Hingað til hefur leikstjórnendalaugin komið út ár hvert í nóvember en að þessu sinni var ákveðið að bíða eftir að deildakeppni NFL rynni sitt skeið. Markmiðið er annarsvegar að draga fram þau nöfn stjórnenda sem eru að verða samningslausir, gætu hætt eða gæti verið skipt og hinsvegar að benda á þau félög sem líklega eru opin fyrir því að sækjast eftir þessum stjórnendum.
Í fyrra sáum við Matt Stafford og Jared Goff skipta um lið, Carson Wentz var sendur til Indianapolis Colts, Teddy Bridgewater hélt til Denver og Carolina Panthers gerðu tilraun til að blása lífi í feril Sam Darnold.
Stjórnendunum verður hér að neðan skipt upp í þrjá flokka: þeir sem eru líklegir til að hætta, þeir sem eru að verða samningslausir og þeir sem orðrómar eru um að verði skipt.
Skórnir á hilluna?
Sá augljósi í þessum flokki er Ben Roethlisberger en hann hefur gefið það sterklega í skyn að þetta sé hans síðasta tímabil með Pittsburgh Steelers. Roethlisberger hefur spilað allan sinn feril með Steelers sem tóku hann númer 11 í 1. umferð nýliðavalsins 2004. Seinustu þrjú ár hafa leikið Big Ben grátt en hann er ekki helmingurinn af þeim stjórnanda sem Steelers stuðningsmenn eru vanir að sjá. Hann mun án efa enda í frægðahöll NFL enda á hann að baki langan og farsælan feril í sportinu.
Embed from Getty ImagesÞrír stjórnendur til viðbótar verða að teljast kandídatar til að leggja skóna á hilluna en það eru fyrrum MVP-inn Cam Newton, Ofurskálar MVP-inn Joe Flacco og málaliðinn Ryan Fitzpatrick.
Galdrakarlinn Fitzpatrick er nýorðinn 39 ára og hefur nánast ekkert spilað í vetur vegna mjaðmameiðsla sem hann hlaut í fyrsta leik tímabilsins. Þá var Newton án félags meirihlutann af tímabilinu eða þangað til Carolina Panthers sóttu hann fyrir leikviku 10. Frammistaða hans í vetur hlýtur hreinlega að binda enda á hans feril í deildinni – svo slappur er karlanginn búinn að vera.
Joe Flacco er að verða 37 ára gamall og hefur ekkert getað síðan 2017. Hann gæti þó reynt að spila út varastjórnanda spjaldinu sem gæti teygt NFL líf hans um 1-2 ár.
Samningslausir
Það ekki um auðugan garð að gresja þegar litið er til þeirra stjórnenda sem verða frjálsir allra mála næstkomandi mars. Í besta falli eru þetta millibilsstjórnendur en öllu líklegra er að við séum að horfa á varastjórnendur. Teddy Bridgewater fékk sénsinn hjá Denver Broncos undir Vic Fangio og Pat Shurmur, eftir misheppnað jómfrúarár með Carolina Panthers þar sem hann skrifaði undir þriggja ára, $63M samning. New Orleans Saints gætu sótt sinn gamla varastjórnanda þar sem báðir aðilar gjörþekkja hvorn annan en ég á afskaplega erfitt með að sjá hann þrífast einhversstaðar annarsstaðar í deildinni en í Brees-kerfinu hans Sean Payton.
Embed from Getty ImagesAndy Dalton fékk sénsinn hjá Matt Nagy og Ryan Pace í ár og átti að gegna hlutverki millibilsstjórnanda fyrir Justin Fields en Dalton meiddist snemma í vetur og hefur ekki gert mikið til að selja sig fyrir næsta tímabil. Dalton gæti átt 2-3 ár eftir sem millibilsstjórnandi en hans sporbraut vísar þráðbeint niður á við og verður hann orðinn varastjórnandi fyrr en varir. Tyrod Taylor og hans örlög eru í svipuðum farveg. Hann var fenginn til Houston Texans í fyrra til að vera byrjunarliðsmaður en meiðsli settu strik í reikninginn og fékk Davis Mills því sénsinn og hefur gert vel, sér í lagi í seinustu 5-6 leikjum tímabilsins.
Þeir Marcus Mariota og Mitchell Trubisky eru í svipuðum sporum. Báðir voru teknir númer tvö í 1. umferð sinna nýliðavala (2015 og 2017) og sitja nú á tréverkinu eftir að hafa fömblað sínum tækifærum hjá upprunalegu liðunum sínum. Það eru þó einhverjar líkur að þessir leikmenn fái annan séns í deildinni en það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi mála þegar leikmannamarkaðurinn opnar að nýju í mars.
Það verður afar áhugavert að sjá hvað bíður Jameis Winston á næsta tímabili en hann var fenginn til Saints fyrir lokaár Drew Brees og átti að læra af kónginum sjálfum. Hann fékk síðan lyklana af liðinu í hendurnar fyrir þetta tímabil en sleit krossbönd í hné leikviku 8 og spilaði því ekki seinni helming mótsins. Hann gerði ferli sínum greiða með frammistöðu sinni í vetur en hann endaði mótið með 7 leiki spilaða, 14 snertimarkssendingar og aðeins 3 inngrip.
Að lokum verða Nick Foles og Jacoby Brissett einnig lausir allra mála í mars en framtíð þeirra er í besta falli sem varastjórnendur.
Stjórnendur sem gæti verið skipt
Eins og glöggir NFL-hausar muna eflaust, var framtíð Aaron Rodgers hjá Green Bay Packers í lausu lofti seinasta sumar. Á tímapunkti var útlit fyrir að Rodgers myndi aldrei stíga inná Lambeau Field aftur í Packers treyju. Brian Gutekunst, framkvæmdastjóri Packers, lét undan kröfum Rodgers, sem vildi fyrst og fremst hafa meira um liðsbygginguna að segja og fá að vera með í umræðunni um hluti sem hafa bein áhrif á vinnuna hans. Eftir flutning Tom Brady til Flórída, þar sem hann lét Jason Licht fá innkaupalista með öllum þeim leikmönnum sem hann vildi fá inní hópinn, varð til flóðbylgja afbrýðisemi á meðal annarra stjörnustjórnenda deildarinnar. Þar á meðal Rodgers og Russell Wilson. Báðir urðu ósáttir við yfirmenn sína um að fá ekki meiru ráðið innan liðsins.
Embed from Getty ImagesÁframhaldandi sögusagnir um vilja þessara tveggja frábæru stjórnenda til að yfirgefa klúbbinn sem draftaði þá eru enn á kreiki en ég skal trúa þessu þegar ég sé þetta gerast. Að leyfa ofurstjórnanda á hápunkti ferilsins að yfirgefa herbúðir þínar er í besta falli skammarlegt. Twitter-skýrsla Jordan Schultz í byrjun desember greindi frá því að Russell Wilson væri reiðubúinn til að hafna félagsskiptahöftunum í samningi sínum fyrir þrjú lið: New York Giants, New Orleans Saints og Denver Broncos.
Kyle Shanahan vildi ekki taka afstöðu varðandi framtíð James Garoppolo (já, hann heitir ekki Jimmy) þegar hann var spurður út í hana í lok nóvember síðastliðnum en San Francisco dröftuðu stjórnandann Trey Lance með valrétti 3 í seinasta nýliðavali. Líklegt þykir að Jimmy Garoppolo verði skipt á einhverjum tímapunkti fyrir næsta undirbúningstímabil og verður afar fróðlegt að sjá hversu mikið 49ers fá fyrir kappann sem er afskaplega umdeildur á meðal sérfræðinga og aðdáenda. Framtíð Deshaun Watson er að sama skapi í lausu lofti en allt veltur á útkomu málanna sem höfðuð hafa verið gegn honum vegna kynferðislegrar áreitni. Ef Nick Caserio og Texans ná að semja við Brian Flores um að verða næsti aðalþjálfari liðsins, þá gæti Watson allt eins dregið félagsskiptakröfuna sína tilbaka – hver veit.
Derek Carr og Kirk Cousins eru í svipaðri stöðu en bæði Las Vegas Raiders og Minnesota Vikings eru nú í aðalþjálfaraleit sem felur í sér ákveðið starfsóöryggi hjá þeim. Það er ekki óhugsandi að félögin ákveði að hreinsa til hjá sér og sækja sér framtíðarvalrétti fyrir dýrmæta stjórnendurna – jafnvel þótt þeir séu ekki ósáttir með sín hlutskipti, eins og Rodgers og Wilson (enda ekki í sama farrými).
Embed from Getty ImagesAðrir tveir sem eru í svipaðri stöðu og Carr og Cousins, en eru enn á nýliðasamningi eru Daniel Jones og Tua Tagovailoa. Báðir hafa vissulega sýnt að eitthvað er í þá spunnið en aðstæður beggja hafa gert mönnum erfitt fyrir að meta að fullnustu þeirra hæfileika í deild þeirra bestu. Sóknarlínur bæði New York Giants og Miami Dolphins hafa verið með einsdæmum slappar seinustu ár og því er frammistaða þeirra að vissu marki ómarktæk að svo stöddu. Ég yrði að minnsta kosti langt frá því að verða hissa ef báðum þessum leikmönnum verður skipt fyrir upphaf næsta tímabils.
Stjórnendaþyrst lið
Það er helber óþverri fyrir stuðnings- og forsvarsmenn NFL-liða að vera sífellt á höttunum eftir frambærilegum leikstjórnanda. Þetta er ástand sem kallast á kröftugri ensku quarterback purgatory og er ekki einni einustu sál bjóðandi. Að finna góðan stjórnanda í nýliðavalinu er eins og finna fjársjóð við enda regnbogans. Hinsvegar er það samstillt átak þjálfunarteymis, stöðugleiki á skrifstofunni og góð pörun leikmanns og umhverfis sem spilar veigamikinn þátt í árangri leikstjórnandans.
Eins og staðan er akkúrat núna (14. janúar 2022) eru a.m.k. sex lið sem bráðvantar svar í leikstjórnandastöðuna sína:
- New Orleans Saints
- Denver Broncos
- Pittsburgh Steelers
- Washington Football Team
- Carolina Panthers
- Detroit Lions
Þar að auki má nefna fimm til viðbótar sem mögulega eru ekki alveg sannfærð um sinn stjórnanda:
- Houston Texans
- Indianapolis Colts
- Cleveland Browns
- Philadelphia Eagles
- Miami Dolphins
Meirihluti liðanna 11 mun láta til skarar skríða á næstu mánuðum í von um að landa einhverjum af stjórnendunum fyrir ofan eða þeim sem gefið hafa kost á sér í nýliðavalið sem fer fram í lok apríl næstkomandi. Til gamans hef ég parað saman nokkur lið og stjórnendur sem ég væri til í að sjá á næsta ári.
Jimmy Garoppolo til New Orleans Saints. Þessi pörun gengur vel upp en Garoppolo myndi henta einstaklega vel í sókn Sean Payton og Saints þyrfti að öllum líkindum ekki að borga meira en einn 1. umferðar valrétt fyrir leikmannin (í mesta lagi). Næsta tímabil verður seinasta árið á samningi Garoppolo sem gæti skrifað undir framlengingu eftir félagsskiptin og 2022 launaþakshöggið fær inn í framtíðina þar sem Saints eru vel yfir launaþakinu fyrir næsta tímabil eins og staðan er núna.
Aaron Rodgers til Denver Broncos. Peyton Manning fór til Denver 36 ára gamall og vann Ofurskálina fjórum árum seinna með liðinu. Broncos eru um þessar mundir að taka viðtöl við bæði Nathaniel Hackett (sóknarþjálfari Packers) og Luke Getsy (stjórnendaþjálfari Packers) vegna lausrar aðalþjálfarastöðu. Gæti það hugsast að Hackett fái starfið og Getsy verði sóknarþjálfari liðsins? Yrði þá ekki borðleggjandi fyrir Rodgers að færa sig um set eftir að hafa látið óánægju sína í ljós seinasta sumar? Hver veit. Líklegast þykir mér að Rodgers fari ekki fet og klári ferilinn hjá Packers úr því sem komið er.
Kenny Pickett til Pittsburgh Steelers. Talandi um góða sögulínu! Pickett spilaði allan sinn háskólaferil með Pittsburgh Panthers og sprakk gjörsamlega út í vetur en hann átti sitt langbesta tímabil á ferlinum og var án vafa besti stjórnandi landsins. Það væri virkilega gaman að sjá Steelers liðið taka sénsinn á stráknum í ljósi þess að Ben Roethlisberger tíminn er að renna sitt skeið.
Embed from Getty ImagesRussell Wilson til Las Vegas Raiders. Menn hafa velt yfir því vöngum að ein af ástæðunum fyrir því að Wilson vilji mögulega burt frá Seattle sé vegna þess að hann vilji komast í stærri markað. Hvort hann sé að hugsa til einkaleyfisins á Let Russ Cook sem á að vera notað til að selja eldhúsáhöld eða tónlistaferils Ciara, eiginkonu hans, komumst við líklega aldrei að. Hvernig sem málið snýr, að þá væri hrikalega fallegt að sjá Wilson í svartgráu og þá í algjörlega gölnum AFC West riði (Mahomes, Herbert, Rodgers, Wilson).
Derek Carr til Carolina Panthers. Við vitum að David Tepper, eigandi Panthers, er óhræddur að hvetja Scott Fitterer og Matt Rhule til þess að taka í gikkinn á allskonar pælingum varðandi mögulega framtíðarstjórnendur félagsins. Teddy Bridgewater fékk stóran samning fyrir tveimur árum og nú síðast sóttu þeir Sam Darnold til New York Jets. Hvorug ákvörðunin reyndist góð. Derek Carr er hinsvegar þrautreyndur stjórnandi í deildinni og myndi uppfæra kastleik liðsins umtalsvert ef Panthers gætu lokkað hann frá Las Vegas. Carr verður samningslaus eftir næsta tímabil og hér er kjörið tækifæri að selja nokkra boli merkta “Carrolina Panthers“, líkt og Tom Brady gerði með Tompa Bay.
Daniel Jones til Detroit Lions. Við vitum að Jared Goff getur varla verið langtímasvar Dan Campbell í Detroit og miðað við staðsetningu Lions manna í nýliðavalinu (nr. 2) er ólíklegt að þeir sæki sér stjórnanda með valréttinum í ljósi þess að stjórnendaárgangurinn er almennt talinn frekar veikur í ár. Hinsvegar gætu þeir leitað á leikmannamarkaðinn og boðið Giants einhverja valrétti og séns á að endurræsa uppbyggingunni sinni en fótboltarisarnir eiga tvo valrétti í topp 10 í ár og gætu eflaust landað 2. umferðar valrétti fyrir Jones.
Eins og alltaf, þá fer þetta allt saman einhvernveginn og það eina sem hægt er að gera er að halla sér aftur, tylla löppunum uppá borð og njóta ferðarinnar.