Það vantaði ekki dramatíkina í elleftu umferðina í NFL deildinni. Við fengum tvær framlengingar og sáum Detroit Lions verpa eggi gegn Carolina Panthers sem var án leikstjórnanda sína, Teddy Bridgewater. Taysom Hill leysti rifbeinskvalinn Drew Brees af í sigurleik gegn glæru Atlanta Falcons liði og Tua Tagovailoa var bekkjaður í leik Miami Dolphins gegn Denver Broncos þar sem gekk hvorki né rak hjá havæjanum knáa.
Alex Smith vann sinn fyrsta byrjunarliðsleik síðan 16. desemeber 2018 og Sean McVay viðhélt taplausri göngu sinni í leikjum þar sem liðið hans er yfir í hálfleik í 32-0.
Óáhugaverðu og leiðinlegu fréttirnar frá umferðinni eru þær að Joe Burrow, leikstjórnandi Cincinnati Bengals, mun ekki spila meira í vetur en segulómun leiddi í ljós meiri skemmdir en búist var við.
Jayon Brown, línuvörður Tennessee Titans, meiddist einnig illa en olnboginn á honum virtist ekki koma vel útúr falli þar sem Brown bar fyrir sig hendinni til að mýkja lendinguna. Útherjar Houston Texans, Kenny Stills og Randall Cobb, fóru báðir út af meiddir á meðan Andrus Peat hlaut heilahristing í leik Saints og Falcons og tekur heilahristings prógram NFL við hjá honum.
1. Kansas City Chiefs (-)
Minnstu munaði að Las Vegas Raiders legðu Kansas City Chiefs að velli í annað sinn á tímabilinu en allt kom fyrir ekki. Patrick Mahomes er ofurhetja og leikstýrði lokasókn Chiefs þegar minna en tvær mínútur voru til leiksloka og heimamenn frá Las Vegas þremur stigum yfir. 75 jardar á 1 mín. og 15 sek., ekkert vandamál. Travis Kelce og Tyreek Hill voru einnig frábærir í þessum leik. Chiefs eru nú 9-1 og fljúga til Flórída næstu helgi og taka á móti Tampa Bay Buccaneers.
2. Pittsburgh Steelers (-)
Pittsburgh Steelers áttu ekki í neinum vandræðum með Jacksonville Jaguars og flugu heim til Pittsburgh með þægilegan 27-3 sigur í farteskinu. Miðverðir Steelers, Minkah Fitzpatrick og Terrell Edmunds, fengu tvær pillur í hendurnar hvor frá Jay Gluten sem var, undarlega, ekki felldur nema tvisvar sinnum í leiknum. Pittsburgh fá Baltimore í heimsókn á fimmtudaginn ef allt er eðlilegt en Ravens hafa lokað höfuðstöðvum sínum vegna covid útbreiðslu innan liðsins.
3. New Orleans Saints (+1)
Saints vörnin er gjörsamlega óstöðvandi. 8 fellur, 11 sendingum varist og 11 högg á Matt Ryan í sigri á Atlanta Falcons 24-9. Sean Payton gaf Taysom Hill byrjunarliðssætið í fjarveru Drew Brees og hann endurgalt Payton traustið og var 18/23 í sendingum með tvö hlaupasnertimörk. Saints eru nú komnir með sjö sigurleiki í röð og eiga útileik gegn Denver Broncos í næstu umferð.
4. Green Bay Packers (-1)
Grátlegt tap í framlengingu gegn Philip Rivers og félögum frá Indianapolis þar sem Marquez Valdes-Scantling fömblaði á ögurstundu sem gaf Colts boltann í framlengingu sem endaði að lokum með vallarmarki og sigri. Packers skoruðu 28 stig í fyrri hálfleik en tókst aðeins að koma upp þremur stigum samtals í seinni hálfleik.
5. Indianapolis Colts (+4)
Indianapolis Colts eru nú komnir með tvo flotta sigra í röð og mæta Tennessee Titans í næstu umferð í annað skiptið á stuttum tíma. Það verður blóðug barátta um efsta sæti AFC South en Colts ættu að mæta fullir sjálfstrausts í þann leik eftir framlengingarsigur á Aaron Rodgers og Green Bay Packers. Það virðist enn smá glóð í Philip Rivers.
6. Seattle Seahawks (+2)
Seahawks réttu úr kútnum gegn spræku Arizona Cardinals liði í fimmtudagsleik umferðinnar. Það munaði miklu að fá Carlos Hyde til baka sem hljóp inn snertimarki og skilaði 5,6 jördum á burð í 14 tilraunum. Carlos Dunlap sá til þess að aflýsa lokatilraun Cardinals á lokasekúndum leiksins.
7. Buffalo Bills (-)
Bye vika í Buffalo.
8. Los Angeles Rams (+3)
Los Angeles Rams kastleikurinn var skilvirkur og silkimjúkur í fyrri hálfleik gegn Tampa Bay en það skilaði liðinu 17 stigum. Það var augljóst að McVay ætlaði ekki að sannreyna gæði hlaupavarnar Buccaneers en liðið hljóp aðeins 20 sinnum í leiknum. Cooper Kupp og Robert Woods voru stórkostlegir í Rams liðinu sem spilaði verðinum Joseph Noteboom í stað Andrew Whitworth sem meiddist í síðustu viku. Glæsilegur sigur hjá Rams sem virðast vera að eflast og eflast.
9. Tampa Bay Buccaneers (-4)
Það er erfitt að staðsetja þetta Buccaneers lið. Tom Brady er hræðilegur gegn pressu en hann kastaði tveimur töpuðum sendingum í þessum leik sem gerði út um vonir heimamanna. Tveir af síðustu þremur leikjum hafa verið algjört lestarslys fyrir Brady sem saknar Ali Marpet í sóknarlínuna en það er ekki sjón að sjá sókn Tampa Bay án hans. Buccaneers eru nú tveimur leikjum á eftir Saints í NFC South og eiga Chiefs á heimavelli í næstu umferð.
10. Tennessee Titans (+2)
Framlengingarsigur gegn ráðvilltu Baltimore Ravens liði kemur Titans klúbbnum inná topp tíu eftir leikviku 11. Derrick Henry átti enn einn skrímslaleikinn og brenndi Ravens liðið með 133 hlaupajördum og sigursnertimarkinu í framlengingunni. Titans voru á löngum köflum ósannfærandi en gerðu nóg til að sigra Baltimore í þetta skiptið.
11. Baltimore Ravens (-5)
Þetta markar fyrsta skiptið sem Ravens eru ekki innan topp tíu í styrkleikaröðun Leikdags. Það er augljóst að liðið saknar Marshal Yanda, sem lagði skóna á hilluna eftir seinasta tímabil. Einnig var Ronnie Stanley missirinn blóðtaka fyrir sóknina sem virðist hugmyndasnauð og áhugalaus. Greg Roman, sóknarþjálfari liðsins, þarf að krydda aðeins uppá sóknarleik sinna manna sem kom öllum á óvörum í fyrra. Ravens eru í þriðja sæti norðurriðils AFC með úrslitaskrána 6-4.
12. Miami Dolphins (-2)
Tua Tagovailoa var kippt niður á jörðina gegn vörn Vic Fangio um helgina í tapi gegn Denver Broncos. Tagovailoa var bekkjaður í fjórða leikhluta af Brian Flores sem freistaðist til að vinna jafnan leik með Ryan Fitzpatrick. Það gekk ekki og fimm leikja sigurgöngu lauk með tapaðri sendingu í lokasókn Dolphins. Miami menn geta huggað sig við útileik gegn New York Jets í næstu umferð.
13. Las Vegas Raiders (-)
Jon Gruden og Las Vegas Raiders gáfu allt sitt í seinni leikinn gegn Kansas City Chiefs á sunnudaginn. Minnstu munaði að liðið næði að sópa Chiefs í vetur en Patrick Mahomes hafði aðrar hugmyndir. Raiders líta vel út um þessar mundir og eiga Atlanta Falcons og New York Jets í næstu tveimur umferðum.
14. Arizona Cardinals (-)
Arizona stendur í stað þrátt fyrir sjö stiga tap gegn Seahawks á fimmtudaginn. Það er hérna sem mörkin liggja á milli þeirra liða sem geta gert atlögu að Ofurskálinni að mati ritstjórnar. Kyler Murray heldur áfram að heilla áhorfendur með töktum sínum en það verður spennandi að sjá hvort hann nái að draga liðið inn í úrslitakeppnina uppúr erfiðum NFC West riðli.
15. Cleveland Browns (-)
Fimm stiga sigur gegn Philadelphia Eagles staðreynd og Browns komnir upp fyrir Baltimore Ravens í AFC North. Bakvörðurinn Denzel Ward mun missa af nokkrum leikj
16. Carolina Panthers (+5)
Ritstjórnin hefur sofið of lengi á Carolina Panthers sem sigruðu Detroit Lions 20-0 með PJ Walker undir senter.
17. Chicago Bears (-)
Bye vika á birnina.
18. Minnesota Vikings (-2)
Vikings fengu átta víti dæmd á sig í tapi gegn Dallas Cowboys ásamt því að tapa tveimur fömblum til gestanna. Minnesota eiga Carolina og Jacksonville í næstu tveimur leikjum og geta komið sér í 50% sigurhlutfall en þeir eiga enn góðan möguleika á að koma sér í úrslitakeppnina. Þetta var algjört sjálfsmark hjá Vikings að taka ekki þennan leik og eiga séns á að koma sér á skrið í seinni hluta tímabilsins.
19. Atlanta Falcons (-1)
Vörn New Orleans Saints tröðkuðu á sókn Atlanta Falcons allan liðlangan leikinn en Matt Ryan kastaði tveimur töpuðum sendingum og var felldur átta sinnum. Nú virðist botninn vera dottinn úr tímabili Falcons en það var gaman að sjá liðið fá nýtt líf eftir brottrekstur Dan Quinn. Næstu tveir leikir eru gegn Las Vegas og síðan aftur gegn New Orleans.
20. San Francisco 49ers (+2)
Plús tveir í bye viku hlýtur að segja okkur ýmislegt um liðin hér fyrir neðan.
21. Philadelphia Eagles (-2)
Við værum líklega búin að fá að sjá Jalen Hurts meira undir senter ef ernirnir frá Philadelphia væru ekki í bullandi úrslitakeppnisslag í NFC East, þrátt fyrir 3-6-1 úrslitaskrá.
22. Houston Texans (+2)
Houston Texans leitast eftir því að komast á skrið eftir að haga lagt New England Patriots á sunnudaginn, 27-20. J.J. Watt varðist fjórum sendingum sem er persónulegt met, Deshaun Watson spilaði vel og leiddi lið sitt til sigurs sem eru nú orðnir þrír talsins eftir slæma byrjun á tímabilinu. Texans fljúga til Detroit og etja kappi við Lions á fimmtudaginn.
23. Detroit Lions (-3)
Hvílík skelfing. 0 stig skoruð gegn Carolina Panthers á sunnudaginn er enn eitt arfabúntið í hnappagat Matt Patricia sem verður 100% látinn taka pokann sinn eftir tímabilið.
24. Denver Broncos (+2)
Broncos hentu í einn óvæntan sigur eftir skelfilega frammistöðu í seinustu viku. Drew Lock byrjaði þó á því að kasta pillunni í hendurnar á Dolphins vörninni en hélt sjó og spilaði þokkalega. Phillip Lindsay og Melvin Gordon gátu hlaupið knettinum sem lagði grunninn að sigrinum. Varnarmegin náði árásateymi Broncos sífellt í skottið á Tua Tagovailoa sem átti sinn versta leik hingað til. Það er enginn grunnskóli framundan hjá Denver sem mæta Saints og Chiefs í næstu tveimur umferðum.
25. Los Angeles Chargers (-)
Chargers gátu ekki hlaupið gegn New York Jets en það skipti ekki máli. Justin Herbert kastaði tuðrunni 49 sinnum fyrir 366 jarda og þrjú snertimörk. Strákurinn heldur áfram að skila inn flottum frammistöðum og ætti framtíðin að vera björt í LA.
26. New England Patriots (-3)
Því miður fyrir Bill Belichick náðu Patriots ekki að viðhalda sigurgöngu sinni gegn Houston Texans um helgina. Arizona Cardinals næstu helgi, áfram gakk.
27. New York Giants (-)
Bye vika.
28. Dallas Cowboys (+3)
Andy Dalton snéri aftur á völlinn og sótti sigur gegn heitu Minnesota Vikings liði og átti flottan leik. Dallas eru enn í bullandi úrslitakeppnisséns og hljóta að hugsa sér gott til glóðarinnar eftir jákvæð úrslit og flotta frammistöðu frá Ezekiel Elliott sem hefur verið að spila undir getur í allan vetur.
29. Washington Football Team (+1)
Annar sigur fyrir NFC East lið. Washington sigruðu Cincinnati Bengals nokkuð örugglega sem misstu Joe Burrow af velli og út tímabilið í leiðinni. Antonio Gibson var frábær í liði Washington sem mætir Dallas Cowboys á fimmtudaginn í alvöru slag.
30. Cincinnati Bengals (-2)
Nú getum við kvatt Cincinnati Bengals tímabilið. Joe Burrow hlaut alvarleg meiðsli í leik gegn Washington um helgina og spilar ekki meira með í vetur. Meiðslin voru hræðileg og nú leggjast NFL aðdáendur á bæn um að hann komi heill út úr þessu. Ekki reikna með fleiri sigrum í ár hjá Bengals.
31. Jacksonville Jaguars (-)
Jay Gluten átti frábæra Drew Lock eftirhermusyrpu gegn Pittsburgh Steelers á sunnudaginn þegar hann kastaði boltanum fjórum sinnum frá sér. Skítatap og liðið nálgast einn af topp leikstjórnendum nýliðavalsins. Það verður áhugavert að sjá hversu mikið þeir fá fyrir Gardner Minshew á skiptibókamarkaðinum.
32. New York Jets (-)
Minnstu munaði að liðið næði sínum fyrsta sigri á tímabilinu. Jets hljóta að stela einum í vetur en það er bara hreinlega ekki hægt að enda 0-16.