Það var heldur betur nóg af óvæntum úrslitum og bráðskemmtilegum söguþráðum í leikviku fimm ef frátalin eru meiðsli Dak Prescott gegn New York Giants. Jimmy Garoppolo kom aftur inn í lið San Francisco en var bekkjaður í hálfleik, Patrick Mahomes tapaði í fyrsta skiptið á ferlinum með meira en sjö stigum, Dalvin Cook meiddist á nára í þriðja leikhluta og kláraði ekki leikinn, viðureign Denver Broncos og New England Patriots var frestað, Michael Thomas kýldi samherja á æfingu og spilaði ekki sökum þess og Dan Quinn var rekinn eftir tap Atlanta Falcons gegn Carolina Panthers.
Kíkjum á þetta.
1. Baltimore Ravens (+1)
Baltimore endurheimta fyrsta sæti listans eftir nokkurra vikna pásu. Ravens lögðu slakt Cincinnati Bengals liðið um helgina sem eitt og sér hreyfir nálina ekki mikið. Hinsvegar töpuðu Chiefs sínum leik og því víxlast þessi lið hér.
2. Kansas City Chiefs (-1)
Chiefs töpuðu óvænt gegn Raiders á sunnudaginn á Arrowhead í Kansas City. Tapið var það stærsta á ferli Patrick Mahomes en Las Vegas unnu með 8 stigum. Næsti leikur verður áhugaverður en þá heimsækja þeir Buffalo Bills.
3. Green Bay Packers (-)
Green Bay standa í stað vegna bye viku. Virkilega freistandi að færa þá upp í annað sætið en lið sem spila ekki sökum bye eða frestunar standa bara hreinlega í stað í styrkleikaröðun Leikdags.
4. Seattle Seahawks (-)
Seattle Seahawks lögðu Minnesota Vikings naumlega á heimavelli og sitja áfram í fjórða sæti listans, fjórðu vikuna í röð. Liðið er engu að síður afskaplega valt en vörnin þeirra þarf að stíga upp og hjálpa sókninni sem er að bera liðið uppi um þessar mundir.
5. Pittsburgh Steelers (+1)
Pittsburgh Steelers sóttu sigur gegn Philadelphia Eagles um helgina 38-29. Pittsburgh spilar fjórða heimaleikinn sinn í röð þegar þeir mæta Cleveland Browns í næstu umferð.
6. Tennessee Titans (+4)
Stórkostleg frammistaða gegn heitu Buffalo Bills liði á þriðjudaginn skilar Titans mönnum upp um fjögur sæti. Sóknin var skilvirk og þæginleg. Sóknarlínan sterk. Vörnin notfærði sér dýrkeypt mistök Bills sóknarinnar.
7. Tampa Bay Buccaneers (-2)
Óvænt tap gegn óvænt seigu Chicago Bears liði í fimmtudagsleik umferðarinnar. Mike Evans spilaði á annarri löppinni, Chris Godwin er illt í heilanum og O.J. Howard er út tímabilið. Það virka hinsvegar engar afsakanir í NFL deildinni og því hverfa Bruce Arians og Tom Brady aftur að teikniborðinu til að átta sig á því hvernig sigur hlýst í næsta leik gegn Jon Gruden og Las Vegas Raiders.
8. New Orleans Saints (-)
Saints sitja aðra vikuna í röð í áttunda sæti listans. Þeir rétt mörðu Los Angels Chargers eftir framlengdan leik á mánudaginn. Chargers voru án Mike Pouncey, Trai Turner, Bryan Bulaga, Derwin James, Austin Ekeler og Keenan Allen spilaði lítið vegna bakmeiðsla. Saints eru fjarri því að vera sannfærandi og réttast væri að sparka þeim úr topp 10.
9. New England Patriots (-)
Leik Patriots og Denver Broncos var frestað eftir að upp kom annað smit í herbúðum New England. Cam Newton greindist fyrstur Patriots manna með covid-19 en fyrr í vikunni greindist bakvörðurinn Stephon Gilmore með veiruna og fresta þurfti því leiknum. Patriots standa því í stað og spila við Broncos í næstu umferð.
10. Buffalo Bills (-4)
Lestarslys gegn Titans fellir Buffalo nærri útúr topp 10. Josh Allen er mannlegur. Næsti leikur gegn Kansas City Chiefs. Áfram gakk.
11. Cleveland Browns (+2)
Browns eru komnir á svaka siglingu eftir sigur á Indianapolis Colts um helgina. Nú telja sigurleikirnir fjóra í röð en næsta verkefni liðsins verður í formi Pittburgh Steelers á útivelli. Það gæti orðið veisla.
12. Los Angeles Rams (+2)
Það er ekkert afrek að sigra leikstjórnenda hringekjuna sem Washington Football Team er þessa dagana. Rams taka tvö skref uppá við því 49ers og Colts þurftu að fara neðar. Næsti leikur á útivelli gegn San Fran.
13. Indianapolis Colts (-1)
Philip Rivers er búinn. Hann hefur verið búinn í nokkur ár. Þó svo Jacoby Brissett sé ekki undir “spennandi” í orðabókinni, þá er ekki vitlaust að skipta honum inn fyrir Rivers sem er að kosta liðið leiki.
14. San Francisco 49ers (-3)
Jimmy Garoppolo snéri aftur á völlinn eftir ökklameiðsli. Hann snéri svo fljótt aftur á bekkinn eftir hræðilega frammistöðu í fyrri hálfleik gegn öflugu Miami Dolphins liði. Næsti leikur verður gegn Rams í San Francisco.
15. Arizona Cardinals (+1)
Skyldusigur gegn Jets um helgina þar sem Chandler Jones, þeirra besti varnarleikmaður, meiddist en hann mun ekki spila meira á þessari leiktíð. Þetta þyngir róður liðsins allverulega en ekki voru þeir beittir varnarlega fyrir þessar fréttir. Útileikur gegn Cowboys næstu helgi.
16. Minnesota Vikings (+1)
Sorglegt tap gegn Seattle Seahawks í jöfnum leik. Það virðist samt vera einhver stígandi í liðið Vikings um þessar mundir. Dalvin Cook fór meiddur af velli og best er að halda bara andanum inni og bíða fregari fregna. Skyldusigur gegn Atlanta Falcons í næsta leik.
17. Las Vegas Raiders (+2)
Raiders hnykluðu vöðvana gegn Chiefs um helgina og hengdu á þá 40 punkta. Henry Ruggs snéri aftur eftir meiðsli og greip tvo bolta fyrir sturluðum 118 jördum og einu snertimarki. Derek Carr var á eldi í sendingaleiknum og Raiders vinna sinn fyrsta sigur á Chiefs síðan 2017. Næsti leikur gegn Tampa Bay.
18. Philadelphia Eagles (-)
Sterk frammistaða gegn Pittsburgh Steelers leyfir örnunum að hanga innan topp 20 þrátt fyrir tap. Carson Wentz og félagar settu 29 stig á sterka Steelers vörnina og áttu séns á að taka leikinn. Næsti leikur er á útivelli gegn Baltimore Ravens.
19. Dallas Cowboys (-4)
Hræðileg meiðsli Dak Prescott í sigri Cowboys á Giants um helgina setja stórt strik í reikning Jerry Jones. Baráttan um austurriðil NFC verður kannski spennandi en líklega verður hún þó leiðinleg. Andy Dalton tekur við keflinu en reikna má með hiksta í sóknarframleiðni liðsins. Næsti leikur er gegn Arizona Cardinals í Dallas.
20. Detroit Lions (-)
Detroit Lions voru í bye viku og standa því í stað.
21. Chicago Bears (+1)
Ég skil eiginlega ekki hvernig liðið er 4-1 en ég ætla ekki að gera mig sekan um að hýfa liðið upp í topp 15 of snemma. Sterkur sigur á Tampa Bay Buccaneers skilar þeim upp um eitt sæti og ég lofa að setja þá inná topp 20 vinni þeir Panthers í næstu umferð.
22. Miami Dolphins (+2)
Stórsigur á San Francisco 49ers skýtur Dolphins upp um tvö sæti á milli lista. Brian Flores virðist vera snilldar ráðning og liðið er að spila af mikilli hörku. Ekki sakar að vera með kynlíf í brynju fyrir aftan senter en Fitzpatrick er að hrífa ungt Miami liðið með sér um þessar mundir og framtíðin er björt á að líta hjá félaginu.
23. Houston Texans (-2)
Hér þurfti ég að fella Texans niður um nokkra rassa til að koma Miami og Chicago fyrir sem bæði áttu stóra sigra gegn sterkum liðum. Texans sigruðu Jaguars í fyrsta leik Romeo Crennel sem tímabundinn aðalþjálfari. Því miður virðist O’Brien hafa skilið eftir sig feitan mínus en nánasta framtíð liðsins virkar ekki spennandi.
24. Los Angeles Chargers (-1)
Það vantar lítið uppá hjá Chargers sem gætu verið með sigra gegn Chiefs, Buccaneers og Saints. Það eru hinsvegar álög á félaginu sem útskýrir slæmt gengi liðsins þrátt fyrir flotta spilamennsku á köflum. Ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að Anthony Lynn þurfi að fá reisupassann en það er hellings hæfileikar í þessu liði og þeir eru klárlega komnir með leikstjórnanda framtíðarinnar.
25. Carolina Panthers (+1)
Lærisveinar Matt Rhule er að koma örlítið á óvart það sem af er keppnistímabili. Liðið er búið að sigra þrjá leiki í röð og eiga Chicago Bears í næsta leik. Heldur sigurgangan áfram?
26. Atlanta Falcons (-1)
Eftir tapið gegn Carolina Panthers fengu höfuð að fljúga í Atlanta. Aðalþjálfari liðsins, Dan Quinn, og framkvæmdastjóri félagsins, Thomas Dimitroff, voru látnir taka pokann sinn eftir skelfileg byrjun á tímabilinu. Falcons eru eitt þriggja liða með 0-5 sigurhlutfall.
27. Denver Broncos (-)
Leik Broncos og Patriots frestað. Standa í stað. Ættu að fá Drew Lock og A.J. Bouye til baka bráðlega.
28. Cincinnati Bengals (-)
Bengals töpuðu fyrir Baltimore Ravens um helgina og eiga ekki létt prógramm framundan. Colts, Browns, Titans og Steelers næstu fjórir. Það verður mikið álag á sóknarlínu Bengals en Joe Burrow hefur nú þegar verið felldur oftast í deildinni, 22 sinnum.
29. Jacksonville Jaguars (-)
Fjórði tapleikurinn í röð hjá Gardner Minshew og Jacksonville Jaguars. Næsti leikur gegn Detroit Lions sem eru að koma úr bye viku.
30. Washington Football Team (-)
Tap gegn Los Angeles Rams. Ron Rivera bráðvantar skipstjóra en Alex Smith fékk tækifæri eftir tveggja ára endurhæfingu og það sást heldur betur. Fjarlægið þennan mann af fótboltavellinum. Ef þið viljið hjartahlýjandi sögur er þjóðráð að skipta yfir á Lindina. Næsti leikur gegn New York Giants. Séns á sigri.
31. New York Giants (-)
Tap gegn Dallas Cowboys. Næsti leikur gegn Washington. Séns á sigri.
32. New York Jets (-)
Tap gegn Arizona Cardinals. Adam Gase hlýtur að fá sömu meðferð og Dan Quinn og Bill O’Brien haldi taphrinan áfram.