Leikur vikunnar að þessu sinni var viðureign Detroit Lions og Jacksonville Jaguars. Leikurinn fór fram í Jacksonville þar sem Jaguars hafa unnið einn og tapað einum. Sigurhlutfall Lions á útivelli fyrir leikinn var 1-1, þar á meðal góður sigur gegn Arizona Cardinals.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru!
Detroit Lions sátu hjá í seinustu umferð þar sem þeir áttu bye viku en síðasti leikur þeirra var á heimavelli gegn New Orleans Saints. Lions byrjuðu þann leik af krafti og komust í 14-0. Erfitt reyndist að halda forystunni því þeir fóru inn í hálfleik 14 stigum undir, 14-28. Fín frammistaða í seinni hálfleik dugði ekki og Saints vann 6 stiga sigur, 29-35.
Jacksonville töpuðu sínum fjórða leik í röð gegn Houston Texans í síðustu umferð þar sem Gardner Minshew og James Robinson fömbluðu báðir og Houston vörnin hirti afganginn. Sparkarinn Stephen Hauschka klikkaði úr tveimur vallarmarkstilraunum og því hélt sparkara martröð liðsins áfram.
Josh Allen og Abry Jones spiluðu ekki gegn Lions sökum meiðsla og þá spilaði innherjinn Tyler Eifert aðeins fimm snöpp en hann er að glíma við hálsmeiðsli.
Hjá Lions vantaði aðeins Desmond Trufant en Frank Ragnow spilaði þrátt fyrir að hafa meitt sig á nára á æfingu fyrir leik.
Gangur leiksins

Fyrri hálfleikur var eign Detroit Lions. Þeir mættu beittir til leiks og skoruðu snertimark í fyrstu tveimur sóknunum sínum. D’Andre Swift átti meðal annars glæsilegt 54 jarda hlaup í upphafi annarrar snertimarkssóknarinnar sem endaði á 21 jarda línu Jaguars. Vörn Detroit Lions var fjörug og stóð sig virkilega vel gegn hlaupi Jaguars.
Mistök urðu Jacksonville að falli í fyrri hálfleik en fyrsta klúður leiksins átti Gardner Minshew þegar hann kastaði bolta upp völlinn. D.J. Chark komst framhjá bakverði Lions og Minshew lobbaði pillunni fram en setti alltof mikið loft undir hana sem gaf miðverðinum Duran Harmon tíma til þess að koma í hjálparvörnina, stökkva inní og stela boltanum.
Jon Brown, nýr tímabundinn sparkari Jaguarsc, brenndi af vallarmarkstilraun í næstu sókn en það kom síðan í hlut Trey Flowers, varnarlínumanns Lions, að kóróna slakan fyrri hálfleik Jaguars. Hann náði að slæma hendinni í boltann í miðri kasthreyfingu Minshew og Romeo Okwara náði síðan valdi á boltanum fyrir Detroit. Þetta kom eftir fína Jacksonville sókn þar sem þeir gerðu sig líklega til að setja vallarmark upp á töfluna, í það minnsta. 17-3 í hálfleik.
Seinni hálfleikur
Vörn Jacksonville byrjaði seinnihálfleik með látum og stoppuðu tvær hlaupatilraunir Lions í innkeyrslunni og náðu síðan að slæma hendi í pilluna sem línuvörðurinn Joe Schobert náði síðan að grípa og stela.
Kenny Golladay átti grip leiksins eftir að Lions erfðu boltann á 19 jarda línu sinni, í kjölfar mislukkaðrar fjórðu tilraunar Jaguars. Matt Stafford sá gulu flaggi kastað og hlóð því í eina djúpa sleggju eins og menn gera vanalega í slíkum aðstæðum. Golladay stökk hálfpartinn yfir bakvörð Jaguars, hrifsaði boltann úr loftinu og kom Lions sókninni á 6 jarda línu Jacksonville. Sóknin endaði með snertimarksgripi hjá innherjanum T.J. Hockenson og fyrsta snertimark seinni hálfleiks staðreynd.
Keelan Cole greip langa sendingu Gardner Minshew sem skilaði 54 jördum í kassann og ferskt sett af tilraunum á 20 jarda línu Lions. Detroit vörðust vel en fengu dæmt á sig sendingavíti og í kjölfarið rangstöðu (e. offside). Gardner Minshew tók svo málin í sínar hendur og hljóp yfirvaraskegginu og boltanum inní endamarkið þegar þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta.
Á þessum tímapunkti bjóst maður við gömlu góðu Lions mýktinni og að Jacksonville gætu farið að gera leik úr þessu en D’Andre Swift setti tóninn fyrir næstu sókn Lions þegar hann þrumaði miðvörðinn Josh Jones í jörðina. Brynjur, bein og sjálfstraust brotnuðu við þennan ofbeldisfulla árekstur en Swift hljóp svo stuttu seinna inn sínu öðru snertimarki í leiknum og gerði út um leikinn. Lokatölur 34-16.
Maður leiksins
Embed from Getty ImagesNýliðinn og hlaupari Detroit Lions, D’Andre Swift, fær “Maður leiksins” heiður Leikdags að þessu sinni. Fyrir leikinn hafði Swift fengið samtals 12 hlaupatilraunir og skilað 42 jördum. Hann fékk 14 tilraunir í þessum leik og uppúr þeim fengust 116 jardar og tvö snertimörk. Hans besta hlaup kom í lok fyrsta leikhluta þegar hann komst í gegnum A-gatið, á milli Frank Ragnow og Halapoulivaati Vaitai, með auða flugbraut fyrir framan sig.

Tilþrif leiksins
Fyrir neðan má sjá tilþrif leiksins en þau átti útherji Detroit Lions, Kenny Gollday. Stafford lúðraði pillunni fram og Golladay klifraði upp á þriðju hæð, yfir bakvörð Jaguars, til að grípa sendinguna. Glæsilegt alveg hreint.
Samanburður
Það er alltaf jafn furðulegt að sjá sigurlið eiga í vandræðum með að ná í endurnýjun á 3. tilraunum. Detroit Lions voru 3/12 á þriðju tilraun sem útleggst sem 25% heppnunarhlutfall. Hinu megin við borðið nýttu Jacksonville Jaguars 53,8% 3. tilrauna sinna (7/13).
Það kom ekki á óvart hve fáar fellur áttu sér stað í þessum leik. Trey Flowers átti einu fellu leiksins en Detroit Lions sitja í 30. sæti deildarinnar þegar kemur að fellum, með 6 talsins. Á botninum sitja mótherjar þeirra í þessum leik, Jacksonville Jaguars, með 5 fellur.
Hlaupavörn Jacksonville gekk vel að halda Adrian Peterson í skefjum en hann komst aðeins 40 jarda í 15 tilraunum (2,7 á burð). Betur gekk þeim að eiga við D’Andre Swift, sérstaklega ef tekið er 54 jarda hlaupið hans í burtu (væntanlega). Alls átti Swift 14 tilraunir sem skiluðu 116 jördum og 8,3 á burð en ef við tökum stóra hlaupið hans út komst hann 62 jarda í 13 tilraunum: 4,7 jardar á burð.

Gardner Minshew á heima í NFL deildinni en margir hafa verið að líkja mögulegri ferilbraut hans við sögu Ryan Fitapatrick; fínasti leikstjórnandi sem er fenginn til liðs sem stendur á krossgötum og þarf annaðhvort að brúa bilið vegna meiðsla aðalleikstjóranda eða er að hefja allsherjar endurhönnun leikmannahóps.
Minshew sýndi a.m.k. tvisvar sinnum skýra væntingu (e. anticipation) með köstum sínum þar sem hann lét boltann flakka löngu áður en gríparinn kláraði hlaupaleiðina sína. Um leið og gríparinn snéri sér við, var boltinn kominn í hendurnar á honum sem gaf varnarmanni engan séns á að koma vörnum við.
Þegar að við skoðum sendingakortið hans að ofan sjáum við hversu illa honum gekk að klára 10+ jarda sendingu á vinstri hlið vallarins. Á hægri hlið vallarins gekk honum betur að klára sendingar og átti til að mynda eina 30 jarda og aðra 35 jarda heppnun.
Líklega verða Jaguars í færi á að velja sér leikstjórnanda í næsta nýliðavali og búast má við því að þeir fari þá leið endi þeir með topp 5 valrétt. Það virðist vera lítið sem Gardner Minshew getur gert í því vegna þess hve gæðasnauður leikmannahópurinn er. Þessvegna finnst mér Fitzpatrick samanburðurinn nokkuð góður þar sem reikna má með Minshew í öðru liði eða á varamannabekknum í Jacksonville að ári.

Matthew Stafford var ekki frábær í þessum leik en var óheppinn að Joe Schobert greip boltann eftir að Jabaal Sheard náði að koma hendi fyrir sendinguna. Sheard og Schobert stukku báðir upp úr blokkeringum þegar Stafford var að fara að kasta, líkt og þeir væru í hávörn í blaki og böðuðu út handleggjunum.
Sendingakortið segir okkur hve illa honum gekk að klára sendingar lengri en 15 jarda. Af þeim átta tilraunum sem hann átti heppnuðust aðeins tvær en hann var flugbeittur í stutta spilinu.
Þægilegt prógramm framundan hjá Detroit
Lærisveinar Matt Patricia eru nú komnir með tvo sigra gegn þremur töpum og eru í algjöru dauðafæri að koma sér í 50% sigurhlutfall í næstu umferð. Þá ferðast þeir suður til Atlanta og taka á móti máttlitlu Falcons liði, sem unnu þó sinn mótherja á sunnudaginn.
Næstu leikir eftir Atlanta eru gegn IND, MIN, WAS, CAR og HOU. Með vindinn í bakið og nægilega mikið sjálfstraust í brjósti getur allt gerst og fjarlægur möguleiki er að sigra alla þessa leiki og bjóða aðdáendum sínum upp á 8-3 úrslitaskrá áður en liðið mætir CHI, GB og TB.
Er kominn hiti í bílstjórasætið í Jacksonville?
Nú eru Jaguars búnir að tapa fimm fótboltaleikjum í röð og sitja neðstir í suðurriðli AFC deildarinnar með einn sigur og fimm töp. Liðinu gengur hér um bil eins og fólk bjóst við fyrir tímabilið þegar forsvarsmenn liðsins rifu það í sundur og seldu varahlutina ódýrt.
Ef við sjáum fyrir okkur að Jacksonville verði í þeirri stöðu að bæta við sig leikstjórnanda með topp fimm valrétti í næsta nýliðavali, þá er ekki óhugsandi að þjálfarateymið fylgi varahlutunum – út um dyrnar. Ég ætla ekki að missa hökuna í gólfið fái Doug Marrone, og hans þjálfarar, stígvélið í rassinn á seinni hluta tímabilsins.