Í fyrsta innleggi seríunnar “leikur vikunnar” tóku New Orleans Saints á móti Tampa Bay Buccaneers. Það þarf ekki að orðlengja breytingarnar á liði Bruce Arians og væntingunum sem fylgdu í kjölfarið.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru!
Þetta var viðureign sem fjölmargir NFL áhugamenn biðu spenntir eftir en líklegt þykir að liðin tvö komi til með að berjast um fyrsta sæti riðilsins. Mike Evans, útherji Tampa Bay var tæpur fyrir leik og óvíst hvort hann myndi ná að spila. Hvort sú óvissa hafi verið hluti af töfrabrellu vitum við ekki en Evans spilaði 93% sóknarsnappa liðsins.
Í liði Saints vantaði þá Marcus Davenport og Cesar Ruiz, fyrstu umferðar valrétt New Orleans í seinasta nýliðavali. Báðir voru að glíma við meiðsli en þetta eru tveir byrjunarliðsmenn svo ákveðið högg fyrir Sean Payton og félaga.
Leikurinn
Fyrsta sókn Tom Brady sem leikstjórnandi Buccaneers stóð yfir í fimm mínutur, spannaði 11 kerfi og skilaði snertimarki. Tom Brady laumaði sér inná endasvæði Saints sem voru klemmdir á sinni tveggja jarda línu. 7-0, Bucs í vil eftir aukastigssparkið en fleiri stig fóru ekki á töfluna í 1. leikhluta.
New Orleans komu sterkir til baka í öðrum leikhluta og jöfnuðu leikinn með sinni fyrstu sókn í fjórðungnum. Alvin Kamara var þar að verki eftir sendingu frá Drew Brees á þriðju tilraun og 10 frá 12 jarda línu Tampa Bay. Jafn leikur eftir aukastigið.
Í næstu sókn Bucs stal Marcus Williams, bakvörður Saints, sendingu Tom Brady sem var ætluð Mike Evans. Einhver misskilningur var á ferðinni á milli Brady og Evans en vaxtaverkir eru óumflýjanlegir hjá nýjum mönnum á nýjum stöðum. Williams hljóp 17 jarda með þýfið og sókn Saints tók við keflinu á 35 jarda línu Tampa Bay.
Jordan Whitehead fékk á sig sendingavíti (e. passing interference) 6 jördum frá endasvæði sínu en þaðan hljóp Kamara boltanum inn fyrir sitt annað snertimark í leiknum. 14-7, Saints í vil eftir aukastigið.
Eftir 10 sóknarkerfi voru Bucs komnir á vallarhelming Saints en á þriðju tilraun og 13 var Brady felldur (e. sacked) og í kjölfarið var vallarmarkstilraun Bradley Pinion varin. Tæpar sjö mínútur af sókn í vaskinn. Saints svöruðu með sínu eigin vallarmarki og staðan í hálfleik 17-7, Saints í vil.
Í fyrstu sókn Buccaneers í seinni hálfleik fengu þeir tvö flögg; Mike Evans fyrir að halda og Donovan Smith fyrir þjófstart. Ekki frábært. Til að kóróna hræðilega byrjun Tampa í síðari hálfleik kastaði Tom Brady boltanum í hendur Janoris Jenkins sem hljóp 36 jarda og skoraði snertimark fyrir New Orleans. Stolin sexa. 24-7 fyrir Saints eftir Will Lutz aukastig.
Miðvörðurinn Marcus Williams gerði sig sekan um sendingavíti þegar hann braut á Mike Evans stuttu seinna. 45 jardar í bankann fyrir Buccaneers og aðeins 30 jardar í endasvæðið. Ronald Jones skilaði 21 hlaupajarda í næsta kerfi og O. J. Howard greip snertimarkssendingu Tom Brady. Bæng! 24-14. Eldsnöggt svar Tampa Bay hleypti líf í leikinn. Liðin skiptust á að punta boltanum þar til Tampa komst í vallarmarksfæri og Bradley Pinion sparkaði þremur stigum upp á töflu. 24-17, rétt fyrir lok 3. leikhluta.
Saints kláruðu síðan dæmið þegar Emmanuel Sanders greip snertimarkssendingu Drew Brees og í kjölfarið flöskuðu skilarar Tampa á Will Lutz sparki sem stillti Saints sókninni upp á 18 jarda línu Tampa. Þrátt fyrir það þurfti Sean Payton að sætta sig við vallarmark eftir að hlaupavörn Buccaneers stóðst áhlaup Latavious Murray sem fékk fjórar hlaupatilraunir í sókninni. 34-17.
Mike Evans minnkaði síðan muninn fyrir Tampa þegar hann greip sinn fyrsta bolta í leiknum en Marshon Lattimore var með útherjann í gjörgæslu. 43-23 lokatölur leiksins eftir ryðgaðar frammistöður beggja liða.
Samanburður
Tampa Bay keyrðu kastkerfi í 62% tilvika en þeir voru að elta nánast allan leikinn svo það kemur ekki á óvart. Tom Brady tók á móti snöppum í haglabyssunni 60% af tímanum sem er 10% aukning frá því í fyrra þegar hann spilaði fyrir New England Patriots. Það er kannski óvarlegt að draga ályktanir útfrá þessum eina leik þar sem Buccaneers voru að elta mestmegnis af leiknum en þetta er eitthvað sem verður fróðlegt að fylgjast með.
Hinumegin var Drew Brees í haglabyssunni í 56% sóknarkerfa en Saints hlupu boltanum í 51% tilfella enda yfir lengstum og því kjörið að éta upp klukkuna með leiðinlegum hlaupabolta.
Bæði lið brenndu sig heilmikið á vítajördum þar sem Tampa Bay fékk á sig 103 jarda gegn 119 jördum Saints megin. Eins og svo oft áður réðust úrslitin í raun á töpuðum boltum en Tom Brady kastaði boltanum í tvígang frá sér. Skilaklúður Tampa Bay manna var líka sorglegt þegar tveir Bucs menn klessa hvor á annan og Saints ná boltanum í kjörstöðu á vallarhelmingi Bucs. Þetta eru einfaldlega alltof dýr mistök sem Drew Brees og félagar gerðu sig ekki seka um.
Pass | Pass | Pass | Pass | Pass | Pass | Pass | Pass | Rush | Rush | Rush | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Rk | Player | Cmp | Att | Cmp% | Yds | TD | Int | Sk | Y/A | Att | Yds | TD |
1 | Tom Brady | 23 | 36 | 63.9 | 239 | 2 | 2 | 3 | 6.6 | 3 | 9 | 1 |
2 | Drew Brees | 18 | 30 | 60.0 | 160 | 2 | 0 | 1 | 5.3 | 2 | 0 | 0 |
Viðbrögð
Það fór ekki á milli mála að báðir leikstjórnendur væru röngu megin við fertugt. Þeir virkuðu stífir og úr takt. Ætli þeir verði ekki látnir liggja í WD-40 í nokkrar nætur til mýkingar. Heimsfaraldurinn hefur auðvitað haft sín áhrif á undirbúningstímabil liðanna og er að einhverju leyti hluti af ástæðunni fyrir gæðasnauðum sóknarleik.
Útherjarnir Michael Thomas og Mike Evans voru hvergi sjáanlegir og hér með auglýsi ég eftir þeim. Gripakóngurinn Thomas bauð uppá þrjú grip af fimm sendingum og 17 jarda. Evans mætti í felulitum og sást einu sinni en þá greip hann snertimarkssendingu sem skilaði honum tveimur jördum samtals í leiknum.
Scott Miller, útherji Buccaneers, kom skemmtilega á óvart en hann kom lítið við á sínu nýliðaári. Hann greip 5/6 boltum sem skilaði 73 jördum. Þetta er lítill og kvikur skratti sem átti eitt snyrtilegt 37 jarda grip í fjórða leikhluta og gæti fengið að njóta góðs af athyglinni sem Mike Evans og Chris Godwin fá.
Hlaupaleikur liðanna var hrein hörmung að horfa á. Samanlagðir hlaupajardar voru 186 en þeir náðust með 60 tilraunum. Það gerir sláandi 2,8 jarda á burð. Hlaupavörn Buccaneers var sérstakleg öflug og leyfði aðeins 2,4 jarda á burð en hún leiddi allar hlaupavarnir á seinasta tímabili. Hlaupasókn liðanna getur einungis batnað úr þessu en fyrir mér mættu liðin kasta oftar og skúffa fortíðardrauginn sem hlaupið er.