Þá er leikvika níu komin og farin en útfrá henni spruttu nokkrir áhugaverðir söguþræðir og eins og alltaf: óvænt útslit og naglbítar.
Christian McCaffrey mætti aftur á völlinn eftir slæm meiðsli í leikviku 2. Hlauparinn bauð uppá 151 blandaða jarda og tvö snertimörk í naumi tapi Carolina Panthers gegn Kansas City Chiefs. Kyle Allen, leikstjórnandi Washington, fór meiddur af velli eftir ljótt atvik þar sem hann fór úr ökklalið. Hann mun fara í aðgerð sem bindur enda á tímabilið hans.
Los Angeles Chargers og Las Vegas Raiders öttu kappi í algjörum naglbít þar sem lærisveinar Anthony Lynn virtust loks ná að sigra jafnan leik. Snertimarkið sem gaf þeim forskotið var þó blásið af eftir nánari skoðun dómarans og Raiders sigur staðreynd.
Kyler Murray og Tua Tagovailoa tókust á um helgina og úr varð hin mesta skemmtun í leik sem Miami báru að lokum sigur úr býtum. Vörn New Orleans Saints steikti Tom Brady og félaga í risaleik helgarinnar. Brady komst alls ekki vel frá þessum leik en hann kastaði þremur töpuðum sendingum í leiknum á meðan Drew Brees lék við hvern sinn fingur og endurheimti snertimarkametið sem þeir tveir bítast um.
Russell Wilson var dreginn niður til jarðar í tapi gegn sendingaglöðu Buffalo Bills liði og Minnesota Vikings gætu verið komnir með uppskrift að sigrum en liðið er 3-0 þegar Kirk Cousins kastar 22 sinnum eða sjaldnar og kastar ekki tapaðri sendingu. Dalvin Cook bar liðið á herðum sér aðra umferðina í röð.
1. Kansas City Chiefs (-)
Minnstu munaði að efstu fjögur liðin frá seinustu útgáfu töpuðu öll leikjum sínum í þessari umferð. Chiefs hinsvegar náðu að knýja fram tveggja stiga sigur gegn Carolina Panthers.
2. Pittsburgh Steelers (-)
Pittsburgh Steelers voru í raun bara heppnir að tapa ekki gegn næstlélegasta liði NFL á sunnudaginn þegar þeir sluppu með skrekkinn í 24-19 sigri gegn Dallas Cowboys. Liðið er enn taplaust og þessir sigrar telja jafnmikið og góðir sigrar.
3. Baltimore Ravens (+2)
Baltimore Ravens sóttu kærkominn sigur gegn nokkuð sterku liði Indianapolis Colts. Afturför er orð sem kemur upp þegar maður hugsar um Ravens. Þeir áttu svo stórgott tímabil í fyrra að erfitt var að sjá fyrir að þeir næðu að endurtaka leikinn. Jackson hefur verið felldur mikið oftar það sem af er vetri, sendingaheppnunin hans hefur tekið högg og ljóst er að hann mun ekki leiða deildina í köstuðum snertimörkum annað árið í röð.
4. Green Bay Packers (+2)
Grænir og gulir koma sér aftur inn á topp fimm með sigri gegn San Francisco 49ers í fimmtudagsleik umferðarinnar. Aaron Rodgers var óaðfinnanlegur í leiknum og Davante Adams var engu síðri.
5. New Orleans Saints (+2)
Loksins mætti Saints vörnin á svæðið! Stórfengleg frammistaða varnarinnar gegn heitu Tampa Bay liði í seinasta sunnudagsleik umferðarinnar. 38-3 slátrun staðreynd í leik þar sem Tom Brady var bókstaflega alltaf undir pressu. Michael Thomas snéri aftur til leiks eftir langa baráttu við meiðsli og lítilsháttar slagsmál á æfingu.
6. Buffalo Bills (+2)
Buffalo Bills lögðu Seattle Seahawks í risaleik um helgina. Josh Allen var á eldi gegn sögulega ömurlegri sendingavörn Seattle. Bills nýttu sér þann veikleika og ekki skemmdi fyrir að Carlos Hyde og Chris Carson voru hvorugir með Seattle í leiknum. Samtals voru 12 fellur í leiknum en öflugastur Bills manna var A.J. Klein með tvær Wilson fellur.
7. Seattle Seahawks (-3)
10 stiga tap gegn Buffalo Bills fellir Seattle úr topp fimm í nýjustu úgáfu styrkleikalistans. Wilson var með tvær tapaðar sendingar í leiknum en það var augljóst hve mikið liðið saknaði hlauparanna sinna. Sendingavörnin heldur áfram að brenna liðið og ekki hjálpaði Jamal Adams í þeim hluta varnarinnar. Árásateymin náðu sjö fellum á Josh Allen en allt annað er að sjá pressupakka liðsins eftir slappa byrjun.
8. Tampa Bay Buccaneers (-5)
Algjört hrun og niðurlæging í eigin bakgarði. Tampa Bay náðu aldrei takti sóknarlega en þeim tókst aðeins að sækja sér endurnýjun fjórum sinnum í fyrri hálfleik. Sóknirnar vörðu stutt og vörnin fékk lítinn tíma til að blása á hliðarlínunni en það kann ekki góðri lukku að stýra. Antonio Brown spilaði sinn fyrsta leik í búningi Tampa Bay og nú bíða allir eftir að spilaborgin hrynji ævintýralega.
9. Tennessee Titans (-)
Ljótur sigur gegn sterkri Bears vörn sem gerði Titans lífið leitt í fyrri hálfleik þar sem liðið pöntaði fimm sinnum. Þeir hanga inná topp tíu.
10. Indianapolis Colts (-)
Eins mikið og mig langar til að fella Colts úr hópi topp tíu bestu liðanna, þá fá þeir að sitja hérna fram að næstu umferð. Philip Rivers er svo greinilega ekki lengur sami leikmaðurinn en það sáu það allir í fyrra en einhverra hluta vegna virtustu Colts vilja hafa trú á honum. Hann var 13/14 í sendingum sem náðu ekki fram yfir bardagalínuna og 12/29 í boltum sem ferðuðust lengra en 1 jarda framyfir línuna. Vörnin er alvöru, samt.
11. Miami Dolphins (+4)
Þetta er kannski fullmikið stökk fyrir höfrungana en hinn kosturinn var að hafa Las Vegas Raiders hérna og það gengur eiginlega ekki. Dolphins eru á fjögurra leikja sigurgöngu en þeir unnu Arizona Cardinals naumlega um helgina. Tua átti glæsilega frammistöðu og vörnin heldur áfram að skora snertimörk.
12. Los Angeles Rams (-)
Sitja kyrrir í tólfta sæti vegna bye viku.
13. Las Vegas Raiders (-)
Naumur sigur gegn Chargers í einum af skemmtilegri leikjum umferðarinnar. Vörnin er frekar lin en sóknarlega er hellings högg í Jon Gruden og félögum. Hef á tilfinningunni að þeir fari ekki hærra en þetta það sem eftir er.
14. Cleveland Browns (-)
Browns standa í stað vegna bye viku.
15. Arizona Cardinals (-4)
Þetta er mögulega fullmikið fall fyrir Kyler Murray og félaga en Browns og Rams áttu bæði bye viku og standa því fastlega í lappirnar á milli útgáfa og því ekki hægt að mýkja fall Cardinals eftir tap gegn Miami um helgina. Kyler Murray er ofurhetja.
16. Minnesota Vikings (+4)
Tveir sterkir innan-riðils sigrar í röð hjá Minnesota sem eiga Chicago Bears á útivelli í næstu umferð. Allir þrír sigrar liðsins í ár hafa komið þegar Kirk Cousins er í litlu hlutverki og kastar boltanum ekki frá sér. Sóknin er keyrð áfram af Dalvin Cook og hlaupablokkeringum.
17. Chicago Bears (-1)
Sama gamla tuggan. Sóknarlega eru Bears ekki frambærilegir, hvorki í kast- eða hlaupaleiknum. Nú byrja menn að spyrja sig hvort fyrrum þjálfari ársins sé ekki bara kominn á leiðarenda með þetta lið. Þrír tapleikir í röð og mikilvægur innan-riðils leikur framundan gegn Minnesota.
18. Philadelphia Eagles (-)
Bye vika.
19. San Francisco 49ers (-2)
Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá Ofurskálarleiksliði San Francisco í vetur. Verðskuldað tap gegn Green Bay Packers á fimmtudaginn dregur úrslitaskrá liðsins niður í 4-5. Framundan eru leikir gegn Saints, Rams og Bills.
20. Atlanta Falcons (+1)
Góð frammistaða í fyrri hálfleik gegn Denver Broncos á sunnudaginn skóp 34-27 sigur. Falcons menn fengu þó að svitna svolítið en Broncos hengdu 21 stig á liðið í fjórða leikhluta en nú náðu Atlanta að standast áhlaupið. Það er allt annað sjá liðið eftir að Dan Quinn tók pokann sinn og Raheem Morris tók við, tímabundið.
21. Detroit Lions (-2)
Það hefur verið erfitt að lesa og staðsetja Lions liðið undanfarin ár vegna þess hve góð sóknin hefur möguleika á að vera. Ég, hinsvegar, sé nú loks í gegnum þessa þoku. Þetta er bara arfaslakt og illa þjálfað lið. Þeir losa sig við Matt Patricia fljótlega. Ég lofa.
22. Houston Texans (+1)
Texans eru aðeins svona ofarlega vegna þess að þeir eru með einn besta leikstjórnanda deildarinnar undir samning. Þetta lið þarfnast á algerri yfirhalningu sem hefst í mars. Liðið er komið með sinn annan sigur í ár eftir tveggja stiga sigur gegn Jacksonville Jaguars.
23. Denver Broncos (-1)
Slæmur fyrri hálfleikur gegn Atlanta Falcons kostaði Denver liðið leikinn. 34-27 tap í leik þar sem sex byrjunarliðsmenn varnarinnar vantaði. Drew Lock hefur núna átta leiki í viðbót til að sannfæra Elway og félaga um að leita ekki aftur að nýjum leikstjórnanda.
24. Los Angeles Chargers (-)
Jæja. Eru ekki flestallir orðnir sammála um það að Anthony Lynn hlýtur að fá reisupassann eftir tímabilið? Chargers, eins góður og leikmannahópurinn er, eru ekkert annað en punchline í góðum brandara. Liðið á betra skilið. Nýjan skipper, takk.
25. New England Patriots (-)
Patriots tókst næstum hið ómögulega – að tapa fyrir Adam Gase og þotunum. 30-27 sigur gegn Jets á mánudaginn var kannski ekkert fagnaðarefni? Patriots hljóta að sjá leik í borði og leggja allt undir til að sækja sér einn af þessum spennandi háskólaleikstjórnendum sem í boði verða í apríl.
26. Cincinnati Bengals (-)
Bye vika á tígrisdýrin.
27. Carolina Panthers (-)
Mig langaði að færa Panthers í sæti 25 og fella Patriots niður í þetta sæti en lét ekki verða af því. Carolina tapaði naumlega fyrir Kansa City Chiefs um helgina 31-33 en það liggur ljóst fyrir að spennandi tímar eru framundan hjá Matt Rhule og Joe Brady.
28. New York Giants (-)
Fjórði sigur Daniel Jones á ferlinum gegn Washington Football Team kom um helgina þegar Giants lögðu fótboltaliðið með þremur stigum 23-20. Jones á einn sigur á ferlinum gegn öðru liði en Washington og spurningin fer að verða: Fær Daniel Jones annað ár hjá Giants?
29. Dallas Cowboys (+2)
Cowboys tókst ekki að leggja taplaust lið Pittsburgh af velli þrátt fyrir góða tilraun. Fá hérna plús í kladdann fyrir að standa í þeim.
30. Washington Football Team (-1)
Tap gegn New York Giants. Fullt af vinnanlegum leikjum á dagskránni: CIN, DET, DAL. Skelfileg meiðsli Kyle Allen urðu til þess að Alex Smith steig aftur inn á völlinn á þessu tímabili og sólundaði tækifæri liðsins í fjórða leikhluta til að taka þennan leik.
31. Jacksonville Jaguars (-1)
Skriðdreki.
32. New York Jets (-)
Tveggja hæða skriðdreki.