Eftir stórfenglega 2. umferð í deildakeppni NFL er komið að því að raða liðunum upp eftir styrkleika. Meiðsli settu stór strik í reikninginn og margar stórstjörnur lágu í valnum og endurspeglast það hér í þessari kraftröðun.
Leikmenn á borð við Nick Bosa, Saquon Barkley, Courtland Sutton, Christian McCaffrey, Jimmy Garoppolo, Drew Lock, Brandon Scherff og Tavon Young munu annaðhvort ekki spila meira á tímabilinu eða missa af handfylli af leikjum. Þetta er reiðarslag fyrir deildina en hagur af gæðum hurfu á einu bretti á sunnudaginn síðasta.
1. Baltimore Ravens (-)
Hrafnarnir sitja sem fastast á toppi listans en þeir lögðu Houston Texans seinustu helgi og eru komnir í 2-0 eftir tvær vikur. Leikur ársins verður á mánudaginn þegar þeir mæta Kansas City Chiefs í Baltimore.
2. Kansas City Chiefs (-)
Andy Reid og félagar rétt sluppu við skrekkinn eftir framlengingarsigur gegn rafmögnuðum riðilsbræðrum sínum frá Los Angeles. 3 stiga sigur og Chiefs halda sér í öðru sæti listans.
3. Green Bay Packers (+1)
Green Bay færist upp um einn rass eftir sigur á Detroit Lions þar sem liðið skoraði aftur yfir 40 stig í leik. Packers voru undir eftir fyrsta leikhluta en svöruðu því með 31 stigi gegn núll í næsta tveimur leikhlutum. Aaron Jones fór á kostum og Jamaal Williams var ekki síðri. Áhyggjuefni er að Devante Adams er að glíma við meiðsli aftan í læri en Matt LaFleur ákvað að setja Adams ekki aftur inn í leikinn í seinni hálfleik en þá voru Packers komnir með gott forskot. Mikilvægt að Adams haldist heill fyrir þessa Green Bay sókn.
4. Seattle Seahawks (+1)
Sigur gegn Bill Belichick og New England Patriots á heimavelli í stórskemmtilegum leik þar sem Russell Wilson hélt skínandi frammistöðu sinni áfram. Sendingavörnin á þó langt í land og hefur fengið á sig 831 jarda eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins.
5. New Orleans Saints (-2)
Saints vélin er hikstandi um þessar mundir og eftir ósannfærandi sigur gegn Buccaneers fyrir viku mættu Drew Brees og félagar flatir á splunkunýjan heimavöll Las Vegas Raiders og voru sendir heim með tap í farteskinu. Sean Payton var án Michael Thomas sem var meiddur en vandamálin voru helst varnarmegin hjá New Orleans. Malcolm Jenkins var gjörsamlega úti á túni í leiknum og naut Raiders sóknin góðs af því.
6. Tampa Bay Buccaneers (+3)
Það er ekki að frammistaða Tampa Bay gegn Carolina á sunnudaginn hafi verðskuldað þriggja sæta bætingu á milli styrkleikalista, heldur fannst mér ég þurfa að fella 49ers niður um eitt sæti vegna meiðslanna sem hrjá hópinn næstu vikur (og í tilfelli Bosa, allt tímabilið). Buccaneers spiluðu vel í fyrri hálfleik en komu út hrikalega flatir í þriðja leikhluta en náðu að standast áhlaup Panthers sem gáfust aldrei upp. Hlaupavörn Tampa stóð sig vel að venju en Vita Vea og Ndamukong Suh eru hrikalega þétt pörun á varnarlínumönnum.
7. San Francisco 49ers (-1)
Skyldusigur gegn slöku New York Jets liði í leik þar sem Nick Bosa og Solomon Thomas slitu krossbönd, Jimmy Garoppolo snéri ökkla og hlaupararnir Tevin Coleman og Raheem Mostert meiddust á hné. Mikil blóðtaka fyrir Niners liðið sem fellur niður um einn rass í þessari útgáfu.
8. Pittsburgh Steelers (-)
Pittsburgh standa í stað á milli vikna eftir ósannfærandi sigur á heimavelli gegn B-liði Denver Broncos. Denver, sem var án Von Miller, A.J. Bouye og Phillip Lindsay, misstu leikstjórnandann Drew Lock og Courtland Sutton útaf vellinum vegna meiðsla. Þrátt fyrir það náðu Ben Roethlisberger og Steelers ekki að slíta sig almennilega frá Denver liðinu sem sýndi baráttu og átti séns á að stela sigri undir lok leiks.
9. Dallas Cowboys (-2)
Þrátt fyrir sögulegan sigur á Atlanta Falcons á sunnudaginn renna kúrekarnir niður um tvö sæti og rétt hanga inná topp 10. Liðið hefur ekki verið traustvekjandi í byrjun móts en ætti ná að stilla saman strengi sína á komandi vikum. Ekki hjálpar það að Travis Frederick lagði skóna á hilluna í sumar og hægri tæklarinn La’el Collins er á meiðslalistanum og gæti snúið tilbaka eftir leikviku 3 í fyrsta lagi.
10. Arizona Cardinals (-)
Kyler Murray afgreiddi Washington um helgina en hann hljóp inn tvö snertimörk og senti fyrir öðru þegar Cardinals sigurðu Washington 30-15. Vörn Cardinals náði að halda Haskins og félögum skorlausum í fyrri hálfleik en vörnin felldi Haskins fjórum sinnum og átti 8,5 tæklingar fyrir tapi. Næstu þrír leikir hjá Arizona eru Detroit (heima), Panthers (úti) og Jets (úti) svo útlitið er gott og möguleiki á að byrja tímabilið 5-0.
11. Tennessee Titans (+1)
Titans litu vel út í fyrri hálfleik gegn Jacksonville um helgina ef litið er framhjá þremur þjófstörtum í röð í lok fyrsta leikhluta. Í seinni hálfleik komst Gardner Minshew á bragðið og gerði leik úr þessu. Vörn Titans míglak í þessum leik en nýliðinn James Robinson lék við hvern sinn fingur í hlaupaleiknum á meðan Derrick Henry komst varla lönd né strönd. Það vantar smá sannfæringu í þetta lið. Gostkowski klikkar ekki frekar en fyrri daginn!
12. Buffalo Bills (+1)
Josh Allen hefur litið stórkostlega út það sem af er tímabili. Hann hefur reyndar aðeins mætt New York Jets og Miami Dolphins en hann virðist hafa tekið framförum í kastleiknum yfir sumarið. Það er gaman að sjá tengingu hans og Stefon Diggs sem var stórgóður í Miami leiknum. Nú þarf maður bara að sjá Buffalo fá alvöru andstæðinga en þeir fá LA Rams í heimsókn næsta sunnudag.
13. Los Angeles Rams (+3)
Hrútar Kalíforníu eru komnir í 2-0 og eiga útileik gegn Buffalo Bills um helgina sem gæti orðið flugbeitt skemmtun. Jared Goff virðist vera í meira stuði en hann var í í fyrra og Micah Kiser vann nýverið varnarverðlaun vikunnar NFC megin. Vörn Rams náði ekki að fella Carson Wentz einu sinni í seinasta leik en hann var felldur átta sinnum í sínum fyrsta leik, gegn Football Team. Er það áhyggjuefni? Líklega ekki.
14. New England Patriots (-)
Patriots standa í stað á milli útgáfa en þeir stóðu sig vel í frábærum leik gegn Seattle um helgina. Það er heilmargt í þetta lið spunnið, þrátt fyrir að það sakni margra góðra leikmanna sem ákváðu að spila ekki í ár sökum faraldurs. Cam Newton og félagar taka á móti Derek Carr og Raiders á heimavelli næsta sunnudag en það verður vonandi hörku barátta.
15. Indianapolis Colts (+2)
Mo Alie-Cox og Jonathan Taylor drógu vagninn sóknarlega fyrir Colts en vörnin stal þremur sendingum í fyrsta heimaleik tímabilsins. Flottur viðsnúningur eftir súrt tap gegn Jacksonville í fyrstu umferð.
16. Minnesota Vikings (-5)
Minnesota Vikings eru í frjálsu falli eftir annan ósigur sinn í röð en á sunnudaginn lutu þeir í lægra haldi fyrir Indianapolis Colts. Kirk Cousins átti ömurlegan dag en hann tapaði þremur boltum í leiknum sem þurrkuðu út alla möguleika liðsins á að ógna Philip Rivers og félögum.
17. Cleveland Browns (+1)
Baker Mayfield átti flottan dag í fimmtudagsleik 2. umferðar þar sem Browns unnu fimm stiga sigur gegn Cincinnati Bengals. Hlaupaleikur liðsins gekk eins og heitur hnífur í gegnum smjör og skiluðu Nick Chubb og Kareem Hunt 210 jördum í 32 tilraunum.
18. Philadelphia Eagles (-3)
Tímabilið fer ekki vel af stað í borg bræðraástarinnar. 0-2 og lítil von í brjósti. Carson Wentz hefur verið ömurlegur en sóknarlínan þeirra er í molum. Tap gegn sterku liði Rams heldur liðinu sigurlausu en næsti leikur er heima gegn Joe Burrow og Bengals. Það er leikur sem verður að vinnast ætli Philadelphia sér einhverjar gloríur í vetur.
19. Las Vegas Raiders (+2)
Í fyrsta heimaleik í Las Vegas Raiders í NFL deildinni lentu Jon Gruden og lærisveinar hans undir snemma gegn New Orleans en náðu að jafna leikinn fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik yfirspiluðu þeir Saints vörnin og sigldu heim glæstum sigri og eru nú komnir með sigurhlutfallið 2-0.
20. Houston Texans (-)
Skyldutap gegn sterku Ravens liði á heimavelli í seinasta leik. Hlaupavörnin var ekki sterk en það er svosem erfitt að stöðva hlaupaleik Baltimore um þessar mundir. Vörnin átti þó fjórar fellur á Lamar Jackson sem er jákvætt en J.J. Watt bar ábyrgð á tveimur þeirra. Texans fara til Pittsburgh á sunnudaginn og freista þess að setja 1 í sigurdálkinn.
21. Los Angeles Chargers (+4)
Þrátt fyrir annað tap sitt á tímabilinu stökkva Chargers menn hér upp um fjögur sæti í nýjustu styrkleikaútgáfu Leikdags. Tyrod Taylor spilaði ekki sökum meiðsla í bringu og því steig nýliðinn Justin Herbert á stokk og átti þrusu leik. Patrick Mahomes og Chiefs unnu leikinn með þremur stigum eftir framlengingu en liðsmenn Anthony Lynn geta verið stoltir af frammistöðu sinni í leiknum.
22. Atlanta Falcons (-)
Úff. Atlanta varð fyrsta lið sögunnar sem skorar 39 stig, stelur þremur boltum, tapar engum bolta og tapar samt. Falcons voru 15 stigum yfir þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Þrátt fyrir sögulegt egg spilaði liðið virkilega vel í fyrri hálfleik og eins og áður kom fram, þvinguðu boltann úr höndunum á Cowboys liðinu fjórum sinnum og náðu þremur þeirra. Þeir mæta Chicago Bears næsta sunnudag á heimavelli sem hlýtur að vera gríðarlega mikilvægur leikur uppá framtíð þjálfara liðsins, Dan Quinn.
23. Chicago Bears (+1)
Chicago Bears er eitt af 10 taplausum liðum í deildinni eftir tvær umferðir. Sigrarnir komu gegn Detroit og New York Giants en næsti leikur er gegn Atlanta Falcons á útivelli. Þeir koma sér einu sæti ofar í styrkleikaröðuninni en ég yrði hissa ef þetta verður ekki hæsta plássið þeirra á tímabilinu.
24. Detroit Lions (-1)
Það hlýtur að fara að hitna undir Matt Patricia en ljónin hans hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum. Báðir leikirnir voru gegn riðilsbræðrum sínum svo wildcard vonir hafa nánast kafnað nú þegar. Næsti leikur er gegn Arizona Cardinals á útivelli.
25. Denver Broncos (-6)
Vic Fangio og félagar í Denver falla liða mest í þessari útgáfu en liðið tapaði sínum öðrum leik á tímabilinu gegn Steelers í Pittsburgh. Meiðsladraugurinn heldur áfram að hrjá Broncos liðið en útherjinn Courtland Sutton spilar ekki meira með á tímabilinu. Einnig meiddust Drew Lock og Dre’Mont Jones og gætu misst úr allt að fimm vikur. Jeff Driskel kom inn fyrir Lock gegn Steelers og stóð sig nokkuð vel en spurningin er hvort hann nái að krækja í nokkra sigra í fjarveru Lock.
26. Jacksonville Jaguars (+5)
Það er fullt af malti í þessu Jacksonville liði. Þeir áttu stórgóðan seinni hálfleik gegn Tennessee Titans á útivelli á sunnudaginn og áttu tækifæri til að vinna leikinn. Það er erfitt að vinna leiki þegar maður gefur boltann frá sér en Minshew kastaði tveimur boltum í fangið á Titans varnarmönnum. Seinni tapaði boltinn tryggði Titans sigur í leik þar sem hlaupavörn Jaguars stóð sig gríðarlega vel og sóknin leit vel út. Gardner Minshew er NFL leikstjórnandi.
27. Miami Dolphins (+1)
Höfrungarnir litu mjög vel út gegn sterku liði Buffalo í leik sem tapaðist með þremur stigum. Miami komst yfir í byrjun fjórða leikhluta, 17-20, en náði ekki að halda þeirri forystu lengur en í rúmar fjórar mínútur. Mike Gesicki var stórkostlegur og dróg inn frábær grip hægri vinstri. Spurningin er hvenær Tua Tagovailoa fær sénsinn en það mætti gerast fyrr en seinna.
28. New York Giants (-2)
Útlitið í stóra eplinu er ekki gott. Hvorki hér né fyrir Jets. Saquon Barkley spilar ekki meira í ár og Sterling Shephard er kominn á meiðslalistann, þó í skammtímavistun. Hann missir að minnsta kosti af næstu þremur leikjum. Næstu mótherjar eru 49ers, Rams og Cowboys.
29. Cincinnati Bengals (-2)
Sóknarlínan og hlaupavörnin hjá Bengals liðinu eru gapandi veikleikar en þrátt fyrir það tapaði liðið aðeins með fimm stigum gegn Baker Mayfield og Browns á fimmtudaginn. Joe Burrow virkar þroskaður og öruggur en hann kastaði boltanum 61 sinni sem skilaði 316 jördum og þremur snertimörkum. A.J. Green leit hræðilega út en hann greip þrjá bolta af 13 sem kastað var í átt að honum.
30. Carolina Panthers (-1)
Varnarlega eru Matt Rhule og félagar arfaslakir og eiga enn eftir að halda andstæðingi sínum undir 30 stigum. Árásateymi Panthers á einnig eftir að fella leikstjórnanda mótherjans en liðið á bara þónokkuð langt í land og ekki hjálpa meiðsli Christian McCaffrey en hann mun sitja á hliðarlínunni í 4-6 vikur.
31. Washington Football Team (-1)
Það vantar nánast allt sóknarlega hjá Washington Football Team. Vörnin lofar góðu en það kæmi mér ekki á óvart skyldu þeir velja leikstjórnanda í fyrstu umferð á næsta ári. Haskins fær auðvitað tímabilið til að breyta þeirri hugmynd en það er ísi lögð brekka framundan í höfuðborginni.
32. New York Jets (-)
Getum við hraðspólað yfir Jets tímabilið?