Styrkleikaröðun Leikdags bíður nýtt lið velkomið í topp 10 en litlar hræringar urðu á bestu liðunum, þó lítið skilji á milli. New York Giants fær sér sæti fyrir ofan litla bróðir á botni listans og Dallas halda áfram að renna.
1. Kansas City Chiefs (-)
Kansas City Chiefs halda toppsæti listans en þeir áttu ekki sinn besta leik gegn Cam Newton-lausu New England liðinu. Líklega væri annað lið á toppi listans hefði Bill Belichick haft almennilegan leikstjórnanda í þessum leik. Þarna skall hurð nærri hælum.
2. Baltimore Ravens (-)
Lamar Jackson og Baltimore liðið fundu taktinn á ný þegar þeir mættu Washington Football Team á sunnudaginn. 31-17 sigur í höfn þar sem Mark Andrew fann hendurnar sínar á ný eftir handalausan leik gegn Chiefs í seinustu umferð.
3. Green Bay Packers (-)
Það munar svo gríðarlega litlu á milli þessara efstu liða en Aaron Rodgers og félagar kláruðu Atlanta Falcons leikinn örugglega þrátt fyrir að vera án Allen Lazard og Davante Adams. Rodgers er á MVP leveli um þessar mundir en næsti leikur liðsins er í Tampa Bay gegn Tom Brady en þar er hægt að búast við mikilli sýningu tveggja góðra liða.
4. Seattle Seahawks (-)
Seattle Seahawks sigruðu lið Miami Dolphins 31-23 á sunnudaginn og halda sér í fjórða sæti listans. Sigurinn var ekkert sérstaklega sannfærandi en nóg gerðu þeir og eru enn taplausir. Næsti leikur er gegn Minnesota Vikings í Seattle. Góðar líkur á snertimarksregni í þeim leik.
5. Tampa Bay Buccaneers (-)
Það leit ekki vel út á tímabili hjá Tampa Bay þegar þeir mættu Los Angeles Chargers um helgina. Staðan var 24-14 í upphafi þriðja leikhluta, Chargers í vil, þegar öll ljós kviknuðu hjá Tom Brady og í kjölfarið komu þrjú snertimörk Buccaneers í röð og síðan vallarmark. Afgreitt. Næsti leikur gegn geysisterku Packers liði.
6. Pittsburgh Steelers (-)
Leik Tennessee og Pittsburgh var frestar og þess vegna stendur liðið í stað.
7. Buffalo Bills (+1)
Josh Allen heldur áfram að spila gríðarlega vel en engin breyting var þar á í sigri á Las Vegas Raiders á sunnudaginn. Bills eru 4-0 en vörnin þeirra þarf að stíga upp en hún átti ágætisleik á móti Raiders.
8. New Orleans Saints (-1)
Saints víkja hér fyrir Buffalo Bills lestinni en Drew Brees og félagar unnu sigur á Detroit Lions um helgina í leik þar sem Lions komust í 14-0 forystu í fyrsta leikhluta. Þá vöknuðu Saints og fóru inn í hálfleik 14-28. Saints hafa ekki verið sannfærandi það sem af er og vinna hér 6 stiga sigur á liði með þjálfara í heita sætinu. Upp með sokkana, drengir!
9. New England Patriots (+3)
New England fá hér risa launahækkun eftir frammistöðuna gegn Kansas City Chiefs á útivelli. Lengi vel var staðan 3-6 fyrir Chiefs en maður sér Patrick Mahomes og Chiefs sóknina eiga í vandræðum með að koma stigum upp á töfluna. Þessi leikur var færður vegna covid smits Cam Newton sem spilaði leikinn ekki. Patriots flugu til Kansas City sama dag og leikurinn var spilaður, spiluðu með tvo handónýta leikstjórnendur og náðu samt að halda þessu sem leik framan af. Þar fyrir utan vantar nokkra lykilleikmenn sem kusu að spila ekki í ár vegna heimsfaraldursins. Þeim er full alvara.
10. Tennessee Titans (-)
Standa í stað vegna frestunar á leik.
11. San Francisco 49ers (-2)
Tap gegn vonlausu Philadelphia Eagles liðinu á sunnudaginn fellir hér San Francisco úr hópi bestu tíu liða NFL. Jimmy Garoppolo hlýtur að snúa aftur á grasið fyrr en seinna en George Kittle er mættur aftur. Guð minn almáttugur. Næsti leikur er á heimavelli gegn Miami Dolphins.
12. Indianapolis Colts (+3)
19-11 sigur gegn Bears í skraufþurrum leik sem ég er strax búinn að gleyma. Colts eru 3-1 og í öðru sæti suðurriðils AFC. Næsti leikur er á útivelli gegn Cleveland Browns. Þá fá þeir alvöru hlaupaleik til að reyna að stöðva.
13. Cleveland Browns (+3)
Cleveland heimsóttu Dallas og sóttu sér sigur í leik þar sem þeir voru einu stigi frá því að skora 50 stig. Odell Beckham átti sinn besta leik í Browns treyju og hlaupaleikur liðsins náði nýjum hæðum gegn gatasigtinu sem Dallas vörnin er. Risaleikur gegn Colts á dagskránni.
14. Los Angeles Rams (-)
Talandi um bragðdaufa leiki. McVay og félagar skoruðu tvö snertimörk gegn ömurlegu New York Giants liði á sunudaginn. Sóknarheilinn hans hlýtur að vera að bráðna undan álagi en svona sóknarbolta sér maður ekki á hverjum degi. Langar helst að fella þá niður um nokkra rassa fyrir að flengja ekki Giants almennilega.
15. Dallas Cowboys (-4)
Sókn Dallas lítur vel út en þeir sakna sárlega La’el Collins, hægri tæklara liðsins. Varnarlega eru þeir í vandræðum og þurfa að girða sig í brók og setja smá púður í leik sinn. Það er óafsakanlegt að fá á sig 49 stig í einum leik. Næsti leikur er gegn New York Giants þar sem bannað verður að fá á sig meira en 14 stig.
16. Arizona Cardinals (-3)
Tveir tapleikir í röð gegn Detroit og Carolina. Það lítur alls ekki vel út fyrir ungan og upprennandi hóp leikmanna. Ætti maður að vera hræddur um Cardinals gegn New York Jets næsta sunnudag?
17. Minnesota Vikings (-)
Jæja, Vikings eru ekki lengur taplausir en þeir unnu 8 stiga sigur á Houston Texans liði sem er nú án aðalþjálfara og framkvæmdastjóra. Ég treysti þeim þó ekki til að færa þá ofar en 17. sæti listans. Justin Jefferson er að koma vel undan sumri og ætti að nærast vel á hlaðborðinu sem Seattle vörnin er í næsta leik.
18. Philadelphia Eagles (+2)
Óvæntur sigur gegn San Francisco 49ers ætti að létta andrúmsloftið sem farið var að mettast í herbúðum Eagles. Það er þó enginn tími til að brosa því næstu tveir leikir eru gegn Pittsburgh og Baltimore.
19. Las Vegas Raiders (-1)
Tveir tapleikir í röð eftir sterka tveggja sigra byrjun á tímabilinu. Seinasta tapið kom gegn Buffalo Bills en næstu tveir leikir eru gegn Chiefs og Buccaneers. Jon Gruden og félagar eru í dauðafæri á að taka annað sæti vesturriðils AFC deildarinnar en Broncos og Chargers virðast heillum horfin.
20. Detroit Lions (+2)
Detroit Lions virðast vera að vakna, hægt og rólega. Þeir eiga Jaguars og Falcons í næstu tveimur leikjum og ekki láta ykkur bregða þegar þeir vinna þá báða. Matt Patricia er að þjálfa fyrir lífi sínu og gæti náð í líflínu með tveimur sigrum í röð.
21. Houston Texans (-2)
Hvað skal segja? Bill O’Brien hefur verið rekinn og Romeo Crennel, varnarþjálfari liðsins, mun taka við taumum út tímabilið. Texans eru sigurlausir eftir fjórar umferðir og eiga ekki valréttina sína næstu árin. Hvaða rugl er þetta?
22. Chicago Bears (-1)
Sóknarleikur Bears var óþæginlegur gegn Indianapolis Colts í seinustu umferð. Liðið skoraði 11 stig en hélt þó Colts liðinu í 19 stigum. Leikurinn var sá fyrsti með Nick Foles í byrjunarliði en allt bendir til þess að þeir ætli að rúlla á honum út tímabilið.
23. Los Angeles Chargers (-)
Eins mikið og mig langaði að færa Chargers upp fyrir Bears, þá setja meiðsli Austin Ekeler mikið strik í reikninginn. Nái þeir að eiga góðan leik gegn ósannfærandi Saints liðinu næsta mánudag gæti verið að þeir klífi töfluna.
24. Miami Dolphins (+1)
Miami stóðu sig vel gegn Seattle Seahawks og héngu í leiknum heillengi. Framundan eru þrír leikir sem þeir eiga bullandi séns í. Fyrst 49ers á útivelli, síðan Broncos á útivelli og loks heimaleikur gegn Chargers. Sigurganga framundan?
25. Atlanta Falcons (-1)
Skyldutap gegn Aaron Rodgers á þessu tímabili kom seinasta mánudag. Falcons áttu aldrei séns og töpuðu með 14 stigum. Dan Quinn hlýtur að fara fyrr en seinna.
26. Carolina Panthers (+2)
Tveir sigurleikir í röð hjá Matt Rhule. Hægt og rólega verða áhrifa hans áþreifanleg en þetta gæti verið hrikalega spennandi lið á næsta ári. Atlanta Falcons á útivelli í næsta leik.
27. Denver Broncos (-1)
Það kom að því að Denver Broncos ynnu leik. Sigurinn kom gegn NFL-snauðu Jets liði þar sem félagið spilaði meiddum Mekhi Becton sem var gráti næst á hliðarlínunni. Sigurinn kom í leik þar sem vörn Gregg Williams fékk óteljandi víti á sig fyrir ruddaskap og benda má á seinar tæklingar á Brett Rypien þegar leiknum var svo gott sem lokið. Drew Lock gæti byrjað að æfa bráðlega en líklega er það of seint í rassinn gripið.
28. Cincinnati Bengals (+1)
Fyrsti sigur Joe Burrow í NFL deildinni er í höfn. Hann kom gegn Jacksonville Jaguars. Næstu fimm leikir eru alls ekki spennandi en þeir ferðast til Baltimore í næstu umferð.
29. Jacksonville Jaguars (-2)
Gardner Minshew og Jaguars hafa snöggkólnað eftir óvæntan sigur í fyrstu umferð á Indianapolis Colts. Texans og Lions í næstu tveimur leikjum eru leikir þar sem Minshew-manían gæti lifnað við aftur.
30. Washington Football Team (+1)
Washington eiga tvo leiki gegn New York Giants á næstu fjóru leikvikum. Þar er tækifærið til að sækja sér nokkra sigra. Nema Trevor Lawrence sé næsti leikur.
31. New York Giants (-1)
Giants eru þó ekki neðstir. Þeir eru líka besta liðið í New York. Eða hvað?
32. New York Jets (-)
Aðdáendur Jets hljóta að horfa öfundaraugum að Texans fylgjendum sem fengu þær fréttir fyrir stuttu að búið væri að reka þjálfa liðsins. Það er ekkert að annað að gera en reyna að komast óskaddaður frá stjórnartíma Adam Gase. Gregg Williams má líka láta sig hverfa.