Það var eintóm lukka sem stýrði því að frumraun Tua Tagovailoa hjá Miami skyldi akkúrat vera Dolphins leikurinn sem ég var búinn að ákveða að taka fyrir í leikviku 8. Miami voru 1-2 á heimavelli fyrir leikinn en gestirnir frá Los Angeles voru 2-2 á útivelli fram að þessu.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru og skoða liðna leiki vikunnar!
Heimamenn frá Miami áttu bye viku fyrir leikinn en þar áður unnu þeir New York Jets 24-0 og fyrir það báru þeir sigur úr býtum gegn San Francisco 49ers, 43-17. Liðið var því á góðum stað og aðdáendur liðsins að farast á taugum yfir því að nýliðinn Tua Tagovailoa væri loks að byrja leik fyrir félagið. Meiðslalistinn var stuttur hjá Dolphins fyrir leikinn gegn Rams en enginn mikilvægur leikmaður missti af leiknum.
Sólskinsstrákarnir frá L.A. mættu með sigur í farteskinu en Chicago Bears lágu í valnum í síðustu viku. Hrútarnir sátu á 5-2 úrslitaskrá fyrir leikinn en liðið hafði spilað við allan austurriðil NFC eins og hann leggur sig og unnið leikina fjóra og því kannski nokkuð falskir á því. Meiðslalisti Rams var einnig stuttur en þetta gæti hafa verið heilbrigðasti leikur tímabilsins til þessa. Tyler Higbee var talinn tæpur fyrir leik en spilaði þó.
Gangur leiksins

Þetta var stórfurðulegur leikur. Brjáluð skemmtun engu að síður en stórfurðulegur. Fyrsta sókn Tagovailoa undir senter fór ekki vel. Aaron Donald og Michael Brockers náðu til havæjans, felldu hann svo boltinn hrökk úr greipum hans. Rams náðu valdi á fömblinu og sóknin skokkaði inná völlinn á 15 jarda línu Miami. Velkominn í deildina, nýliði.
Hrútarnir gerðu sér mat úr tækifærinu þegar Robert Woods hljóp knettinum inná endasvæði Dolphins óáreittur, 7-0. Minnstu munaði að Kyle Van Noy næði að stela sendingu Jared Goff stuttu seinna, eftir að hann náði að skjóta hendi fyrir sendinguna, sem skaust upp í loft og endaði í jörðinni eftir drengilega griptilraun Van Noy.
Í næstu sókn Rams náði varnarlínumaðurinn Christian Wilkins að gera það sem Van Noy mistókst: að stela sendingu Jared Goff. Leikstjórnandinn losaði sig fljótt við boltann því óblokkaður Dolphins varnarmaður sótti að honum. Goff ætlaði að finna Cooper Kupp á slant leið en virtist ekki sjá Wilkins sem hafði fallið afturábak í svæðisdekkun. Wilkins fékk boltann beint í hendurnar og náði 8 jördum áður en hann skall í jörðina. Með stuttan völl fyrir framan sig náði Miami sóknin að færa sig uppað endalínu Rams sem endaði með flottu snertimarksgripi DeVante Parker eftir sendingu frá Tagovailoa. Fyrsta snertimarkssendingin komin í hús hjá nýliðanum. 7-7.
En sirkusatriðin voru hvergi nærri hætt. Myles Gaskin fömblaði boltanum nálægt eigin endasvæði og Rams sóknin fékk enn á ný gullið tækifæri til að skora. Hinsvegar var Jared Goff felldur aftan frá (Emmanuel Ogbah) með þeim afleiðingum að pillan slapp úr höndunum á honum og Andrew Van Ginkel hirti hana upp, brunaði yfir allan völlinn og skoraði snertimark. 14-7.
Jakeem Grant skilaði pönti Johnny Hekker stuttu seinna alla leið yfir völlinn og inná endasvæði Rams. 21-7. Á þessum tímapunkti var Rams sóknin búin að pönta fjórum sinnum, kasta einni tapaðri sendingu og fömbla einu sinni. Hún var þó hvergi nærri hætt.
Jared Goff kastaði sinni annarri tapaðri sendingu í fyrri hálfleik í næstu sókn og fömblaði pillunni í sókninni þar á eftir þegar hann var felldur af Shaq Lawson. Kyle Van Noy náði valdi á boltanum og komst 28 jarda upp völlinn með hann, alveg uppað endamarki Rams. Miami hlauparinn Myles Gaskin sá svo um að bera boltann yfir endalínuna fyrir snertimarki. 28-7.
Kai Forbath sparkaði svo loksins upp þremur stigum fyrir Rams eftir að rauða svæðis vörn Dolphins náði að halda Rams sókninni frá endasvæðinu sínu. 28-10.
Seinni hálfleikur
Óþarfi er að eyða mörgum orðum í seinni hálfleikinn. Rams vörnin hélt Dolphins liðinu í núll stigum og Matt Haack pöntaði boltanum sex sinnum. Hinumegin var einnig lítið að frétta fyrir utan eitt snertimark þar sem Jared Goff fann Robert Woods einan og óvaldan á endasvæði Dolphins. 28-17.
Maður leiksins
Það er eiginlega ógerningur að velja einn leikmann úr Miami liðinu og krýna hann mann leiksins. Miami vörnin fær því þann heiður þessa vikuna. Vörnin var stórkostleg og gersigraði varnarlínan sóknarlínu Rams. Jared Goff var sífellt undir pressu sem skapaði fömbl, tapaðar og ólukkaðar sendingar.
Kyle Van Noy, Eric Rowe, Christian Wilklins, Emmanuel Ogbah, Shaq Lawson og Andrew Van Ginkel spiluðu allir vel en ekki má gleyma að nefna Xavien Howard og Elandon Roberts. Miami vörnin var gjörsamlega á eldi!
Embed from Getty ImagesTilþrif leiksins
Tilþrif leiksins átti Miami Dolphins vörnin en Emmanuel Ogbah og Andrew Van Ginkel voru aðalleikararnir. Myles Gaskin, hlaupari Dolphins, hafði stuttu áður fömblað boltanum á 7 jarda línu Miami í stöðunni 7-7 svo Rams áttu boltann í algjöru dauðafæri. Á annarri tilraun og mark nær Emmanuel Ogbah hörku fellu á Jared Goff sem missir boltann og Andrew Van Ginkel skilar honum inná endasvæði Rams hinumegin á vellinum.
Þetta atvik kom á gríðarlega mikilvægu augnabliki í leiknum þegar Rams voru í kjörstöðu til að komast yfir og slá Dolphins um leið út af laginu. Sjón er sögu ríkari.
Samanburður

Hvar skal byrja?
Það er yfirleitt einn leikur á tveggja umferða fresti sem gengur hreinlega ekki upp þegar tölfræðin er skoðuð. Þessi viðureign var einn af þessum leikjum. Miami Dolphins pöntuðu níu sinnum, þar af sex sinnum í seinni hálfleik sem telur allar þeirra sóknir. Dolphins sóknin náði einungis 8 endurnýjunum en þeir voru 3/12 á þriðju tilraun. Samtals keyrði sóknin 48 kerfi sem skilaði liðinu heilum 145 jördum, þar af 90 sendingajördum og 55 hlaupajördum.
Los Angeles Rams sóknin náði hinsvegar 31 endurnýjun og keyrði 92 kerfi sem skilaði 471 jarda. Rams voru með 41% árangurshlutfall á þriðju tilraun og spiluðu 16 sóknir gegn 14 hjá Miami.
Bæði lið töpuðu boltanum í gríð og erg í þessum leik. Sex tapaðir boltar samtals. Fjórir hjá Rams og tveir hjá Dolphins. Miami voru hinsvegar duglegari að nýta sér stolnu boltana sína. Það er hægt að skrifa þrjú snertimörk þeirra á varnar- og sérlið í þessum leik. Það gerði útslagið í þessum leik og er yfirleitt ástæðan fyrir því að svona stórfurðuleg tölfræði gengur upp þegar betur er að gáð.

Það er aldrei auðvelt fyrir nýliða að spila sinn fyrsta leik í NFL deildinni. Tua var í raun stálheppinn að vörnin skyldi lúskra svona hressilega á Jared Goff því ekki gekk vel að færa prikin sóknarlega. Hann náði í sína fyrstu snertimarkssendingu á ferlinum sem var mikilvægt en sóknin var í raun ekkert annað en áhorfandi í þessum leik. Varnar- og sérliðin báru þetta uppi fyrir Brian Flores sem hlýtur að kalla eftir meiru frá sókninni í næsta leik.

Jared Goff var skelfilegur í þessum leik. Hann er óttalega linur leikstjórnandi sem létt er að tuska til og taka úr jafnvægi. Eins og sést á kortinu fyrir ofan sendi hann boltann 61 sinni í leiknum enda voru Rams að elta Dolphins allan leikinn. Dolphins vörnin hefði vel getað stolið tveim boltum í viðbót en varnarbakkarar Miami náðu ekki að klófesta pilluna.
Það er algjör Brees fnykur af þessu kastkorti hjá Goff en allt sem heitir 15+ jarda sendingar er varla til í vopnabúri Goff. Kortið segir okkur að hann hafi verið 2/10 í löngu sendingunum en sem leikstjórnandi á risasamningi eru gerðar lágmarkskröfur um að þú tengir við grípara í um 40-50% tilvika í 15+ jarda köstum.
Fimm vinnanlegir leikir framundan hjá Miami?
Það virðist sem svo að þjálfari Miami, Brian Flores, hafi ákveðið að kasta Tagovailoa út í djúpu laugina á hárréttum tíma. Tua fékk góða bye viku til að undirbúa sig andlega fyrir átökin gegn Rams og nú eiga Dolphins fimm áhugaverða leiki framundan.
Næsti leikur er gegn Arizona Cardinals á útivelli en það verður að teljast nokkuð jafn leikur. Því næst fá þeir Justin Herbert í heimsókn og halda síðan til Denver og spila við Drew Lock og félaga. Viku seinna fljúga þeir til New York og etja kappi við Sam Darnold og þotuliðið og loks spila þeir við Joe Burrow og Bengals á heimavelli.
Þetta eru fimm leikir gegn liðum sem öll eru leidd af ungum og tiltölulega óreyndum leikstjórnendum. Vissulega eru Dolphins það líka en þetta er flottur pakki fyrir Tagovailoa til að reyna að koma fótunum undir sig í deildinni. Sigurlíkur liðisins myndu aukast þónokkuð ef Ryan Fitzpatrick fengi að spila þessa leiki en Flores virðist reiðubúinn að fórna betri séns á úrslitakeppni fyrir framtíðarleiðtogann sinn.
Þungur róður á dagskránni hjá Rams
Hrútarnir eru sem stendur í þriðja sæti vesturriðils NFC með úrslitaskrána 5-3 þegar átta leikir eru eftir hjá liðinu. Þeir eru búnir með létta hluta leikjaskipulagsins og eiga nú fyrir stafni Seattle (x2), Tampa Bay, San Francisco, Arizona (x2) ásamt Jets og Patriots.
Þeir standa nokkuð vel að vígi þessa stundina en þeir þurfa helst að vinna fimm af þeim átta leikjum sem eftir eru til að tryggja sig inn. Það gæti reynst erfitt og mun verða erfitt nái þeir ekki að hrista frammistöðuna gegn Dolphins af sér í næsta leik.
Það var þó jákvætt að sjá hversu vel þeir komust upp völlinn gegn Miami en þeir þurfa að gera betur varðandi tapaða bolta og frammistöðu á rauða svæðinu.