Vá!
Það er ekki erfitt að færa rök fyrir því að umferðin sem var að líða hafi verið sú skemmtilegasta hingað til. Hún var stórfurðuleg: enginn fimmtudagsleikur, tveir mánudagsleikir og einn þriðjudagsleikur.
Fyrri glugginn á sunnudaginn var hreint út sagt magnaður. Óvænt úrslit, lokasekúndu drama, slagsmál og eitt stórt, feitt egg.
Gregg Williams var látinn fara eftir naumt tap gegn Las Vegas Raiders en ákvörðun hans að senda pressupakka á Derek Carr með enga djúpa varnarmenn undir lok leiksins var dýrkeypt. Anthony Lynn stefnir hraðbyri í átt að sömu örlögum og Williams eftir að liðið hans fékk á sig 45 stig og tókst ekki að skora eitt slíkt gegn New England Patriots.
Carson Wentz var bekkjaður eftir dapra frammistöðu gegn Green Bay, Chicago Bears viðhéldu getuleysi í þriðja leikhluta, New York Giants gerðu sér lítið fyrir og sóttu sigur gegn Seattle Seahawks og Kansas City Chiefs sluppu með skrekkinn gegn Denver Broncos.
Pittsburgh Steelers tapaði fyrir einfættum leikstjórnanda, Baker Mayfield var á eldi í fyrri hálfleik gegn Tennessee Titans og Houston Texans fömbluðu á lokametrunum og gáfu Indianapolis Colts sigur á silfurfati. Aaron Rodgers fór í sögubækurnar og Baltimore Ravens unnu leik með covid-lausum Lamar Jackson
1. Kansas City Chiefs (-)
Kansas City mættu feiknasterkri Denver Broncos vörninni sem gerði sókn Chiefs erfitt fyrir og hélt henni í 3/10 á 3. tilraun og 0/4 á rauða svæðinu. Höfðingjarnir voru stálheppnir að verr skyldi ekki fara en þeir eru 11-1 og eiga leiki gegn Miami og New Orleans framundan. Kapphlaupið um bye umferðina Ameríkudeildarmegin er formlega hafið!
2. Pittsburgh Steelers (-)
Það kom að því að liðsmenn Mike Tomlin lutu í lægra haldi en þeir hafa hingað til náð að kreista fram þónokkra sigra sem hefðu getað dottið hvoru megin sem var. Nú þurfa Steelers að endurstilla miðið, brýna eggvopnin og hlaða byssurnar því framundan eru Buffalo Bills á útivelli.
3. New Orleans Saints (-)
Hægt og rólega lítur Taysom Hill meir og meir út eins og leikstjórnandi. Besti leikur hans á tímabilinu kom um helgina í 5 stiga sigri gegn Atlanta Falcons. Vörnin hélt á ögurstundu og skóp sigurinn en Demario Davis var þar fremstur í flokki og átti tvö risa stopp gegn Todd Gurley undir lok leiksins.
4. Green Bay Packers (-)
Green Bay er næstbesta liðið í Þjóðardeildinni en þarf að standa betur í lappirnar varnarlega. Sigur gegn Philadelphia um helgina og innanriðilsslagur gegn Detroit Lions um þá næstu. Eru ennþá í bullandi baráttu um fyrsta sæti Þjóðardeildarinnar og eiga fjóra vinnanlega leiki eftir af leikjaplaninu.
5. Buffalo Bills (+1)
Sendingaleikurinn var á blússandi siglingu á mánudaginn en hlaupaleikurinn var hvergi sjáanlegur. Josh Allen var á eldi og þessi leikur var mikilvægur fyrir hann og kapphlaupið um MVP verðlaunin. Fjórir strembnir leikir eftir af leikjaplaninu og farið er að hitna í kolunum um efsta sæti austurriðils Ameríkudeildar.
6. Seattle Seahawks (-1)
Óskiljanlegt og afskaplega dýrkeypt tap um helgina gegn New York Giants liði með Colt McCoy undir stýri. Hlaupavörn Seahawks réði ekkert við Wayne Gallman sem hengdi á þá 135 hlaupajarda í 16 tilraunum. Sóknarlínan réði ekkert við varnarlínu Giants en Russell Wilson var felldur fimm sinnum en Leonard Williams átti 2,5 þeirra. Seahawks eru nú í öðru sæti riðilsins en eiga New York Jets og Washington Football Team í næstu tveimur umferðum.
7. Los Angeles Rams (+3)
Los Angeles Rams eru á fínni siglingu þessa dagana. Sigrar gegn Seattle, Tampa Bay og Arizona í síðustu fjórum leikjum. Vörnin er að fá á sig rétt rúm 20 stig í leik og sóknin er um miðja deild þegar kemur að stigaskori. Hrútarnir eru komnir upp í efsta sæti vesturriðils Þjóðardeildarinnar eftir súrt tap Seattle um helgina.
8. Indianapolis Colts (-)
Indianapolis voru stálheppnir upp við endasvæði sitt gegn Houston Texans undir lok leiksins. Afdrifarík mistök Texans sóknarinnar á síðustu stundu leiksins gerði það að verkum að Colts náðu að flýja með sigur og eru nú með sömu úrslitaskrá og Tennessee Titans þegar fjórir leikir eru eftir og spennan í algleymingi.
9. Tampa Bay Buccaneers (-)
Bye vika hjá Tampa Bay.
10. Tennessee Titans (-3)
Liðsmenn Mike Vrabel féllu saman í fyrri hálfleik gegn spræku Cleveland Browns liði í fyrri glugganum á sunnudaginn. Staðan var 38-7 fyrir Browns í hálfleik en eitthvað hlýtur Vrabel að hafa sagt í hálfleiksræðu sinni því liðið átti flottan seinni hálfleik og náði að lokum að saxa forystu Cleveland niður í sex stig áður en blásið var til leiksloka.
11. Baltimore Ravens (-)
Ravens menn náðu að rétta úr kútnum í gærkvöldi þegar þeir bundu enda á þriggja leikja tapgöngu með sigri á Dallas Cowboys, 34-17. Næst mætir liðið Cleveland Browns sem eru á þrusu siglingu og er tveimur leikjum fyrir ofan Baltimore liðið sem endar síðan á nokkuð léttu þriggja leika prógrammi: JAX, NYG og CIN.
12. Miami Dolphins (-)
Það er alvöru prófraun framundan hjá Miami Dolphins sem voru betra liðið gegn Cincinnati Bengals um helgina. Dolphins fá nefninlega Kansas City Chiefs í heimsókn næsta sunnudag en viðureignin verður mælistika fyrir vörn Brian Flores en liðið hefur mætt slökum sóknum undanfarna fjóra leiki.
13. Cleveland Browns (-)
Stórkostleg frammistaða Browns liðsins í fyrri hálfleik gegn Tennessee Titans rétt dugði til sigurs en seinni hálfleikur var hvergi nærri nógu góður. Hlaupavörnin stóð sig vel gegn Derrick Henry en útherjinn Corey Davis lék lausum hala og bauð uppá 182 gripjarda í leiknum. Baker Mayfield átti frábæran dag og er liðið 9-3 og í öðru sæti riðilsins þegar fjórir leikir eru eftir.
14. Arizona Cardinals (-)
Kliff Kingsbury og félagar eiga 37% líkur að ná inn í úrslitakeppnina samkvæmt FiveThirtyEight en liðið hefur tapað þremur leikjum í röð. Næstu tveir ættu að gefa von um betri möguleika en liðið flýgur til New York um helgina og etur kappi við fótboltarisana. Svo býður liðið Philadelphia Eagles velkomna í leikviku 15 og fær síðan tvo hörku leiki til að slútta deildarkeppninni.
15. Las Vegas Raiders (-)
Ræningjunum og ruplurunum frá Las Vegas er að fatast flugið þessa dagana en fengu þó innpakkaðann sigur með gullborða frá Gregg Williams leiddri Jets vörninni um helgina. Raiders voru alls ekki sannfærandi í þessum leik og voru bara stálheppnir að fá sigur í hendurnar. Erfiður leikur gegn Colts í næstu umferð þar sem margt mun skýrast með framhald liðanna.
16. Minnesota Vikings (-)
Sparkaranum Dan Bailey brást bogalistin á ögurstundu þegar hann klikkaði úr 51 jarda vallarmarkstilraun fyrir sigrinum undir lok leiks Vikings og Jacksonville Jaguars. Hann fékk þó annað tækifæri til að klára leikinn, sem hann nýtti, og Vikings komnir í 6-6 og eiga 40% líkur á úrslitakeppnissæti. Tampa, Chicago og New Orleans næst á dagskrá. Brekka.
17. San Francisco 49ers (+1)
San Francisco hafa tapað þremur af fjórum og verma botnsæti vesturriðils Þjóðardeildarinnar. FiveThirtyEight gefur liðinu 26% líkur á úrslitakeppnissæti en vinni liðið næstu þrjá leiki aukast líkurnar upp í 78%. Washington, Dallas og Arizona næst. Þetta er ekki búið.
18. Atlanta Falcons (-1)
21-16 tap fyrir New Orleans Saints og Atlanta eru 4-8 líkt og Carolina Panthers. Það verður þó spennandi fyrir aðdáendur liðsins að sjá hvað kemur upp úr krafsinu hvað framkvæmdastjóra og aðalþjálfara varðar. Það er heljarinnar verk fyrir höndum hjá hverjum þeim sem hljóta þessi störf.
19. Carolina Panthers (-)
Bye vika hjá Carolina.
20. New England Patriots (+2)
New England Patriots halda áfram að koma á óvart en þeir tóku Los Angeles Chargers í kennslustund með 45-0 frammistöðu sinni um helgina. Bill Belichick þarf að vinna næstu þrjá (að minnsta kosti) til að eiga séns á úrslitakeppnissæti. Eins og staðan er núna eru 13% líkur á úrslitakeppnisþátttöku samkvæmt formúlu FiveThirtyEight. Hörku leikur á morgun gegn Los Angeles Rams en það er leikur sem bæði lið vilja svo sannarlega vinna.
21. Houston Texans (-)
Texans, líkt og önnur lið með úrslitaskrána 4-8, geta farið að hugsa til næsta tímabils en það eru undir 1% líkur á sæti í úrslitakeppninni. Aðdáendur liðsins geta huggað sig við vonina um bjartari tíma með Deshaun Watson undir senter, nýtt þjálfarateymi og framkvæmdastjórn.
22. Chicago Bears (-2)
Bears töpuðu gegn erkifjendunum frá Detroit um helgina, 34-30, sem markaði sjötta tapleik liðsins í röð eftir 5-1 byrjun. Eins og flestallir í heiminum sá ritstjórn í gegnum gabbið sem Bears liðið var á þeim tíma. Búið ykkur undir miklar breytingar í borg vindanna.
23. Denver Broncos (+1)
Það munaði alls ekki miklu að liðsmenn Vic Fangio tækju niður Patrick Mahomes og Andy Reid seinasta sunnudagskvöld. Drew Lock hélt uppteknum hætti og kastaði boltanum í tvígang frá sér og í hendur Chiefs varnarinnar en drengurinn er að spila sig hratt og örugglega útúr framtíðarplönum liðsins. John Elway þarf að klippa á strenginn og sækja Matt Stafford til Detroit, ekki seinna en um-leið-og-það-má. Lock þarf sögulegar frammistöður til að sanna gildi sitt fyrir aðdáendum liðsins.
24. Philadelphia Eagles (-1)
Jalen Hurts fékk að spila nánast allan seinni hálfleik gegn Green Bay Packers í 30-16 tapi um helgina og Doug Pederson hefur gefið það út að Hurts mun byrja leikinn gegn New Orleans Saints í næstu umferð. Getur Jalen Hurts kælt heita sætið sem Pederson situr á?
25. Detroit Lions (+1)
Millibilsástandsþjálfari Detroit Lions, Darrell Bevell, sótti sinn fyrsta sigur þegar liðið kom til baka eftir að hafa verið 10 stigum undir þegar rúmar 4 mínútur voru til leiksloka og lagði Chicago Bears á sunnudaginn. Leikmenn fundu mikinn mun á andrúmsloftinu eftir brottrekstur Matt Patricia en Bevell predíkaði læti, stæla og spennu alla vikuna fyrir leikinn.
26. Washington Football Team (+1)
Einfættur Alex Smith og Washington liðinu tókst það sem 11 liðum í vetur hefur mistekist: að leggja Pittsburgh Steelers að velli. Ron Rivera og félagar eru komnir skrið eftir þriðja sigurleikinn í röð. Washington eru í harðri baráttu við New York Giants um úrlistakeppnissæti og fljúga vestur á bóginn um helgina til að etja kappi við San Francisco 49ers.
27. New York Giants (+1)
Líkt og Washington, þá eru risarnir frá stóra eplinu á sigurgöngu. Joe Judge er kominn með fjóra leiki í röð og efsta sætið í austurriðli Þjóðardeildarinnar. Giants eiga Arizona á heimavelli í næstu umferð. Gárungar telja að Daniel Jones eigi ágætis möguleika á því að spila gegn Cardinals á sunnudaginn svo Colt McCoy gæti verið á leiðinni á bekkinn.
28. Los Angeles Chargers (-3)
0 stig gegn New England Patriots? 0 orð um liðið hér.
29. Dallas Cowboys (-1)
Það verður að teljast ólíklegt að Jerry Jones losi sig við Mike McCarthy og hans menn eftir aðeins eitt tímabil. Jafnvel þó það væri það rétta í stöðunni. Jerry Jones hefur ekki gert neitt fyrir þetta félag síðan hann rak Tom Landry og réði Jimmy Johnson árið 1989, sama ár og hann keypti það. Á sínu fjórða, fimmta og sjöunda ári sem eigandi, forseti og framkvæmdastjóri vann liðið Ofurskálar en síðan þá er liðið 4-10 í úrslitakeppninni og lítið verið að frétta. Jerry, finndu þér framkvæmdastjóra í guðanna bænum, þú ert orðinn gamall karl.
30. Cincinnati Bengals (-)
Ég er alls ekki viss hvort Zac Taylor og teymið hans haldi vinnunni eftir tímabilið. Það hafa verið að berast orðrómar frá herbúðum liðsins um slæma framkomu þjálfaranna í garð leikmanna en við sjáum hvað gerist þegar rykið sest. Bengals gætu sótt sér einn sigur til viðbótar gegn Dallas Cowboys í næstu umferð.
31. Jacksonville Jaguars (-)
Minnstu munaði að Jacksonville eignuðu sér efsta valréttinn tímabundið en allt kom fyrir ekki: New York Jets gátu ekki unnið unnin leik. Jaguars voru sjálfir í jöfnum og skemmtilegum leik sem endaði með vallarmarki Vikings í framlengingu. Búast má við allskonar breytingum í Flórída á næstu mánuðum.
32. New York Jets (-)
Gregg Williams var látinn taka pokann sinn í kjölfar verstu ákvörðunar í sögu NFL. Hann skildi bakvörðinn Lamar Jackson eftir á eyðieyju gegn hlaupastjörnunni Henry Ruggs og því fór sem fór. Williams verður ekki saknað en þetta er það besta sem Jets félagið hefur gert í vetur.