Seattle Seahawks, New Orleans Saints, Los Angeles Chargers og Las Vegas Raiders voru öll í bye vikunni sinni og spiluðu því ekki leik í umferðinni. Þau standa öll í stað eins og venjan er í stykleikaröðun Leikdags.
Það var enginn fimmtudagsleikur þessa umferðina en við fengum í staðinn tvíhöfða á mánudagskvöldið. Derrick Henry fór á kostum gegn Houston Texans en hlauparinn skildi ekki einn jarda eftir á vellinum þegar hann gataði Texans vörnina fyrir 212 jördum. Hann skoraði einnig tvö snertimörk og hefur nú gert það þrjá leiki í röð.
Vörn Tampa Bay Buccaneers slökkti gjörsamlega á sóknarmótor Green Bay Packers en hún hélt þeim í 10 stigum. Það var aðeins 10 stigum meira en New York Jets skoruðu gegn Miami Dolphins í sínu sjötta tapi á tímabilinu.
1. Kansas City Chiefs (+1)
Höfðingjarnir frá Kansas City hrifsa efsta sætið enn á ný af hröfnum Baltimore borgar. Chiefs unnu sigur á Bills í leiðindaveðri sem verður að teljast tilkomumeiri sigur en það sem Baltimore bauð uppá.
2. Baltimore Ravens (-1)
Ravens unnu tveggja stiga sigur á Philadelpia Eagles en Lamar Jackson er að spila langt frá MVP tímabilinu sínu í fyrra. Hluti af vandamálinu er staðreyndin að sóknarlínan fyrir framan hann er ekki jafn frábær og hún var í fyrra. Það telur. Jackson hefur verið felldur 15 sinnum það sem af er en var aðeins felldur 23 sinnum í 16 leikjum í fyrra.
3. Pittsburgh Steelers (+2)
Hörku frammistaða og sigur gegn Browns liði sem var í stuði fyrir leikinn í Pittsburgh. Besta vörnin í deildinni og sóknin að byrja að fúnkera betur og betur með hverjum leiknum.
4. Seattle Seahawks (-)
Seattle Seahawks standa í stað vegna bye viku.
5. Green Bay Packers (-2)
Green Bay voru flengdir í beinni á Stöð 2 sport gegn Tampa Bay í seinni glugganum á sunnudaginn. Það gekk ekkert sóknarlega hjá Rodgers sem var ólíkur sjálfum sér og kastaði pillunni tvívegis í hendur Buccaneers varnarinnar.
6. Tampa Bay Buccaneers (+1)
Glæsileg frammistaða sjóræningjanna gegn Packers um helgina hýfir þá upp í sjötta sæti listans. Ronald Jones var risastór og vörn Green Bay átti engin svör. Tom Brady skilaði sínu og fann gamla félaga sinn, Rob Gronkowski, í fyrsta skiptið í endasvæðinu eftir að þeir skiptu um lið.
7. Tennessee Titans (-1)
Tennessee eru enn taplausir en minnstu munaði að Houston Texans næðu að hengja þeirra fyrsta tap á þá. Allt kom fyrir ekki. Samt falla þeir um eitt sæti milli útgáfa en þetta er afskaplega valtur árangur hjá þeim. Líkt og Seahawks eru Titans flugbeittir sóknarlega, með leikstjórnanda sem er að fara á kostum en vörnin er eftirá í þroska og stendur sig eftir því.
8. New Orleans Saints (-)
Bye vika hjá Saints.
9. San Francisco 49ers (+5)
Flottur sigur 49ers manna gegn geldri Rams sókn. Robert Saleh hefur verið dauðslifandi feginn að fá Emmanuel Moseley inn aftur og hefur skilað Brian Allen aftur til Starbucks.
10. Buffalo Bills (-)
Annað tap Buffalo í röð kom gegn Kansas City Chiefs í leiðindaveðri í leik sem ekki er hægt að taka mikið mark á. Patrick Mahomes og Chiefs eru með betra lið. Buffalo á enn nokkuð í land varnarlega og Josh Allen virðist vera að missa dampinn. Topp 10 lið samt.
11. New England Patriots (-2)
Tap gegn Broncos um helgina fellir Patriots út úr topp 10 en þeir eiga eiginlega ekkert erindi þangað. Þetta er ágætislið sem mun standa í mótherjum sínum en vopnabúrið er tómt og Cam Newton er á síðasta söludegi.
12. Cleveland Browns (-1)
Cleveland voru rassskelltir á Heinz Field í Pittsburgh gegn Steelers á sunnudaginn. Það var aldrei í vafa hvort liðið mætti til að spila og Steelers slátruðu Baker Mayfield og rifbeinunum hans. Nú þurfa Browns að taka nokkrar verkjatöflur og búa sig undir að lumbra almennilega á Cincinnati Bengals og Joe Burrow.
13. Los Angeles Rams (-1)
Rams töpuðu gegn spræku San Francisco liði 16-24 og fá -1 fyrir vikið.
14. Arizona Cardinals (+1)
Arizona Cardinals jörðuðu áhugalaust Cowboys liðið á mánudagskvöldið og eru komnir með tvo sigurleiki í röð eftir tvö slæm töp. +1 á Cardinals og alvöru leikur á heimavelli gegn Seattle í næstu umferð.
15. Indianapolis Colts (-2)
Colts sleppa með skrekkinn en útlitið var ekki gott í upphafi annars leikhluta gegn Cincinnati Bengals sem voru komnir með 21 stigs forskot. Philip Rivers hrökk þá í gang og leikstýrði 21 Colts stigi upp á töflu fyrir hálfleik. Mínus tvö á Colts því þessi blanda þeirra mun springa í höndunum á þeim og það er ekki í lagi að fá þrjú snertimörk á sig á 15 mínútum gegn Bengals.
16. Chicago Bears (+5)
Chicago Bears fá ríkulegt bömp í nýjasta lista Leikdags en þeir höfðu sigur úr býtum gegn Carolina Panthers. Vörnin er sterk en hún skóp þennan sigur. Sóknin virðist gera eins lítið og hún þarf til að vinna leiki og það hefur dugað. Næsti leikur er gegn LA Rams í Kalí.
17. Las Vegas Raiders (-)
Bye vika hjá Raiders.
18. Philadelphia Eagles (-)
Eagles virðast vera á smá siglingu en þeir töpuðu naumt fyrir Steelers í viku 5 og tapa naumt aftur gegn Ravens á sunnudaginn. Möguleiki er á að Dallas Goedert og Jalen Reagor verði með gegn New York Giants á fimmtudaginn.
19. Detroit Lions (+1)
Afgerandi frammistaða gegn litlausu Jaguars liði færir ljónin upp í 19. sæti. Atlanta Falcons á útivelli er dauðafæri fyrir Lions að koma sér í 50% sigurhlutfall.
20. Miami Dolphins (+2)
24-0 sigur gegn New York Jets þar sem Tua Tagovailoa kom inná og kastaði tveimur boltum. Fyrir stuttu tilkynnti Adam Schefter það að Tua muni vera byrjunarliðsmaður héðan af. Góðar fréttir fyrir spennandi klúbb á hörku siglingu.
21. Minnesota Vikings (-5)
Niðurlægjandi tap gegn brotlentu Atlanta Falcons liði hlýtur að skapa spurningar aðdáenda í kringum versta leikmann leiksins, Kirk Cousins. Viljiði meira af þessu?
22. Dallas Cowboys (-3)
Dallas Cowboys eru í niðurfallinu. Það er eitthvað stórkostlegt að þessu liði. Jerry, finndu þér framkvæmdastjóra og leyfðu honum að setja saman þjálfarateymi og leikmannahóp. Sestu svo niður og sittu þar.
23. Houston Texans (-)
Texans töpuðu hörkuskemmtilegum leik gegn Tennesseee Titans 42-36. Nú situr liðið á 1-5 sigurhlutfalli og heimsækja Packers í næstu umferð.
24. Los Angeles Chargers (-)
Anthony Lynn og vinir voru í bye. Standa í stað.
25. Atlanta Falcons (+1)
Glæsileg sóknarframmistaða gegn Minnesota Vikings. Fyrsti leikurinn eftir Dan Quinn stjórnartíðina. Sigur. Líklega verður næsti leikur (Lions) áhugaverður. +1.
26. Denver Broncos (+1)
Sterkur sigur gegn æfingasveltu Patriots liði. Broncos fengu Drew Lock og Phillip Lindsay til baka. Vongóðir um að fá Noah Fant, Melvin Gordon, K.J. Hamler og A.J. Bouye til baka fyrir næstu umferð.
27. Carolina Panthers (-2)
Tap gegn sterkri Bears vörn sprengir Carolina bóluna. Þrír sigurleikir í röð hjá Matt Rhule fyrir leik umferðarinnar verður að teljast gott því fáir sáu mörg tvöföld vöff í kortunum hjá Panthers í vetur. Saints úti næst.
28. Cincinnati Bengals (-)
Skemmtileg byrjun gegn Indianapolis Colts á sunnudaginn en liðið komst viðstöðulaust í 21-0 áður en þeir köstuðu forystunni frá sér í öðrum leikhluta. Áfram veginn.
29. Jacksonville Jaguars (-)
Skítatap gegn Detroit Lions um helgina. Liðið er hægt og rólega að fjara út eftir frábæra byrjun.
30. New York Giants (+1)
Ég lyfti risunum upp um einn rass til tilbreytingar. Þeir eru ekki frábærir og fátt sem bendir til þess að þeir séu búnir að sauma sig inn í eitthvað sigurmynstur.
31. Washington Football Team (-1)
Ron Rivera er að reyna að skapa sigurmenningu í höfuðborginni og kaus því að reyna við tveggja stiga tilraun í stöðunni 19-20 fyrir Giants þegar einn pulsubiti var eftir af leiknum. Tap.
32. New York Jets (-)
0 stig gegn Miami. Næsta tap verður gegn Bills í næstu umferð.