Leikur vikunnar þessa umferðina var viðureign San Francisco 49ers og New England Patriots. Heimamenn í New England voru 2-1 á heimavelli fyrir leikinn á meðan San Francisco voru taplausir á útivelli í vetur.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru!
Kyle Shanahan og félagar réttu úr kútnum seinustu helgi þegar þeir felldu Los Angeles Rams, 24-16, á heimavelli og bundu enda á tveggja leikja taphrinu. Kwon Alexander, Raheem Mostert, Jaquiski Tartt og Jimmie Ward misstu allir af leiknum gegn Patriots sökum meiðsla.
Lærisveinar Bill Belichick töpuðu hinsvegar gegn Denver Broncos, 18-12, í fyrsta leik eftir covid einangrun. Patriots endurheimtu þó nokkra leikmenn í sóknarlínuna sína fyrir leikinn gegn San Francisco en Shaq Mason og David Andrews snéru aftur til leiks á meðan Kyle Dugger sat hjá að sinni vegna meiðsla.
Gangur leiksins

San Francisco 49ers settu tóninn fyrir leikinn í sinni fyrstu sókn. Jimmy Garoppolo barðist fyrir endurnýjun og fullvissaði áhorfendur í leiðinni um að ökklinn væri ekki að fara að trufla hann í leiknum. Deebo Samuel bjó til jarda eftir screen sendingar, fyrst vinstra megin á vellinum, síðar hægra megin. Jeff Wilson kom pillunni svo yfir endalínu Patriots: snertimark.
Fyrri hálfleikur New England var eiginlega sorglega slæmur. Það gekk ekkert upp hjá þeim og Cam Newton virðist hreinlega heillum horfinn. Eftir tap gegn Denver í seinustu umferð bjóst maður við smá eldmóð frá Patriots en niðurstaðan var andleysi. Lawrence Guy náði fellu á Garoppolo í annarri sókn 49ers og stuttu síðar stökk Devin McCourty inn í sendingu Garoppolo sem ætluð var George Kittle en sveif yfir innherjann og í lúkurnar á tvíburanum.
Þetta reyndist aðeins fyrsta af fjórum töpuðum sendingum í fyrri hálfleik en báðir gengu til búningsherbergja með tvær tapaðar sendingar hvor. New England Patriots náðu aðeins að skora úr einu vallarmarki fyrir hálfleik á meðan hlauparar 49ers komust samtals þrisvar sinnum á endasvæði Patriots, þökk sé öflugum hlaupaleik og jördum eftir grip frá Brandon Aiyuk og Deebo Samuel. 23-3 í hálfleik.
Seinni hálfleikur
Í seinni hálfleik breyttist ekki mikið. Cam Newton og félagar náðu að sparka inn vallarmarki og tvöfalda stigafjölda sinn í leiknum. 49ers svöruðu því með Jeff Wilson snertimarki eftir skemmtilega sókn þar sem Brandon Aiyuk var ábyrgur fyrir 58 gripjördum. Wilson snéri sig illilega á ökkla þegar hann steig inn á endasvæði Patriots og spilaði ekki meira með í leiknum.
Cam Newto rauf 3000 sendingajarda múrinn og varð um leið fyrsti leikmaður sögunnar til að ná 3000 sendingajördum og 5000 hlaupajördum. Stuttu seinna var hann búinn að kasta sínum þriðja bolta í hendur mótherjans en Edelman náði ekki að grípa sendinguna sem skaust upp í loft og í fangið á Jamar Taylor.
JaMycal Hasty og Kyle Juszczyk báru næstu sókn 49ers á herðum sér en vörn Patriots hélt San Francisco sókninni þó í skefjum sem mátti sætta sig við vallarmark frá Robbie Gould. 33-6 lokatölur leiksins.
Maður leiksins
Embed from Getty ImagesMaður leiksins var hlauparinn Jeff Wilson sem átti stórkostlega innkomu í meiðslahrjáðan 49ers bakvöllinn. Wilson meiddist sjálfur í leiknum og mun missa af þremur leikjum, í minnsta lagi. Hann skoraði þó þrjú snertimörk og skilaði 112 jördum í 17 tilraunum sem gerir 6,6 jarda á burð.

Tilþrif leiksins
Fred Warner, línuvörður San Francisco, átti tilþrif leiksins að mati ritsjórnar þegar hann stal sendingu Cam Newton sem átti viðkomu í hendi Azeez Al-Shaair. Þarna reyndi á góð viðbrögð og mýkt handa hjá Warner sem hefur verið einn allra besti línuvörður deildarinnar það sem af er ári.
Samanburður
Það er fátt samanburðarhæft úr þessum leik. San Francisco áttu leikinn frá fyrstu stundu og New England komust aldrei úr fyrsta gír. Bæði lið fengu níu sóknir í leiknum og 49ers náðu 7,4 jördum á kerfi að meðaltali á mean Patriots sóttu aðeins 4,9.
Þú vinnur ekki leiki með því að tapa fjórum boltum, skila inn 16% heppnunarhlutfalli á þriðju tilraun og spila vörn í tæpar 40 mínútur. Þetta var veruleiki New England í leiknum. Brekka.

Þetta var hæglega versti leikur Cam Newton á tímabilinu en margir hafa spurt sig hvort hann sé hreinlega orðinn heill heilsu eftir covid veikindin. Það er ekki sjón að sjá manninn spila fótbolta í dag en hann byrjaði nokkuð sterkt og kom mörgum á óvart í upphafi tímabils.
Hann er nú kominn með fimm tapaðar sendingar í seinustu tveimur leikjum og sjö í þeim fimm leikjum sem hann hefur spilað. Hann hefur aðeins kastað tvær snertimarkssendingar en hlaupið inn fimm. Það er auðvitað hægt að benda á að vopnabúr Patriots er hlægilegt í dag en það hlýtur þó að vera einhver ástæða fyrir því að Panthers fengu ekkert fyrir leikmanninn og að hann sat eins lengi og hann gerði á frjálsa markaðinum.

Jimmy náði ekki að kasta snertimarkssendingu í leiknum og átti tvær tapaðar sendingar. Hann var þó beittur og skilvirkur, þess utan, í leiknum eins og sést á sendingakortinu hans. Hann hentar þessari Shanahan sókn vel þar sem hlauparar og gríparar sjá um að búa til jarda. Hann kastaði aðeins þremur sendingum yfir 15+ jarda en tvær þeirra enduðu í höndum mótherjans. Seinni tapaða sendingin var þó meinlaus og átti sér stað í lok fyrri hálfleiks þar sem Garoppolo reyndi að finna Brandon Aiyuk í tvídekkun nálægt endamarki Patriots.
Hann er að hrista af sér slæm ökklameiðsli sem héldu aftur af honum gegn Miami en í síðustu viku átti hann skínandi leik gegn sterku Los Angeles Rams liðinu.
Þungt prógramm framundan hjá 49ers
Frisco sitja á botni vesturriðils NFC með 4-3 úrslitaskrá sem lítur alls ekki vel út en miðað við stöðuna sem þeir voru komnir í hvað meiðsli varðar. Hinsvegar hafa þeir staðið sig vel án lykilleikmanna og eru nú á tveggja leikja sigurgöngu.
Það er þó engin blíða í kortunum. Það er útlit fyrir brælu því næstu fimm mótherjar þeirra eru Seahawks, Packers, Saints, Rams og Bills. Nú er mikilvægt að halda sjó ætli liðið sér að komst upp úr þessum erfiða riðli. Þarna eru tveir innan-riðils leikir og því til mikils að vinna.
Það er áhyggjuefni fyrir lið sem stólar jafnmikið á hlaupaleikinn og 49ers gera að geta hvorki notað Raheem Mostert né Jeff Wilson í næstu leikjum en JaMycal Hasty og Jerick McKinnon þurfa að stíga upp og halda velli.
Mikilvægir innan-riðils leikir framundan hjá Patriots
Nú ættum við að byrja að sjá hvað planið er í New England. Skyldi Bill Belichick sjálfur ætla að gefa frá sér tímabilið til að tryggja liðinu háan valrétt á næsta ári? Geta Patriots yfirhöfuð gert eitthvað annað? Leikmannahópurinn er ekki mikið meira en meðalgóður og nú þegar höfum við heyrt orðróma um mögulegt brotthvarf Stephon Gilmore sem virðist hafa sett húsið sitt á sölu í dag.
Skyldu Patriots hafa áhuga á því að koma sér í úrslitakeppnina í ár, eru fyrir stafni tveir innan-riðils leikir; fyrst gegn Buffalo Bills á útivelli og síðan gegn New York Jets, einnig á útivelli. Líklega eru Bellichick og Kraft þó tilbúnir að kyngja þessu tímabili og reyna að finna lausn að löngu endurhönnunarferli.