Stórleikur umferðarinnar var valinn leikur þriðju leikviku NFL en það var auðvitað viðureign Baltimore Ravens og Kansas City Chiefs. Leikurinn fór fram í Baltimore og hrafnarnir höfðu verið meira sannfærandi liðið en Chiefs rétt mörðu sigur á Los Angeles Chargers í leikviku tvö.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru!
Ravens höfðu aftur á móti valtað yfir sína andstæðinga og virtust á meira skriði þar sem Lamar Jackson lék við hvern sinn fingur.
Í liði Chiefs vantaði Alex Okafor og Charvarius Ward sökum meiðsla og Ravens megin vantaði Tavon Young, sem spilar ekki meira með á þessu tímabili, og D.J. Fluker. Engin stórnöfn sem voru frábærar fréttir en aðdáendur vilja sjá alla heila fyrir svona stórleiki.
Leikurinn
Ravens átti fyrstu sókn leiksins og virtust fullir sjálfstrausts þegar þeir brunuðu upp völlinn á herðum hlaupakerfa sinna. Lamar Jackson splæsti í eitt 30 jarda hlaup og Mark Ingram og J.K. Dobbins fylgdu því eftir með 17 jördum samtals. Eftir að hafa tætt upp völlinn með hlaupakerfum snarbreyttist sóknarleikur liðsins þegar á rauða svæðið var komið. Lamar Jackson kastaði þrisvar sinnum án áþreifanlegs árangurs og Justin Tucker stígvélaði þremur stigum upp á töflu, 0-3. Ravens reyndu ekki einu sinni að hlaupa þegar á hólminn var komið, þrátt fyrir að hlaupið hafi komið þeim þangað. Furðulegt.
Tyreek Hill refsaði Baltimore vörninni illilega með tveimur kerfum í fyrstu sókn Chiefs sem skiluðu 22 og 33 jördum. Patrick Mahomes labbaði boltanum síðan inná endasvæði Ravens stuttu seinna og kórónaði glæsilega fyrstu sókn sem tók aðeins 2:37, 6-3, eftir að Harrison Butker klikkaði á aukastiginu.
Víti og fella gerðu Ravens erfitt fyrir í næstu sókn og Sam Koch puntaði boltanum án þess að sóknin næði einni endurnýjun. Á þessum tímapunkti var sannleikur leiksins farinn að kristallast: að Chiefs væru aldrei að fara að láta forystuna af hendi.
Patrick Mahomes fann Travis Kelce í tvígang fyrir endurnýjun í næstu sókn Chiefs og síðar Sammy Watkins á 3. tilraun og 9 sem stillti liðinu upp á 8 jarda línu Baltimore með nýtt sett af tilraunum. Á þriðju tilraun og mark skóflaði Mahomes boltanum á Anthony Sherman sem hjólaði með boltann í mark, 13-3 eftir aukastigsspark frá Butker.
Devin Duvernay skilaði síðan sparki Harrison Butker inn í endasvæði Chiefs fyrir 93 jarda og varð fyrsti leikmaðurinn til þess að skila sparki fyrir snertimarki á tímabilinu. 13-10 eftir gott og gilt Tucker aukastigsstígvél.
Eftir sitthvor puntin var aftur komið að Patrick Mahomes og félugum en sókn þeirra byrjaði með 29 jarda gróða eftir sendingu á óvaldaðan Travis Kelce. Patrick Mahomes bjó sér síðan til tíma þegar hann forðaði sér úr vasanum og senti boltann fram á við til Mecole Hardman fyrir 18 jarda. Mahomes tók síðan við knettinum stuttu seinna undir senter á 20 jarda línu Ravens, tók sjö skrefa undirbúning áður en hann lét vaða í átt að Tyreek Hill inní endasvæði Baltimore. Gripið. 20-10, eftir gilt aukastig frá Butker.
Eftir tvær mislukkaðar sendingar ætlaðar Mark Andrews í næstu sókn Ravens, skokkaði Sam Koch og sérlið Ravens inná völlinn til að punta boltanum frá sér í annað sinn í röð. Hérna var hlaupavörn Chiefs aðeins að þéttast en þeir gáfu aðeins upp 5 jarda í tveimur hlaupakerfum Ravens í sókninni.
Innan við þremur mínútum síðar grípur Mecole Hardman algjöran lúður frá Patrick Mahomes sem tók á móti snappinu í haglabyssunni og tekur sjö skrefa undirbúning til að leyfa hlaupaleið Hardman að þroskast. 27-10 eftir aukastigið.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks fömblar Lamar Jackson boltann og Chiefs vörnin nær valdi á honum sem gaf sókninni möguleika á að bæta í forystuna. Ekki tókst það en Harrison Butker klikkaði á 42 jarda vallarmarki og þar við sat í hálfleik.
Í seinni hálfleik skoruðu bæði lið snertimark en Ravens bættu einnig við vallarmarki. Eric Fisher, sóknarlínumaður Chiefs, greip snertimarkssendingu frá Mahomes í skemmtilegri útfærslu í boði Andy Reid og Eric Bienemy. Ravens megin greip Nick Boyle sendingu Lamar Jackson fyrir sex stigum en það má segja að leikurinn hafi klárast í fyrri hálfleik.
Lokatölur 34-20, Chiefs í vil og öruggur sigur í höfn.
Maður leiksins
Patrick Mahomes var maður leiksins að mínu mati en það var ekki erfitt val. Leikstjórnandinn var stórkostlegur og kastaði 385 jarda og fjögur snertimörk, hljóp sjálfur inn einu snertimarki og var 31/42 í sendingatilraunum. Það er ekki hægt að biðja um mikið meira en þetta. Hann las blitz pakka Ravens varnarinnar auðveldlega og refsaði þeim fyrir vikið illilega.
Embed from Getty ImagesTilþrif leiksins
Það var af mörgu að taka hvað tilþrif varðar en hægt væri að taka fyrir snertimark Eric Fisher eða aðra af bombusendingum Mahomes sem skiluðu snertimörkum. En ég ætla að fara í aðra átt. Devin Duvernay skoraði snyrtilegt snertimark eftir skil á Harrison Butker sparki í kjölfar Chiefs snertimarks sem virtist eiga séns á að kveikja rækilega í Ravens liðinu. Það tókst því miður ekki en snertimark Duvernay var það fyrsta sinnar tegundar það sem af er tímabili og því skemmtilegur áfangi sem verðskuldar hér tilþrif leiksins.
Embed from Getty ImagesSamanburður
Patrick Mahomes yfirspilaði Lamar Jackson ALGJÖRLEGA í þessum leik. Lamar Jackson var, fyrir utan nokkur hlaup, ömurlegur á mánudaginn og þarf að vinna einn af þessum stóru leikjum gegn Chiefs til að komast yfir, að því virðist, andlega hraðahindrun. Jackson var felldur fjórum sinnum í leiknum fyrir -27 jördum. Hann kláraði aðeins 15 sendingar af 28 fyrir 97 jarda sem setur nettó sendingajardana hans niður í 70 talsins. Það gengur alls ekki gegn sterkum liðum og þótt hlaupaleikur liðsins hafi gengið gríðarlega vel (7,5 jardar á burð) þá verður hann að gera betur í sendingaleiknum.
Vörn Ravens náði heldur ekki að koma Kansas City útaf vellinum á þriðju tilraun þar sem Chiefs voru 10/13 sem stingur svakalega fyrir varnir sem þurfa að eiga við jafnbeittan sóknarleik og Chiefs ráða yfir.
Núllstilling og áfram gakk
Það þýðir ekki mikið að hengja haus yfir þessari frammistöðu Ravens manna. Lamar Jackson átti erfitt uppdráttar þegar kom að því að senda boltann en innherji hans og aðalvinur í endasvæðinu, Mark Andrews, var ekki með öll ljós kveikt í þessum leik. Andrew fékk 8 bolta á sig en greip aðeins 3. Hann hálfgreip góðan bolta frá Jackson inná endasvæði Chiefs en glataði stjórn á honum þegar hann lenti harkalega í jörðinni.
Góð lið þurfa að geta sent og hlaupið til að vinna önnur góð lið en hlaupaleikur Ravens var sterkur að venju en áhugvert þótti mér að sjá þá treysta á sendinguna í lokahluta fyrstu sóknar leiksins. Gus Edwards átti fína spretti en J.K. Dobbins fékk aðeins einn burð í þessum leik. Varnarlega náðu Ravens ekki að setja neina pressu á Patrick Mahomes og þá er voðinn vís. Að venju reyndu Baltimore að senda blitzara á sóknarlínu Chiefs en Mahomes var greinilega vel undirbúinn fyrir það og átti lausn við öllum árásum Baltimore.
Næstu leikir eru gegn Washington, Cincinnati og Philadelphia. Ef allt er með felldu í Baltimore ættu þeir að vera komnir með 5-1 sigurhlutfall þegar þeir mæta erkióvini sínum í sjöundu umferð, Pittsburgh Steelers.
Höfðingjarnir minna hressilega á sig
Kansas City Chiefs voru hreint út sagt frábærir í þessum leik. Varnarlega vörðust þeir sendingaleik Ravens vel og voru líka heppnir að kasthendi Lamar Jackson var ekki í banastuði eins og í undanförnum leikjum. Hlaupvörn Chiefs hefur verið þeirra helsti veikleiki en hún stóð sig vel á mikilvægum tímapunktum í leiknum. Heilt yfir var hún þó götótt en 7,5 jardar á burð Ravens manna er að mestu hægt að skrifa á Lamar Jackson og hans óstöðvandi hlaupavenjur.
Sóknarlega er ekki mikið annað að segja en: vá! Andy Reid og Eric Bienemy eru með fullkomið sóknarlið í höndunum og ætla ekki að leyfa sér að sofna á verðinum og halda því ótrauðir áfram að baka allskonar leikkerfi og keyra á þeim. Tyreek Hill end-around kerfið, Eric Fisher snertimarkið og Anthony Sherman snertimarkið eru dæmi um skemmtilegar útfærslur sem virkuðu vel. Þegar þú hefur Patrick Mahomes í þínu liði getur þú leyft þér slíkan munað því leikmaðurinn er ótrúlegur. Það er ekkert sem tekur hann úr jafnvægi og hann er að semja ný viðmið þegar kemur að stöðunni.
Næsti leikur höfðingjanna er gegn Bill Belichick og Patriots en þar verður öllu til tjaldað með von um að hægja á Andy Reid sókninni og góðar líkur á að við fáum jafnan og spennandi leik. Patriots hengdu 250 hlaupajarda á Las Vegas Raiders í síðasta leik og munu að öllum líkindum setja pressu á þann veikleika varnar Chiefs næsta sunnudag.