Eftir þriðju umferðina eru sjö lið enn taplaus og átta enn sigurlaus. Óvæntustu úrslitin voru Detroit og Carolina sigrarnir en við líka það sem ameríkaninn hatar mest: jafntefli. Cincinnati Bengals og Philadelphia Eagles náðu hvorug að skora í framlengingu og jafntefli því niðurstaðan.
Stórleikir umferðarinnar voru Chiefs gegn Ravens, Cowboys gegn Seahawks og Rams gegn Bills en enginn þeirra olli vonbrigðum. Russell Wilson hélt áfram að elda og setti NFL met yfir flest snertimörk í fyrstu þremur leikjum tímabils (14). Rams náðu næstum því að klóra sig til baka úr 25 stiga holu gegn Buffalo Bills en þeir lentu 28-3 undir í þriðja leikhluta.
Patrick Mahomes og Andy Reid unnu öruggan sigur á John Harbaugh og Baltimore Ravens en Baltimore virkuðu bitlausir og hræddir.
1. Kansas City Chiefs (+1)
Chiefs endurheimta toppsæti listans eftir öruggan sigur gegn Baltimore Ravens á mánudaginn. Chiefs voru bara sterkari aðilinn í leiknum og vörn Ravens náði ekki að setja Patrick Mahomes undir neina pressu. Hann las blitz pakka varnarinnar eins og bók og skilaði glæsilegu dagsverki. Vörn Kansas City átti líka gríðarlega góðan dag og hélt beittri sókn Greg Roman í skefjum.
2. Baltimore Ravens (-1)
Sannfærandi tap gegn ríkjandi Ofurskálarmeisturum Chiefs fellir hrafnana niður um eitt sæti á listanum. Næstu leikir gegn Washington, Cininnati og Phildelphia eru þæginleg leið til að koma sér aftur í grúvið.
3. Green Bay Packers (-)
Davante Adams snauðir Packers menn lögðu Michael Thomas snautt Saints liðið með sjö stigum í skemmtilegum sóknarbolta í New Orleans. Packers eru því komnir í 3-0 og eiga Matt Ryan og Falcons í næstu umferð á heimavelli þar sem þeir freista því að halda sigurgöngunni áfram.
4. Seattle Seahawks (-)
Russell Wilson var á eldi enn aftur þegar liðið afgreiddi Dallas Cowboys í spennand leik. Vörnin má ekki við því að missa Jamal Adams til lengri tíma en hann fór útaf velli meiddur og sneri ekki aftur. Næsti leikur er á útivelli gegn Miami Dolphins.
5. Tampa Bay Buccaneers (+1)
Bruce Arians og sjóræningjarnir hans sigldu til Denver (city by the bay!) og afgreiddu lemstrað Broncos liðið 28-10. Tom Brady hlóð í tæpa 300 jarda og þrjár snertimarkssendingar og vörnin stal tveimur boltum. Hægt og rólega eru Buccaneers að slípast saman en þetta lið verður til alls líklegt seinna í vetur.
6. Pittsburgh Steelers (+2)
Mike Tomlin og félagar halda áfram sigurgöngu sinni án þess þó að virka mjög sannfærandi. Það er jákvætt fyrir Steelers að þeir skuli taka þessa leiki sem lítið skilur á milli. Næsti leikur er á útivelli gegn Titans.
7. New Orleans Saints (-2)
New Orleans töpuðu naumlega fyrir Green Bay Packers um helgina og falla niður um tvö sæti. Það er ekki bara útaf tapinu heldur vildi ég færa Steelers og Buccaneers upp um einn rass og þá verður eitthvað lið að víkja. Næsti leikur er gegn Matt Stafford og Lions á útivelli.
8. Buffalo Bills (+4)
Buffalo Bills eru 3-0 eftir þriggja stiga sigur á Los Angeles Rams. Josh Allen var, framan af, virkilega huggulegur en gerði nokkur afdrifarík mistök í seinni hálfleik sem kostaði liðið næstum því sigur. Bills komust mest 25 stigum yfir en eftir vafasaman dóm í þriðja leikhluta snérist taflið og Rams söxuðu grimmt á forystu Buffalo en náði á endanum ekki að klára verkið. Næsti leikur er á útivelli í Las Vegas gegn Raiders.
9. San Francisco 49ers (-2)
Það verður að teljast vel gert að ganga frá Giants eins örugglega og raun bar vitni með hálft liðið á meiðslalistanum. Niners renna hér aðeins niður listann en ættu að fá Jimmy Garoppolo og George Kittle til baka fljótlega. Þeir verða topp tíu lið í vetur þrátt fyrir að vera án Nick Bosa það sem eftir lifir.
10. Tennessee Titans (+1)
Stephen Gostkowski var enn á ný hetja Titans manna eftir að hann tryggði liðinu sigur gegn Minnesota Vikings 31-30. Titans hrukku í gang í þriðja leikhluta þar sem þeir skoruðu þrjú snertimörk. Titans hafa ekki byrjað svona vel síðan 2008 þegar liðið vann 10 fyrstu leiki sína. Næsti leikur er gegn Pittsburgh, það verður slagur.
11. Dallas Cowboys (-2)
Dallas Cowboys detta út úr topp 10 eftir tap gegn fyrnasterku liði Seattla Seahawks í bráðskemmtilegum leik á CenturyLink í Seattle. Dak Prescott fær þrjá heimaleiki í röð til að snúa blaðinu við en Cowboys ættu með öllu réttu að vera 0-3. Upp með sokkana!
12. New England Patriots (+2)
Cam Newton var ekki á sínum besta degi en það skipti ekki máli þar sem Las Vegas töpuðu þremur fömblum þar sem Derek Carr var að verki tvisvar sinnum og Josh Jacobs einu sinni. Hlaupaleikur Patriots rann í gegnum vörn Raiders eins og heitur hnífur í gegnum smjörklípu en þeir söltuðu þá fyrir 250 hlaupajarda. Bill Belichick og félagar eiga Kansas City Chiefs og sjóðheitan Patrick Mahomes á útivelli í næsta leik.
13. Arizona Cardinals (-3)
Fyrsta tap tímabilsins kom gegn Detroit Lions á sunnudaginn þar sem Kyler Murray gerði sig sekan um að kasta boltanum þrisvar sinnum frá sér. Deandre Hopkins var skilvirkur að venju og greip 10 af 12 boltum fyrir 137 jarda. Tapið færir Cardinals úr topp 10 veislunni en þeir eiga tvo létta útileika næst gegn Panthers og Jets. Þá er krafa gerð á að þeir snúi skútunni við.
14. Los Angeles Rams (-1)
Minnstu munaði að hrútar Sean McVay næðu að vinna Buffalo Bills eftir að hafa lent undir 28-3 í þriðja leikhluta. Það hefði verið stærsta endurkoma í sögu félagsins en það vantaði herslumuninn. Leikurinn var frábær skemmtun en litlu munaði að Josh Allen myndi henda leiknum frá sér en hann hefur staðið sig frábærlega það sem af er á tímabilinu.
15. Indianapolis Colts (-)
Colts gerðu það sem þeim bar skylda til þegar þeir völtuðu yfir Jets liðið 36-7 og komu sér í 2-1 eftir þrjár umferðir. Ég á enn svolítið í land með að treysta þessu félagi svo þeir færast ekki úr stað í þessari styrkleikaröðun. Höfum vaðið fyrir neðan okkur.
16. Cleveland Browns (+1)
Tveir sigurleikir í röð gegn tveimur slökum klúbbum. Browns fengu á sig 50 stig gegn Washington og Cincinnati en það hlýtur að teljast áhyggjuefni. Sóknarlega virðist Baker Mayfield vera kominn í takt við tóna Kevin Stefanski, þó Browns séu ekki beint sannfærandi. Hægt og rólega verða þeir það þó líklega í sendingaleiknum en það er nákvæmlega ekkert að Nick Chubb og Kareem Hunt blöndunni. Browns eiga Cowboys á útivelli næst.
17. Minnesota Vikings (-1)
Það munaði ekki miklu að Vikings næðu að stela sínum fyrsta sigri en þeir hafa verið virkilega lélegir það sem af er móti. Cousins henti frá sér tveimur boltum í hendur Titans varnarinnar og þangað til hann fer að passa betur uppá boltann og taka betri ákvarðanir, þá halda Vikings áfram að tapa. Seinni boltinn var auðvitað í blálokin þegar Vikings reyndu svokallað hail-mary tilraun en punkturinn stendur. Justin Jefferson átti stórleik, sinn fyrsta á ferlinum, en hann var valinn í fyrstu umferð NFL nýliðavalsins fyrr á árinu. Dalvin Cook átti einnig sinn besta leik á ferlinum en hann hljóp 181 jarda og skoraði eitt snertimark.
18. Las Vegas Raiders (+1)
Þrátt fyrir tap gegn Bill Belichick og Patriots bæta Raiders sig um eitt sæti og halda sér fyrir innan topp 20. Þetta er fínasta lið af gamla vesturstrandar skólanum. Sterkur hlaupaleikur og vinalegur sendingaleikur fyrir innherja. Darren Waller var hinsvegar kaffærður gegn Patriots en Bill Belichick er þekktur fyrir að loka á styrkleika mótherjans. Næsti leikur er gegn Buffalo Bills í Las Vegas. Hörkuviðureign sem Raiders eiga fullan séns í.
19. Houston Texans (+1)
Texans færast upp um eitt bil en það er fyrir tilstilli Philadelphia Eagles. Texans eru 0-3 og þurfa að fara að spýta í lófana áður en þetta verður vandræðalegt. Það vantar hellings lyftiduft í þessa Texans blöndu en á meðan Bill O’Brien heldur í stýrið, þá fer þessi klúbbur akkúrat ekki neitt.
20. Philadelphia Eagles (-2)
Philadelphia Eagles eru bara sorglegir. Tap gegn Washington og jafntefli gegn Bengals eru úrslit sem ekki er hægt að sætta sig við. Vissulega vantar Brandon Brooks og Andre Dillard í sóknarlínuna en það vantar líka allt malt í restina af liðinu.
21. Chicago Bears (+2)
Chicago Bears nýttu sér vanmátt Atlanta Falcons og snéru 26-10 leik sér í vil eftir að Matt Nagy bekkjaði leikstjórnandann sinn Mitchell Trubisky, fyrir Nick Foles. Bears sáu tvö snertimörk tekin af sér með mætti mynbandsendurskoðunar en héldu áfram að kroppa í forystu Falcons manna sem gerðu ekkert annað í seinni hálfleik en að punta boltanum frá sér.
22. Detroit Lions (+2)
Matt Patricia andar léttar. Sigur gegn Kliff Kingsbury og Arizona Cardinals gefur honum örlítið svigrúm til þess að draga andann en næsti mótherji eru New Orleans Saints sem eru búnir að tapa tveimur í röð og hljóta að mæta aggressífir til leiks. Þetta gæti orðið virkilega áhugaverður leikur, sérstaklega í ljósi þess að Kenny Golladay er kominn aftur í Lions liðið en Saints verða mögulega enn án Michael Thomas.
23. Los Angeles Chargers (-2)
Tapaðir boltar kostuðu Justin Herbert og Anthony Lynn heilmikið í tapleik gegn Carolina Panthers. Herbert átti eina feilsendingu og þrisvar sinnum hrifsuðu varnarmenn Panthers boltann úr lúkum sóknarmanna Chargers. Rauðasvæðisvörn Chargers var þó til fyrirmyndar en þeir hefðu líklega valtað yfir Carolina hefðu þeir passað upp á knöttinn betur.
24. Atlanta Falcons (-2)
Úff. Annar leikurinn í röð þar sem leikmenn Dan Quinn ná áþreifanlegri forystu en bogna undan álagi og pressu, gefa eftir og tapa að lokum. Quinn hlýtur að vera orðinn valtur.
25. Miami Dolphins (+2)
Flott frammistaða Ryan Fitzpatrick og Miami í fimmtudagsleik þriðju umferðar gegn sleipu Jacksonville Jaguars liði. Leikurinn var aldrei í hættu og Miami er að vaxa ásmegin undanfarnar vikur og færast hér upp um tvo reiti.
26. Denver Broncos (-1)
Denver Broncos er í frjálsu falli um þessar mundir og Pat Shurmur, sóknarþjálfari liðsins, virkar frekar litlaus en lítið kom frá leikstjórnendum liðsins gegn Tampa Bay á dögunum. Þeim er kannski ekki viðbjargandi en það vantar allan neista í sóknina. Varnarlega ná þeir ekki að skapa nægilega mikla pressu til að hjálpa nýliðunum í bakvarðastöðunum.
27. Jacksonville Jaguars (-1)
Tap gegn Miami Dolphins og fúlskeggjuðum Ryan Fitzpatrick í hörku skemmtilegum leik sem Gardner Minshew og félagar áttu þó ekki mikinn séns í. Jacksonville mun líklega halda þessu mynstri áfram út veturinn, það er, vinna leiki hér og þar, koma skemmtilega á óvart og viðhalda Minshew Mania fyrirbrigðinu.
28. Carolina Panthers (+2)
Matt Rhule landaði sínum fyrsta NFL sigri á ferlinum í leik gegn Los Angeles Chargers og Anthony Lynn. Sigurinn var langt frá því að vera fallegur en mistök Chargers liðsins knésetti það en þeir töpuðu fjórum boltum og fengu á sig átta víti. Panthers voru alls ekki sannfærandi á þriðju tilraun (3/12) eða á rauðasvæðinu (1/6) en Joey Slye, sparkari liðisins, setti var 5/5 í vallarmörkum.
29. Cincinnati Bengals (-)
Joe Burrow og Bengals gerðu jafntefli við Carson Wentz og Philadelphia Eagles um helgina en úrslitin gera lítið til að færa nálina fyrir gloppótt Bengals liðið. Sitja sem fastast í 29. sæti.
30. New York Giants (-2)
Vörn Giants átti 9.5 tæklingar fyrir tapi og vörðust sjö sendingum Nick Mullens í tapleik gegn San Francisco 49ers. Þá er það jákvæða upptalið en liðið steinlá 36-9 þar sem Daniel Jones var beittasti hlaupari liðsins. Sóknin fömblaði fjórum sinnum en náði að endurheimta boltann tvisvar gegn varaliði Kyle Shanahan. Næsti leikur er gegn Rams á útivelli. Guð blessi íþróttahreyfingu New York borgar.
31. Washington Football Team (-)
Washington vörnin hélt Cleveland Browns stigalausum í fyrsta og þriðja leikhluta en hleyptum þeim í 17 stig í öðrum og fjórða. Dwayne Haskins kastaði þremur töpuðum boltum og fömblaði tvisvar. Ef hann er svarið í leikstjórnandastöðunni, þá er hann að fara þykka krókaleið til þess að svara kallinu. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála í höfuðborginni en ef Trevor Lawrence eða Justin Fields verða í boði fyrir Ron Rivera næsta apríl, þá fer ekki á milli mála að starfsöryggi Haskins verður í hættu.
32. New York Jets (-)
Það er ekki margt í spilunum sem bendir til þess að New York Jets muni gera eitthvað að viti í vetur. Það hlýtur hinsvegar að styttast í að Adam Gase og þjálfarateymi hans fái reisupassann. Risatap gegn Colts á sunnudaginn og næsti leikur gegn sinubrunanum sem Denver Broncos liðið er um þessar mundir. Það er séns fyrir Jets að sækja sér sinn fyrsta sigurleik næsta fimmtudag.