Leikur vikunnar var frestunarleikur Buffalo og Tennessee en eins og alþjóð veit hafa Titans menn verið að glíma við kórónuveirufaraldur í herbúðum sínum og alls var óvíst hvort leikurinn yrði spilaður vegna þessa. Upp komu engin ný smit í aðdraganda leikviku 5 og því var leikurinn spilaður.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru!
Gestirnir frá Buffalo unnu sigur á Las Vegas Raiders í síðustu viku og mættu með sigurhlutfallið 4-0 inn í þessa viðureign. Heimamennirnir í Tennessee spiluðu ekki í síðustu viku vegna covid en fyrir það voru þeir búnir að vinna sína fyrstu þrjá leiki, þó alls ekki örugglega. Líklegt þótti að liðið myndi mæta ryðgað til leiks þar sem bækistöðvum liðsins var lokað fyrir um það bil tveimur vikum og ekkert færi gefist til þess að æfa saman sem lið fyrir leikinn.
Útherjarnir Adam Humphries og Corey Davis voru báðir á covid listanum og spiluðu ekki leikinn fyrir Titans. Bakvörðurinn Kristian Fulton var frá vegna meiðsla. A.J. Brown og Taylor Lewan komu aftur inn í liðið eftir meiðsli.
Hjá gestunum vantaði Tre’Davious White, Matt Milano, John Brown, Zack Moss og Quinton Spain.
Gangur leiksins
Buffalo Bills áttu fyrstu sókn leiksins, sem varði þó stutt. Eftir tvær hlaupatilraunir frá Devin Singletary fyrir samtals 6 jarda kastaði Josh Allen á þriðju tilraun og 4 á Andre Roberts sem náði ekki að grípa boltann. Boltinn skaust upp í loftið og bakvörðurinn Malcolm Butler fangaði hann og bar hann 29 jarda upp völlinn, að 16 jarda línu Buffalo.
Derrick Henry var stöðvaður í sporunum í fyrstu tilraun Titans. Ryan Tannehill fann þó A.J. Brown með glæsilegri snertimarkssendingu, yfir bakvörðinn Josh Norman sem átti eftir að koma meira við sögu í þessum leik. 0-7 eftir Gostkowski aukastig.
Josh Allen og Buffalo Bills mættu beittir í sína aðra sókn og komust hratt og örugglega upp völlinn og á 12. kerfinu skoraði Gabriel Davis glæsilegt snertimark eftir langa sendingu frá Allen. Flaggi var þó kastað og snertimarkið þurrkað af stigatöflunni. Með bakið uppvið vegg á þriðju tilraun og 15, skramblar Allen til vinstri, kastar á ferðinni og finnur Andre Roberts límdan við hliðarlínuna. Endurnýjun á 11 jarda línu Titans. Sóknin endar svo með snertimarkshlaupi frá Isaiah McKenzie, 7-7 eftir aukastig frá Tyler Bass.
Vörn Bills stóð síðan vaktina í annarri sókn Titans og náði að setja pressu á Ryan Tannehill sem kastaði boltanum frá sér á þriðju tilraun. Titans pönt.
Minnstu munaði að Josh Allen kastaði öðrum bolta í hendur Titans varnarinnar þegar Kevin Byard náði næstum að stela sendingu ætlaða Stefon Diggs. Bills pönt.
Kalif Raymond skilaði Bills pöntinu 40 jarda og kom Titans sókninni þæginlega fyrir á 30 jarda línu Bills. Raymond hélt síðar lífi í sókn Titans þegar hann sótti endurnýjun á þriðju tilraun og 19. 16 jarda grip A.J. Brown kom liðinu síðan inná rauða svæðið og Derrick Henry kláraði dæmi stuttu seinna með hlaupasnertimarki. 7-14 eftir aukastigið.
Buffalo þurftu svo að sætta sig við 43 jarda vallarmark í sinni næstu sókn. 10-14.
Eftir tímafreka og jardafáa sókn pöntuðu Titans boltanum og náðu að klemma Bills liðið fyrir innan 10 jarda línuna sína. Hér hugsaði margur Titans maðurinn sér gott til glóðarinnar því Bills liðið komst hvergi og þurfti að pönta boltanum frá sér. Þá steig á stokk Corey Bojorquez og gjörsamlega beljaði pillunni 71 jarda og eftir víti á Titans liðið þurfti Tannehill að sætta sig við að hefja síðustu sókn Titans í hálfleiknum á sinni eigin 10 jarda línu.
Það skipti þó litlu máli því tveggja mínútna prógramm Titans hrökk í gang og sigldu þeir upp völlinn þar sem Bills vörnin gerði lítið annað en að horfa á. Josh Norman fékk á sig sendingavíti á þriðju tilraun og gaf því Tennessee sókninni nýtt sett af tilraunum. Ryan Tannehill skramblaði til hægri á fyrstu tilraun og mark sem endaði á sniðskotsfagni inná endasvæði Bills, 10-21 eftir Gostkowski aukastig. Hálfleikur.
Tennessee átti fyrstu sókn seinni hálfleiks og pöntaði boltanum eftir rúmlega 5 mínútna sókn þar sem Josh Norman fékk á sig annað sendingavíti.
Fyrsta sókn Bills í síðari hálfleik var myndarleg en tímafrek. Það virtist eins og ekkert gæti stöðvað Josh Allen og Bills sóknina þar til Allen kastaði gjörsamlega glórulausum bolta í átt að Gabriel Davis sem Malcolm Butler stal og skilaði 68 jarda upp völlinn.
Titans sóknin stillti sér því upp á 12 jarda línu Bills en Buffalo vörnin virtist hafa staðið áhlaup Titans af sér en eftir ólukkaða Tannehill sendingu á þriðju tilraun sveif gult flagg inná völlinn. Víti á varnarlínumanninn Quinton Jefferson fyrir að tuska til Tannehill eftir sendingu. Endurnýjun og Jonnu Smith greip snertimarkssendingu á miðri slant hlaupaleið. 10-28 eftir aukastigið.
Bills náði að svara fyrir sig í næstu sókn sinni sem tók tæpar sjö mínútur þar sem Cole Beasley og Stefon Diggs voru iðnir við kolann. T.J. Yeldon skoraði sex stig fyrir Bills eftir að Josh Allen, sem fékk allan tímann í heiminum í vasanum, lúðraði fram 22 jarda sleggju beint í fangið á Yeldon inná endasvæði Titans. 16-28 eftir mislukkaða tveggja stiga tilraun.
Næstu tvær sóknir Titans enduðu báðar með snertimarki en Andre Roberts fömblaði knettinum þegar hann reyndi að skila sparki Gostkowski eftir fyrra snertimark Titans. Tennessee náðu valdi á boltanum sem stillti Tannehill og félugum upp á 18 jarda línu Buffalo. Derrick Henry hljóp inn fyrra snertimarkinu, 16-35, og Jonnu Smith greip snertimarkssendingu Tannehill í seinna markinu, 16-42 lokatölur.
Maður leiksins
Hér var freistandi að velja bakvörðinn Malcolm Butler en sannleikurinn er sá að Ryan Tannehill var algjörlega óaðfinnanlegur í þessum leik. Hann gerði allt af yfirvegun og nákvæmni og manni fannst aldrei eins og hann væri ekki við stjórnvölin. 21/28 í sendingum, þar af þrjár snertimarkssendingar, 195 jardar í lofti, 42 á jörðu og þar af eitt snertimarkshlaup. Magnaður.
Embed from Getty ImagesTilþrif leiksins
Derrick Henry, hlaupari Titans, átti tilþrif leiksins og staðgreiddi fyrir þau svo eftir stóð skuldlaus eign. Tilþrifin komu um miðjan annan leikhluta þar sem Ryan Tannehill tók við snappinu undir senter og rétti hlauparanum ofvaxna pilluna sem tók á rás til vinstri. Þar mætti bakvörðurinn Josh Norman í partýið og gerði sig líklegan til að stöðva hlaupandi snjóflóðið sem Henry er. Það fór ekki betur en svo að Norman fékk beinstífan hægri handlegg Derrick Henry í öxlina með þeim afleiðingum að þessi 90 kg, 32ja ára gamli faðir kastaðist til eins og plastpoki í haustveðri.
Derrick Henry er auðvitað rúmum 20 kg þyngri en Josh Norman, sem breytir því ekki að krafturinn sem hann býr yfir er magnaður.
Samanburður
Það fyrsta sem mig langar til að vekja athygli á eru leikstjórnenda fellurnar. Josh Allen var felldur einu sinni í leiknum en það var jafnframt eina fella leiksins. Heilt yfir fengu Tannehill og Allen góða vernd gegn árásum og blitzi. Sóknarlínurnar virkuðu vel þjálfaðar og sömuleiðis voru hlaupararnir að standa sína pligt í blokkeringum.
Það næsta sem stendur uppúr eru þriðju-tilrauna tölur Buffalo Bills. Hvernig er hægt að tapa með 26 stigum þegar þú nýtir 13 af 17 þriðju tilraununum þínum? Það útleggst sem 76% nýting en slíka skilvirkni sér maður einna helst hjá bestu liðunum þegar þau mæta þeim verstu. Þessi nýting kom hinsvegar gegn ágætri Tennessee Titans vörninni og verður að teljast virkilega smekklegur sóknarárangur.
Það sem hélt auðvitað aftur af Bills í þessum leik voru tapaðir boltar. Einnig er hægt að benda á að upphafsvallarstaða Bills var að meðaltali mikið síðri en upphafsvallarstaða Titans. Brett Kern, pöntari Tennessee og jafnframt einn sá besti í deildinni, átti dýrindis leik og klemmdi Bills liðið í tvígang á sinni eigin 9 jarda línu og einu sinni á 3ja jarda línunni. Að eiga gott sérlið er gulls í gildi, þó flestir geri lítið úr þessum leikmannahóp. Amerískur fótbolti snýst í grunninn um vallarstöðu og góður pöntari getur skapað hálar brekkur fyrir sóknir andstæðinganna. Hinsvegar getur slakur pöntari klúðrað leikjum fyrir þig.


Dýrkeypt mistök Bills manna
Það kom mér á óvart hversu lítið Josh Allen var notaður í hlaupaleiknum en hann átti fjórar hlaupatilraunir sem skiluðu 18 jördum. Allen var með eina tapaða sendingu fyrir leikinn og var búinn að spila stórkostlega í byrjun móts. Hann var hinsvegar með tvær tapaðar sendingar í þessum leik, jafnvel þótt fyrri sendingin hafi ekki verið honum að kenna. Seinni sendingin sem Malcolm Butler stal var þó algjörlega á hans ábyrgð en hann virtist hreinlega ekki sjá varnarmanninn.
Andre Roberts, sem greip ekki fyrri tapaða boltann frá Allen, gerði önnur afdrifarík mistök í leiknum þegar hann fömblar í skilatilraun sinni í fjórða leikhluta. Staðan var 16-35 á þeim tímapunkti og lítið eftir en engu að síður eru þetta dýr mistök og óhætt að segja að Bills voru sjálfum sér verstir í leiknum.
Vörnin náði ekki að setja neina pressu á Ryan Tannehill sem gat komið boltanum frá sér á sínu tempói. Það gefur augaleið að þá eykst pressan á dekkningateymið sem náði aðeins að verjast þremur sendingum.
Sóknarlínan átti fínan dag og náði að halda Allen uppréttum allan leikinn fyrir utan eina fellu. Josh Allen skramblaði þó slatta í leiknum en aðallega var það gert til að halda lífi í kerfum og ógna vörninni með hlaupagetu sinni. Hans flottustu boltar komu einmitt úr bootleg kerfum eða skrambli. Leikstjórnandinn hefur tekið sjúklegum framförum en óraunhæft var að ætlast til að hann myndi halda áfram með sömu skilvirkni og í fyrstu fjóru leikjunum. Hann og Stefon Diggs héldu áfram uppteknum hætti en það er beintenging á milli þessara leikmanna.
Varnarlega vantar heilmikið malt í liðið sem kom engum vörnum við á rauða svæðinu þar sem Tannehill og Titans hengdu stig á þá í hvert skipti.
Taktfast Titans lið
Það virtist ekki há Tennessee liðinu neitt að geta ekki æft í aðdraganda þessa leiks. Þeir eru í raun búnir að vera í einangrun síðan fyrsta smitið kom upp í herbúðum liðsins fyrir leik gegn Pittsburgh Steelers í seinustu umferð. Það var ofboðsleg ró yfir sókn liðsins með Tannehill undir stýri. Allt var yfirvegað og skilvirkt.
Það hjálpar mikið að þvinga þrjá tapaða bolta í einum leik en Ryan Tannehill þurfti ekki að kafa djúpt í brellupokann til að sigla þessum sigri í höfn. Hann var skilvirkur og nákvæmur en liðið var 6/6 á rauða svæði Buffalo liðsins. Sóknarleikurinn mallaði bara eins og grjónagrautur á þriðjudegi.
Jafnvel þótt liðið hafi ekki náð að setja mikla pressu á Josh Allen í leiknum, þá voru Titans öflugir í sendingavörninni og vörðust sjö sendingum. Í hlaupvörninni áttu þeir 5,5 tæklingar fyrir tapi en þeir mættu þó aðeins 22 hlaupatilraunum. Innkoma Jadeveon Clowney hefur gefið varnarlínunni aukið bensín en hann kom hendi í boltann í tvígang og á bara eftir að verða betri.
Það var áberandi hversu mikilvægur útherjinn A.J. Brown er þessu liði. Hann er gríðarlega góður á þriðju tilraun en hann greip samtals 7 bolta af 9 fyrir 82 jarda og einu snertimarki. Jonnu Smith átti líka glæstan dag en hann greip tvær snertimarkssendingar. Þetta var mjög tilkomumikill sigur Titans manna, sérstaklega í ljósi þess hve lítið liðið hefur getað verið saman uppá síðkastið. Þeir munu þurfa útherjana sína, Humphries og Davis, til baka eins fljótt og hægt er ætli þeir sér að sigra riðillinn sinn.