Leikur vikunnar að þessu sinni var viðureign tveggja 4-8 liða, Denver Broncos og Carolina Panthers. Leikurinn fór fram á Bank of America vellinum í Charlotte, Norður Karólínu í blíðskaparveðri þar sem rúmlega 5,700 aðdáendur voru viðstaddir. Bæði lið áttu enga raunhæfa möguleika á úrslitakeppninni en mættu þó og öttu kappi af fullri alvöru.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru og skoða liðna leiki vikunnar!
Denver hafði tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum en gaf Kansas City Chiefs alvöru leik í seinustu umferð. Drew Lock, leikstjórnandi liðsins, hafði kastað sjö töpuðum sendingum í seinustu þremur leikjum og ljóst var að hann þyrfti að girða sig í brók og standa í lappirnar skyldu Broncos ætla að gera sig líklega gegn líflegu Panthers liðinu.
Broncos voru án Bryce Callahan og A.J. Bouye varnarmegin og stuttu fyrir upphafs flautuna kom í ljós að Garett Bolles myndi ekki spila sökum veikinda. Graham Glasgow, hægri vörður liðsins, var einnig ekki á leikskýrslu.
Eftir myndarlega byrjun á tímabilinu hefur allt loft lekið úr Carolina liðinu en þeir höfðu tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum fram að þessum leik. Þrátt fyrir töpin voru þeir ansi nálægt sigri í þrígang, allt gegn liðum sem annaðhvort eru búin að tryggja sig í úrslitakeppnina eða þá eru í baráttunni um sæti.
Christian McCaffrey var ekki með sökum meiðsla og D.J. Moore var á covid listanum ásamt varnartæklaranum Zach Kerr.
Gangur leiksins

Denver Broncos vörnin mætti til leiks með læti og stæla til leiks en Kareem Jackson setti tóninn í fyrsta kerfi Panthers manna með sprengifimri tæklingu á hlauparann Mike Davis. Sókn Matt Rhule komst lítt áleiðis í fyrri hálfleik og einu stigin sem liðið skoraði komu eftir fellu fömbl á Drew Lock sem Obada virtist ætla að skila inn í mark gestanna en útherjinn Jerry Jeudy kom á seinna hundraðinu og tæklaði Obada á 3 jarda línunni.
Vörn Vic Fangio náði þremur fellum á Teddy Bridgewater og spilaði nánast óaðfinnanlega í fyrri hálfleik. Sóknarleikur liðsins var mikið líflegri heldur en aðdáendur liðsins hafa vanist en Pat Shurmur kallaði frábæran leik fyrir Drew Lock sem var ekki að þvinga neinu. Melvin Gordon var feikigóður í leiknum og Lock náði að finna innherjana Nick Vannett og Troy Fumagalli trekk í trekk fyrir allskonar gróða.
Það var hinsvegar skilarinn Dionte Spencer sem skoraði fyrstu stig leiksins þegar hann skilaði pönti Panthers manna heim í hús með glæsilegum tilþrifum. Sparkari Broncos, Brandon McManus klikkaði á aukastigssparki í annað sinn á tímabilinu. Það var svo eftir fellu fömblið hjá Carolina að Mike Davis hljóp boltanum inní mark Denver í annarri tilraun og Joey Slye kom Carolina yfir, 7-6.
Vörn Panthers gerði sig svo seka um tvö risastór mistök í seinustu sókn Denver í fyrri hálfleik. Brian Burns fékk dæmt á sig vafasamt víti þegar hann tæklaði Drew Lock sem kastaði mislukkaðri sendingu á 3. tilraun og 8 og gaf liðinu endurnýjun og 15 jarda í þokkabót. Lock fann síða Jerry Jeudy fyrir 31 jarda og Melvin Gordon kom liðinu upp að þriggja jarda línu Panthers. Þar fékk vörnin á sig annað víti eftir rosalega tæklingu Jermaine Carter sem gaf Broncos aðra endurnýjun á mikilvægum tímapunkti. Lock fann síðan innherjann Vannett einan á auðum sjó inní marki Panthers og kom Denver yfir fyrir hálfleik, 13-7.
Seinni hálfleikur
Eftir fyrsta kerfið í upphafssókn seinni hálfleiks hljóta Carolina að hafa velt vöngum yfir því hvort þeir væru fastir í déjà vu því Kareem Jackson var mættur með aðra sambærilega tæklingu og í byrjun leiks eftir stutta hliðarsendingu á innherjann Ian Thomas.
Jerry Jeudy og Melvin Gordon opnuðu reikninginn í síðari hálfleik fyrir Denver og kom sókninni fyrir á miðjum velli. Þaðan kastaði Lock löngum bolta niður hægri vænginn á galopinn K.J. Hamler fyrir 37 jarda snertimarki. Panthers svöruðu með vallarmarki eftir snyrtilega sókn þar sem Robby Anderson og Curtis Samuel græddu haug af jördum, 19-10.
Vörn Panthers virtist ætla að standa næstu sókn Broncos af sér og eiga séns á að koma sér enn betur inn í leikinn þegar Lock skramblaði til hægri og fann Fumagalli sem sótti mikilvæga endurnýjun. Fumagalli var svo aftur að verki þegar hann raðaði inn jördum eftir grip áður en hann var tæklaður á 2 jarda línu Panthers. Þaðan skoraði útherjinn Tim Patrick eftir stutta sendingu frá Lock.
Curtis Samuel var ansi breiður í næstu sókn Panthers en hann átti tvö grip fyrir 36 jördum sem stillti liðinu upp í dauðafæri. Teddy Bridgewater hljóp knettinum inní mark gestanna sem virtust vindlausir eftir drengilega frammistöðu í fyrri hálfleik. Spennan magnaðist um miðjan 4. leikhluta þegar Carolina skorðu vallarmark og minnkuðu muninn, 25-20.
Melvin Gordon reyndist enn á ný afar mikilvægur þegar hann hljóp 20 jarda og braut hverja tæklinguna á fætur annarri. Drew Lock átti þá frábæra djúpa sendingu á Hamler sem hljóp boltanum inn í mark heimamanna þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Stuðningsmenn liðsins gátu þó ekki andað neitt léttar því það tók Panthers sóknina ekki nema 28 sekúndur að bruna upp allan völlinn, skora snertimark og koma forystu Denver aftur niður í 5 stig.
Panthers vörnin gerði síðan vel í að koma Broncos sókninni útaf vellinum eftir 38 sekúndur en liðið komst hvorki lönd né strönd. Þegar hér var komið við sögu voru tæpar þrjár mínútur til leiksloka og Teddy Bridgewater með boltann á 27 jarda línu Panthers. Það var hinsvegar vörn Vic Fangio sem gerði útum leikinn en Dre’Mont Jones felldi Bridgewater á 1. tilraun og Josey Jewell setti mikla pressu á leikstjórnandann á 3. tilraun og sóknin rann út í sandinn. 32-27 fyrir Denver Broncos í hörkuskemmtilegum leik.
Maður leiksins
Drew Lock var maður leiksins en það hlaut að koma að því að strákurinn ætti almennilega frammistöðu. Lock bauð upp á 4 snertimörk og engar tapaðar sendingar, eitthvað sem hefur verið að hrjá hann mikið undanfarið. Hann kastaði 280 jarda og var með 10,4 jarda á tilraun sem er afskaplega gott. Frammistaða leikstjórnandans var metin á 149,5 stig samkvæmt ESPN sendingaeinkunnar stuðlinum.
Embed from Getty ImagesTilþrif leiksins
Tilþrif leiksins að mati ritstjórnar var lokasnertimark Denver Broncos og Drew Lock þar sem K.J. Hamler greip djúpa pillu frá Lock gegn svæðisvörn Carolina Panthers. Lock hefur verið gjarn á að læsa sjónum sínum á tilvonandi skotmark sitt með meðfylgjandi árangursleysi. Á myndunum hér fyrir neðan má sjá glitta í NFL leikstjórnanda en þetta þarf hann að gera statt og stöðugt ætli hann sér að halda starfi sínu í deildinni.

Pat Shurmur sendir út 11 personnel sóknarhóp en innherjinn Nick Vannett stillir sér upp í bakvelli með þeim tilgangi að selja hlaupið á 1. tilraun og 10. Drew Lock sér einn djúpan miðvörð og tvo bakverði í fjardekkun (e. off-coverage) sem gefur honum hugmynd um að Panthers séu í cover 3 svæðisvörn.

Hér sjáum við hlaupaleiðir útherjanna en kerfið sem Pat Shurmur kallar á þessum tímapunkti er frábær lausn á cover 3 vörn. Djúpi miðvörðurinn þarf að fylgjast með augum Lock og bregðast við því sem hann gerir. Með þessu kastkerfi er hann settur í mikla klemmu því hann þarf að gera upp við sig hvort hann hjálpi til við hlaupaleið Jerry Jeudy eða K.J. Hamler. Drew Lock horfir hér til Jeudy sem er að sækja inná völlinn, í átt að miðverðinum.

Með því að stara á Jeudy heldur hann miðverðinum frá því að hjálpa á K.J Hamler en miðvörðurinn fellur í gildrinu, stígur skrefið í átt að Jeudy jafnvel þótt hann sé í raun vel dekkaður af svæðisvörninni. Það opnar heldur betur djúpa svæðið á vellinum, þangað sem Hamler stefnir hraðbyri.

Það er því ekkert annað en formsatriði fyrir Lock að kasta 50 jarda úr hreinum vasanum og skila pillunni í hendurnar á galopnum útherjanum.
Samanburður

Liðsvíti reyndust Carolina Panthers ansi dýrkeypt í þessum leik. Það voru sérstaklega þrjú af þeim sjö vítum sem liðið fékk dæmd á sig sem stóðu upp úr. Í snertimarkssókn Denver í fyrri hálfleik fengu Panthers dæmd á sig tvö víti sem héldu lífi í Denver sókninni eins og kom fram hér að ofan. Það þriðja kom gegn sóknarlínu Carolina sem staðsett var á rauða svæði Broncos liðsins. Dómarinn dæmdi sóknarhald (e. offensive holding) sem færði liðið úr kjörstöðu og í kjölfarið náði Broncos vörnin mikilvægu stoppi og Matt Rhule þurfti að sætta sig við vallarmark.
Carolina er eftir umferðina með 8. flestu vítin (84) í NFL deildinni á meðan Denver Broncos liðið er með 5. fæstu vítin (64). Vítin, ásamt skilvirkni á rauða svæðinu, varð Carolina Panthers að falli í þessum leik. Varnarlega þarf liðið vitaskuld að spila betur en á þessum tímapunkti er sá hluti liðsins vanþróaður og hæfileikasveltur. Sóknin ber þetta lið uppi og hefði þurft að gera örlítið betur til þess að stela þessum leik.

Það var augljóst að Pat Shurmur ætlaði að sjá til þess að sóknarleikur liðsins myndi ekki blæða töpuðum boltum eins og hann hefur verið að gera í allan vetur. Drew Lock kastaði mikið af stuttum hliðarsendingum og hlauparar liðsins fengu samtals 24 burði. Inn á milli stráði Shurmur svo dýpri tilraunum sem Lock komst vel frá og fyrir vikið leit strákurinn, og sóknarleikurinn um leið, mikið betur út en undanfarnar vikur.
Lock var góður á skramblinu og í þeim bootleg kerfum sem hann fékk en hann tók aldrei neina óþarfa sénsa á ferðinni eins og hann á það til að gera. Lock er virkilega ógnandi á löppunum og hefur sýnt það í vetur að hann getur komið boltanum snilldarlega frá sér á skramblinu en hann á það til að þvinga pillunni fram völlinn þegar best væri að koma henni útaf.

Teddy Bridgewater spilaði nokkuð vel í leiknum og hefur reynst betri leikstjórnandi heldur en margir gerðu ráð fyrir. Hann sótti jarda með fótunum, til að mynda eina mikilvæga endurnýjun og síðar snertimark. Hann var hnitmiðaður í kastleiknum en tók aðeins eitt skot niður völlinn annars voru öll hans skotmörk innan við 20 jardana.
Hann var felldur fjórum sinnum í leiknum og hægt er að skrifa tvær fellurnar á hann sjálfan þar sem hann hékk alltof lengi á tuðrunni og hefði hæglega getað fleygt henni útaf leikvellinum. Hann spilaði frábærlega í seinni hálfleik þar sem sóknarleikur liðsins gekk eins og smurður fyrir sig.
Villihestarnir eiga helling inni og horfa til næsta tímabils
Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn í vetur en árangur liðsins mun koma til með að velta á framförum Drew Lock. Vic Fangio er með hörku hóp í höndunum og hefur vörnin spilað gríðarlega vel í vetur þrátt fyrir þrálát meiðsli lykilleikmanna. Á næsta tímabili fær liðið Von Miller, Jurrell Casey og Courtland Sutton til baka. John Elway þarf að semja við Justin Simmons sem einn besti leikmaður liðsins en einnig þarf að taka ákvörðun um framtíð Kareem Jackson sem á eitt ár eftir af samningi sínum en félagið.
Nái Lock að sýna framfarir á milli tímabila þá eru í raun allir vegir færir fyrir félagið sem gæti vel gert atlögu að úrslitakeppnissæti á næsta ári með uppfærðan Lock undir senter.
Framtíðin er björt í Carolina
Það er hellingur spunnið í þetta Panthers lið Matt Rhule. Þeir hafa komið mörgum á óvart í vetur með frammistöðu sinni og í raun verið óheppnir að tapa nokkrum risastórum leikjum. Curtis Samuel og Taylor Moton verða samningslausir eftir tímabilið en reikna má með því að báðir þessara leikmanna verði eftirsóttir á opnum markaði.
Í síðasta nýliðvali völdu Panthers menn aðeins varnarleikmenn en ljóst er að enn vantar þónokkuð í viðbót þeim megin boltans. Sér í lagi þarf að styrkja bak- og miðvarðastöður liðsins en línuvarðaherbergið er heldur ekki það sverasta í deildinni. Suðurriðill Þjóðardeildarinnar verður spikfeitur næsta vetur en ekki láta ykkur bregða þó Carolina Panthers verði að slást um efsta sætið.