmanninn. Clowney mun hjálpa varnarlínu Titans heilmikið og voru þeir nú engir aukvisar fyrir. Sóknarlega er það til á myndbandi hvernig Tannehill vinnur en allir varnarþjálfarar deildarinnar eru líklega búnir að stilla upp leikskipulagi til að loka á sigurleiðir leikstjórnandans. Ef Derrick Henry getur farið að grípa boltann eins og maður, þá opnast ný vídd í sóknina hjá Titans með Henry inná. Það er mikilvægt.
14. Buffalo Bills (-8)
Buffalo verða sterkir í ár og það verður aldrei létt að sækja sigur gegn þeim. Josh Allen þarf núna að sýna og sanna að hann er byrjunarliðsleikmaður í þessari deild. Þeir fengu til sín Stefon Diggs til að hjálpa Allen að sanna það. Þeir hríðfalla í þessari útgáfu, ekki vegna þess að liðið hefur veikst heldur vegna þess að góðir leikstjórnendur rísa upp á meðan slæmir sökkva. Þar sem enn á eftir að leggja lokadóm á Allen sitja Bills menn hér fyrir miðjum lista.
15. Cleveland Browns (+1)
Koma Kevin Stefanski til Cleveland ætti að hjálpa Baker Mayfield og sókn Browns gríðarlega mikið. Jafnframt hefur félagið styrkt sóknarlínuna á opnum markaði og í nýliðavalinu. Varnarlega virðast þeir sveltir fyrir utan Myles Garrett og Olivier Vernon en það mun hjálpa þriðja leveli varninnar mikið að eiga gott árásateymi. Standi Denzel Ward og Greedy Williams sýna plikt er ekki ólíklegt að þeim verði verðlaunað með nokkrum stolnum boltum í vetur.
16. New England Patriots (+3)
New England hafa misst haug af leikmönnum fyrir tímabilið sem kusu að sitja hjá í ár vegna COVID-19. Það mun reynast drjúg blóðtaka en þeir sömdu við leikstjórnandann Cam Newton fyrir undirbúningstímabilið sem mun reyna að sigla skútunni með Bill Belichick. Hversu arðbært reynist það samstarf verður að koma í ljós en Newton er ekki þessi týpíski Belichick leikmaður, langt því frá.
17. Los Angeles Rams (+3)
Ætlar Sean McVay að rembast við að spila 11 personnel eins og hann hefur gert undanfarin ár, þrátt fyrir að vera ekki lengur með mannskapinn í það? Brandin Cooks er farinn til Houston og Josh Reynold fær það hlutverk að taka snöppin hans. Fyrir stuttu virtist allur NFL heimurinn trúa því að McVay væri næsti ungi sóknarheilinn og allt sem hann gerði myndi virka. Hann mætti líta til Kliff Kingsbury og sjá að það er ekki slæmt að reyna að aðlaga sóknina sína að leikmönnunum sem þú hefur í stað þess að þverhausast í 11 personnel þegar bestu útherjarnir þínir eru meiddir.
18. Arizona Cardinals (-4)
Það var hrikalega freistandi að halda Arizona fyrir ofan LA Rams en íhaldssemin kippti í taumana og beislaði nýjabrumið. Staðreyndin er þó sú að Arizona styrktu lið sitt beggja megin boltans (þó helst sóknarlega) en vörnin virkar samt alls ekki sannfærandi. Vance Joseph, varnarþjálfari Cardinals, hefur ekki beint sigrað NFL heima með starfi sínu.
19. Denver Broncos (-6)
Denver Broncos er með dýrustu vörnina í deildinni þetta árið en örnin heldur áfram að vera aðalsmerki liðsins en ekkert lið var betra í vörn á rauða svæðinu í fyrra. Sóknarlega hafa þeir gefið Drew Lock fleiri vopn til að vinna með en tímabilið veltur alfarið á Lock og hans getu til að aðlagast og gleyma slæmum ákvörðunum, því þær verða þónokkrar. Reynist Lock spaða ás gerir þessi hópur atlögu að úrslitakeppninni.
20. Houston Texans (+3)
Deshaun Watson er einn besti leikstjórnandi deildarinnar og á sama tíma einn sá mest spennandi. Houston hækka hér um þrjú sæti frá því síðast en líkt og með Arizona, þá hef ég meiri áhyggjur af vörninni heldur en sókninni. Þriðja level varnarinnar er ósannfærandi á pappírum en kannski bætist leikur liðsins nú þegar Anthony Weaver er orðinn varnarþjálfari.
21. Las Vegas Raiders (+4)
Það er nokkuð ljóst að Las Vegas eru búnir að styrkja sig töluvert frá því í fyrra. Línuvarðahópurinn er orðin þykkari en símaskrá og ætti að hafa bein áhrif á gengi liðsins. Prince Amukamara var látinn fara en það þýðir að Jon Gruden treystir bakvörðunum ungu, Trayvon Mullen og Damon Arnette, til að sjá um útherjadekkningar í vetur.
22. Atlanta Falcons (-4)
Ég hef í raun ekkert á móti Atlanta en þegar styrkleikalistar eru gerðir þá sökkva sum lið neðar á listann, oft að ástæðulausu. Ég hef svipaða tilfinningu fyrir Falcons og Raiders – bæði lið gætu orðið 2019 Titans í ár. Lið sem kannski ekki margir eru að spá svakalega góðu gengi en lið sem gætu komið mörgum á óvart og laumað sér í úrslitakeppnina.
23. Detroit Lions (+7)
Sóknin hefur alla burði til að vera hrikalega svæsin og skemmtileg í vetur. Matt Stafford þarf að haldast heill og þá getur allt gerst í Detroit. T.J. Hockenson mun kraftspringa út, De’Andre Swift verður banvænn og útherjaparið Marvin Jones og Kenny Golladay munu halda áfram að verða lúðrandi fínir. Varnarlega eru þeir óspennandi en nú er komið að Matt Patricia að sýna að hann getur sett saman góða vörn sem aðalþjálfari.
24. Los Angeles Chargers (+2)
Mikill missir fyrir Chargers að missa Derwin James aftur í stór meiðsli. Það veit enginn hvað eða hvort Tyrod Taylor getur eitthvað. Það eru komin fimm ár síðan hann átti ágætis ár með Buffalo Bills en það mun hjálpa honum helling að hafa Keenan Allen galopinn í hverju kerfi. Þetta lyktar eins og að nýliðinn Justin Herbert fái að spreyta sig þegar nær dregur. Vörnin er sterk og gæti haldið þeim inn í mörgum leikjum í vetur.
25. Chicago Bears (-4)
Chicago verða að öllum líkindum áfram sterkir varnarlega í ár en það er rosalega erfitt að treysta því að Mitchell Trubisky/Nick Foles skili yfir meðallagi góðri frammistöðu. Allen Robinson er eini spennandi sóknarleikmaðurinn í þessu byrjunarliði en ætli þetta sé síðasti séns hjá Trubisky? Vonandi finnur strákurinn fjölina.
26. New York Giants (+1)
Nýr þjáfari, nýjar væntingar. Eða hvað? Er einhver ástæða til þess að óttast það að Joe Judge snarsnúi liðinu við á einu handónýtu undirbúningstímabili? Varla. Gaman væri að sjá framför hjá Daniel Jones, Darius Slayton og Saquon Barkley.
27. Miami Dolphins (-5)
Ég prjónaði yfir mig í seinustu útgáfu og þarf hér að draga ýmislegt til baka. Eins og til dæmis væntingar mínar til Miami Dolphins. Það er útlit fyrir að það séu 1-2 ár í alvöru samkeppni frá Miami. Nú þurfa stuðningsmenn Miami bara að fá að sjá Tua Tagovailoa spila nokkra leiki og haldast heill og þá geta þeir farið að peppa sig upp fyrir næsta tímabil. Úrslitakeppnin er fjarlægur draumur.
28. New York Jets (+1)
Er Adam Gase enn þjálfari? Ef svarið er já:
29. Cincinnati Bengals (-5)
Ég væri til í að hafa þá örlítið ofar á þessum lista en sóknarlínan þeirra hræðir sannleikann úr mér. Joe Burrow tók háskólaboltann í nefið í fyrra og ég er svakalega spenntur að sjá hann í NFL deildinni. Það er vonandi að hann nái að snúa þessu félagi við og þeir verði samkeppnishæfir aftur eftir fimm ára pásu.
30. Carolina Panthers (+1)
Ung og spennandi vörn í ofninum hans Matt Rhule. Burns, Brown og Gross-Matos gætu orðið vandamál á næstu árum. Nokkuð spennandi sóknarmöguleikar en nú sjáum við Teddy Bridgewater fyrir aftan margfalt verri sóknarlínu en hann er vanur hjá New Orleans. Uppbygging Rhule mun taka tíma, þetta er ekki árið til að vonast eftir árangri.
31. Washington Football Team (-3)
Ron Rivera mun að öllum líkindum rífa klúbbinn uppúr svaðinu á næstu árum hafi hann heilsu til. Varnarlínan verður sterk og útherjinn Terry McLaurin mun minna á sig af og til en annars er vantar allt krydd í þennan leikmannahóp.
32. Jacksonville Jaguars (-)
Jacksonville eru núna búnir að dauðhreinsa allan leikmannahóp sinn og hefur tekist að losa sig við alla nothæfa leikmenn. Ræstingateymið með skúringavagnana, sprittbrúsana og gúmmíhanskana þyrfti í raun að halda hreingerningunni áfram en það lyktar eitthvað illa þarna þegar fyrrum leikmenn telja sig vera frjálsa þegar þeir yfirgefa klúbbinn. David Caldwell og Doug Marrone gætu verið næstir í röðinni en Tom Coughlin var sendur heim í lok síðasta árs.