Fyrsti dagurinn (mánudagurinn 11. mars) eftir að liðin máttu ræða löglega við leikmenn var eins og allsherjar Benidorm djamm hjá hópi af íslenskum ferðamönnum. Spennan magnaðist upp hjá liðunum fyrir viðræðunum eins og fiðringurinn í maganum á íslendingunum sem voru nýlentir og á leið frá Alicante til Benidorm, beint upp á hótel.
Síðan var gjörsamlega prjónað yfir sig á barnum (dagur eitt) og í eftirpartýinu var alveg smá stuð en það dó fljótt (dagur tvö).
Seinustu daga hefur svo verið algjört logn, líkt kyrrðinni inná herbergjunum hjá íslensku ferðamönnunum sem steinsváfu með lokaða glugga og dregið fyrir. Það kemur svo í ljós seinna meir hvaða lið vakna upp með eyðsluþynnku.
Í gærkvöldi dró síðan til tíðinda þegar Denver Broncos sömdu við Bears útvörðinn Bryce Callahan en hann hefur verið orðaður við þá í margar vikur.Vic Fangio, nýr þjálfari Broncos, þekkir vel til Callahan en Fangio var varnarþjálfari Bears frá 2015-2018. Broncos munu því eiga eitthvað minna en $20m í launasvigrúm eins og taflan hér að neðan segir, því nákvæmar upplýsingar um samninginn eru ekki orðnar opinberar en það má áætla um $6-8m í laun á Callahan árið 2019.
Indianapolis Colts, sem sátu efstir á listanum í síðustu útgáfu, sömdu til þriggja ára við útvörðinn sinn Pierre Desir sem hafði verið á eins árs “sannaðu það” samningi. Síðan gáfu þeir Devin Funchess, útherja Panthers, $10m fyrir eitt ár. Þeir eru búnir að vera duglegir að endursemja við leikmenn sína sem voru með lausa samninga og trónir Colts enn á toppi listans og eiga fullt að klinki eftir. Tölurnar eru fengnar af OverTheCap og taka einungis mið af launsvigrúmi liðanna fyrir komandi tímabil.

Jacksonville eru búnir að rjúka upp töfluna en þeir voru komnir í gegnum launaþakið fyrir 2019 tímabilið þegar ég tók seinast stöðuna. Þeir klipptu hinsvegar á þó nokkuð marga samninga og náðu að búa sér til svigrúm til þess að eiga efni á Nick Foles.
New York Jets eru búnir að eyða mestu hingað með $201m. Næstir koma Green Bay Packers með $184m og Buffalo Bills með $163m. Lions og Raiders fylgja síðan fast á eftir með $155m og $154m.
Það eru enn ágætis leikmenn með lausa samninga en þar ber helst að nefna Blake Bortles, Ezekiel Ansah, Justin Houston, Ndamukong Suh, Clay Matthews og T.J. Lang.
Nú er farin að koma mynd á hópana fyrir komandi tímabil og nú ætti að koma betur í ljós í hvaða átt klúbbarnir koma til með að fara í nýliðavalinu sem fer fram eftir tæpa 40 daga.
Nú er ekkert annað í stöðunni en að hnoða í nýja nýliðavalsspá!