Þá er komið að lokaútgáfu styrkleikaröðuninar. Margt hefur breyst síðan fyrsta útgáfan kom út í apríl – beint eftir nýliðavalið. Liðin í efsta sæti og neðsta sæti þeirrar útgáfu eru þó hin sömu og í þessari síðustu útgáfu 2020 leiktímabilsins.
New York Jets og Cincinnati Bengals héldu sigurgöngu sinni áfram þegar Jets lagði Browns og Bengals sóttu sigur til Houston. Lions voru þjálfara- og stefnulausir gegn Buccaneers sem völtuðu yfir þá.
Aaron Rodgers og Josh Allen áttu báðir frábærar frammistöður og snýst MVP kapphlaupið um þá tvo að mati höfundar. Patrick Mahomes og Chiefs gerðu nóg til að vinna Falcons og Alvin Kamara jafnaði nærrum 100 ára gamalt NFL met Ernie Nevers frá 1929 þegar hann skoraði sex snertimörk fyrir Saints í sigri á Vikings.
Chicago Bears héldu lífi í úrslitakeppnisvonum sínum með ákveðinni frammistöðu gegn verðandi liði Trevor Lawrence. Steelers komu til baka í seinni hálfleik gegn Colts eftir lélegan fyrri háfleik. Ryan Fitzpatrick kom inná með skikkju fyrir Tagovailoa og kláraði Jon Gruden og Raiders liðið sem vildi ómögulega skora snertimark í lokin.
Seattle tryggði sér NFC West titilinn með sigri á Rams í leik þar sem Jared Goff fór útaf með ó-ó í puttanum. Texans og J.J. Watt eru að bráðna úr baneitraðri menningu Texans liðsins en nú vakna spurningar hvort Bill O’Brien hafi losað liðið við Deandre Hopkins vegna smitandi karakters.
Sem sagt: Enn ein snilldar umferðin í amerísku fótboltadeildinni. Hvað er nýtt?
1. Kansas City Chiefs (-)
AFC West sigurvegararnir halda toppsæti listans en liðið hefur haldið því í 14 af 18 vikum. Fjórum sinnum sátu þeir í öðru sæti listans. Besta lið vetrarins, engin spurning.
2. Buffalo Bills (-)
AFC East sigurvegarnir frá Buffalo virðast vera að toppa á hárréttum tíma en það er algjör unaður að fylgjast með liðinu spila. Bills byrjaðu styrkleikaferlið í 6. sæti listans í apríl en hafa lægst lent í 14. sæti en þeirra stefna hefur jafnt og þétt leitað uppá við og endar tímabilið hér: í öðru sæti.
3. Green Bay Packers (-)
NFC North sigurvegarnir frá Green Bay eru á fimm leikja siglingu og Aaron Rodgers er að eiga ólýsanlega frábært tímabil. Vopnabúrið í Packers er heimalagað og hefur þanist út hægt og rólega í vetur í takt við þroskun og ræktun. Rodgers er MVP en það þyrfti eitthvað stórkostlegt að gerast í síðustu umferðinni til að breyta þeirri skoðun höfundar.
4. New Orleans Saints (-)
NFC South sigurvegararnir frá New Orleans hljóta að vera guðslifandi fegnir að fá Drew Brees inn rétt fyrir úrslitakeppnina. Jafnvel þótt Brees hafi ekki átt frábæran leik gegn Minnesta Vikings. Saints byrjuðu styrkleikaferlið í apríl í 4. sæti listans og endar þar.
5. Seattle Seahawks (-)
NFC West sigurvegarnir í ár eru Seattle Seahawks. Þeir eru jafnframt fimmta besta liðið í NFL deildinni að mati Leikdags. Seattle voru einmitt í 5. sæti fyrstu útgáfu styrkleikaröðuninar en lægst hafa þeir verið í 8. sæti listans (vika 10) eftir að hafa dalað nokkuð.
6. Pittsburgh Steelers (+1)
AFC North sigurvegarnir þetta árið eru Pittsburgh Steelers sem náðu að hrista af sér þriggja leikja tapgöngu og leggja Colts af velli í mikilvægum leik. Steelers byrjuðu í 11. sæti listans í fyrstu útgáfunni en sátu lengi vel í 2. sæti hans um miðbik tímabils en þegar leið á seinni hlutann fór að halla undan fæti hjá liðinu sem náði að hýfa sig frá 7. sæti upp í það sjötta í umferðinni.
7. Indianapolis Colts (-1)
Indianapolis Colts eru enn óöruggir um sæti sitt í úrslitakeppninni. Liðið þarf að vinna Jacksonville um næstu helgi og treysta á eitthvað annað en Titans sigur í leik gegn Houston Texans.
8. Baltimore Ravens (+2)
Baltimore Ravens eru komnir með annan fótinn inn í úrslitakeppnina en vinni þeir Bengals í næstu umferð þá tryggja þeir sér farmiðann gyllta. Ravens byrjuðu styrkleikaröðunina í öðru sæti en liðið átti stórkostlega deildakeppni í fyrra og fylgdi liðinu því ákveðinn meðbyr inn í tímabilið. Botninn hefur hinsvegar verið sleginn úr liðinu sem nær hér þó að koma sér inná topp 10 fyrir mikilvægustu leikina á tímabilinu.
9. Tampa Bay Buccaneers (+2)
Buccaneers eru tryggðir í öðru sæti NFC South ásamt því að vera komnir í úrslitakeppnina. Tampa Bay voru í 8. sæti fyrstu útgáfu styrkleikalistans og eru því nokkurnveginn liðið sem ritstjórn sá fyrir sér.
10. Tennessee Titans (-1)
Tennessee þurfa sigur gegn Houston Texans í næstu umferð til að tryggja sér AFC South titilinn og þar af leiðandi þátttöku í úrslitakeppni NFL. Titans voru rassskelltir af Green Bay Packers í snjónum á Lambeau Field á sunnudaginn en sem betur fer töpuðu Colts líka, annars væri staðan ekki svona álitleg.
11. Los Angeles Rams (-3)
Eftir tvö töp í röð þurfa Los Angeles Rams að vinna Arizona Cardinals í næstu umferð til að eiga séns á Ofurskálinni þetta árið. Viðureignin við Cardinals verður úrslitaleikur um farmiða í úrslitakeppnina en bæði lið munu tefla fram varaleikstjórnanda sökum meiðsla.
12. Miami Dolphins (+1)
Höfrungarnir geta komist inn í úrslitakeppnina þó þeir tapi fyrir Buffalo í næstu umferð. Þeir þurfa þá að treysta á að Pittsburgh vinni Cleveland Browns og þá komast höfrungarnir inn. Þeir rétt mörðu sigur á Las Vegas Raiders í leik þar sem Ryan Fitzpatrick var hetjan. Brian Flores tók Tua Tagovailoa út af vellinum í von um að gefa liði sínu betri séns á sigri í jöfnum leik. Það verður spennandi að sjá hver verður undir senter hjá Dolphins komist þeir í úrslitakeppnina.
13. Cleveland Browns (-1)
Útherjasnauðir Browns töpuðu gegn New York Jets sem eru orðnir sjóðheitir eftir Gregg Williams brottreksturinn. Browns þurfa sigur gegn Steelers í næsta leik til að komast inní úrslitakeppnina. Einfalt. En tapi þeir leiknum þurfa þeir að treysta á að Colts tapi sínum leik gegn Jaguars – sem er aldrei að fara að gerast.
14. Chicago Bears (+3)
Bears enda deildakeppnishlutann í 14. sæti listans en þetta hefur verið nokkuð skrautlegt tímabil í Chicago. Mitch Trubisky hélt góðri frammistöðu sinni áfram í rótbursti á Jaguars um helgina. Bears eiga aðeins eftir að spila gegn Packers og vinnist sá leikur kemst liðið í úrslitakeppnina. Tapist sá leikur þarf liðið að treysta á að Arizona Cardinals tapi gegn Rams.
15. Minnesota Vikings (-)
Stuðningsmenn Vikings vilja líklega gleyma þessu tímabili sem fyrst. Liðið var án síns besta leikmanns í allan vetur, Danielle Hunter, og missti sinn besta útherja til Buffalo Bills, Stefon Diggs. Það kom þó ekki að sök því liðið fann sér súperstjörnu í nýliðavalinu – Justin Jefferson. Í fyrstu útgáfu kraftröðuninnar í apríl sátu Vikings í 13. sæti. Hér enda þeir í 15. sæti og án farmiða í úrslitakeppnina. Það má búast við miklum breytingum í Minnesota á komandi tímabilum.
16. San Francisco 49ers (+2)
Aðdáendur liðsins blóta líklega í hljóði yfir sigrinum gegn Cardinals á laugardaginn sem færir liðið fjær valrétti sem gæti nýst í nýjan leikstjórnanda – eitthvað sem þeir hafa verið að suða um í einn mánuð. Kyle Shanahan sagði þó nýverið að Garoppolo yrði undir senter á næsta tímabili en við tökum því auðvitað ekki sem heilögum sannleik.
17. Arizona Cardinals (-3)
Það vantar skaphár á einkastað Arizona Cardinals. Þeir eru ekki nægilega harðgert lið, einhverra hluta vegna. Hvort það sé sólin í eyðimörkinni sem hefur mýkt drengina eða hvort aðferðafræði Kliff Kingsbury sé til sakar þá er eitt víst: Cardinals eru bara því miður ekki neitt sérstakir. Liðið á séns á úrslitakeppnissæti með sigri gegn Rams en höfundur sér það varla gerast en þó það gerist, þá endast þeir stutt í stóru keppninni.
18. Las Vegas Raiders (-2)
Væri ekki best fyrir alla að Jon Gruden héldi sig bara við sóknarþjálfun og hætti þessum þykjustunni-leik sem aðalþjálfari með framkvæmdastjóravöld? Raiders eru úr leik og langtímasýn liðsins virkar ekki vel á ritstjórnina. Þetta lið er að trenda niður á við og við vitum það öll. Það má vel bæta karríi og jalapeno í þennan graut.
19. Carolina Panthers (+1)
Panthers komu í veg fyrir að Ron Rivera fengi að fagna NFC East titlinum um helgina en liðið vann 20-13 sigur á fótboltaliðinu. Flott prógramm sem verður bara sterkara á næsta ári. Voru það samt ekki mistök að vinna þennan leik? Tap hefði fært liðið nær Zach Wilson eða Justin Fields…..
20. Atlanta Falcons (-1)
Það er margt spunnið í þetta Atlanta lið en stöðugleiki og ís í æðum er hvorugt til staðar. Liðið þarf alvöru sigurvegarar í aðalþjálfarastöðuna og heyrst hefur að Urban Meyer sé að snúa sér aftur að þjálfun, berist rétta boðið. Sama hvað fólki finnst um Meyer og hans sögu, þá sjá allir að maðurinn gerir ekkert annað en að vinna leiki.
21. New England Patriots (-)
Það eru til Patriots stuðningsmenn sem hafa aldrei þurft að spá í endurhönnun eða endurmönnun liðs síns. Nú er svo í pott búið að slíkt tímabil er að hefjast og má þá nefna einn hluta: það gæti farið svo að það taki félagið ykkar 10 ár að finna lausnina undir senter. Undirbúið ykkur undir úfinn og svartan sjóinn.
22. Denver Broncos (-)
Staðfestar fréttir frá Denver sögðu okkur fyrir stuttu að Vic Fangio muni snúa til baka sem aðalþjálfari liðsins á næsta tímabili. Þetta kemur ekki á óvart fyrir Broncos stuðningsmenn sem sjá strax mikinn mun á heildarbrag liðsins samanborið við tíma Vance Joseph hjá liðinu. Spennan liggur í loftinu varðandi það hvað John Elway gerir varðandi Drew Lock en líklegt þykir að leikstjórnandinn ungi fái næsta ár til að sýna sig og sanna.
23. Los Angeles Chargers (+2)
Framtíðin er björt í Kalí og glöggir menn vilja sjá Brian Daboll sem næsta aðalþjálfara Chargers. Justin Herbert er dólgur og liðið virðist loks ætla að verða ákjósanlegur áfangastaður eftir að liðið fluttist frá San Diego.
24. Philadelphia Eagles (–1)
Eru Eagles búnir að finna sinn framtíðarspaða? Erfitt að segja. Það verður þó virkilega áhugavert að fylgjast með framvindu mála í Philadelphia sem gætu verið að horfa uppá framkvæmdastjóra og aðalþjálfara breytingar. Howie Roseman og Doug Pederson hljóta að vera á heita sætinu.
25. Washington Football Team (+1)
Elgharður Ron Rivera líður ekkert kjaftæði og fékk Dwayne Haskins sannarlega að finna fyrir því en liðið sparkaði stráknum frá sér, ári eftir að hafa draftað hann númer 15 í 1. umferð nýliðavalsins. Það er ekki annað hægt en að líða vel varðandi framtíð liðsins með almennilegan karakter Rivera bakvið stýrið.
26. Dallas Cowboys (+1)
Kúrekarnir eiga ennþá séns á úrslitakeppninni sem er auðvitað spaugilegt. Tímabilið hefur verið algjör grautur en ritstjórn sá liðið sem topp 10 lið fyrir mót. Á blaði virkaði allt vel en þetta varð aldrei svo einfalt hjá Dallas sem misstu Dak Prescott í slæm meiðsli á fyrri hluta tímabils.
27. Houston Texans (-3)
J.J. Watt fór á kostum eftir tapið gegn Cincinnati Bengals á sunuudaginn þegar hann gaf frábært svar til blaðamanna eftir leik. Það virðist víða pottur brotinn hjá Texans sem eru að glíma við allskonar innanbúðar vandamál. Vonandi fyrir stuðningsmenn liðsins verður djúphreinsihópur ræstur út beint eftir seinasta leik liðsins í næstu umferð. Það dugar ekki að slökkva bara á skjánum, það þarf að henda forritinum og stórum skrám og endurræsa síðan tölvuna.
28. Cincinnati Bengals (+1)
Cincinnati komnir með tvo sigurleiki í röð og færast fjær topp 3 valréttum nýliðavalsins. Það gætu verið mistök, því liði þarf nauðsynlega að sækja sér Penei Sewell, tæklara Oregon Ducks til að fyrirbyggja fleiri meiðsli hjá Joe Burrow. Spennan er þó mest í kringum framtíð Zac Taylor og þjálfarateymis hans. Yfirstjórn Bengals er þó ekki vön að kippa ákvörðunum sínum úr sambandi eftir svona stuttan tíma og líklegt þykir því að Taylor og hans staff fái annað tímabil.
29. Detroit Lions (-1)
NFL deildin lét Detroit Lions spila leik þar sem hálft þjálfarateymi liðsins vantaði og staðfestir þar grun margra, það skiptir máli hvaða lið það eru sem fá leiki frestaða. Lions tímabilið er löngu búið og horfa þarf fram á veginn og skipti þessi leikur nákvæmlega engu máli fyrir þá og framtíð þeirra.
30. New York Giants (-)
Þrátt fyrir tap gegn Baltimore um helgina eiga Giants enn séns á úrlistakeppninni. Liðið þarf að vinna Dallas og treysta á að Washington tapi gegn Philadelphia. Þetta er alls ekki ómöguleg bón en ótrúlegt en satt verður síðasta umferðin í NFC East virkilega spennandi. Það er allt undir hjá þremur af fjórum liðum.
31. New York Jets (-)
Jets unnu sinn annan leik á tímabilinu þegar liðið lagði útherjalaust Browns liðið. Jets vörnin getur vel stoppað hlaupið og það er nákvæmlega það sem þeir gerðu gegn einhentu Cleveland liðinu. Er Adam Gase að gera nóg til að halda starfinu??
32. Jacksonville Jaguars (-)
Trevor Lawrence er sá eini sem getur neitað liðinu um Trevor Lawrence. Búast má við ákvörðun og yfirlýsingu frá Lawrence einhverntíman í janúar varðandi framhaldið sitt. Jaguars stuðningsmenn liggja því á bæn hér eftir.