Kraftröðunarnefnd Leikdags hefur nú uppfært kraftröðun sína í kjölfar úrslita í vikum 14, 15 og 16. Staðalfrávik kraftröðunarinnar er í sólarfríi á Tenerife og því verður minna um gáfuleg stærðfræði hugtök þessa vikuna þar sem undirritaður hefur ekki forræði yfir útreikningalestri sínum.
1. Green Bay Packers (+3)
Síðustu 3: WWW
Þrír sigrar frá síðustu útgáfu dugar til að lyfta Packers upp í toppsæti nefndarinnar
2. Kansas City Chiefs (+3)
WWW
Chiefs eru á 8 leikja sigurgöngu og bæta sig um þrjú sæti milli birtinga.
3. Tampa Bay Buccaneers (-2)
WLW
Skelfilegt tap gegn Saints í viku 15 er dýrt spaug og Bucs hrapa niður um nokkra rassa.
4. Los Angeles Rams (+3)
WWW
Cardinals, Seahawks og Vikings liggja í valnum eftir Rams í síðustu þremur leikjum. Odell Beckham virðist vera kominn í rythma með 4 SM í seinustu 5 leikjum.
5. Dallas Cowboys (+3)
WWW
Þrír einfaldir sigrar gegn Washington og New York Giants duga til að koma kúrekunum upp í topp 5.
6. Buffalo Bills (-)
LWW
Bills standa í stað en á ferilskránni er dýrt tap gegn Bucs en á móti sterkum sigur gegn Patriots á Foxborough.
7. Indianapolis Colts (+2)
WWW
Colts halda áfram að klifra töfluna. Eru með tvo flotta sigra í farteskinu gegn Patriots og Cardinals.
8. Arizona Cardinals (-6)
LLL
Cardinals eru í frjálsu falli og búnir að tapa þremur í röð. Þeir sakna Hopkins og Conner.
9. New England Patriots (-6)
WLL
Patriots eru aðeins að færast af beinu brautinni en síðustu 4 leikir hafa verið alvöru prófraunir. Jákvætt fyrir þá að eiga Jaguars í næstu umferð.
10. San Francisco 49ers (+2)
WWL
Klaufalegt tap gegn Titans í síðustu umferð er ekki nægilegur skellur til að kæfa álit nefndarinnar á liðinu. Garoppolo er hálum og örþunnum ís.
11. Cincinnati Bengals (+3)
LWW
Tveir sigrar í röð eftir naumt tap gegn 49ers í leikviku 14 og Bengals eru komnir á topp AFC North riðilsins. Burrow, Chase, Higgins og Mixon er góður kokteill og Bengals ættu að sigla inn í úrslitakeppnina.
12. Tennessee Titans (+1)
WLW
Henry-lausir Titans eru enn í efsta sæti AFC South en Colts eru alls ekki langt undan. Dolphins og Texans í næstu tveimur leikjum og svo er bara að vona að Henry mæti ferskur inn í útsláttarkeppnina.
13. Los Angeles Chargers (-3)
WLL
Chargers falla um 3 sæti á milli útgáfa en varnarlega eru þeir alltof linir. Hlaupavörn liðsins er á sama leveli og hlaupavörn Houston Texans, New York Jets, Seattle Seahawks og Pittsburgh Steelers. Tveir snúnir leikir gegn AFC West bræðrum sínum Denver Broncos og Las Vegas Raiders VERÐA að vinnast ef liðið ætlar sér í bónusbolta.
14. Philadelphia Eagles (+2)
WWW
Það er hægt að skjóta á fislétt leikjaprógramm liðsins í vetur en staðreyndin er sú að þú spilar bara við þá sem eru fyrir framan þig. Eagles eru búnir að vinna 5 af síðustu 6, hækka um tvo rassa á milli birtinga og eru komnir í topp 15 hjá nefndinni.
15. Baltimore Ravens (-4)
LLL
Töp gegn Browns, Packers og Bengals og Baltimore Ravens eru ekki inná úrslitakeppnismyndinni. Þeir eru þó skammt undan en stíft prógramm í síðustu umferðum mótsins hjálpa lítið til. Bæði leikirnir gegn Rams og Steelers eru þó á heimavelli.
16. Miami Dolphins (+6)
WWW
Dolphins eru á sjö leikja sigurhrinu en hafa í raun aðeins mætt einu liði sem getur eitthvað (Ravens). Síðustu þrír sigurleikir hafa komið gegn Giants, Jets og Saints (Ian Book undir senter og varatæklarar í sóknarlínunni). Dolphins eru í síðasta wildcard sætinu eins og staðan er akkúrat núna. Titans á útivelli og Patriots á heimavelli verða alvöru próf.
17. Minnesota Vikings (-)
WWL
Vikings verða án Adam Thielen það sem eftir lifir en það er blóðtaka sem liðið mátti alls ekki við – enda í miðri glímu við 49ers og Eagles um wildcard sæti NFC megin. Packers á útivelli í næsta leik og síðan heimaleikur gegn Bears.
18. Cleveland Browns (-3)
WLL
Það er ekki margt í kortunum sem bendir til þess að Cleveland takist að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar þeir laumuðu sér inn í úrslitakeppnina á fyrsta ári Kevin Stefanski sem liðið. Ætli þeir að sér að eiga minnsta möguleika á því í ár, þá verða að koma tveir sigrar í síðustu tveimur leikjunum: gegn Steelers á útivelli og heima gegn Bengals. Mesta staðalfrávik útgáfunnar á heima í Cleveland-borg en einn nefndarmanna setti Browns liðið í 10. sætið hjá sér á meðan annar var með þá í 21. sæti. Staðalfrávik: 4,5.
19. Las Vegas Raiders (+2)
LWW
Alltaf þegar maður er búinn að afskrifa þetta lið, þá koma þeir með random sigra og halda lífi í bónusbolta vonum sínum. Naumir sigrar gegn Browns og Broncos ýttu Raiders yfir .500 sigurhlutfall í ár en þeirra bíður útileikur gegn Wentz-lausu Colts liðinu á sunnudaginn og síðan heimaleikur gegn Los Angeles Chargers en það verður án efa blóðug barátta fram á síðustu mínútu.
20. Pittsburgh Steelers (-2)
LWL
Steelers falla um tvö sæti á milli birtinga en svipað og með Raiders, þá neita þeir að gefast upp. Þeir virðast hinsvegar alveg sprungnir á limminu og áttu afleitan dag gegn sterku Chiefs liðinu í leikviku 16. AFC North einvígin gegn Browns og Ravens binda hnút á síðasta leiktímabil á ferli Ben Roethlisberger.
21. Denver Broncos (-2)
WLL
Sóknarlega hefur Denver valdið miklum vonbrigðum í ár en þeir fengu á sig samtals 32 stig gegn sterkum sóknarliðum Bengals og Raiders í síðustu tveimur leikjum. En skoruðu sjálfir samtals 23 stig. Chargers á útivelli og Chiefs heima eru næstu leikir liðsins.
22. New Orleans Saints (+1)
WWL
Ólseigir Saints menn komust lítt áleiðis gegn Dolphins liðinu í síðustu umferð með nýliðann Ian Book undir senter. Það er ansi dýrt að missa alla stjórnendur sína í meiðsli eða covid og Saints fundu svo sannarlega fyrir því gegn Miami. Saints eiga enn séns á úrslitakeppninni en þá þurfa að koma sigrar gegn Panthers og Falcons.
23. Washington Football Team (-3)
LLL
Washington liðið er búið að fá á sig 110 stig í seinustu þremur leikjum en 56 þeirra komu gegn Cowboys liðinu seinustu helgi. Það er margt í þetta lið spunnið en það er bara nákvæmlega ekkert loft eftir í blöðrunni. Eagles og Giants leikir á borðinu og svo gott sumarfrí.
24. Atlanta Falcons (+2)
WLW
Ekki láta úrslitaskránna (7-8) blekkja ykkur: Falcons vinna lélegu liðin en tapa gegn þeim sterkari. Sigrarnir sjö komu gegn NYG, NYJ, MIA, NWO, JAX, CAR og DET. Engu að síður er enn von en við skulum ekki fara að dreifa falskri von út í kosmósið. Ágætis fyrsta tímabil að klárast hjá nýliðanum Arthur Smith.
25. Seattle Seahawks (-1)
WLL
Staðreyndin er sú að Seattle er eitt lakasta liðið í deildinni í ár, þrátt fyrir að vera með Wilson undir senter. Hann hinsvegar er mjög líklega á leiðinni burt frá félaginu eftir tímabilið og virðist vera kominn með hugann einhvert allt annað. Reikna má með stórum breytingum á norðvestur horni landsins.
26. Chicago Bears (+1)
LLW
Bears byrjuðu tímabilið af krafti og voru komnir í 3-2 eftir fimm umferðir. Síðan þá er liðið 2-8 og enginn með hærri felluprósentu en Justin Fields (11,8% af öllum dropbacks). Sóknarlínan er stórt vandamál og þetta tímabil hefur verið hrein martröð fyrir nýliðastjórnandann að þurfa að spila. Matt Nagy er að þjálfa sitt síðasta tímabil í deildinni – í einhverntíma allavega.
27. Carolina Panthers (-2)
LLL
Töp gegn Falcons, Bills og Bucs í síðustu þremur þýðir að liðið er búið að tapa 5 leikjum í röð og stjórnendasirkúsinn er enn í fullum skrúða. Darnold mun byrja gegn Saints á sunnudaginn en Cam Newton var auðvitað tekinn inn fyrir stuttu og hefur verið að byrja fyrir þá. Félagið lét sóknarþjálfarann, Joe Brady, fara á dögunum en fróðlegt verður að sjá hvernig þjálfarateymið lítur út á næsta tímabili – hvaða þá stjórnandastaðan.
28. New York Giants (-)
LLL
5 töp í síðustu 6 leikjum og Giants eru 4-11 fyrir síðustu tvær umferðirnar. Liðið hefur tekið skref afturábak en fyrir nokkru var gefið út að Joe Judge og Daniel Jones muni halda starfi sínu innan klúbbsins á næsta tímabili og heldur því fíflagangurinn áfram í stóra eplinu. John Marar þyrfti að hlusta á NFL Stofuna og finna næsta glugga á byggingunni og lobba Dave Gettleman útum hann ásamt Judge og Jones.
29. New York Jets (-)
LLW
Sigurinn gegn Jaguars var fjórði sigur liðsins í ár á jómfrúartímabili Robert Saleh sem aðalþjálfari. Næstu tveir eru sjálfvirk töp: Buccaneers og Bills.
30. Detroit Lions (+1)
LWL
Þrátt fyrir slappt gengi virðist enn vera stemning og ástríða í herbúðum Lions. 2-12-1 er ekkert til að hrópa húrra fyrir en í 6 leikjum sem töpuðust eða enduðu í jafntefli hafa Lions verið inní fram á loka sekúndu og það munar í raun bara 19 stigum að Lions séu 7-10. Það er ótrúlegt!
31. Houston Texans (+1)
LWW
Tveir sigrar í röð er besti árangur liðsins það sem af er ári og Davis Mills virðist vera búinn að finna fjölina sína. Næstu tveir eru gegn 49ers á útivelli og síðan heima gegn Titans. Það væri algert bíó að fá að að sjá þá stela öðrum sigri undir lok tímabilsins. Þá þyrfti nefndin að fara að skoða sín má ennþá betur varðandi staðsetningu liðsins hérna.
32. Jacksonville Jaguars (-2)
LLL
Jaguars eru byrjaðir að undirbúa sig fyrir komandi þjálfaraleit og hafa nú þegar haft sambönd við fullt af klúbbum um leyfi til að taka viðtöl við aðstoðarþjálfara þeirra. Tímabilið er auðvitað í klósettinu en þeir gætu endað með fyrsta valréttinn annað árið í röð.