Þá er komið að 2021 útgáfunni af leikstjórnendalauginni. Markmið þessarar seríu er að taka saman alla þá leikstjórnendur sem ritstjórnin telur líklega til þess að semja við ný lið eða vera skipt til nýrra liða. Þá verður staldrað við og spáð í spil hvers leikmanns og hvað framtíðin gæti borið í skauti sér.
Í fyrra sáum við Tom Brady og Philip Rivers skipta um reiðhross í fyrsta skipti á ferlinum, Drew Brees ákvað að taka slaginn á ný með New Orleans Saints og Teddy Bridgewater fékk þriggja ára $63M samning hjá Carolina Panthers.
Við byrjum á þeim leikstjórnendum sem eru samningslausir eftir tímabilið og færum okkur síðan í hóp mögulegra viðskiptaviðfanga.
Samningslausir
Samkvæmt Spotrac eru 34 leikstjórnendur sem verða lausir allra mála, að öllu óbreyttu, hjá sínum liðum í mars. 30 leikmenn munu hafa ótakmarkað aðgengi (e. unrestricted free agent) annarra liða, tveir þeirra munu hafa takmarkað aðgengi (e. restricted free agent) og aðrir tveir eru bundnir einkarétti (e. exclusive rights free agent).
Dak Prescott
Jerry Jones og Dak Prescott náðu ekki að komast að samkomulagi seinasta mars um sanngjarna langtíma umbun leikstjórnandans. Jones greip því til þess ráðs að forréttindamerkja (e. franchise tag) leikmanninn sem er nú að verða samningslaus á nýjan leik. Prescott hlaut alvarleg meiðsli í fimmtu leikviku gegn New York Giants og gekkst fljótlega undir hnífinn sem batt opinberlega enda á leiktímabil leikstjórnandans.
Það er í raun ekkert sem bendir til þess að Prescott og Cowboys nái ekki saman að endingu en Jerry Jones verður að bíða þar til leikmannamarkaðurinn opnar í mars til að opinbera einhversskonar samninga á milli aðilana.
Gæti annað lið stigið inn í og gert Dak Prescott tilboð sem “hann getur ekki neitað”? Algjörlega. Dak Prescott er á engan hátt bundinn Dallas Cowboys eftir að leikmannamarkaðurinn opnar svo að lið á borð við Indianapolis Colts, New England Patriots eða Washington Football Team gætu reynt að lokka leikmanninn til sín.
Launaþakstölur fyrir næstu tímabil eru ennþá óljósar en samkvæmt Spotrac eiga Colts $76M lausar undir launaþakinu á næsta ári, Patriots $68M og Football Team $50M.
Philip Rivers
Reynsluboltinn Philip Rivers samdi aðeins til árs árs hjá Indianapolis Colts sem leituðu á önnur mið eftir að hafa gefið Jacoby Brissett sinn séns á að taka við keflinu í fyrra eftir að Andrew Luck kom heiminum á óvart þegar hann lagði skóna á hilluna, aðeins 29 ára gamall.
Indianapolis Colts hafa farið vel af stað og eru sem stendur í öðru sæti suðurriðils Ameríkudeildarinnar, einum leik á eftir Tenneessee Titans. Philip Rivers hefur spilað þokkalega það sem af er en margir hafa lýst áhyggjum sínum yfir því að liðið vinni þrátt fyrir hann en ekki vegna hans. Óvíst er hvort Frank Reich, þjálfari liðsins, sjái Jacob Eason sem næsta skrefið í leikmannamálum en Chris Ballard valdi Eason í 4. umferð seinasta nýliðavals.
Hvað sem því líður er og verður Rivers ekkert annað en millibilsástand hjá liðum í leit að leikstjórnanda. Það virðist heldur ekki ómögulegt að leikstjórnandinn kalli þetta gott í enda tímabils.
Cam Newton
Cam Newton skrifaði undir eins árs samning við New England Patriots í byrjun júli eftir að Carolina Panthers riftu samningi leikmannsins en hann hefur verið að glíma við margvísleg meiðsli undanfarin ár og ekki náð að spila nálægt pari. Newton verður 32 ára í mars næstkomandi en erfitt hefur verið að meta frammistöðu leikmannsins á meðan vopnabúr Patriots er jafn svelt og raun ber vitni.
Newton er kominn með fjórar snertimarksssendingar og níu tapaðar í 10 leikjum ásamt 9 hlaupasnertimörkum. Gæti verið að Bill Belichick vilji fá Newton aftur á Foxborough á næsta tímabili? Kannski. Líklega verða örlög hans sem varaleikstjórnandi á næstu tímabilum með möguleika á að vera millibilsástand einhvers liðs í botnbaráttunni, sbr. Ryan Fitzpatrick/Joe Flacco.
Jacoby Brissett
Brissett fékk sinn séns með Indianapolis Colts í fyrra sem fóru ágætlega af stað með úrslitaskrána 5-2 eftir sjö leiki. Þeim fataðist hinsvegar flugið í seinustu níu leikjum tímabilsins og náðu aðeins að vinna tvo þeirra. Jacoby Brissett endaði tímabilið með rúma 2900 kastjarda, 18 snertimarkssendingar, 6 tapaðar sendingar og 60,8% sendingaheppnun.
Hann hefur verið að bakka Philip Rivers upp í vetur og hefur verið að koma inn á af og til í stuttjarda aðstæðum fyrir Frank Reich. Það er í raun ekkert sem bendir til þess að Brissett sé nægilega góður leikmaður til að gera tilkall til fasts byrjunarliðssætis en hann hentar fullkomlega í hlutverk varaleikstjórnanda. Orðspor hans í deildinni er frábært en hann er þekktur fyrir að vera stórkostleg manneskja sem leggur hart að sér og er tilbúinn að gera allt fyrir liðið.
Það eru bókstaflega öll lið í deildinni sem gætu nýtt sér krafta Brissett í því hlutverki en líklega þarf að punga út nálægt $12M-$15M árlega fyrir leikmanninn.
Mitchell Trubisky
Það styttist óðfluga í endalok Mitchell Trubisky tíðarinnar í vindasömu borginni. Chicago Bears nýttu sér ekki fimmta árs ákvæðið í nýliðasamningi leikmannsins sem verður því samningslaus eftir sitt fjórða ár með félaginu. Chicago Bears keyptu sig eftirminnilega upp nýliðavalsröðin árið 2017 til að velja Trubisky en sú ákvörðun verður að eilífu í minnum höfð vegna þess hve hrikalega skelfileg hún var.
Það styttist í það að leikstjórnandinn fái annað tækifæri í öðru umhverfi og, að öllum líkindum, í öðru og minna hlutverki. Það er hægt að líta til samninga Jameis Winston og Cam Newton sem líklega lendingu fyrir Trubisky. Marcus Mariota, árgangsbróðir Winston, fékk hinsvegar tveggja ára $17,6M samning hjá Jon Gruden og Las Vegas Raiders, en ólíklegt þykir að Trubisky komist upp með slíka upphæð.
Þetta er leikmaður sem hægt er að sjá einhver lið líta á sem endurvinnsluverkefni svo það kæmi ekkert rosalega á óvart ef við fengjum að sjá leikmanninn fóta sig í öðru umhverfi seinna meir.
Andy Dalton
Fínasti varaleikstjórnandi sem verður laus til samninga í mars. Jerry Jones fékk hann til Dallas fyrir tímabilið eftir ágætis feril hjá Cincinnati Bengals. Það er margt vitlausara en að sækja sér fínan varamann til halds og trausts fyrir lið sem tefla fram ungum og óreyndum leikstjórnanda á næsta tímabili.
Ryan Fitzpatrick
Galdrakarlinn átti ágætis byrjun með Miami liðinu þar til Brian Flores tók þá ákvörðun að spila Tua Tagovailoa á kostnað gamla skarfsins. Hann verður enn á ný samningslaus eftir tímabilið en leikstjórnandinn hefur spilað fyrir átta félög á sínum ferli. Það væri margt vitlausara fyrir Dolphins en að semja að nýju við þann göldrótta því áhrif hans á klefann og Tua hafa svo sannarlega sannað sig.
Jameis Winston
Það er vel hægt að ímynda sér að Jameis Winston fái annan séns í NFL deildinni þó hann standi aldrei undir þeim væntingum sem fylgja fyrsta valrétti hvers nýliðavals. Fyrstu þrjú árin hans í deildinni nefninlega ekki alslæm en síðasta tímabilið hans með Tampa Bay situr greipt í minnum manna vegna þeirra 30 töpuðu sendinga sem hann kastaði. Það má rekja einhvern hluta þeirra til Bruce Arians, þjálfara Buccaneers, en hann er alræmdur fyrir djarfan sóknarleik og við sjáum hvað Tom Brady er búinn að kasta mörgum töpuðum sendingum hingað til á tímabilinu sem staðfestingu þess.
Það er alþekkt að paranir í NFL skipta höfuðmáli og gaman væri að sjá Winston í umhverfi sem hentar hans hæfileikum betur. Líklega er hann þó bara ekki nægilega góður til að vera spaða ás en við fáum þá mögulega að sjá það með eigin augum fyrr en seinna.
Samningsbundnir en falir?
Við sjáum yfirleitt í mars á ári hverju leikstjórnendum skipt á milli liða, þó þeim leikmönnum sé yfirleitt ætlað að gegna millibilshlutverki. Það er einnig vinsæll tími til að taka sénsinn á leikstjórnendum sem voru hátt metnir í nýliðavalinu en hafa ekki náð að standa undir væntingum, einhverra hluta vegna.
Í fyrra sáum við Nick Foles sendan norður til Chicago Bears frá Jacksonville Jaguars fyrir 4. umferðar valrétt. Árinu áður gekkst Joe Flacco til liðs við Denver Broncos frá Baltimore Ravens fyrir 4. umferðar valrétt og Ryan Tannehill yfirgaf Miami Dolphins (fyrir 4. og 7. umferðar valrétti) og fluttist til Tennessee þar sem hann byrjaði sem varamaður fyrir Marcus Mariota. Við vitum öll hvernig það fór.
Næsta mars getum við búist við að sjá nokkra leikstjórnendur á ferð og flugi vegna breyttra aðstæðna félaga.
Matthew Stafford
Í ljósi þess að þjálfari og framkvæmdastjóri liðsins eru nú búnir að fá rauða spjaldið frá yfirstjórn Lions beinast augu allra að yfirvofandi endurhönnun umhverfis og leikmannahóps liðins. Haugur af lykilleikmönnum liðsins eru samningslausir eftir tímabilið og því er eðlilegt að athyglin færist á framtíð Matthew Stafford hjá félaginu.
Stafford spilaði aðeins átta leiki á seinasta tímabili sökum bakmeiðsla en leikstjórnandinn verður 33 ára í febrúar næstkomandi. Hann á þrjú ár eftir af samningi sínum en það gæti reynst afar kostnaðarsamt fyrir Detroit að skipta leikmanninnum frá sér eftir yfirstandandi tímabil. Lions gætu þurft að éta hátt í $25M ákveði þeir að skipta leikmanninum frá sér sem virðist vera það sem vinur hans og fyrrum liðsfélagi, Dan Orlovsky, kallar eftir á Twitter aðgangi sínum.
Það verður virkilega fróðlegt að sjá hvort Lions nái að koma Stafford í verð fyrir nýliðavalið í apríl en liðið er sem stendur með úrslitaskrána 4-7 og eiga eftir fimm erfiðar viðureignir. Svo gæti farið að liðið endi með topp 5 valrétt í nýliðavalinu og bæti við sig meira púðri með Stafford viðskiptunum.
Skyldu New England Patriots og Indianapolis Colts vera tilbúin að stökkva á Matthew Stafford?
Sam Darnold
Það er nánast óumflýjanlegt að New York Jets endi með fyrsta valréttinn í nýliðavali NFL deildarinnar og stafar það endalok Sam Darnold sem bílstjóra Jets sóknarinnar. Darnold verður líklega vinsæll á viðskiptamarkaði ef/þegar Jets velja Trevor Lawrence leikstjórnanda Clemson Tigers fyrstan í nýliðavalinu.
Miðað við Josh Rosen skiptin sem áttu sér stað í kjölfar nýliðavalsins 2019 þegar Arizona Cardinals tóku Kyler Murray fyrstan, þrátt fyrir að hafa valið Josh Rosen númer 10 í nýliðavalinu árinu áður, þá er hægt að reikna með Sam Darnold fiski 2. umferðar valrétt plús klink. Josh Rosen var þó aðeins búinn með fyrsta árið á sínum nýliðasamningi en Darnold er nú að klára sitt þriðja tímabil sem þýðir að tvö ár eru eftir af hans samningi, í hið mesta, svo liðið sem sækir Darnold þarf að borga honum almennilega eftir tvö ár (standist hann kröfur liðsins auðvitað).
Þar sem Sam Darnold er á ódýrum nýliðasamningi næstu tvö árin eru fleiri lið sem koma til greina í kapphlaupinu um kauða, ef kapphlaup skal kalla. Pittsburgh Steelers hafa verið nefndir sem mögulegur lendingastaður fyrir Darnold, ásamt Denver Broncos, Indianapolis Colts og New Orleans Saints.
Gardner Minshew
Gardner Minshew var valinn í sjöttu umferð 2019 nýliðvalsins og hirti byrjunarliðssæti í liði Jacksonville Jaguars í fyrra eftir að Nick Foles viðbeinsbrotnaði í fyrsta leik tímabilsins. Hann lét starfið aðeins af hendi í þrjá leiki eftir að Foles kom til baka en fékk þá starfið að nýju og stóð sig mætavel. Hann hefur verið að glíma við meiðsli í vetur en spilaði þó fyrstu sjö leiki tímabilsins.
Ljóst er að Jaguars félagið er í miðju endurhönnunarferli og eiga annan valrétt nýliðavalsins eins og staðan er akkúrat núna. Sérfræðingar telja næsta víst að Jaguars komi til með að sækja sér leikstjórnandann Justin Fields haldi þeir öðrum valréttinum. Þá er óvíst hvort Minshew yrði spenntur yfir bekkjarsetu og gæti því farið fram á skipti. Það verður síðan að koma í ljós hver skoðun deildarinnar er á honum en fjölmargir vilja sjá leikmanninn fá tækifæri annarsstaðar í betra umhverfi hjá samkeppnishæfara liði.
Gardner Minshew á tvö ár eftir að nýliðasamningi sínum en aðeins fjórir leikstjórnendur í NFL deildinni eru með lægri meðalárslaun en fyrrum Washington State leikstjórnandinn.
Dwayne Haskins
Það hefur hvorki gengið né rekið hjá Dwayne Haskins frá því hann kom inn í deildina árið 2019. Hann kom við sögu í 9 leikjum á sínu fyrsta ári, kastaði fyrir 1365 jördum, 7 snertimörkum og 7 töpuðum sendingum ásamt 58,6% sendingaheppnun.
Síðan Haskins var valinn númer 15 í 1. umferð nýliðavalsins 2019 hefur Washington félagið gengið í gegnum þjálfara-, framkvæmdastjóra- og nafnaskipti. Bruce Allen, Jay Gruden og Redskins tilheyra sögunni en Dan Snyder réði Ron Rivera sem aðalþjálfara liðsins. Rivera átti auðvitað engan þátt í þeirri ákvörðun að velja Haskins frá Ohio State árið 2019 svo óvíst var hvort Rivera sæi Haskins sem sinn mann.
Grunur margra reyndist réttur því Haskins fékk aðeins fjóra leiki í vetur áður en hann var bekkjaður og gerður að þriðja leikstjórnanda liðsins. Orðrómar þess efnis að Haskins sé barnalegur og taki vinnunni sem fylgir starfinu ekki nógu alvarlega hafa borist um NFL heima og spurning hvort það sé nóg til að hræða önnur lið frá því að stíga inn í og taka sénsinn á leikmanninum.