Nú þegar liðin hafa öll notað sína valrétti í ár og samið hefur verið við hunsaða leikmenn er komin kristalskýr mynd á leikmannahópana. Einhverjar hræringar munu þó eiga sér stað á næstu vikum en enn eru nokkrir nothæfir leikmenn atvinnulausir sem búist er við að finni sér lið áður en undirbúningstímabilið fer á fullt.
Í seinustu útgáfu sáum við Buccaneers hoppa liða hæst en síðan þá hefur Rob Gronkowski samið við Tampa Bay og mun spila við hlið Tom Brady í ár. Það voru þónokkur lið sem bættu sig helling, að því virðist, í nýliðavalinu og bjóðum við því hér upp á splunkunýja kraftröðun sem tekur mið af þessum breytingum og bætingum.
1. Kansas City Chiefs (-)
Chiefs haggast ekki eftir þokkalegt draft. Sóttu sér hraða í annað þrep varnarinnar þegar þeir völdu Willie Gay Jr. Hlauparinn Clyde Edwards-Helaire gefur þeim að vídd í sókninni en hann greip 55 bolta fyrir LSU á seinasta tímabili. Hann mun koma til með að nýtast mun betur í sendingaleiknum heldur en Damien Williams. Chiefs er ennþá liðið til að sigra og þeir halda nánast sama hóp og vann Ofurskálina í febrúar.
2. Baltimore Ravens (+1)
Það skildi ekki mikið 49ers og Ravens að í seinustu útgáfu en Baltimore átti svakalega axlabreitt nýliðaval sem hýfir þá upp yfir San Francisco. Lamar Jackson trompar líka Jimmy Garoppolo svo þetta réttlætanlegt.
3. San Francisco 49ers (-1)
Niners áttu gott draft en afskaplega fáa valrétti. Þeir nýttist engu að síður mjög vel og eru þeir því enn eitt af bestu liðum deildarinnar. Joe Staley lagði skóna á hilluna og Trent Williams kemur inn fyrir hann. Það er von San Francisco að Williams nái fyrra formi en hann hefur ekki spilað leik síðan 2018.
4. New Orleans Saints (-)
Saints standa í stað en þeir völdu aðeins fjóra nýliða í ár en senterinn Cesar Ruiz er líklega ekki að fara að spila mikið nema New Orleans losi sig við Larry Warford. Ég sé Saints ekki bæta sig mikið eftir nýliðavalið.
5. Seattle Seahawks (-)
Afskaplega bragðdauft nýliðval frá Seahawks í ár en þeir tóku aðeins einn sóknarlínumann. Damien Lewis, vörður frá LSU kemur líklegast rakleiðis inn í hægri vörðinn en hann var valinn í þriðju umferð. Fyrstu tvö pikkin þeirra voru varnarmenn en tæklarinn Jason Peters er enn á lausu og gæti allt eins endað í Seattle.
6. Buffalo Bills (+1)
Hrikalega flottir fyrstu þrír valréttir Bills manna en þeir bæta við varnarlínumanni, hlaupara og útherja. Buffalo eru komnir með hörku hóp í hendurnar og nú þarf Josh Allen að stíga upp og sanna það að hann geti verið nákvæmur á 15+ jarda sendingunum.
7. Green Bay Packers (-1)
Green Bay hrasa aðeins í töflunni en óljóst er hvort fyrstu þrír valréttir þeirra muni koma til með að spila eitthvað af viti í vetur. Þeir virðast ekki hafa náð að bæta við sig 2-3 byrjunarliðsmönnum sem geta látið finna fyrir sér strax en hlauparinn A.J. Dillon ætti þó að fá einhver tækifæri þegar Aaron Jones fær að blása.
8. Tampa Bay Buccaneers (+2)
Hástökkvararnir frá því seinast halda siglungunni áfram og hrifsa til sín áttunda sætið í þessari útgáfu. Gronkowski bætist við leikmannahópinn sem þéttist töluvert eftir nýliðavalið. Tampa sótti sér hægri tæklarann Tristan Wirfs sem fer beint í byrjunarliðið. Miðvörðurinn Antoine Winfield ætti sömuleiðis að eiga bullandi séns á byrjunarliðssæti aftast í vörn sjóræningjanna.
9. Tennessee Titans (-1)
Spútnik lið síðasta árs, Tennessee Titans, áttu fínasta nýliðaval sem fór svolítið undir radarinn í netheimum. Fyrstu fjögur pikkin þeirra virðast vera ótrúlega eðlileg og gætu vel sprungið út og orðið af alvöru hólkum í deildinni. Titans halda sér í topp 10.
10. Indianapolis Colts (+2)
Framkvæmdastjóri Colts, Chris Ballard, virðist hafa átt enn eitt laumugott nýliðaval. Útherjinn Michael Pittman er öflugur leikmaður sem mun líklega byrja frá fyrsta snappi. Sömu sögu er hægt að segja um hlauparann Jonathan Taylor en hans háskólaferill var einstakur. Ballard valdi Jacob Eason í fjórðu umferð og nú getur hann andað léttar en það var ekki einn leikstjórnandi undir samningi eftir næsta tímabil.
11. Pittsburgh Steelers (-)
Pittsburgh stendur í stað og fylgist með Colts grípa seinasta topp 10 sætið. Nýliðavalið hjá þeim var afskaplega líkt því sem stuðningsmenn þeirra eru vanir. Leikmenn sem enginn hefur heyrt áður nefnda en þeirra helsti valréttur var Chase Claypool sem átti stórkostlegt NFL Combine og kom sér á kortið þannig. Þetta er stór, sterkur og fljótur strákur sem margir vilja meina að sé innherji en líklegt þykir þó að Tomlin sjái fyrir sér týpískan X-útherja og að JuJu verði færður í slottið.
12. Denver Broncos (+1)
Denver valdi samtals 10 leikmenn í nýliðvalinu og þar af þrjá leikmenn sem munu koma til með að heimta alvöru byrjunarliðssnöpp. Útherjarnir K.J. Hamler og Jerry Jeudy og senterinn frá LSU, Lloyd Cushenberry. Aðrir gegna líklega hlutastörfum á næsta tímabili en nú fá stuðningsmenn að sjá hvort Drew Lock sé rétti maðurinn í starfið.
13. Minnesota Vikings (+1)
Vikings völdu, haltu þér, fimmtán leikmenn í nýliðavalinu seinustu helgi en ljóst er að ekki allir komast í lokahópinn. Það er nú ekki ástæðan fyrir því að þeir lyfta sér upp um sæti á milli útgáfa, heldur staðreyndir að þeir lönduðu nokkrum spikuðum bitum í fyrstu þremur umferðunum. Útherjinn Justin Jefferson kemur til með að leysa Stefon Diggs af, Jeff Gladney og Cam Dantzler munu fá tækifæri á að spila haug af snöppum og Ezra Cleveland gæti allt eins þvingað Riley Reiff úr byrjunarliðinu.
14. Arizona Cardinals (+1)
Arizona Cardinals er annað lið sem fær líklega ekki nægilega mikið hóf fyrir frammistöðu í valinu. Þeir lönduðu alvöru hólki í Isaiah Simmons sem kemur líklegast til með að spila línuvörð í grunnvörn Cardinals og dekka slottið í sex varnarbakkara (defensive backs) lúkkum. Þeir náðu síðan hríðfallandi Josh Jones í þriðju umferð og sóttu síðan tvo varnarfleka í fjórðu umferð sem munu koma til með að hjálpa gegn hlaupinu.
15. Philadelphia Eagles (-6)
Stærsta fall útgáfunnar. Eagles skítfalla á prófinu í þetta sinn. Það var ekki aðeins þeirra sök, því haugur af liðum spiluðu nýliðavalið vel og áttu skilið að klifra töfluna. Philadelphia er því líka fórnarlamb aðstæðna. Þeir áttu samt sem áður furðulegt nýliðaval en tíminn leiðir ljós hvort það sanni sig eða ekki.
16. Cleveland Browns (+1)
Cleveland áttu virkilega jákvætt draft og færast upp um einn rass. Sóknarlína Baker Mayfield er farin að líta mun betur út og gæti mögulega farið að teljast þeirra helsti styrkur. Það veltur svolítið á tæklaranum Jedrick Wills sem þeir tóku í fyrstu umferð. Hann fer rakleiðis í vinstri tæklarann þó hann hafi verið hægri tæklari hjá Alabama. Hann varði blindu hlið Tua Tagovailoa og mun gera slíkt hið sama fyrir Baker.
17. Dallas Cowboys (+2)
Jerry Jones átti hreint út sagt snyrtilega helgi. Snekkja, skvísur og nýliðar. Jones spilaði leikinn hárrétt og næst þegar hann kemur í land munu CeeDee Lamb, Trevon Diggs og Neville Gallimore sjá um landfestar. Hörku árgangur hjá Dallas en við má bæta senternum Tyler Biadasz sem mun berjast um byrjunarliðssæti í öflugri sóknarlínu Cowboys.
18. Atlanta Falcons (-)
Þrátt fyrir óeftirminnilegan árgang fannst mér Falcons koma þokkalega undan helginni. Þeir sóttu sinn bakvörð, þó misjafnar skoðanir séu á hvort þeir hafi þurft að taka hann svona snemma. Marlon Davidson er þakklátur fyrir að geta beitt fullorðna menn ofbeldi og komist upp með það og Matt Hennessy er dúndur senter. Hreyfir þó ekki nálina.
19. New England Patriots (-3)
Það gæti vel verið að þetta komi í bakið á mér en ég veit ekki hvort New England styrktust við nýliðavalið. Kyle Dugger er risa jóker sem gæti orðið flottur spilari en er bara týpískur Belichick valréttur. Næsta mál.
20. Los Angeles Rams (-)
Rams tóku Cam Akers og Van Jefferson en þetta er hálf lyktarlaust prump. Akers mun koma til með að hjálpa til í leik eitt en mun hlaupaleiða snilld Jefferson rata til LA? Hann er silkimjúkur spilari sem gæti orðið banvænn og vonar ritsjórn innilega að hann springi almennilega út í Kalí sólinni.
21. Chicago Bears (-)
Ég er farinn að vorkenna stuðningsmönnum Bears. Það er bara einhvernveginn ekki neitt að frétta. Jaylon Johnson var fallegt pikk en Nagy þyrfti að spila 04 personnel til að rúma alla þessa innherja sína sem eru í hóp núna. Nick Foles og Mitch Trubisky baráttan er bara Alþingi í slow motion og æsir engann upp. Það þarf að hringsparka í restart takkann hjá þessu sögufræga félagi.
22. Miami Dolphins (+2)
Dolphins styrktu sig um helgina og ættu að jafna vinningshlutfall sitt frá því í fyrra. Mögulega slæðast þeir í sex sigra en þetta veltur allt á Tua. Austin Jackson gæti fengið séns á að byrja leikviku 1 en þetta gæti verið þungur en lærdómsríkur róður fyrir unglinginn.
23. Houston Texans (-)
Ef Houston Texans væri kvikmynd, væri það svarthvít og hljóðlaus mynd frá 1925. Það vantar allt blóð í þessa beinagrind. Deshaun Watson er stórkostlegur og einn áhorfanlegasti leikmaður deildarinnar. Watt er á seinni hlutanum en samt glæsilegur. Hvað. Annað. Er. Að. Frétta.
24. Cincinnati Bengals (+2)
Bengals eru búnir að styrkja sig virkilega undanfarið og náðu að tengja saman nokkur spennandi valrétti. Joe Burrow, Tee Higgins og línuverðirnir Logan Wilson og Akeem Davis-Gaither mynda nokkuð sjarmerandi fernu í fyrstu fjóru umferðunum. Bengals upp um tvo.
25. Las Vegas Raiders (-)
Raiders efldu útherja herbergið sitt um helgina en þeir tóku Henry Ruggs í fyrstu umferð og Bryan Edwards í þriðju. Tveir flottir útherjar sem munu koma til með að hjálpa Derek Carr mikið í vetur. Damon Arnette, bakvörðurinn frá Ohio State, var stórfurðulegt pikk og kom öllum að óvörum. Mike Mayock er að byggja valrétta mynstur en hann notaði pikk númer fjögur í fyrra í Clelin Ferrell. Hmmm? Amik Robertson og Lynn Bowden gætu reyndar verið laumugóðir.
26. Los Angeles Chargers (-4)
Það er ekkert leyndarmál að ég var ekki hrifinn af fyrstu umferðinni hjá Chargers. Hvað sem því líður þá er erfitt að sjá að Herbert eða Taylor séu að fara að standa sig betur en Philip Rivers. Vörnin verður flott eins og alltaf en sóknin spólar og vélin bræðir úr sér. Anthony Lynn fer líka að renna út á tíma.
27. New York Giants (-)
Giants standa í stað en þeir áttu nokkuð flott draft. Það nægir þó ekki til að færa nálina og sitja þeir því áfram í 27. sæti.
28. Washington Redskins (-)
Chase Young verður spaði og Anthony Gandy-Golden er huggulegur útherji. Það virðist lítið vit í þessu Antonio Gibson pikki en við sjáum hvað gerist. Redskins nr. 28.
29. New York Jets (+1)
Jets færa sig upp á kostnað reynsluleysi Carolina. Jets áttu sæmilegt nýliðaval en stóra spurningin er hvort Becton nái að verða sama skrímslið í sendingaleiknum og hann er í hlaupablokkeringum.
30. Detroit Lions (+1)
Lions gerðu ágætismót um helgina og sóttu besta bakvörðinn, einn besta hlauparann, öflugan skyndiliða og besta sóknarvörðinn. Rétt skref en bara upp um einn.
31. Carolina Panthers (-2)
Mínus tveir á Panthers og varnarþemað þeirra í ár. Panthers tóku bara varnarmenn og Matt Rhule er nýliði. Þetta getur varla endað mjög vel á fyrsta tímabili. Flott uppbygging gæti verið að eiga sér stað en þetta verður ekki ár Panthers.
32. Jacksonville Jaguars (-)
Jaguars tóku 12 leikmenn en miðað við brunaútsöluna komast þeir allir í byrjunarlið. Jacksonville er samkvæmt öllu helstu veðmálasíðum líklegastir til að velja fyrstir eftir ár.