Ég setti mér það markmið að reyna að taka fyrir einn leik með hverju liði í “Leikur vikunnar” seríunni og fannst þessi leikur sanngjarn fyrir bæði lið því það er ekki eins gaman að meta leiki þar sem léleg lið mæta ofjarli sínum. Þessi viðureign var alltaf að fara að vera botnslagur í austurriðli NFC og ég fékk það sem ég vonaðist eftir: jafnan leik.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru og skoða liðna leiki vikunnar!
Heimamenn í Washington mættu spilaborg í auga stormsins þegar þeir buðu Dallas Cowboys velkomna á FedEx Field í Maryland fylki í seinustu umferð. Sá leikur endaði 25-3 fyrir Washington í leik þar sem Andy Dalton hlaut slæma höfuðáverka eftir tæklingu Jon Bostic. Hlauparinn Antonio Gibson og útherjinn Terry McLaurin fóru á kostum í liði Washington gegn mótspyrnulítilli vörn kúrekanna.
Gestirnir frá New York hljóta að hafa mætt nokkuð kokhraustir til leiks eftir naumt tap gegn sjóðheitu og vinsælu liði Tampa Bay þar sem minnstu munaði að Giants stæli sigri. 25-23 voru lokatölur í þeim leik en erfitt er að vinna leiki gegn góðum liðum ef þú tapar boltanum í gríð og erg.
Í liði Washington vantaði tæklarann Geron Christian og útherjann Dontrell Inman. Giants megin spiluðu Devonta Freeman og Ryan Lewis ekki.
Gangur leiksins

Fyrri hálfleikur var alveg hræðilegur að hálfu heimamanna í Washington. New York Giants mættu grimmir til leiks og Joe Judge ákvað að láta vaða á 4. tilraun og 1 í upphafi leiks. Washington vörnin stóðst prófið þar en þetta sýndi aggressívan hugsunarhátt Judge í þessum botnslag.
Antonio Gibson fömblaði boltann í fyrstu sókn Washington eftir tæklingu frá Blake Martinez og Logan Ryan. Julius Peppers, varnarbakkari Giants, náði knettinum eftir eitt stórt sirkusatriði þar sem leikmenn hentu sér til og frá á eftir pillunni sem sólaði þá alla uppúr skónum. Í kjölfarið fengum við að sjá lengstu heppnaða sendingu Daniel Jones á tímabilinu þar sem hann lúðraði boltanum fram á útherjann Austin Mack. 50 jardar og vallarmark fylgdi stuttu seinna.
Isaiah Wright, leikmaður Washington, fékk það hlutverk að grípa og skila pönti New York Giants um miðjan 1. leikhluta en flaskaði svo illa á því að Giants enduðu með boltann á 16 jarda línu Washington. Wayne Gallman hljóp knettinum inní endamark Washington stuttu seinna og kom Giants í 10 stiga forystu.
Kyle Allen fór alvarlega meiddur af velli undir lok fyrsta leikhluta og inná í hans stað kom Alex Smith, sem lenti í sambærilegum meiðslum (næstum) fyrir tveimur árum. Sóknarlega voru Washington þó enn við sama heygarðshornið og fengu á sig þrjú víti í röð í upphafi 2. leikhluta og þurftu að sætta sig við vallarmark. Smith át síðan haug af jördum þegar hann var felldur en hann hafði bullandi séns á að kasta boltanum frá sér.
Hann gerði það hinsvegar í næstu sókn en þá komst Blake Martinez inn í sendingu hans sem var ætluð J.D. McKissic.
New York Giants voru miklu beittari í fyrri hálfleik eins og hálfleikstölur sýndu (20-3) en Evan Engram átti virkilega smekklegt snertimarksgrip eftir bolta frá Daniel Jones. Fótboltarisarnir hengdu 103 hlaupajarda á Washington liðið í fyrri hálfleik sem opnaði mikið fyrir sendingaleikinn.
Seinni hálfleikur
Washington mættu með látum í seinni hálfleik og skoruðu snertimark um leið. Cam Sims átti 45 jarda grip sem færði sóknina hátt upp á völlinn. Hlaupararnir McKissic og Gibson sáu síðan um að koma liðinu alveg upp að endamarki Giants en Antonio Gibson fékk það hlutverk að fljúga með boltann innfyrir endalínuna.
Mikilvægt “stopp” Washington varnarinnar hélt góðri byrjun liðsins gangandi þegar hún leyfði aðeins vallarmark í efnilegri Giants sókn. Tim Settle átti fínustu fellu á Daniel Jones sem náði ekki endurnýjun á 3. tilraun og 21 í kjölfarið. Vallarmarkið markaði seinustu stig Giants í leiknum en þeir áttu eftir að gefa Washington nokkur færi til að vinna leikinn.
Terry McLaurin dró 68 jarda snertimark uppúr hattinum í byrjun 4. leikhluta þegar hann stökk framfyrir Isaac Yiadom, bakvörð Giants, greip boltann á lofti og brunaði framhjá þremur varnarmönnum og inn á endasvæði Giants. Hvílíkur leikmaður!
Washington fékk tvo sénsa til að taka forystu í leiknum þegar langt var liðið á 4. leikhluta en Alex Smith kastaði boltanum til Giants varnarinnar í tvígang fyrir miðjum vellinum. Þar með fóru möguleikar Washington í vaskinn og naumur Giants sigur staðreynd.
Maður leiksins
Logan Ryan, miðvörður New York Giant vann sér inn Maður leiksins verðlaunin með öflugri frammistöðu sinni í leiknum. Ryan var með 6 tæklingar, eitt þvingað fömbl, varðist tveimur sendingum og stal einni.
Á myndinni hér fyrir neðan sjáum við tæklinguna sem þvingaði boltann úr höndunum á Antonio Gibson í fyrsta sóknarkerfi Washington í leiknum.
Embed from Getty ImagesTilþrif leiksins
Besti leikmaðurinn á vellinum, Terry McLaurin, átti glæsilegt snertimarksgrip og hlaup í upphafi fjórða leikhluta. Þetta er einn mest spennandi útherji deildarinnar.
Samanburður

Lokatölur leiksins gefa til kynna jafnan og spennandi leik. Sem hann var. Einhverra hluta vegna. Þegar að við skoðum liðstölfræðina sjáum við hinsvegar að Washington töpuðu boltanum fimm sinnum (gegn núll hjá Giants), voru með aðeins 37 hlaupajörda (í 9 tilraunum) og náðu endurnýjun á 3.tilraun þrisvar sinnum í leiknum.
Svona frammistaða verðskuldar, að öllu jöfnu, kjöldrátt en þar sem að New York Giants eru langt frá því að vera frambærilegt fótboltalið var slík afgreiðsla aldrei í mikilli hættu.

Alex Smith var nákvæmur í stuttu sendingunum en þær fóru mest megnis hægra eða vinstra megin innan við 10 jardana. Það er skiljanlegt að Smith hafi kastað svona mikið af checkdown sendingum þar sem Kyle Allen var leikstjórnandi liðsins og allur undirbúningur vikunnar fór fram með Allen í huga en ekki Smith. Það var því ekkert leikskipulag til staðar sem tók mið af færni Smith sem leikstjórnanda.
Hann átti þó þrjár heppnaðar djúpar sendingar en ein þeirra endaði í lúkunum á Terry McLaurin sem sá um rest. Tvær af átta miðlægu sendingunum hans enduðu í höndum Giants varnarinnar í 4. leikhluta og fjórar þeirra til viðbótar voru ólukkaðar. Báðar töpuðu sendingarnar í lok leiksins skrifast alfarið á leikstjórnandann reynda sem var auðvitað bara að reyna að gefa liði sínu séns í stað þess að kasta boltanum útaf.

Daniel Jones var með svipaðar sendingatölur og Alex Smith en 113 færri kastjarda. Meðallengd sendingatilrauna Jones var aðeins 6,2 jardi á meðan Smith bauð uppá 10,2. Þegar sendingakortið hans Jones er skoðað sjáum við bersýnilega hvað markmiðið var sóknarlega hjá Giants.
Þar sem varnarlína Washington er þeirra helsti styrkleiki og sóknarlínu Giants hefur gengið illa að halda Jones uppréttum í sendingakerfum var takmarkið alltaf að koma boltanum hratt úr höndunum á Jones. Þrjár af sendingunum 34 ferðuðust lengra en 10 jarda í loftinu, þar af snertimarkssendingin á Evan Engram.
Það er ekki hægt að áfallast Joe Judge og þjálfarateymi Giants að styðjast við svona íhaldssamt og áhættulaust leikskipulag. Þrátt fyrir taktíkina var Daniel Jones felldur fimm sinnum í leiknum en honum tókst þó að passa betur upp á knöttinn heldur en hann hefur gert hingað til. Engin töpuð sending og ekkert tapað fömbl þrátt fyrir tvö fömbl.
Washington vantar framtíðarlausn í leikstjórnandastöðuna
Framundan eru þrír leikir sem hægt er að merkja “vinnanlega”. Enginn eigandi, þjálfari eða leikmaður vill tapa. Það er hinsvegar ekkert leyndarmál í NFL deildinni að liðum sem tapa mikið er verðlaunað með því að velja sér bestu leikmennina sem gefa kost á sér í nýliðaval NFL. Washington Football Team eru í þeim flokki. Þeir munu að öllum líkindum enda með topp 7 valrétt og það væri margt vitlausara en að nýta þann valrétt til að finna sér framtíðarleikstjórnanda.
Árið 2019 valdi klúbburinn Dwayne Haskins númer 15 í fyrstu umferð en eins og alþjóð veit er Haskins kominn á bekkinn eftir að hafa mistekist að heilla þjálfara liðsins með frammistöðu sinni inná vellinum og bætingum yfir sumartímann. Skyldum við sjá Justin Fields, Zach Wilson eða Trey Lance undir stýri hjá Washington á næsta ári?
Fær Daniel Jones annað tímabil til að sanna sig?
Líkt og Dwayne Haskins var Daniel Jones valinn í fyrstu umferð nýliðavals NFL árið 2019. Jones var annar leikstjórnandi árgangsins til að vera valinn, á eftir Kyler Murray, sem kom allflestum á óvart. Hingað til hefur Daniel Jones ekki gert mikið til að réttlæta fjárfestinguna en stóra spurningin er hvort Giants séu reiðubúnir að kippa Jones tilrauninni úr sambandi.
Hann virðist ekki vera búinn að taka miklum framförum frá því á seinasta tímabili en aftur á móti hefur leikmannahópur liðsins ekki batnað mikið heldur. Í dag fá leikstjórnendur mikið minni tíma til að sanna sig og ákveðin pressa er á að þeir geti byrjað frá fyrsta degi sem nýliðar og haldið sér á floti í samkeppnisríku NFL landslaginu. Vandamálið er að háskóla umhverfið, þaðan sem þessir leikmenn koma, er ólíkt því sem gengur og gerist í NFL deildinni og því ekki skrítið að leikstjórnendur þurfi 2-3 ár til þess að koma undir sig fótunum.
Ég sé framtíð Jones hjá Giants velta á því hvort Dave Gettleman haldi starfi sínu sem framkvæmdastjóri liðsins eftir tímabilið. Fái Gettleman lengri tíma, þá finnst mér líklegra að Jones fái annað tímabil til að réttlæta fjárfestinguna.