Leikur vikunnar í leikviku tvö var viðureign Minnesota Vikings og Indianapolis Colts en bæði lið lutu í lægra haldi í fyrstu umferð tímabilsins.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru!
Það voru heldur betur óvænt úrslit í 1. umferð þegar að Gardner Minshew og Jacksonville Jaguars lögðu Philip Rivers og Indianapolis Colts, 27-20, í leik sem flestir bjuggust við að Colts myndu sigra örugglega.
Minnesota Vikings höfðu ekki erindi sem erfiði þegar þeir fengu Aaron Rodgers og Green Bay Packers í heimsókn fyrir viku síðan en þeir voru einfaldlega teknir í bakaríið en náðu að forða sér frá algerri niðurlægingu með stórfenglegum sóknarleik í fjórða leikhluta.
Einu leikmennirnir sem voru á meiðslalistanum fyrir viðureignina voru innherji Colts, Jack Doyle, hlauparinn Matlon Mack og bakvörður Vikings, Cameron Dantzler svo bæði lið mættu nánast fullskipuð til leiks.
Leikurinn fór fram á Lucas Oil Stadium í Indianapolis með áhorfendafjölda upp að 2.500 manns.
Leikurinn
Minnesota Vikings áttu fyrstu sókn leiksins og komust inn fyrir 10 jarda línu Colts þar sem þeir fengu þrjár tilraunir til að skora snertimark en vörn Frank Reich stóðst áhlaupin og spörkuðu Vikings því vallarmarki í fjórðu tilraun, 3-0.
Philip Rivers tók við keflinu á 22 jarda línu Colts með 8:55 eftir í fyrsta leikhluta. 16 kerfum seinna var Rivers kominn upp að 13 jarda línu Minnesota með mikilli hjálp Jonathan Taylor sem fékk boltann 13 sinnum (tvær sendingar og 11 burðir). Á annarri tilraun og 8 rétt fyrir utan 10 jarda línu Vikings kastaði Rivers hinsvegar boltanum í hendur Eric Wilson eftir að Harrison Smith hafði slæmt hönd í boltann og brotið upp sendinguna sem ætluð var innherjanum Mo Alie-Cox.
Kirk Cousins og félagar hófu sína aðra sókn á 5 jarda línunni sinni en komust skammt og þurftu að sparka boltanum frá sér og eftir 11 skilajarda frá Nyheim Hines skokkaði sókn Colts inná völlinn með virkilega góða vallarstöðu (M-35).
Jonathan Taylor hljóp boltanum skömmu seinna inn á endasvæði Vikings eftir fjögur árangursrík kerfi og eftir aukastigssparkið var staðan 3-7, folunum í vil.
Minnesota komust lítt áleiðis í sinni næstu sókn og spörkuðu boltanum frá sér og sömu sögu er að segja af Colts sókninni sem fylgdi á eftir. En eftir að Rigoberto Sanchez puntaði boltanum í átt að endasvæði Vikings óð langsnappari liðsins, Luke Rhodes á eftir knettinum og náði að forða honum frá því að skoppa inn á endasvæði Minnesota og í kjölfarið stöðva liðsfélagar hans boltann á tveggja jarda línu Minnesota. Klemmdir og með bakið uppvið vegg komust Cousins og félagar hvorki lönd né strönd og enda á að fá dæmt á sig safety. 3-9 og fjöður í hatt sérliðs Colts fyrir frábæra punt útfærslu.
Sókn Colts náði í kjölfarið að skora 28 jarda vallarmark og bæta stigum upp á töflu, 3-12.
Það var á þessum tímapunkti sem Kirk Cousins sturtaði niður öllum möguleikum liðsins þegar hann kastaði þremur töpuðum boltum í röð (tveimur rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og einum beint eftir hálfleik) gegn tveimur vallarmörkum Indianapolis, 3-18 og sóknarleikur Minnesota farinn í hundana.
Zach Pascal greip síðan snertimarkssendingu Philip Rivers í upphafi fjórða leikhluta og Blankenship stígvélaði heim aukastiginu: 3-25.
Eftir annað sóknarklúður þar sem Vikings náðu heilum þremur jördum svöruðu Colts með enn öðru vallarmarki frá Blankenship, 3-28. Í síðustu sókn sinni í þessum leik náðu Minnesota menn að hlaupa inn sex stigum en það gerði Dalvin Cook sem hljóp síðan inn tveggja stiga tilraun og minnkaði muninn í 11-28 og þar við sat. Öruggur sigur Indianapolis Colts gegn líflausum Mike Zimmer víkingum.
Maður leiksins
Maður leiksins að mati ritsjórnar var hlaupari Colts, Jonathan Taylor.
Embed from Getty ImagesTaylor mun njóta góðs (því miður) af meiðslum Marlon Mack í vetur en Mack sleit hásin í fyrsta leik liðsins. Það var mikið að gera á skrifstofunni hjá Taylor í leiknum en hann fékk 26 hlaupatilraunir sem skiluðu einu snertimarki og 101 jarda. Það gerir 3,88 jarda á burð sem er ekki frásögu færandi fyrir utan þá staðreynd að hann varð fyrsti Colts nýliðinn síðan 2012 til að bera boltann yfir 100 jarda í leik.
Tilþrif leiksins
Tilþrif leiksins átti Colts vörnin þegar Julian Blackmon braut upp djúpa sendingu Kirk Cousins ætlaða Adam Thielen rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Khyri Willis var réttur maður á réttum stað og náði að grípa boltann og hlaupa með hann 44 jarda og tryggja sókninni sterka vallarstöðu. Ekki náði liðið að skora snertimark en Rodrigo Blankenship stígvélaði þremur stigum upp á töflu með vallarmarki og bætti í forystu Colts fyrir hálfleik, 3-15.
Tilþrifin komu á mikilvægu augnabliki í leiknum þar sem Thielen var á 30 jarda línu Colts þegar Blackmon stökk inní og forðaði liðinu frá erfiðri vallarstöðu og mögulegri snertimarkssókn.
Samanburður
Kirk Cousins átti alveg hreint út sagt skelfilegan dag og átti aðeins 11 heppnaðar sendingar úr 26 tilraunum. Það gerir 42,31% sendingaheppnun sem fellur þó ekki alfarið á hann. Þrjár af sendingunum hans enduðu í höndum Colts varnarmanna og það er alveg ljóst að liðið saknar útherjans Stefon Diggs sárlega.
Hinumegin lék Philip Rivers á alls oddi. Hann bauð upp á 76% sendingaheppnun úr sínum 25 sendingum sem voru nánast helmingi færri tilraunir en í 1.umferð þegar hann kastaði boltanum 46 sinnum. Rivers var þó í aukahlutverki í þessum leik því lið Frank Reich hljóp boltanum 40 sinnum sem voru kannski viðbrögð við tveimur töpuðum boltum Philip Rivers í 1. umferð.
Indianapolis Colts fengu á sig níu víti í leiknum sem kostuðu 93 jarda en liðið stóð sig best allra félaga á seinasta tímabili þegar það fékk aðeins dæmd á sig 79 víti. Nýliðinn Michael Pittman Jr. fékk á sig tvö blokking víti þar sem hann bauð upp á ólöglegar blokkeringar í bakið en það kom ekki að sök. Minnesota komst ekki lönd né strönd sóknarlega eins og sést á samtals jördum þeirra í leiknum: 175.
Víkingar í frjálsu falli?
Það er erfitt að segja hvort liðið sé verra, vörn eða sókn Minnesota. Það sárvantar pressu á leikstjórnanda mótherjans og þar af leiðandi þurfa bakverðir Vikings að dekka lengur og þeir eru hreinlega ekki í stakk búnir fyrir slíka ábyrgð. Mike Hughes, Holton Hill og Jeff Gladney eru allir 23 ára gamlir og þó miðvarðarparið sé reynslumikið dugar það ekki til að stoppa lekann sem myndast í sendingavörninni.
Embed from Getty ImagesSóknarlega erum við að sjá Kirk Cousins gera byrjendamistök en hann er augljóslega að spila pirraður eða reiður, eða hvoru tveggja. Það er eins og það vanti leiðtoga sóknarmegin en and- og trúleysið er áþreifanlegt. Hvort það sé vegna brotthvarfs Kevin Stefanski, fyrrum sóknarþjálfara liðsins, og komu Gary Kubiak er ekki gott að segja.
Minnesota Vikings eru í frjálsu falli þessa dagana og þurfa nauðsynlega góðan leik gegn Tennessee Titans á heimavelli sem hafa sjálfir ekki verið sannfærandi.
Folarnir sparka frá sér
Þrátt fyrir flottan liðssigur misstu Colts útherjann Parris Campbell af velli snemma í leiknum og er útlit fyrir að hann þurfi að sitja á hliðarlínunni í einhverjar vikur. Meiðslin litu ekki vel út en óvíst er hvort þau bindi enda á tímabilið hans.
Sóknarlínan var sterk í leiknum og naut Jonathan Taylor góðs af því. Þessi Indianapolis Colts sókn verður fyrst og fremst hlaupasókn sem mun krydda inn sendingu hér og þar. Philip Rivers ætti að halda áfram að fá góða sendingavörslu frá stóru strákunum en Mo Alie-Cox var þeirrar gæfu aðnjótandi í leiknum því hann greip 5 bolta og skilaði 111 jördum.
Embed from Getty ImagesDeForest Buckner átti stórgóðan dag í hjarta Colts varnarinnar og bauð uppá 4 QBhits og 1,5 fellur en sóknarlína Vikings var í mestu vandræðum með leikmanninn. Liðið þarf hinsvegar að hreinsa upp öll þessi víti sem þeir fengu dæmd á sig. Níu víti í einum leik er hreinlega alltof mikið en liðið fékk að meðaltali dæmd á sig 5 víti í leik á seinasta tímabili.
Indianapolis Colts eru sem stendur í öðru sæti suðurriðils AFC með sigurhlutfallið 1-1 og eiga næst leik gegn slöku liði New York Jets á heimavelli og ættu að sigra það lið örugglega.