Enn ein vikan að baki og í raun ótrúlegt að við séum komin yfir 10 leikvikur miðað við ástandið á jörðinni í ár.
Það var bræla á nokkrum stöðum í BNA um helgina en skítaveður var í Pittsburgh, Cleveland og Foxborough. Colts komu sér á toppinn í AFC South með sigri á Titans, Lions hirtu sigurinn gegn Washington með löngu sparki á seinustu sekúndum leiksins, Giants unnu sinn annan sigur í röð og DeAndre Hopkins greip bjölluflautubolta frá Kyler Murray sem tryggði Cardinals glæstan sigur á Buffalo Bills í stórleik helgarinnar.
Drew Brees fór meiddur af velli en hann er með brákuð rifbein og illa farið lunga. Teddy Bridgewater var felldur harkalega og er að glíma við meiðsli í hné eftir umferð helgarinnar. Tímabilið virðist vera búið hjá innherja Ravens, Nick Boyle en Rams vonast til að fá betri fréttir af vinstri tæklaranum sínum Andrew Whitworth sem meiddist um helgina.
1. Kansas City Chiefs (-)
Bye vika.
2. Pittsburgh Steelers (-)
Öruggur sigur gegn litla bróður í leik sem fór fram í skítveðri í Pittsburgh. Steelers eru enn taplausir og verða það fram yfir næstu umferð, allavega. Jacksonville Jaguars bjóða stóra Roeth og félaga velkomna í leikviku 11.
3. Green Bay Packers (+1)
Tæpur fjögurra stiga sigur gegn botnliði Jaguars er ekki hughreystandi. Sér í lagi hjá liði sem situr hér í þriðja sæti listans. Hlaupaleikur Packers var ekki nægilega góður og hefði þurft að styðja betur við vel heppnaðan kastleik. David Bakhtiari snéri aftur eftir meiðsli og er orðinn launahæsti sóknarlínumaðurinn í deildinni eftir að hafa skrifað undir fjögurra ára framlengingu sem getur náð $105,5M að hámarki.
4. New Orleans Saints (+1)
Snarfurðulegur sigur heilögu mannana frá New Orleans gegn San Francisco 49ers færir liðið upp um einn rass en Saints hafa ekki verið svona ofarlega síðan eftir leikviku 1. Drew Brees fór meiddur af velli og Jameis Winston og Taysom Hill spiluðu undir senter í seinni hálfleik.
5. Tampa Bay Buccaneers (+3)
Tampa Bay mættu til leiks gegn Carolina Panthers, eftir algjöra niðurlægingu gegn New Orleans Saints í síðustu umferð, og settu allt í fimmta gír. Sóknin hengdi næstum því 50 stig á vörn Phil Snow og Tampa vörnin bretti upp ermarnar í seinni hálfleik og fékk aðeins á sig 6 stig.
6. Baltimore Ravens (-3)
Ravens falla hér um þrjú sæti eftir tap gegn New England Patriots á heimavelli í skítaveðri. Fyrir leikinn fannst mér Patriots vera eitt lélegasta liðið í deildinni en Ravens fundu leið til að tapa á móti liðinu sem Jets voru næstum því búnir að vinna.
7. Buffalo Bills (-1)
Grátlegur endir fyrir Bills menn sem héldu að þeir væru búnir að gera nóg til að vinna Arizona Cardinals á sunnudaginn. Falleg tenging Josh Allen og Stefon Diggs dugði þó ekki til sigurs í annars virkilega huggulegum fótboltaleik.
8. Seattle Seahawks (-1)
Russell Wilson er búinn að vera slakur seinstu fjórar vikur og það þýðir þrjú töp fyrir Seattle. Hann má ekki misstíga sig annars tapar liðið. Vörnin ekki nægilega góð og hlaupaleikurinn varla til staðar án Carson og Hyde.
9. Indianapolis Colts (+1)
Góður sigur hjá Frank Reich og félögum á rússíbananum sem Tennessee Titans eru. Það var augljóst fyrir leikinn að Colts eru vel byggðir til að sigra lið eins og Titans sem eru afleitir varnarlega.
10. Miami Dolphins (+1)
Dolphins eru 3-0 eftir að Tua Tagovailoa var hent í djúpu laugina. Hann á enn eftir að kasta tapaða sendigu og er kominn með fimm snertimarkssendingar. Dolphins halda áfram að fá stig frá sér- eða varnarliðum sínum, sem hjálpar helling. Glæsileg byrjun liðsins undir tryggri stjórn Brian Flores.
11. Los Angeles Rams (+1)
Virkilega mikilvægur sigur hrútanna á sjóhaukunum á sunnudaginn í baráttunni um toppsæti vesturriðils NFC. Kastleikurinn var mjög skilvirkur og Jared Goff átti fínasta leik. Stærsta hólið fær þó árásateymi Rams sem felldi Russell Wilson sex sinnum í leiknum og koma höggi á hann tólf sinnum.
12. Tennessee Titans (-3)
Hlaupaleikur Titans var heilt yfir mjög sterkur gegn Indianapolis Colts í fimmtudagsleik umferðarinnar. 4,9 jarda á burð verður seint talið lélegt en kastleikurinn var í raun ekki til staðar en einn leikmaður greip fleiri en 2 bolta Titans megin. Með tapinu féllu Titans niður í annað sæti AFC South og því um gríðarlega mikilvæg úrslit að ræða.
13. Las Vegas Raiders (-)
Flottur sigur Raiders manna um helgina á erkióvinum sínum frá Denver. Hlaupaleikur Raiders var gríðarlega öflugur og fékk Denver vörnin ekki rönd við reist. Þrátt fyrir öruggan sigur standa Las Vegas menn í stað (aðra vikuna í röð). Það eru nefnilega smá kaflaskil að mati ritstjórnar frá tólfta sætinu og niður úr.
14. Arizona Cardinals (+1)
Eftirminnileg lokasókn Arizona Cardinals fer í sögubækurnar sem eitt rosalegasta augnablik NFL fótbolta á 21. öldinni. Nú eru Cardinals komnir með sömu úrslitaskrá og Rams og Seahawks í NFC West, 6-3. Kyler Murray gæti komið sér í MVP umræðuna að fullri alvöru ef hann nær að halda liðinu yfir 60% sigurhlutfalli út tímabilið.
15. Cleveland Browns (-1)
Þetta er grimmur heimur og hér finna Browns menn fyrir því. Sigur um helgina en mínus einn á þriðjudegi hjá Leikdegi. Svona æxlast styrkleikaraðanir stundum en Cardinals taka stökkið uppá við á kostnað Browns liðsins sem eru 6-3 og eiga Eagles og Jaguars í næstu tveimur leikjum.
16. Minnesota Vikings (-)
Baráttan um annað sætið í NFC North er að harðna verulega um þessar mundir en Vikings, Lions og Bears eru í einum hnapp og geta öll blandað sér í wildcard umræðu með góðum seinni hluta.
17. Chicago Bears (-)
Nick Foles var keyrður af velli undir lok leiks sem tapaðist þrátt fyrir hetjulegan varnarleik gegn sterku hlaupaliði Minnesota Vikings. Nú verður gaman að sjá hvort Mitch Trubisky fái að vera virkur á leikdegi næsta sunnudag eða hvort Tyler Bray fái að byrja leikinn gegn Green Bay Packers.
18. Atlanta Falcons (+2)
Bye vika. Færast upp vegna úrslita annarra liða.
19. Philadelphia Eagles (-1)
Loks hreyfist nálin hjá Philly sem hafa setið í átjánda sæti listans síðan í leikviku 4. Auðvitað ætti liðið að vera eitthvað neðar. Sjáum hvað gerist í næstu umferð áður en við förum að snardrekkja liðinu.
20. Detroit Lions (+1)
Lokasekúndu sigur á Washington Football Team hleypir Detroit Lions upp um einn rass í topp 20. Þeir þurfa að strengja saman nokkra sigra á seinni hluta tímabilsins til að Matt Patricia haldi starfi sínu. Það er ljóst.
21. Carolina Panthers (+6)
Það var mikið að ég gerði eitthvað í málum Carolina Panthers sem hafa setið of neðarlega of lengi í styrkleikaröðuninni. Hér eru þeir komnir upp um sex rassa en frammistaðan gegn Chiefs er aðal áhrifavaldur á bakvið þá ákvörðun. Matt Rhule er að gera flotta hluti með þetta lið og sóknin hefur verið afskaplega sprengifim á löngum köflum.
22. San Francisco 49ers (-3)
Tap gegn Saints um helgina fellir 49ers liðið niður um þrjú sæti. Seinustu tímabil hjá 49ers hafa verið niður, upp og allavega. Meiðsli auðvitað sett strik í reikninginn en það verður að spila þessa fótboltaleiki. Það er alltaf næsta ár.
23. New England Patriots (+2)
Það bjuggust ekki margir við sigri Pats gegn Baltimore á sunnudaginn en staðreyndin er sú að New England vann Ravens 23-17 í Foxborough. Houston Texans næst, í Houston.
24. Houston Texans (-2)
Texans eiga Patriots í næstu umferð eftir fjögurra stiga tap gegn Cleveland í Cleveland á sunnudaginn. Skítavindur og rok gerði leikmönnum erfitt fyrir. Áfram gakk.
25. Los Angeles Chargers (-1)
Justin Herbert og Tua Tagovailoa. Tveir upprennandir stjörnuleikstjórnendur í NFL deildinni mættust í leik Chargers og Dolphins þar sem Miami hafði sigur úr býtum, 29-21 í skemmtilegum leik. Chargers eru á botni vesturriðils AFC með úrslitaskrána 2-7 og verða í baráttunni um efstu valréttina í nýliðavalinu í apríl 2021.
26. Denver Broncos (-3)
Áhyggjur vaxa og vaxa í Colorado fylki eftir enn eitt tapið og skítaframmistöðu leikstjórnandans Drew Lock. Broncos eiga sjö leiki eftir og Lock þarf að girða sig í brók ef hann vill ekki enda sem varamaður í þessari deild.
27. New York Giants (+1)
Giants eru að taka framförum. Gallman er að koma sterkur inn og vörnin er bara ágæt. Upp um einn með NYG!
28. Cincinnati Bengals (-2)
Joe Burrow var felldur fjórum sinnum og tók 9 högg á sig í tapleik gegn sterku Pittsburgh Steelers liði. Það vita allir hvað skrifstofan í Cincy þarf að gera eftir tímabilið: styrkja sóknarlínuna.
29. Dallas Cowboys (-)
Bye vika.
30. Washington Football Team (-)
Naumt tap gegn Detroit Lions í fyrsta byrjunarliðsleik Alex Smith í tvö ár. Munaði minnstu að liðið næði að koma til baka úr 24-3 holu.
31. Jacksonville Jaguars (-)
Jaguars fengu tvo sénsa til að komast yfir gegn Green Bay Packers um helgina. Það tókst ekki og skildi engan undra. Jaguars eru í kjörstöðu að sækja sér alvöru leikstjórnanda næsta vor.
32. New York Jets (-)
Bye vika.