Það var til mikils að vinna í fimmtudagsleik 11. umferðar en bæði lið voru með 6-3 úrslitaskrá fyrir leikinn, jöfn ásamt Los Angeles Rams, á toppi vesturriðils NFC. Sigurvegari leiksins getur andað léttar og verður kominn skrefinu nær sæti í úrslitakeppninni.
Hér er hægt að sjá alla leiki viknanna sem framundan eru og skoða liðna leiki vikunnar!
Gestirnir frá Arizona mættu til Seattle með stórkostlegan lokasekúndu sigur á Buffalo Bills á bakinu en tveimur umferðum áður höfðu Cardinals sigur úr býtum gegn Seattle í Arizona, 37-34 í æsispennandi viðureign.
Andrúmsloftið var ekki jafn gott hjá heimamönnum sem voru komnir á tveggja leikja taphrinu eftir töp gegn Buffalo Bills og Los Angeles Rams þar sem Russell Wilson átti slæmar frammistöður. Það er ekkert rými fyrir lakar frammistöður frá Russell Wilson hjá þessu liði. Hann virðist þurfa að eiga frábæran leik til að Seattle eigi séns á að vinna leiki.
Carlos Hyde snéri til baka úr meiðslum en Chris Carson var ennþá fjarverandi hjá sjóhaukunum. Bakvarðatríóið Shaquill Griffin, Quinton Dunbar og Neiko Thorpe voru einnig allir frá vegna meiðsla og sömuleiðis senterinn Ethan Pocic.
Hjá Arizona var De’Vondre Campbell tæpur og spilaði lítið en Jordan Phillips og Corey Peters sárvantaði á varnarlínuna en þeir voru frá vegna meiðsla ásamt sóknarlínumanninnum Justin Murray.
Gangur leiksins

Sóknarlega gekk lítið upp hjá Arizona Cardinals í fyrri hálfleik sem pöntuðu fjórum sinnum. Þeir náðu aðeins einu sinni inná rauða svæði Seattle eftir að hafa fengið hagstæða vallarstöðu. Innherjinn Maxx Williams átti 25 jarda grip sem stillti liðinu upp á tveggja jarda línu Seahawks. Kenyan Drake, hlaupari liðsins, bar knöttinn yfir endalínuna og Zane Gonzalez sparkaði aukastigi upp á töflu: einu stig Cardinals í fyrri hálfleik.
Russell Wilson átti tvær glæsilegar snertimarkssendingar í fyrri hálfleik, fyrri á D.K. Metcalf eftir skrambl frá Wilson og sú seinni var fallegt lobb á Tyler Lockett út í horni endasvæðis Cardinals. Í blálok seinni leikhluta fengu Seattle tækifæri á að bæta við þriðja snertimarkinu en þurftu að sætta sig við vallarmark frá Jason Myers.
7-16 í hálfleik.
Seinni hálfleikur
Seinni hálfleikur var skemmtilegri hálfleikurinn en hann fór vel af stað, þrjú snertimörk í þremur sóknum. Arizona Cardinals skoruðu tvö þeirra þar sem innherjinn Dan Arnold greip fyrra snertimarkið og Chase Edmunds það seinna. Á þessum tímapunkti, í stöðunni 21-23 fyrir Seattle, virtust Arizona vera komnir á bragðið. Þeir fengu tvær sóknir til viðbótar til að jafna leikinn eða komast yfir en fengu dæmt á sig skjól (e. safety) í fyrri sókninni og runnu út á tilraunum í seinni sókninni sem var lokasókn leiksins.
Það var þar sem Seattle vörnin steig upp og kláraði leikinn fyrir liðið sem hefur ekki fengið að njóta þeirra gæfu hingað til í vetur. Sóknin leit nefninlega virkilega vel út hjá Cardinals sem komust hratt og örugglega upp allan völlinn á skömmum tíma.
Seattle Seahawks gerðu nóg til að vinna leikinn en við sjáum hversu miklu máli það skiptir að komast í vallarmarksfæri af og til í stað þess að pönta boltanum frá þér eins og Arizona liðið gerði í fyrri hálfleik.
21-28, Seattle.
Maður leiksins
Russell Wilson var maður leiksins að mati ritsjórnar en hann átti tvær glæsilegar snertimarkssendingar, var 23/28 í sendingum fyrir 197 jarda og sótti 42 jarda með fótunum.
Embed from Getty ImagesTilþrif leiksins
Carlos Dunlap, nýr leikmaður Seahawks fær tilþrif leiksins skráð á sig eftir að hann felldi Kyler Murray á lokasekúndum leiksins þegar Arizona voru á 4. tilraun og 10 á 27 jarda línu Seahawks. Þar með aflýsti hann mögulegum bjöllusigri Cardinals aðra vikuna í röð.
Samanburður

Liðsvíti settu strik í reikninginn í þessari viðureign en 18 slík litu dagsins ljós og kostuðu 194 jarda samtals. Arizona Cardinals gekk mun betur að kasta boltanum en að hlaupa honum en Kenyan Drake var alls ekki í stuði og fór aðeins 29 jarda í 11 tilraunum (2,6 á burð). Það var hinsvegar léttir fyrir Seattle að fá Carlos Hyde til baka sem spilaði vel og náði 79 jördum í 14 tilraunum og bætti við snertimarki í þokkabót.
Bæði lið spiluðu vel útúr 3. tilraununum sínum í leiknum sem og rauða svæðis sóknum sínum. Þetta eru mikilvægustu stundir NFL leikja og góðu varnarliðið láta ekki vaða svo auðveldlega yfir sig á þessum augnablikum. Hvorugar varnirnar eru inná topp 10 þegar kemur að varnar DVOA þó Arizona Cardinals séu á mikilli siglingu og sitja sem stendur í 12. sæti styrkleikalistans.

Kyler Murray gerði engin afdrifarík mistök í þessum leik og voru Cardinals alveg inni í leiknum fram á lokastundir hans. Murray fékk þó dæmt á sig viljandi löndun (e. intentional grounding) í stöðunni 21-23 sem kostaði liðið 12 jarda og tilraun. Sókn Cardinals byrjaði því á tveggja jarda línu sinni með nánast alla sóknarleikmenn sína inná endasvæði sínu. Sóknarlínan fékk í kjölfarið dæmt á sig víti sem þýddi skjól (e. safety) og tvö stig til Seattle.
Þessi mistök Murray voru dýrkeypt en hann hefði alveg getað lúðrað knettinum upp í stúku í stað þess að henda honum niður í jörðina fyrir framan sig. Hann sýndi þó glæsilega takta inn á milli en komst lítt áfram á löppunum – aðeins 15 jarda í fimm tilraunum.

Eftir þungan róður í kastleiknum undanfarnar tvær vikur þar sem Russell Wilson var 48/79 (60%) með tvö snertimörk og fjórar tapaðar sendingar fékk hann mikla hjálp frá hlaupaleiknum. Í fyrsta skiptið síðan í 2. umferð hlupu Seattle meira en þeir köstuðu. Útkoman? 82,1% sendingaheppnun frá Russell, engin töpuð sending og tvö snertimörk.
Þetta ætti ekki að marka endalokin á Let Russ Cook internetherferðinni því hún snérist aldrei um að láta Wilson kasta boltanum 40 sinnum í leik. Í grunninn snérist þetta um að leyfa Wilson að kasta meira á 1. og 2. tilraun, í stað þess að hlaupa alltaf þá og kasta svo á 3. tilraun. Báðir hlutir geta verið sannir: sterkur hlaupaleikur og Let Russ Cook.
Seattle eru í lykilstöðu fyrir seinustu metra tímabilsins
Það er bjart yfir í herbúðum Seattle þessa dagana. Mikilvægur sigur á Arizona Cardinals í höfn og framundan er hlægilegt leikjaprógramm. Næstu fjórir leikir Seahawks eru Eagles (Ú), Giants (H), Jets (H) og Football Team (Ú). Allt annað en 4-0 úrslitaskrá úr þessum fjórum leikjum er bannað. Seinustu tveir leikirnir á tímabilinu koma svo gegn Rams og 49ers. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu mála hjá Rams í næstu leikjum til að sjá hvort Seattle vs. Los Angeles verði í raun úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins.
Brekka framundan hjá Cardinals
Það er ákveðinn mótvindur á Arizona liðið um þessar mundir. Samkvæmt FiveThirtyEight eru 63% líkur á að liðið komist í úrslitakeppnina að svo stöddu og aðeins 12% líkur á að liðið vinni riðilinn. Cardinals eiga eftir að spila gegn Patriots og Rams (x2) en tapi þeir gegn Bill Belichick og félögum hrapa líkur þeirra á úrslitakeppnisþátttöku niður í 48%.
Þetta er ekki tilraun til þess að mála skrattann á vegginn heldur er þetta aðeins þunnt lag af veggfóðri til að setja stöðu liðsins í samhengi. Nú ríður á að sjá Kyler Murray stíga upp og leiða þetta lið inn í úrslitakeppnina, sama hvort það þýði úr 3., 2. eða 1. sæti vesturriðils NFC. Útileikurinn gegn New England Patriots verður líklega aldrei auðveldur en sigur í þeim leik styrkir líkur á úrslitakeppnisþátttöku liðsins um 13%, eða upp í 76% líkur.