Engin bye vika, ekkert vandamál. Tólfta leikvika NFL deildarinnar er liðin þar sem ætlunin var að bjóða upp á þrjár fimmtudagsleiki í tilefni þakkagjörðarhátíðar Bandaríkjamanna. Aðalleiknum var þó frestað fram á sunnudag og síðan þriðjudag vegna covid útbreiðslu innan Baltimore liðsins sem átti að spila við erkifjendur sína frá Pittsburgh. Einnig komu upp smit hjá Steelers svo NFL deildin greip inní og frestaði viðureigninni.
Hún kom hinsvegar ekki nálægt leik Denver Broncos og New Orleans Saints sem fór fram á sunnudaginn en Broncos liðið var skikkað til að spila leikinn án leikstjórnanda og því var æfingaliðsútherjinn og fyrrum leikstjórnandinn Kendall Hinton, frá Wake Forest, kallaður upp í aðalliðið til að spila leikstjórnanda í leiknum.
Yfirstjórn Detroit Lions vaknaði úr dáinu, tók í taumana og sagði Matt Patricia og Bob Quinn upp störfum hjá félaginu eftir enn eina andlausa frammistöðu liðsins. Matt Patricia gengur því frá borði með 31,4% sigurhlutfall frá árinu 2018 og skráir sig án efa í sama endurhæfingarferli og Mike McCarthy gekk í gegnum í fyrra. Eigandi Jacksonville Jaguars og mottumillinn, Shahid Khan, sýndi sínum framkvæmdastjóra, David Caldwell, einnig reisupassann en Caldwell hafði gengt þeirri stöðu frá árinu 2013.
Tom Brady hélt áfram að kasta knettinum í hendur andstæðinga sinna þegar Tampa Bay Buccaneers töpuðu gegn Kansas City Chiefs í stórleik umferðarinnar. San Francisco 49ers komu öllum á óvart með sigri sínum á Los Angeles Rams sem sat í 8. sæti seinustu kraftröðun. Tenneessee Titans náðu að hefna fyrir tapið gegn Indianapolis Colts fyrir tveimur umferðum með glæsilegum 38-20 sigri og Arizona Cardinals voru skotnir niður úr lofti af Nick Folk, sparkara föðurlandssinnanna, sem stígvélaði heim sigri á lokasekúndu leiksins.
1. Kansas City Chiefs (-)
Chiefs afgreiddu Buccaneers í 1. leikhluta en tengingin á milli Patrick Mahomes og Tyreek Hill var öflugri en 5G. Mahomes refsaði Todd Bowles, varnarþjálfara Bucs, grimmilega í byrjun leiks en Jamel Dean var skilinn eftir á eyðieyju gegn Tyreek Hill. Mistök. Hill skoraði tvö snertimörk og greip fyrir 203 jarda í 1. leikhluta.
2. Pittsburgh Steelers (-)
11-0. Bullandi séns að komast í 12-0 í næstu umferð gegn Washington Football Team. Spennandi.
3. New Orleans Saints (-)
Taysom Hill lítur alls ekki vel út sem leikstjórnandi og því er ekki snargalið að vænta þess að Jameis Winston fái tækifæri hjá Sean Payton ef Drew Brees endurheimtin tekur lengri tíma en búist var við. Saints unnu höfuðlaus Denver Broncos lið í einum furðulegast leik allra tíma.
4. Green Bay Packers (-)
Aaron Rodgers var stórkostlegur enn eina ferðina og hengdi 41 stig á Chicago Bears vörnina í þremur leikhlutum. Hlaupavörn liðsins var enn og aftur ekki til staðar en hún leyfði 7,6 jarda á burð í 16 tilraunum og heldur áfram að vera mesta áhyggjuefni liðsins fyrir komandi átök í þýðingamestu leikjunum.
5. Seattle Seahawks (+1)
Vörn Seahawks heldur áfram að strengja saman fínar frammistöður en árásateymi liðsins náði 6 fellum á Carson Wentz í 23-17 sigri í mánudagsleik umferðarinnar. D.K. Metcalf var gjörsamlega óstöðvandi í þessum leik og landaði 177 gripjördum og var 10/13 í gripum. Sóknin fór hægt af stað og missti boltann í tvígang því þeir náðu ekki að sækja endurnýjun á 4. tilraun. Næstu þrír leikir eru eins mjúkir og hægt er en þeir mæta NYG, NYJ og WAS og það þarf eitthvað stórkostlegt að gera svo þeir vinni ekki riðilinn.
6. Buffalo Bills (+1)
Buffalo Bills sitja á toppi austurriðils Ameríkudeildarinnar með 8-3 úrslitaskrá en eiga nokkuð strembið leikjaplan framundan. Samkvæmt FiveThirtyEight eru 92% líkur á að liðið nái inn í úrslitakeppnina en liðið fær líklega harða samkeppni frá Miami Dolphins um efsta sæti riðilsins.
7. Tennessee Titans (+3)
Glæsilegur hefndarsigur Titans liðsins gegn Colts sem tóku sigurinn í viðureign liðanna fyrir 2 vikum. Mikilvæg úrslit sem hleypir Tennessee á topp riðilsins.
8. Indianapolis Colts (-3)
Colts söknuðu DeForest Buckner í skítatapi gegn Titans. Indianapolis þurfa að girða sig í brók vilji þeir hreppa efsta sæti riðilsins. Texans, Raiders, Texans næstu þrír.
9. Tampa Bay Buccaneers (-)
Tampa Bay eru núna búnir að tapa tveimur leikjum í röð með þremur stigum og eru komnir með 7-5 úrslitaskrá en eru þrátt fyrir það nokkuð öruggir í öðru sæti suðurriðils Þjóðardeildarinnar. Þeir eiga báða leikina eftir gegn Atlanta Falcons, í bland við Detroit Lions og Minnesota Vikings í næstu umferð. Hysja upp um sig brækurnar Tom, þetta er ekki boðlegt.
10. Los Angeles Rams (-2)
Það ætlar ekki að ganga hjá Rams liðinu að sigra 49ers, jafnvel þótt lið Kyle Shanahan hafi verið án Jimmy Garoppolo, George Kittle og fleiri lykilleikmanna. Jared Goff kastaði tveimur töpuðum sendingum og fömblaði boltann einu sinni og var heilt yfir arfaslakur í leiknum. Af þeim fimm leikjum sem liðið á eftir eru fjórir þeirra mjög hættulegir. Rams sitja þó í öðru sæti vesturriðils Þjóðardeildarinnar með 7 sigra og 4 töp.
11. Baltimore Ravens (-)
Covid útbreiðslan kemur í veg fyrir að Ravens færist til í röðinni þrátt fyrir tap. Vel gert að tapa ekki stórt með vængbrotið lið gegn Steelers. Ravens eiga Cowboys í næstu umferð og þurfa að spýta í lófana til því Browns eru komnir í 8-3 og eru í öðru sæti riðilsins.
12. Miami Dolphins (-)
Skyldusigur á New York Jets. Ryan Fitzpatrick leysti þá þraut fyrir Dolphins en Tua Tagovailoa var frá vegna meiðsla. Það er annar þægindaleikurinn í röð á dagskrá hjá Miami sem fá Cincinnati Bengals í heimsókn í næstu umferð.
13. Cleveland Browns (+2)
Það er aldrei góð tilfinning að lyfta liði upp um tvö sæti sem rétt mer eitt af lélegustu liðum deildarinnar. Sú er raunin hér en Cleveland komust átta stigum yfir í upphafi 4. leikhluta og vert er að nefna það að bæði vantaði Myles Garrett og Denzel Ward í vörn liðsins. Það munar um minna!
14. Arizona Cardinals (-)
Cardinals töpuðu nokkuð óvænt gegn Patriots um helgina en þar fengu þeir að bragða á sínu eigin meðali því sparkari Patriots, Nick Folk, tryggði liði sínu sigurinn á lokasekúndu leiksins. Það er alltaf erfitt að spila á móti Bill Belichick þjálfaðri vörn en henni tókst að halda verulega aftur að Kyler Murray sem átti ekki góðan dag. Tveir tapleikir í röð staðreynd hjá Kliff Kingsbury og félögum sem þurfa hreinlega að vinna næstu þrjá.
15. Las Vegas Raiders (-2)
Það kemur fyrir að lið lenda á vegg. Það er ekki ólíklegt að það hafi verið staðreyndin hjá liði Las Vegas Raiders sem kolféll á Atlanta Falcons prófinu á sunnudaginn. Raiders lögðu allt í sölurnar gegn Kansas City Chiefs í seinasta leik sunnudagsins í seinustu umferð en töpuðu naumlega. Svoleiðis frammistöður kosta sitt og spurning er hvort liðið nokkuð átt nægilega mikið á tankinum fyrir leikinn gegn Falcons.
16. Minnesota Vikins (+2)
Minnesota Vikings sýndu karakter um helgina þegar þeir komu til baka eftir að hafa verið 11 stigum undir í 4. leikhluta gegn Carolina Panthers og sótt sigur með tveimur snertimörkum í röð undir lok leiks. Vikings eru 5-6 með 45,5% sigurhlutfall í öðru sæti norðurriðils Þjóðardeildarinnar og eiga Jacksonville Jaguars í næstu umferð.
17. Atlanta Falcons (+2)
Atlanta Falcons eru óneitanlega margfalt betra fótboltalið eftir að Dan Quinn var látinn taka pokann sinn en þeir mættu til að spila á sunnudaginn eftir útreiðina sem þeir fengu gegn New Orleans í seinustu umferð. Las Vegas Raiders voru teknir á beinið í Atlanta sem kaffærðu spilavítis ruplurunum 43-6 í leik þar sem Falcons vörnin þvingaði fjögur fömbl og endurheimti þau öll!
18. San Francisco 49ers (+2)
49ers lagði Rams og Kyle Shanahan er nú 4-0 gegn Sean McVay síðan 2019. Úrslitin komu hinsvegar á óvart þar sem Los Angeles Rams virtust vera komnir á skrið á sama tíma og 49ers voru að glíma við mikil meiðsli og frekari vandræði varðandi ákvörðun sýslunnar að banna íþróttaiðkun næstu þrjár vikurnar. Það er ennþá, þó lítill, séns á að lærisveinar Kyle Shanahan komist í úrslitakeppnina en er það virkilega þeim fyrir bestu?
19. Carolina Panthers (-3)
Það má vissulega færa rök fyrir því að Panthers hafi fengið of marga plúsa undanfarið í styrkleikaröðun Leikdags. Þeir eru þó lentir í 20. sæti listans sem er ágætis lendings fyrir félagið sem hefur komið flestum á óvart í vetur með frammistöðu sinni. Með smá heppni gæti liðið verið 7-5 um þessar mundir en þessir tæpu tapleikir fara beint í bankann.
20. Chicago Bears (-3)
Það reyndist rétt ákvörðun að kaupa ekki velgengni Bears án efasemda en þeir fóru aldrei uppfyrir sæti 16 á listanum Eftir heita byrjun á tímabilinu hefur sigurleikjagangan snúist við í sporinu en liðið hefur nú tapað fimm leikjum í röð. Það er þó tiltölulega þægilegt prógramm framundan sem mun halda úrslitakeppnisvon liðsins gangandi.
21. Houston Texans (+1)
Deshaun Watson er ofurstjarna sem hefur í síðustu sex leikjum Houston Texans kastað 1750 sendingajarda og 15 snertimarkssendingar án þess að tapa einum bolta. Framleiðslan hefur verið snarskilvirk en drengurinn er að bjóða upp á 70,5% sendingaheppnun úr þessu leikjaúrtaki. Liðið var rétt í þessu að missa bakvörðinn Bradley Roby og útherjann Will Fuller í sex leikja bann fyrir notkun á ólöglegum efnum.
22. New England Patriots (+4)
Þegar allir halda að hægt sé að staðsetja Patriots í ár eftir enn eina skelfilega frammistöðuna, þá koma þeir öllum á óvart með ólíklegum sigri. Sú var raunin á sunnudaginn þegar liðið vann sigur á Arizona Cardinals með bjöllusparki frá Nick Folk. Sama hverju því líður eru litlar sem engar líkur á því að liðið nái inn í úrslitakeppnina.
23. Philadelphia Eagles (-2)
Ég vorkenni aðdáendum Philadelphia Eagles um þessar mundir. Það er nákvæmlega ekkert í kortunum sem hvetur stuðningsmenn liðsins til þess að sýna liðinu áhuga. Carson Wentz og Doug Pederson pörunin míglekur um þessar mundir og hvergi er land í augsýn. Senda klúbbinn í slipp, takk.
24. Denver Broncos (-)
Broncos standa í stað en ógerningur er að dæma liðið útfrá New Orleans Saints tapinu. Bryce Callahan og Phillip Lindsay hlutu báðir fótameiðsli og réttast væri bara að draga inn öll veiðafæri og sigla fleyginu heim í höfn. Það er alltaf næsta ár.
25. Los Angeles Chargers (-)
Afskaplega fer að verða þreytt að gera athugasemd við karlangann Anthony Lynn. Álit ritstjórnar á Lynn er löngu opinberaður sannleikur sem óþarfi er að orðlengja. Leikmannahópur liðsins er í fínu standi en félagið þarfnast aðeins nýs og betri leiðtoga til að taka klúbbinn upp á næsta level.
26. Detroit Lions (-3)
27. Washington Football Team (+2)
Ron Rivera og félagar komu sér tímabundið upp í efsta sæti austurriðils Þjóðardeildarinnar með tröðkun sinni á kúrekum Dallas undir þakkagjörðarljósum. Úrslitakeppnissætið hlaut þó New York Giants eftir sigur sinn gegn Cincinnati Bengals á sunnudaginn en það er eitthvað sem segir mér að Washington standi uppi sem sigurvegari riðilsins þegar lokavika deildarinnar klárast.
28. New York Giants (-1)
Giants falla um sæti en liðið rétt marði sigur á brunarústunum sem Bengals eru um þessar mundir. Daniel Jones hlaut aftanlærismeiðsli um helgina og missir líklega úr nokkrar vikur.
29. Dallas Cowboys (-1)
Ömurlegt tap í innan-riðils viðureign gegn Washington Football Team í einum af tveimur fimmtudagsleikjum umferðarinnar. Hlaupavörn liðsins var ævintýralega slæm og skoraði hlaupari Washington, Antonio Gibson, meðal annars þrennu í leiknum. Cowboys liðið fékk á sig þrjú snertimörk á 9 mínútna kafla í 4. leikhluta.
30. Cincinnati Bengals (-2)
Cincinnati fékk séns á að sækja sigur í jöfnum leik gegn New York Giants um helgina. Brandon Allen, leikstjórnandi Bengals, var felldur á miðjum leikvellinum og við það losnaði pillan úr höndunum á honum og Giants vörnin endurheimti boltann og tryggði sér um leið sigurinn.
31. Jacksonville Jaguars (-)
Mike Glennon leiddi Jaguars liðið í tveggja stiga tapi gegn úrslitakeppniskandídatinum Cleveland Browns. Það verður spennandi að sjá hvernig framtíð Doug Marrone verður hjá félaginu sem rak framkvæmdastjórann David Caldwell á dögunum.
32. New York Jets (-)
Eru Jets aðdáendur enn að fylgjast með sínu liði?