Það var heldur betur af nógu að taka þessa umferðina í ameríska fótboltanum. Til byrja með: NEW YORK JETS FÖMBLUÐU TREVOR LAWRENCE!
Pittsburgh Steelers halda áfram að raða inn tapleikjum, Chicago Bears færðust nær úrslitakeppninni með sigri á erkifjendunum frá Minnesota og Los Angeles Rams tókst að gera það sem engu liði hefur tekist í vetur: að tapa gegn Jets.
Clyde Edwards-Helaire fór meiddur af velli, Packers skoruðu aðeins þrjú stig í seinni hálfleik gegn Panthers, Justin Herbert jafnaði met Baker Mayfield og Jalen Hurts var ábyrgur fyrir fjórum snertimörkum.
Nú fer spennan að ná hámarki þegar aðeins tvær umferðir eru eftir og fullt af liðum sjá sér leik í borði til að komast inn í bónusboltann.
1. Kansas City Chiefs (-)
Sigur liðsins gegn Saints kom ekki að kostnaðarlausu. Hlauparinn Clyde Edwards-Helaire fór meiddur af velli á sunnudaginn eftir ljótt atvik. Hann mun að öllum líkindum missa af restinni af deildakeppninni en á víst ágætis séns á því að ná úrslitakeppninni. Chiefs eru svo gott sem búnir að tryggja sér 1. umferðar bye sem eru frábærar fréttir fyrir Edwards-Helaire.
2. Buffalo Bills (-)
Buffalo Bills völtuðu yfir Denver Broncos á útivelli á laugardaginn og eiga nú eftir leiki gegn Patriots og Dolphins. Liðið er búið að tryggja sér AFC East titilinn, í fyrsta skiptið síðan árið 1995 þegar Jim Kelly var undir senter. Bills virðast vera að toppa á hárréttum tíma.
3. Green Bay Packers (-)
Packers geta farið langleiðina með að tryggja sér 1. umferðar bye með sigir á Tennessee í næstu umferð. Liðið er nú þegar búið að tryggja sér NFC North titilinn, annað árið í röð. Frammistaða liðsins gegn Carolina Panthers á laugardagskvöldið var sannfærandi í fyrri hálfleik en ósannfærandi í þeim síðari þar sem liðið skoraði aðeins 3 stig.
4. New Orleans Saints (+1)
Saints færast upp um einn rass þökk sé hruni Pittsburgh Steelers. Saints töpuðu naumlega gegn Kansas City Chiefs en Drew Brees mætti aftur á völlinn eftir góða hvíld vegna rifbeinsbrota. Sean Payton þarf að setja Brees í örbylgjuofninn til að hita manninn upp fyrir úrslitakeppnina sem liðið er nú þegar búið að tryggja þátttöku sína í.
5. Seattle Seahawks (+1)
Næstu leikir Seattle liðsins munu koma til með að gefa okkur góða mynd af því hvort liðið sé líklegt til árangurs í úrslitakeppninni. Leikirnir eru gegn Los Angeles Rams sem eru að koma af skítatapi gegn Jets og síðan San Francisco 49ers sem virðast sprungnir á limminu. Seahawks eru afskaplega brothætt lið en eru þó til alls líklegir með fullt af stórleikja leikmönnum sem geta haft áhrif á útkomu leikja.
6. Indianapolis Colts (+2)
Hægt og rólega hafa Colts náð að klífa töfluna og eru hér rétt fyrir utan topp 5 – þeirra besti árangur í vetur. Indianapolis eru þó hluti af stórri flækju liða Ameríkudeildarmegin sem öll eygja von um úrslitakeppnissæti. Það verður afskaplega spennandi að fylgjast með úrslitum næstu umferða greiða úr þessari flækju en Colts eiga Steelers og Jaguars áður en deildakeppnin klárast.
7. Pittsburgh Steelers (-3)
Það virðist sem botninn hafi verið sleginn úr járnkörlunum frá Pittsburgh. Eftir ellefu sigurleiki í röð til að byrja tímabilið, hefur gæfan snúist gegn Pittsburgh sem hafa nú hrúgað saman þremur tapleikjum í röð. Ekki léttist róðurinn því liðið spilar gegn Indianapolis og Cleveland í lokaleikjum mótsins.
8. Los Angeles Rams (-1)
Los Angeles Rams varð um helgina eina lið ársins til að tapa gegn New York Jets. Það er morgunljóst að slík frammistaða kallar skömm yfir allt félagið. Rams eru nánast tryggðir inní úrslitakeppnina, jafnvel þó þeir tapi báðum leikjunum sem þeir eiga eftir. Það er þó ansi líklegt að liðið mæti til leiks í næstu umferð fullt eldmóði til að reyna að skola óbragðið úr kjaftinum á sér eftir niðurlæginguna gegn Jets.
9. Tennessee Titans (+1)
Titans settu í fluggírinn í 4. leikhluta gegn Lions og héldu því toppsæti suðurriðils Ameríkudeildarinnar með úrslitaskrána 10-4. Samkvæmt FiveThirtyEight eiga Tennessee 98% líkur á að komast í úrslitakeppnina og þurfa aðeins einn sigurleik til viðbótar til að gjörtryggja sig.
10. Baltimore Ravens (+1)
Sóknin er komin á flug í Baltimore en liðið hefur skorað 121 stig í síðustu þremur leikjum. Það eru ennþá fullt af leiðum fyrir Ravens til að missa af úrslitakeppninni en þeir þurfa að ganga frá sínum tveimur eftirstandandi leikjum til að eiga séns. Leikirnir eru, heppilega, gegn Giants og Bengals.
11. Tampa Bay Buccaneers (-2)
Tom Brady og félagar komu til baka gegn Atlanta Falcons um helgina eftir að hafa lent 17-0 undir. Sterkur þriðji leikhluti bjargaði liðinu sem er virkilega óútreiknanlegt og fellur hér um tvö sæti vegna þessa óstöðugleika. Það þarf allt að smella svo þetta lið komist upp úr 1. umferð úrslitakeppninnar.
12. Cleveland Browns (+1)
Cleveland Browns gengu örugglega frá New York Giants í næturleik sunnudagsins og eru komnir með annan fótinn inn í úrslitakeppnina. Browns spila gegn Jets í næstu umferð og mæta síðan Steelers í lokaleik tímabilsins.
13. Miami Dolphins (-1)
Miami sigldi ljótum leik í höfn gegn New England Patriots en fyrri hálfleikurinn var sögulega bragðlaus. Liðið hefur tekið miklum framförum síðan Brian Flores tók við taumunum en líklega eru gæðin ekki nóg til að gera alvöru atlögu að Ofurskálinni í ár. Liðið þarf að vinna báða sína leiki til að tryggja sér farmiða í úrslitakeppnina eða treysta á önnur úrslit tapi þeir öðrum leiknum sínum.
14. Arizona Cardinals (-)
Arizona gerðu rétt svo nóg til að sleppa með sigur gegn Philadelphia á sunnudaginn. Cardinals hafa verið afskaplega ósannfærandi seinni hluta tímabils og raddir hafa heyrst að Kliff Kingsbury sé stærsta vandamál liðsins. Kyler Murray og félagar eiga fínan séns á úrslitakeppninni og þurfa að vinna sína tvo leiki til að sleppa við að þurfa að treysta á önnur úrslit. Liðið mætir 49ers í næstu umferð og Rams í þeirri seinustu.
15. Minnesota Vikings (+1)
Þrátt fyrir tapið gegn Bears um helgina færast Vikings upp um einn rass en það er vegan þess hve skelfilegir Raiders eru búnir að vera undanfarið. Vikings og Bears eru þokkalega álík lið en Chicago vann í þetta skiptið. Vikings eiga þó aðeins 2% séns á að koma sér í úrslitakeppnina en þeir þurfa að vinna Saints og Lions og vona að Bears tapi einum af tveimur leikjum sínum og að Cardinals tapi báðum sínum leikjum. Langsótt.
16. Las Vegas Raiders (-1)
Hægt og rólega er tímabil Las Vegas að fjara út í sandinn. Marcus Mariota kom sterkur inn í liðið eftir að Derek Carr tognaði á nára snemma í fimmtudagsleik umferðarinnar gegn Los Angeles Chargers. Raiders töpuðu þeim leik og þar með er tímabilið þeirra búið í ár.
17. Chicago Bears (+4)
Chicago eru komnir á smá skrið aftur eftir að Mitchell Trubisky tók yfir sem aðalleikstjórnandi liðsins eftir Nick Foles tilraunina. Bears sigruðu Vikings í hörku leik sem skipti gríðarlega miklu máli upp á annað sæti NFC North riðilsins sem og möguleika liðanna á úrslitakeppninni. Nú er næsta mál að vinna Jacksonville en það verður varla neitt mál þar sem Jaguars eru með Trevor Lawrence í höndunum og mega því alls ekki við því að vinna leiki.
18. San Francisco 49ers (-1)
49ers töpuðu sínum þriðja leik í röð um helgina þegar þeir lutu í lægra haldi gegn Dallas Cowboys, 33-41. Þeir eiga tvo innan-riðils leiki eftir, gegn Cardinals og Seahawks.
19. Atlanta Falcons (-1)
Atlanta, Tampa Bay og New Orleans eru öll á sömu leið. Hægt og rólega stefna þessi klúbbar niður á við en Falcons þurfa að finna sér nýja forystusauði á næstunni sem taka við furðulegu búi. Matt Ryan og Julio Jones eru nánast óhreyfanlegir næstu 1-2 árin svo nýjir menn þurfa líklega að halda andanum inní sér næstu 12 mánuðina.
20. Carolina Panthers (-1)
Átta stiga tap gegn Green Bay Packers er ekki slæmt, sérstaklega í ljósi þess að hafa verið 17 stigum undir í hálfleik og síðan haldið Rodgers í þremur stigum í seinni hálfleik. Það er hellingur í þetta lið spunnið og ritstjórn getur alveg séð Panthers sem NFC South sigurvegara að ári.
21. New England Patriots (-1)
Í fyrsta skiptið síðan 2008 komast New England Patriots ekki í úrslitakeppnina. Það er auðvitað snargóður árangur en enginn lifir á fornri frægð. Patriots hafa verk að vinna með leikmannahóp sinn á næstunni og aðalmálið hlýtur að vera að finna leikstjórnanda fyrir næsta tímabil því Cam Newton er bensínlaus og ókastfær.
22. Denver Broncos (-)
Denver Broncos hanga líklega enn á snaganum sem Buffalo Bills liðið hengdi þá upp á eftir að hafa brókað þá hressilega á laugardaginn. Broncos mættu ofjörlum sínum en þeir geta bónað stoltið með sigrum gegn riðilsbræðum sínum frá LA og LV.
23. Philadelphia Eagles (-)
Minnstu munaði að Jalen Hurts næði að draga Eagles liðið til sigurs gegn Kyler Murray og félögum í Arizona. Hurts kastaði þrjú snertimörk og hljóp einu inn. Sóknarlínan átti í erfiðleikum með að halda stráknum uppréttum en hann var felldur 6 sinnum í leiknum. Það er allt annað að sjá þetta lið með Hurts undir senter.
24. Houston Texans (-)
Tap gegn Indianapolis Colts í annað skiptið á þremur vikum. Næstu tveir leikir eru gegn Cincinnati og Tennessee.
25. Los Angeles Chargers (+2)
Þegar allir eru farnir að afskrifa Chargers sjálfkrafa fyrir leiki þá minna þeir á sig og sækja sigur. Í þetta skiptið sigruðu þeir Las Vegas Raiders lið sem virðist algjörlega heillum horfið. Justin Herbert jafnaði nýliða-snertimarkamet Baker Mayfield þegar hann kastaði 27. snertimarkssendingunni sinni á árinu og þarf nú aðeins eina til þess að bæta metið.
26. Washington Football Team (-1)
Liðsmenn Ron Rivera voru 17 stigum undir þegar 4. leikhluti hófst gegn Seattle Seahawks á sunnudaginn. 12 stiga áhlaup í leikhlutanum dugði þó skammt en liðið var án Alex Smith og þurfti Dwayne Haskins því að taka við stýrinu. Hann kastaði tveimur töpuðum boltum og fömblaði einu sinni. Dýrkeypt að missa Smith út núna sem ætti að vera klár fyrir leikinn gegn Carolina Panthers næsta sunnudag.
27. Dallas Cowboys (+2)
Líkt og New Yok Giants, þá þurfa Dallas að vinna báða sína leiki og vonast til að Washington tapi sínum tveimur eftirstandandi leikjum til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Cowboys eru nú komnir með tvo sigurleiki í röð eftir 41-33 sigur á 49ers á sunnudaginn.
28. Detroit Lions (-2)
Detroit Lions héngu í Tennessee framan af en í 4. leikhluta skildu leiðir þar sem Lions vörnin fékk á sig 22 stig. Tímabilið er búið hjá ljónunum sem þurfa nú að huga að ráðningu í framkvæmdastjóra- og aðalþjálfarastöðuna.
29. Cincinnati Bengals (+1)
Bengals spiluðu hörkuflotta vörn í fyrri hálfleik gegn Pittsburgh Steelers. Það var þrusu stemning í liðinu en þeir leiddu 17-0 þegar dómari leiksins blés til hálfleiks. Ryan Finley stóð sig með prýði þó hann hafi ekki fyllt út tölfræðidálkana. Hann sótti slatt af endurnýjunum með fótunum og lét sig hafa það í vasanum þar sem hann fékk heldur betur að finna fyrir árásagjörnum Steelers varnarmönnum.
30. New York Giants (-2)
Uss, ekki var það fallegt gegn hjá fótboltarisunum gegn Cleveland í seinasta leik sunnudagsins. Sóknin rétt náði að teygja sig í sex stig en vörn Browns var góð á sínum vallarhelmingi. Fyrir stuttu voru þeir í bullandi úrslitakeppnisséns en nú er útlitið grátt.
31. New York Jets (+1)
Það kom loks að því að Jets ynnu leik. Hörku sigur gegn sterku LA Rams liði kallar líklega fram blendnar tilfinningar. Adam Gase og félagar eru nú búnir að fömbla Trevor Lawrence til Jaguars með þessum sigri þegar tveir leikir eru eftir.
32. Jacksonville Jaguars (-1)
Eftir sigurinn gegn Indianapolis Colts í fyrstu umferð hefur félagið tapað öllum sínum leikjum og hreppa, um stundarsakir, titilinn um versta lið deildarinnar. Það er þó ekkert sérlega neikvætt því þeir eru tveimur tapleikjum frá Trevor Lawrence (ákveði hann að gefa kost á sér í nýliðavalið).