Þá er enn ein umferðin afstaðin og styttist óðfluga í seinni helming tímabilsins. Tvö taplaus lið töpuðu sínum fyrsta leik, Justin Herbert vann sinn fyrsta sigur á NFL ferlinum og Odell Beckham Jr. spilar ekki meira í ár.
Þetta var ein skemmtilegasta umferðin hingað til. Margir stórskemmtilegir leikir og enn eitt vonbrigðatapið hjá Falcons.
1. Kansas City Chiefs (-)
Kansas City halda sér á toppinum eftir skyldusigur gegn sóknarsveltu Denver liði. Næstu leikir fara fram á Arrowhead vellinum gegn New York Jets og Carolina Panthers.
2. Baltimore Ravens (-)
Baltimore áttu bye viku og sitja því sem fastast í öðru sæti listans. Næsti leikur sker úr um annað og jafnvel fyrsta sæti styrkleikalistans í næstu úgáfu – þá mætast Baltimore og Pittsburgh.
3. Pittsburgh Steelers (-)
Flottur fyrri hálfleikur dugði til að leggja Tennessee Titans af velli á sunnudaginn en litlu munaði að Steelers klúðruðu sigrinum. Erfiður leikur í Baltimore á sunnudaginn.
4. Tampa Bay Buccaneers (+2)
Sannfærandi flenging á Las Vegas Raiders liði sem vann Kansas City Chiefs í seinustu umferð. Tom Brady er kominn á fætur. Vörnin stórkostleg. Devin White og Lavonte David hafa verið frábærir í vetur.
5. Green Bay Packers (-)
Packers sigruðu Houston Texans um helgina en fara ekki fet vegna stórkostlegrar frammistöðu Buccaneers. Næsti leikur gegn Minnesota Vikings.
6. Seattle Seahawks (-2)
Fyrsti tapleikur vetrarins í Seattle kom í seinni glugganum á sunnnudaginn þegar liðið tapaði gen Arizona Cardinals eftir framlengingu.
7. Tennessee Titans (-)
Naumt tap Tennessee gegn Pittsburgh færir nálina ekki mikið. Þetta var leikur tveggja hálfleika en Stephen Gostkowski klikkaði á vallarmarki til að jafn leikinn í blálokin.
8. New Orleans Saints (-)
Bye vika hjá Saints.
9. San Francisco 49ers (-)
San Francisco hlupu Patriots í kaf um helgina þegar þeir unnu 33-6 sigur á Bill Belichick og félögum. Standa þó í stað á þessum lista. Deebo Samuel og Jeff Wilson fóru meiddir af velli, það er áhyggjuefni.
10. Buffalo Bills (-)
8 stiga sigur á New York Jets liði er eiginlega það sama og tap fyrir svona öflugt sóknarlið eins og Buffalo Bills. Heppnir að halda sér innan topp tíu. Næsti leikur gegn slæmu Patriots liði.
11. Los Angeles Rams (+2)
Rams sigruðu Bears grýluna sem hefur verið að hrekkja fólk undanfarið. Hlaupaleikur liðsins gekk eins og smurður en Rams hengdu 161 hlaupajarda á sterka Chicago vörnina.
12. Arizona Cardinals (+2)
Kyler Murray og vinir voru fyrsta liðið til að leggja Seattle af velli en það gerðu þeir með 37-34 framlengingarsigri á sunnudaginn. Upp um tvo og næsti leikur gegn Miami á heimavelli.
13. Cleveland Browns (-1)
Cleveland Browns rétt mörðu sigur á Joe Burrow og Bengals í stórkostlegum leik. Sigurinn var dýrkeyptur því útherjinn Odell Beckham Jr. spilaði sitt síðasta snapp í vetur fyrir Browns en hann sleit krossbönd í hné. Skellur.
14. Indianapolis Colts (+1)
Þrátt fyrir bye viku fá Colts +1 í þessari útgáfu. Þeir geta þakkað New England Patriots fyrir, sem hríðféllu.
15. Las Vegas Raiders (+2)
25 stiga tap gegn Tampa Bay um helgina og Raiders fá +2? Já. Patriots fengu falleinkunn og færast niður sem gerir það að verkum að nokkur lið upplifa bætingu milli vikna. Það er þó bara sjónhverfing.
16. Chicago Bears (-)
Bears vörnin náði ekki að stoppa hlaupið gegn Rams á mánudaginn og sóknin náði ekki að setja stig á töfluna. Nick Foles kastaði tveimur töpuðum boltum og Matt Nagy er kominn undir smásjánna. Næsti leikur gegn Saints er allt í einu orðinn skylduáhorf.
17. Detroit Lions (+2)
Detroit Lions unnu lokasekúndusigur á Atlanta Falcons (kemur á óvart) um helgina þegar Matt Stafford fann T.J. Hockenson í endasvæði Falcons og tryggði ljónunum dýrmætan sigur. Todd Gurley og Atlanta sóknin gerðu slæm mistök og gáfu Stafford færi á að afgreiða sig.
18. Philadelphia Eagles (-)
Philadelphia Eagles unnu tæpan sigur á New York Giants og standa í stað. Það er ósköp lítið að frétta frá Philly en þeir eiga hörku séns á að komast í úrslitakeppnina vinni þeir 1-2 leiki í viðbót.
19. New England Patriots (-8)
Föðurlandssinnarnir voru alveg hræðilegir gegn 49ers á sunnudaginn og eru nú á þriggja leikja tapgöngu. Útileikur gegn Buffalo Bills næstu helgi er ekkert spennandi.
20. Miami Dolphins (-)
Bye vika.
21. Minnesota Vikings (-)
Bye vika.
22. Los Angeles Chargers (+2)
Justin Herbert heldur áfram að heilla og loksins kom fyrsti sigurinn. Chargers unnu Jaguars í skemmtilegum seinni hálfleik. Þeir heimsækja Denver í næstu umferð.
23. Houston Texans (-)
Enn eitt tapið hjá Houston, sem færist nær og nær botni deildarinnar. J.J. Watt er brjálaður og líklega er komin rýmkunaráætlun og hreingerninarskipulag hjá skrifstofunni.
24. Atlanta Falcons (+1)
Dallas voru svo ævintýralega lélegir að Falcons færast sjálfkrafa upp um einn rass, þrátt fyrir enn eitt skítatapið.
25. Denver Broncos (+1)
Denver voru skelfilegir sóknar- og sérliðslega um helgina gegn ríkjandi Ofurskálarmeisturum Kansas City Chiefs. Vörnin var blýstíf og hélt Chiefs í 0/8 á þriðju tilraun. +1 er tilkominn vegna niðursveiflu Dallas Cowboys.
26. Carolina Panthers (+1)
Panthers töpuðu gegn New Orleans Saints á sunudaginn og fá +1 vegna þess hve lélegir Dallas Cowboys voru sem eru komnir niður í 28. sæti listans.
27. Cincinnati Bengals (+1)
Skemmtilegasti leikur umferðarinnar var viðureign Cincinnati og Cleveland sem endaði með 37-34 sigri Browns. 34 stig skoruð í fjórða leikhluta. Næsti leikur Bengals er gegn Titans sem verður líklega svipuð flugeldasýning.
28. Dallas Cowboys (-6)
Dallas Cowboys tapaði hressilega fyrir Washington Football Team um helgina. Andy Dalton fékk glórulausa tæklingu í hausinn og Mike Nolan, varnarþjálfari liðsins, potaði tabasco sósu í augað á sér á zoom fundi. Eagles á útivelli í næstu umferð.
29. Washington Football Team (+2)
Stórsigur gegn Dallas. Upp um tvo rassa. Bye vika á höfuðborgarliðið núna og svo Giants í þarnæstu umferð. Sigurganga framundan?
30. Jacksonville Jaguars (-1)
Lítið um þetta lið að segja. Ætli Doug Marrone missi ekki vinnuna fljótlega? Er ekki kominn tími á að breyta til?
31. New York Giants (-1)
Naumt tap gegn Eagles. Skiptir ekki. Spurningin er þessi: Verður Daniel Jones byrjunarliðsmaður á næsta tímabili?
32. New York Jets (-)
Burt með Adam Gase og Gregg Williams.